Að mörgu leyti er DV þarft blað. Við verðum að eiga fjölmiðla sem þora að standa uppi í hárinu á ríkjandi öflum. Ég hef samt miklar áhyggjur af miðlinum. Það er best ef þeir sem afla efnis og ritstýra blöðum eru ekki seldir undir sömu lögmál og þeir sem afla tekna. Ritstjórn þarf að vera fagleg, heiðarleg og hugrökk.
DV fellur of oft í þá gryfju að setja inn fréttir, sérstaklega á netmiðilinn, sem hafa þann eina tilgang að trekkja upp umferð og kalla fram viðbrögð. Efni er valið til birtingar út af áhrifamætti – ekki fréttnæmi.
Það er ofboðslega vafasöm stefna og hættuleg.
Við sjáum að erlendis skiptast fjölmiðlar í hópa eftir því hversu langt þeir vilja ganga í nákvæmlega þessu. Þeir stórtækustu hika ekki við að nota groddaleg lýsingar- eða nafnorð til að æsa upp lesendur. Efnistök geta orðið æði undarleg. Breskt blaðastórveldi býður t.d. lesendum sínum í dag upp á fréttir af risakanínu sem hræddi innbrotsþjóf, konu með ofvaxna þjóhnappana eftir fegrunaraðgerðir, mann sem elskar uppblásin leikföng svo mikið að hann vill kvænast uppáhaldinu sínu, hund sem keyrir rafmagnsbíl og söngkonu með röndótta húfu.
Slíkir fjölmiðlar gegna hlutverki í að viðhalda forheimskun í samfélögum, sem aftur á móti stuðla að valdaójafnvægi þar sem almenningi er skipulega haldið frá áhrifum. Heimska leiðir til ánauðar.
Því miður hefur DV sýnt það á síðustu misserum að miðillinn færist sífellt nær því að eltast við áhrif. Miðillinn hikar ekki við að gera það á kostnað umfjöllunarefna sinna. Menn velja jafnvel einstaklinga sem oft eru umdeildir og ota þeim að heimöldum múg. Dæmin eru fjölmörg. Í dag var það pínlegasta Hildur Lilliendahl.
Hildi hefur margoft verið hótað, hún nídd og hædd af allskyns hálfvitum. Menn hafa óskað henni limlestingum og dauða. Nafn hennar er í hópum ákveðinna heiladauðra mannapa samheiti yfir allt sem þeir óttast og hata.
DV hefur af einhverjum ástæðum ákveðið að nýta sér þessa ástríðu til að skapa umtal og umferð. Hildi er veifað framan í múgnum eins og ögrun við hvert færi. Í dag var það forsíðufrétt að hún hefði meitt sig við að detta heima hjá sér.
Viðbrögin voru fyrirsjáanleg og tilætluð. Hatursspúandi asnarnir mættu á svæðið með aulahúmor og andstyggð. Það hlakkaði í fíflunum yfir því að konan sem þeir hata svo mjög skuli hafa meitt sig. Aðrir nærðu reiði sína á því að enn og einu sinni væri þessi athyglissjúka drusla að troða sínu öfgasinnaða smetti í fjölmiðla að ósekju.
Fjölmiðill með sjálfsvirðingu reynir að tempra tilhneigingu bjána til að níða og rægja fólk á síðum miðilsins. DV reynir, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað, að virkja þessa sömu tilhneigingu. Í þeim eina tilgangi að auka lestur og selja auglýsingar.
Þetta er dómgreindarbrestur. Og ekki einsdæmi. Menn greina því miður ekki á milli réttmætra og óréttmætra áhrifa. Öll áhrif verða góð.
Það er enn himinn og haf milli DV og útlensku sorpritanna. Að mörgu leyti er miðillinn óvæginn og gagnlegur rýnir á margt sem aflaga fer. DV upplýsir um fjölmargt mikilsvert. Hann hefur mikilvægt hlutverk.
En þessi hænuskref í átt til heimskunnar eru aðeins efst við brún svellbunkanna. Vandinn er að heimskan selur. Hvort sem hún nærist á þráhyggju fólks sem hatast við femínista eða fordild þeirra sem sprauta rassinn á sér fulla af bótoxi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli