12. maí 2013

Hagræðing kemur af sjálfri sér ef...

Skólakerfið á Íslandi líður fyrir einsleitni og miðstýringu. Grunnskólinn er hlutfallslega dýr en frekara nám er fjársvelt. Grunnskólinn sinnir aukinheldur illa öðru námi en bóknámi. Verknám er smánarlega lítið og aðgengi að listnámi ræðst af efnahag foreldra.

Á sama tíma eru mörg svæði á Íslandi á hverfanda hveli. Allt sem er rauðlitað á myndinni hér að neðan eru deyjandi byggðir. Fólksfækkun á þessum svæðum er viðvarandi og langvinn. Aldurshlutföll þessara samfélaga er skökk. Ungt fólk kýs að búa annarsstaðar á Íslandi. 


Mynd úr skýrslu Byggðastofnunar.


Byggðastefna á Íslandi virðist einskorðast við samgöngumannvirki og stóriðju. Stóri, rauði flöturinn á N-Austurlandi bíður þess í ofvæni að hola gegnum Vaðlaheiði og stóriðja við Skjálfandaflóa blási lífi í atvinnulífið og þar með svæðið í heild sinni. Ég ætla að leyfa mér að vera svo svartsýnn að spá því að slíkt muni ekki duga til að bjarga hinni deyjandi byggð, t.d. á Raufarhöfn. 

Ég hef áður lýst þeirri sannfæringu minni að í þessum hverfandi samfélögum búi gríðarlegir möguleikar. Vandi þeirra er skökk samfélagsgerð. Hana þarf að rétta af. Það verður ekki gert með því fyrst og fremst að búa til störf fyrir lítið eða miðlungs menntaða karlmenn. Það verður gert með því að laða til svæðanna ungt fólk með börn.

Einfaldasta leiðin til þess er að sjá til þess að á þessum svæðum séu bestu grunnskólar á Íslandi – og þótt víðar væri leitað.

Tveir samkennarar mínir fluttu síðasta haust á Strandir og stjórna þar litlum skóla með fáum nemendum. Þau eru bæði sprelllifandi skólafólk með heilbrigðar og lífvænlegar hugmyndir um tilgang og eðli skólakerfisins. Þeirra fyrsta viðbragð var að rjúfa einangrun svæðisins með því að laða til sín fólk af öðrum svæðum sem hafði eitthvað að færa hinu litla samfélagi. Um leið markaði litla samfélagið spor í þá sem komu í heimsókn. 

Við þurfum meira af slíku. Viðfangsefni grunnskólans eru einfaldlega of víðfeðm til að mjög fáir kennarar geti búið yfir allri hæfni og færni sem farið er fram á. Þess vegna eru margir skólar ýmist að vanrækja eða kenna illa ákveðin svið. 

Mín hugmynd er þessi:

Sveitarfélög, atvinnulífið, ríkið og kennarasamtökin eiga að greiða götu nýrrar skólagerðar, fyrst um sinn á svæðum sem sannanlega eru að lognast útaf. Markmiðið er að skólinn verði afbragð íslenskra skóla. 

Skólarnir á þessum svæðum væru sameiginlegt samfélagslegt verkefni. Skólinn væri ekki eingöngu ætlaður börnum og starfsfólki. Hann væri menningarmiðstöð í hverju samfélagi fyrir sig. Þar færu fram tónleikar, námskeið og félagslíf fyrir alla íbúa samfélagsins. Eðlilegur þáttur í starfi skólans væri samvinna og samvera barna og fullorðinna. Eins væri eðlilegt að börn í skólanum færu út fyrir veggi hans og út í samfélagið í námi sínu. Börn myndu læra á ferðaþjónustuna, landbúnaðinn og iðnaðinn og allt hitt sem einkennir samfélagið. Í hádeginu mætti hugsa sér að eldra fólk rölti í skólann og borðaði með börnunum eða starfsfólk ákveðinna fyrirtækja. Maturinn kæmi að verulegu leyti úr nærsamfélaginu og nemendurnir vendust því að taka þátt í að afla hans, með ræktun, umhirðu og veiðum.

Námið yrði að verulegum hluta rafrænt. Hið opinbera stuðlaði að bættum fjarskiptum þar sem þörf væri á. Heimilin, foreldrar og nemendur fengju stuðning til að koma sér inn í tækniöld. Námsefni og hæfni yrði haldið að öllu heimilisfólki og foreldrum gert kleift að sækja sér menntun um leið. Nemandinn og foreldrar yrðu gerðir ábyrgir fyrir stærri hluta menntunar barnsins. Nemendur sem eiga langt að sækja skóla gætu hæglega unnið heima hjá sér einhvern hluta vikunnar, undir eigin verkstjórn.

Kjarnagreinar væru kenndar með 1:1 kennslufræði þar sem hver nemandi færi á sínum hraða og hefði áhrif á námsferil sinn. Á hverjum stað væru framúrskarandi umsjónarkennarar sem hefðu það hlutverk að efla námsfærni barnanna í aldursblönduðum hópum. 

Notkun fjartækni leiddi til þess að „kennarar“ barnanna gætu síðan verið staddir hvar sem er í veröldinni. Nokkur börn í hverju samfélagi gætu numið af einum kennara í Ástralíu meðan önnur börn væru að nema hjá kennara í Kópavogi.  

Loks væri hópur „farkennara“ á vegum skólanna. Það væri barnafólk og einstæðingar; ungir og aldnir kennarar sem fengju verulega góð laun og fríðindi. Þeirra hlutverk væri að búa nokkrar vikur í einu í hverju samfélagi fyrir sig og kenna faglega krefjandi greinar – annaðhvort í fyrirferðarmiklum lotum eða til að hnykkja á í greinum sem þess á milli eru fjarkenndar. Í hópnum væru vísindamenn, listamenn og aðrir sem ekki aðeins kenndu börnum heldur leggðu sitt af mörkum til menningarlífs á staðnum þegar við ætti. Þeir héldu námskeið fyrir fullorðna, tónleika eða sýningar. Þeir tækju þátt í félagslífi á hverjum stað, útivist og samfélagslegum viðburðum.

Nemendur á mismunandi stöðum störfuðu náið saman með notkun tækninnar og færu svo í heimsóknir hverjir til annarra og gerðu hluti saman. Þeir gætu líka verið skiptinemar hverjir hjá öðrum.

Loks byggði starfið á ýmsum gestum. Fólk, jafnvel utan úr heimi, sem bættist í mannlífssúpuna. Stjörnuskoðunarfélagið kæmi á staðinn, Vísindalestin, tónlistarmenn og annað fólk. 

Reynt væri að tryggja að nemendur gætu verið í þessu umhverfi til a.m.k. 18 ára aldurs og þá væru sumir komnir langleiðina með framhaldsskólann. Best væri að börn gætu farið beint úr foreldrahúsum í háskóla.

Ef bestu skólar á Íslandi væru á landsbyggðinni og aðall þeirra væri einstaklingsmiðað, fjölbreytt nám – þá er ekki spurning að það myndi skapa aðdráttarafl fyrir foreldra. Venjuleg hagræðing með stórum námshópum í einhæfu kennaramiðuðu umhverfi er raunveruleiki hagræðingar þar sem „neytandinn“ er skilgreindur sem „hreyfanlega stærðin“. Hagræðing þar sem „þjónustan“ er hreyfanleg hefur þar til nýlega ekki verið skýrt skilgreindur möguleiki. Það er ekkert sem stendur í vegi þess þegar kemur að menntamálum. Það sem meira er, unga fólkið sem snýr aftur í heimabyggðirnar til að blása lífi í skólana sína fer næstum sjálfkrafa í slíkar aðgerðir. Vandinn er að kerfið er enganveginn vaknað.

Ef framúrskarandi skólafólk kæmi saman og skapaði besta mögulega skólann fyrir raunveruleika hinna dreifðu byggða og fengi síðan stuðning til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd – þá kæmi hagræðingin af sjálfri sér.

10. maí 2013

Snargeggjaður samráðsvettvangur

Samráðsvettvangur um hagsæld íslands er einhverskonar þankatankur sem hefur það að markmiði að gera excel-lýsingu Íslands samkeppnishæfa við sömu lýsingu annarra þróaðra landa. Þar rýna menn í tölfræðiupplýsingar um land og þjóð, greina vanda og vaxtarbrodda og stinga síðan upp á leiðum til aukinnar hagsældar.

Nýlega gerði hópurinn menntamál að umtalsefni. Í fundargerð eða skýrslu er leikin lítil bókhaldsbrella þar sem stungið er upp á leið til að hækka þau lágu laun sem íslenskir kennarar búa við. Lausnin er að fækka kennurum töluvert og flytja verkefni þeirra (og laun) á þá sem eftir standa. Það dugar þó ekki til og þess vegna er lagt til að fækka nemendum einnig umtalsvert með því að afnema tíu ára skyldunám og stytta framhaldsskólann. Þá vantar reyndar enn dálítið upp á og því er stungið upp á því að sameina fámenna skóla og fjölga nemendum í bekkjum.

Með þessu móti reiknast hópnum til að laun kennara yrðu sambærileg við löndin í kringum okkur.

Ég veit hreinlega ekki hvernig maður á að bregðast við svona tillögum. Hvort það eigi að taka þær alvarlega eða ekki. Nú virðast sitja í þessum hópi nokkurnveginn allir sem stjórna Íslandi. Þetta eru engin flón eða vatnsgreiddir maurapúkar í Valhöll sem krota með vaxlitum í Fjárlögin. Þetta er alvöru fólk – sem virðist ekki hafa nokkurn einasta skilning á því sem það er að gera.

Fyrst er ágætt að sjá hvernig verk þessa fólks er unnið. Frumforsenda og inngangur að menntamálaumfjölluninni er að á Íslandi sé rekið afbrigðilega dýrt menntakerfi – gott ef ekki það dýrasta á Norðurlöndunum. Og það án þess að árangurinn sé sérlega eftirtektarverður.

Raunin er auðvitað sú að þetta er nokkuð villandi mynd. Danir eyða til að mynda mun meiri peningum í menntun en Íslendingar. Verg landsframleiðsla þeirra er einfaldlega miklu meiri en Íslendinga. Menntakerfi eru ekki þannig kerfi að þau lagi sig sjálfkrafa að aukinni eða minnkaðri landsframleiðslu. Þegar kreppan læsti klónum í Ísland varð ýmis grunnþjónusta, þar með talin menntun, að hærra hlutfalli landsframleiðslunnar. Það gerðist alveg án þess að menn legðu meira til hennar.

Það að Ísland tróni á toppi þessa lista bendir ekki eindregið til þess að Ísland leggi sérlega ríflega til menntunar. Þvert á móti eru það Norðmenn, sem lúra á botni listans, sem virðast rausnarlegastir þegar kemur að menntun. En þá þarf að hafa í huga að landsframleiðsla Noregs er með ólíkindum mikil en framlag þeirra til skólakerfisins er að sama skapi afar hátt.


En nóg um það.

Það er eiginlega enn meira lýsandi fyrir störf samráðshópsins að skoða greiningu hans á kostum og göllum íslensks vinnumarkaðar.


Hér er samanburður við nágrannalöndin settur upp sem mynd af rauðu, gulu og grænu ljósi. Þar sem grænt virðast eiga að vera styrkleikar okkar en rautt sérstakir veikleikar.

Hin óhemjulanga íslenska vinnuvika er flokkuð sem styrkur íslensks atvinnulífs – en hin litla framleiðni er eðlilega flokkuð sem veikleiki.

Nú er það svo að löng vinnuvika og margar vinnustundir eru almennt einkenni vanþróaðra landa. Við höfum kosið að telja okkur tilheyra heimshluta sem með afgerandi hætti hefur dregið úr vinnutíma fólks í langan tíma. Það, að íslenski samráðshópurinn, telji að tregða okkar til að gera það sama sé til marks um sérlega gott ástand sýnir best hversu yfirborðskennd vinnubrögðin eru. Löng vinnuvika er ekki ávísun á mikla framleiðni eða hagsæld. Þvert á móti virðist sífellt betur koma í ljós að of löng vinnuvika dregur úr framleiðni og vinnur á endanum gegn markmiðum sínum. Enda grundvallast hún á röngu viðhorfi til vinnu.

Öll umfjöllun starfshópsins um skólamál er brennd sama yfirborðskennda markinu. Skólastarf er metið út frá örfáum mælanlegum stærðum sem segja ekkert um aðstæður eða ástæður. Síðan hrókera menn tölum til og frá í tilraun til að feika hagsæld.

Ástæða þess að á Íslandi eru margir skólar með færri en 100 nemendum er ofur einfaldlega sú að margir Íslendingar búa á svæðum þar sem færri börn en 100 eru á grunnskólaaldri. Þú sameinar ekki skóla á Kirkjubæjarklaustri og Vík án þess að valda nemendum og fjölskyldum óheyrilegum óþægindum. Þú myndir skerða farsæld þeirra mikið – sem sjaldnast er réttlætanlegt til þess að auka hagsæld. Hagsældin þjónar farsældinni en ekki öfugt. Að vísu skal viðurkennt að á mælikvarða sem telur óheyrilegar og ófrjóar slímsetur á vinnustöðum til marks um forskot þá myndu langir, kröfuharðir skóladagar þar sem eðlilegu heimilislífi er meira og minna fórnað fyrir rútuferðir, kannski teljast til tekna í excelskjalinu.

Aðeins rúmlega þriðjungur vinnutíma íslenskra kennara er bein kennsla. Það vilja menn leysa með því að auka kennslu og fækka kennurum. Á yfirborðinu virðist það eðilegt.

Ef maður hinsvegar veit eitthvað um skólakerfið þá veit maður að óvenju lágt kennsluhlutfall íslenskra kennara stafar ekki hvað síst af því að nýliðun er ónýt í skólakerfinu – ekki síst vegna lágra launa. Kerfið er þannig uppbyggt að því eldri sem kennarastéttin er, því minna hlutfall vinnutímans er kennsla. Ungur kennari skal kenna 26 kennslustundir á viku. Sextugur kennari skal kenna 19 stundir. Hér munar  nærri 40 prósentum. Á síðustu áratugum hefur hlutfall kennara yfir sextugu sívaxið á meðan hlutfall ungra kennara hefur hrunið.

Ástæðan er sú að sveitarfélögin hafa stundað stríð við kennara – og það eftirsóknarverðasta við starfið hafa verið áunnin eftirlaun. Hefðu sveitarfélög haft snefil af framsýni hefðu þau ekki sparað aurinn og kastað krónunni eins og þau hafa gert.

Hin skakka og ónýta aldursdreifing kennara á Íslandi er ekki til umræðu í skýrslunni – enda líklega ekki nógu yfirborðskenndur þáttur til að ná til þeirra fálmkenndu vinnubragða sem samráðshópurinn stundar.

Tillögur samráðsvettvangsins lýsa nærri algjörri vanþekkingu á skólakerfinu, eðli vanda þess og leiðum að umbótum. Hugmyndirnar sem settar eru fram eru afkáralega einfaldar og ófullnægjandi.

Íslenska skólakerfið glímir við mikinn vanda. Það þarf allar hendur upp á dekk við að leysa hann. Til þess eru margar leiðir færar. Groddalegar leiðir sem minna á efnahagsstjórn Maós formanns gera ekkert til hjálpar. Þær spilla fyrir. Það er ábyrgðarhlutur að margir af frammármönnum íslensks stjórnmála-, atvinnu- og menningarlífs skuli leggja nafn sitt við þessar tillögur.

Þetta er svosem upptaktur að því sem koma skal.

2. maí 2013

Snilld Sigmundar Davíðs



Margir af vinstri væng stjórnmála geta varla á heilum sér tekið yfir snilld Sigmundar Davíðs við stjórnarmyndun. Össur Skarphéðinsson fer þar fremstur í flokki, m.a. með þessum ummælum:

„Þessi ódauðlegu orð Sigmundar Davíðs eru tærasta snilld sem ég man eftir úr sögu íslenskra stjórnarmyndana.“

Hér er hann að vísa til djóks Sigmundar um að hann myndi rúlla sér stafrófsróðina við stjórnarmyndun.

Ég er raunar á því að það sé eðlileg háttvísi að tala við alla flokka við stjórnarmyndun og tel að lýðræðislega hafi Sigmundur gert rétt. En eina snilldin við aðgerðir hans var að móðga Sjálfstæðismenn – sem rotið stjórnmálaástand í landinu er meira en viðkvæmar taugar sumra hatursmanna flokksins þola án húrrahrópa og gæsahúðar.

Ég tel raunar að Sigmundur hafi leikið af sér, eins og ég hef áður bent á. Hans helsta vopn í stjórnarmyndun var hótunin um vinstri stjórn. Hótunin, það er, ekki möguleikinn á vinstri stjórn. Það er alls engin stemmning hjá stórum hluta Samfylkingar á samstarfi við Framsókn. Stemmningin er enn minni hjá Bjartri framtíð.

Nú þarf Sigmundur að halda spilinu áfram eftir að hafa spilað út trompinu.

Bjarni Ben þarf að vera pólitískur flóðhestur, svo notuð séu orð Össurar, til að sjá það ekki að hann getur gert kröfu um forsætisráðuneytið. Að öðrum kosti eru meiri líkur en minni að umboðið skili sér aftur heim til Bessastaða og þaðan til Bjarna sem getur þá sett þá afarkosti sem hann kýs.

Ef Sigmundur afþakkar leiðtogasæti Sjalla og fer aftur til vinstri úr þessu er samningsstaðan jafn veik og þótt hann gæti líklega fengið hásæti myndi það kosta gríðarlegar málamiðlanir.

Nema, auðvitað Össur taki völdin og semji um þetta í óþökk fjölmargra flokksmanna (og stórs hluta þjóðarinnar). Hann virðist til í allt, án Árna. Er jafnvel farinn að tala um skuldaniðurfellingar Framsóknar sem torskilda snilld sem Sigmundur hinn upplýsti ætti að drífa sig að koma í framkvæmd áður en vondu Sjallarnir steli af þeim heiðrinum.

30. apríl 2013

Örvænting Össurar



Össur Skarphéðinsson er silfurrefur íslenskra stjórnmála. Hann er löngu búinn að átta sig á því hvar minnsti dragsúgurinn er við kjötkatlana og kúrir þar í sínu horni sæll og saddur. Nú er hinsvegar hætta á því að hann verði settur út á gaddinn eftir sögulegt afhroð Samfylkingarinnar.

Skyndilega poppar Össur upp úr öllum áttum í tilraun til að ná tangarhaldi á atburðarásinni. Hann er vel ritfær og skemmtilegur náungi og því eiginlega alltaf gaman að honum. Hann er samt bersýnilega úr jafnvægi því það sem frá honum kemur er ekki sérlega ígrundað. Í raun og veru minnir hann dálítið á góðborgarann í sögunni „Þú ert sá seki“ eftir E. A. Poe, þennan sem alltaf stökk fram til varnar grunuðum glæpamanni og hélt langar ræður til bjargar honum – sem enduðu samt allar einhvernveginn þannig að sá grunaði færðist nær gálganum.

Össur bað Sigmund að muna eftir svikunum. Svikum Sjálfstæðisflokks við Framsókn þegar Davíð og Halldór sátu saman í stjórn. Nákvæmlega hvað fólst í þeim svikum annað en fúllyndi innmúraðra Sjalla með hin óeðlilega miklu áhrif Framsóknar er ekki alveg ljóst. Því svikabrigsli lauk öllu með því að Framsókn neyddi Davíð úr hásætinu og setti þar græna sessu. Össur hefði auðvitað átt að steinþegja um öll svik því það eru ekki margir mánuðir síðan Sigmundur Davíð jafnaði sig sæmilega á því sem hann hefur alltaf talað um sem stórkostleg svik Samfylkingar og Vg við Framsóknarflokkinn þegar síðastnefndi flokkurinn verndaði hina tvo gegn vantrausti. Þar er rót mikils persónulegs haturs milli Sigmundar og hinna föllnu oddvita hinna flokkanna. Hatur sem var svo svaðalegt að það hefur eiginlega ekki verið hægt að hafa þetta fólk í sama herbergi í nokkur ár. Allt svikatal Össurar er illa til þess fallið að lokka Framsókn yfir í hið loðna hálsakot silfurrefsins.

En segjum að Össuri sé alvara með því að Framsókn ætti að mynda vinstri stjórn. Þá er voða erfitt að sjá tilhvers í ósköpunum hann stekkur fram og setur fram deddlæn á hin stórkostlegu kosningaloforð Framsóknar. Össur hefur fullyrt að Framsókn hafi 100 daga til að sýna loforðið í verki. Hann fer fram á slíkar efndir. Hvaða stöðu setur slík fullyrðing Samfylkinguna í ef þessir flokkar myndu ná saman? Væri Össur þar með að lofa sínu liðsinni til að framfylgja villtustu draumum Sigmundar á áður óþekktum hraða? Eða gilda önnur lögmál um loforð þegar Samfylking situr í stjórn?

Ég held að annaðhvort langi Össur ekki í stjórn eða hann er aldrei þessu vant ekki alveg með sjálfum sér. Hann grípi í örvæntingu sinni öll þau hálmstrá sem pólitískt nef hans þefar uppi, án þess að á bak við það sé stefna eða skýr sýn.

28. apríl 2013

Uppgjöri við fjórflokkinn frestað?

Við fyrstu sýn virðist ekkert uppgjör hafa orðið við fjórflokkinn í kosningunum í gær. Dálítið af fylgi fór frá Sjálfstæðisflokki yfir á Framsókn og vinstra fylgið klofnaði í þrennt. Eitthvað fylgi féll dautt, en ekki neitt óskaplega mikið.



Í sögulegu samhengi á Framsóknarflokkurinn inni um 21% fylgi hjá þjóðinni. Sjálfstæðisflokkurinn 36%.  Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru samtals með rúmt 31% á sínum tíma. Ýmis framboð sem komu og fóru tóku til sín tæp 12% af fylginu. Stundum ekki nema 0,2% (1963) en einu sinni yfir 25% (1987).

Þegar Vg og Samfylking urðu til varð nokkuð ofsafengin vinstrisveifla hjá þjóðinni. Hápunkti náði hún í kosningunum 2009 þegar flokkarnir fengu samtals 51,5% (0,4% meira en D og B fengu í gær).

Ef eins mynd er sett upp fyrir kosningarnar í gær lítur hún svona út:

Við sjáum að ef Bf er flokkuð með Vg og Samfylkingu þá er um nákvæmlega hefðbundið fylgi að ræða. Hlutur B og D er minni en venjulega svo munar Pírötum. Framsókn stendur sig óvenju vel. Sjálfstæðisflokkur sérlega illa.

Eftir sem áður er niðurstaðan klassísk skipting á íslenskan mælikvarða. 

Fjórflokkurinn hefur sjaldnast verið alveg einn.

Ef við sleppum Borgaraflokknum (sem var augljóslega Sjálfstæðisflokksklofningur eins og Bf er að taka fylgi frá Samfylkingu núna) og Þjóðvaka þá hafa að meðaltali 3,08 þingmenn á hverju kjörtímabili tilheyrt öðrum framboðum en fjórflokknum síðan 1971. Núna eru þeir 3.

Með öðrum orðum. Niðurstaðan núna virðist eins klassísk og hún getur orðið. 

Og þó.

Íslenskir kjósendur hafa jafnt og þétt verið að færa sig yfir á vinstri vænginn af miðjunni og hægri vængnum. Það er saga síðustu 50 ára í íslenskri pólitík. Það er hending að nú skuli fylgið einmitt hitta á meðaltalsfylgi síðustu áratuga.

Stórum vinstri sveiflum fylgir greinilega stórt bakslag. Það jafnar sig svo og flutningurinn heldur áfram, frá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki til vinstri flokkanna.



Bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa áratugum saman mátt horfa upp á það að fylgið rýrnar jafnt og þétt. Báðir flokkar hafa upplifað að sterkir formenn (t.d. Davíð og Steingrímur) geta hægt á fylgishruni nokkurn tíma (og jafnvel virst auka fylgið) en hjá báðum flokkum hefur fylgið haldið áfram að dala að þeim horfnum. Raunar virtust þeir báðir auka fylgið um 40 - 50% þegar þeir tóku við í fylgiskreppu en báðir flokkar runnu niður í innan við 90% af því fylgi sem skapað hafði panikkið jafnharðan.

Raunar virðist hinn almenni kjósandi einmitt vera kominn með upp í kok á fjórflokknum. Þeim megin sem fjórflokkurinn hefur klofnað í nýja valmöguleika hefur fylgið aukist jafnt og þétt áratugum saman. Þeim megin sem fjórflokkurinn aðlagast ekki og heldur einni birtingarmynd er voðinn vís.

Eftir sem áður virðist næstum útilokað að ýta fjórflokknum til hliðar utanfrá. Árásir á hann skila að meðaltali 5% þingheims eða 3 þingmönnum.

Fjórflokkurinn deyr innanfrá.

Það sjá það flestir að það er tímabært að kljúfa hófsaman miðjuarm Sjálfstæðisflokksins frá róttæku öflunum sem lögðu undir sig síðasta landsfund. Það sjá það líka allir að það er fráleitt að í allri miðju og hægri hlið íslenskra stjórnmála skuli aðeins vera pláss fyrir eina skoðun á Evrópumálum.

Í sjálfu sér veit enginn hvernig málin þróast næstu ár. Það tók þrjá áratugi að vinna upp „hrunið“ sem vinstri flokkarnir urðu fyrir 1979. Það hrun var og er notað af hægri sinnuðum til sönnunar um að vinstri menn geti ekki unnið saman. En hrunið var óeðlilega mikið því ris flokkanna hafði verið óeðlilega mikið árið áður. Jafnvel eftir hrunið voru vinstri flokkar öflugri en þeir höfðu verið örfáum árum áður. Ef svipað verður upp á teningnum nú má reikna með að þess verði ekki langt að bíða að jafnvægi náist aftur.

Raunar var hrunið nú svo lítið þrátt fyrir allt að möguleiki á vinstri stjórn er ekki útilokaður og það hafa allir flokkar möguleika á að spilla fyrir hinum. Enginn hefur yfirburðasamningsstöðu.

Eigum við ekki að segja að Bjarni Ben bjóði Framsókn að efnahagstillögur þeirra verði framkvæmdar eftir þeirra höfði í stað þess að D fái forsætisráðuneytið. Ég hugsa að Bjarni trúi því að það verði upphafið að endurreisn Sjálfstæðisflokksins. Sem það verður næstum örugglega ekki.

Hvort Sigmundur tekur því verður svo að koma í ljós. Það er ekki ólíklegt í sjálfu sér því hann hefur áreiðanlega meiri áhuga á utanríkisráðuneytinu en forsætisráðuneytinu. Þeir félagarnir geta svo dundað sér við að kljúfa upp sameinuð ráðuneyti til að koma öllum meðreiðarsveinunum fyrir.

25. apríl 2013

Litlir menn og stór loforð



Lokaorrusta kosningabaráttunnar er hafin. Aðalleikari næstu tvo daga verður Björt framtíð sem nú hefur blásið í herlúðra. Ekki endilega til að safna miklu fylgi (það gerist ekki) heldur til að vera nógu áberandi til að réttlæta aðkomu sína að meirihlutaviðræðum í næstu viku.

Pólitískur ferill Bjarna Ben er búinn nema hann komi flokknum í vænlega stöðu. Ferill Árna Páls hófst aldrei. Báðir eru sárir og óska sér einskis heitar en að hafa völd yfir atburðarásinni næstu vikuna og síðan stjórnartaumana næstu fjögur ár.

Framsókn varð dálítið hrokafull undan öllu þessu mikla fylgi sem mældist í könnunum og því eindregnari í afstöðu sinni sem fylgið virtist endingarbetra. Flokkurinn hefur lagt allt undir eitt tiltekið loforð – sem engan nema Framsókn langar tiltakanlega að efna.

Framsókn mun aldrei gefa eftir almenna leiðréttingu húsnæðislána. Það yrðu svik á stjarnfræðilegum skala. Framsókn myndi seint gefa eftir forsætisráherrastólinn (en gæti neyðst til þess ef Sjálfstæðisflokkurinn endar stærri).

Framsókn er búin að gefa stærsta loforð þessarar kosningabaráttu.

Vandinn er sá að oddvitar flestra hinna flokkanna eru litlir karlar. Litlum körlum fer ekki vel að gefa stór loforð – hvað þá standa við þau. Þeir hugsa í mínútum og dögum, ekki árum eða áratugum.



Náist til þess meirihluti verður fyrsti kostur allra að halda Framsókn í minnihluta. Bjarni Ben mun ekki eiga í neinum vandræðum með að starfa með Árna Páli og Guðmundi Steingrímssyni. Guðmundur mun kalla það „ný stjórnmál“ að ná víðtækri sátt og samstarfsvilja þvert yfir pólitíska litrófið. Árni Páll mun horfa á málið sömu augum og telja sig fá uppreista æru eftir að hafa verið vikið frá í síðustu ríkisstjórn fyrir að vera, að því er sagt var, of náinn óvininum og of sveigjanlegur við Sjálfstæðisflokkinn.

Samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði endanlegt uppgjör (og sigur) gegn ósveigjanleika Jóhönnustjórnarinnar og bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking munu í fyllingu tímans skrifa ónýta starfshætti þingsins síðustu misseri á Jóhönnu.

Sjálfstæðisflokkurinn mun aðeins þurfa að slaka á andúð á aðildarviðræðum við ESB og þannig miðla til hófsamari arms flokksins. Ég held að þeir séu enda komnir með meira en nóg af háskerpunni í hægri jaðrinum í bili.

Framsókn situr eftir, svekkt og súr, og heldur áfram að deyja drottni sínum án áhrifa.

Samfylkingin er þá að hefja þriðja stjórnarsamstarfið í röð og í raun tekin við sögulegu hlutverki Framsóknar í bili, sem flokkurinn sem á greiðasta leið að völdum með aðlögunarhæfni.

Sveigjanleg Framsókn hefði verið fyrsti kostur Sjálfstæðismanna. Kröfuhörð og eindræg Framsókn er ekki fyrsti kostur neins.

Það skiptir í raun ekki hvort það verður Sigmundur Davíð eða Bjarni Ben sem fær stjórnarmyndunarumboðið. Meðan leiðin D + S + A er fær mun öllum reynast „ómögulegt“ að gera stjórnarsáttmála byggðan á ítrustu loforðum Framsóknar.



Það er því ekki sérlega vel þegið þegar gamlir Samfylkingarhagfræðingar daðra við það að leið Framsóknar sé eðlilegasta færa leið jafnaðarmannaflokks. Það gengur þvert á jaðarsetningu Framsóknar sem er forspilið að fyrirhuguðu „glæstu“ samkomulagi Árna Páls og Bjarna Ben, með fulltingi Guðmundar Steingríms.

Það er engin önnur stjórn raunverulega í kortunum þegar persónulegir hagsmunir stjórnmálaleiðtoganna eru hafðir í huga.

Eins og staðan er í dag hefði slík stjórn 33 þingmenn. Þeir þyrftu að verða 35 til að fjöldinn yrði þægilegur. Það er alls ekki útilokað. Til þess að það hafist mun Björt framtíð sópa til sín því sem mögulegt er og Samfylkingarfólk mun slaka aðeins á áróðrinum gegn Sjálfstæðisflokknum og beina alefli gegn Framsókn þessa síðustu daga.

Að lokum. Sá flokkur sem á mest fylgi inni (fyrir utan Sjálfstæðisflokk) er Samfylkingin. Sá flokkur sem er ofmetnastur er Framsókn. Það þarf sérkennilega sort af pólitískri blindu til að sjá ekki að það er að öllu leyti hagkvæmast fyrir Sjálfstæðisflokk að tryggja að sá ofmetni sé í stjórnarandstöðu en ekki sá vanmetni.

21. apríl 2013

Hið stóra vandamál Pírata



Hugsum okkur völd í samfélaginu sem upphækkaðan garð sem búið er að múra inni. Þeir sem inni eru hafa lykla og ráða miklu um það hverjir fá að koma inn og hverjum er hent út. Ef fram kæmi stjórnmálaafl sem legði stiga upp að veggnum sem hverjum sem er væri frjálst að nota – má búast við nokkru uppnámi. Frjálst og opið kerfi við val á pólitískum fulltrúum er dæmt til að skila misjöfnum sauðum á dekk. Við það glíma Píratar núna. Það er varla til sá listi þeirra fyrir þessar kosningar sem inniheldur ekki að minnsta kosti eina manneskju sem virkar verulega vafasöm í meira lagi. Í sumum tilfellum á þetta fólk jafnvel möguleika á einhverjum völdum.

Hér má þó taka til varna fyrir Pírata með að minnsta kosti tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að benda á að vafasama fólkið sé miklu færra en hitt. Þannig sé innbyggður í kerfið dempari á vitleysuna. Samfélagið sé enda þannig. Ýmsar raddir séu uppi, það sé ekkert sérstakt gustukaverk að þagga niður í þeim sem maður kunni ekki við að heyra. Það framleiði ekki aðeins vænissjúka menningarkima heldur búi til hefð fyrir ritskoðun og einangrun valds – sem aldrei lætur sér nægja að halda burtu þeim sem augljóslega eru ruglaðir.

Í öðru lagi geta Píratar bent á að opið og gegnsætt stjórnmálakerfi virki eins og hvert annað kerfi að því leyti að þegar kostir þess verða ljósir og þátttakendur fleiri þá verði meiri samkeppni um aðgang og þessi aukna samkeppni leiði til þess að grasrótin fái smám saman öflugri og verðugri fulltrúa. Í fyrsta skipti sjáist áhrif smæðarinnar – en það sé fyrst og fremst kerfið sem Píratar séu að bjóða, ekki þessir tilteknu einstaklingar. Kerfið hafi byrjendahnökra, eins og öll kerfi. Við því sé ekkert að gera, annað en að komast yfir hnökrana og láta til skarar skríða.

Að verulegu leyti duga þessar mótbárur til að takast á við megnið af þeirri gagnrýni sem Píratar hafa mætt. Atkvæði í leit að flokki getur jafnvel hugsað sér að kjósa þá til að gefa flokknum vægi svo að hann komist í þá aðstöðu að lúsahreinsa sig fyrir næstu kosningar. Í því efni eru einhver fylgismörk sem þarf að ná – sem óvíst er að Píratar nái nokkru sinni.

Sumir Píratar hafa unnið sér það eitt til skammar að vera dálítið ófágaðir, jafnvel örlítið félagslega mistækir. Það er mun minni glæpur ef það er þá það.

Eitt vandamál glíma Píratar þó við sem þeim ber að taka alvarlega. Þetta er vandamál sem snertir kjarnahugsun framboðsins og stefnir því í hættu. Píratar geta haft ólíkar skoðanir á næstum öllu. Það er ekki ætlast til heildstæðrar stefnu í öllum smáatriðum. Það er ekki einu sinni heildstæð stefna í nokkrum stórum málum. Þeir eru enda að bjóða fram aðferð til skoðanamyndunar – ekki skoðanirnar sjálfar.

Aðall þeirra er að upplýsingar feli í sér vald og þetta vald eigi heima meðal almennings. Það sé ótækt að stjórnmálamenn eða aðrir skáki í skjóli valds og haldi upplýsingum frá almenningi. Rót Pírata rennur djúpt niður í hugarfar Upplýsingarinnar.

En hér þurfa Píratar að horfa til þess að aðgengi að upplýsingum snýst ekki bara um að mölva niður leyndarmúra. Kostirnir eru ekki bara tveir: upplýsing og þögn.

Aðgengi að upplýsingum snýst líka um að verjast þeim sem viljandi eða óviljandi spilla upplýsingum. Andupplýsing er ekki minna eitruð en þöggun eða leynd.



Barátta Pírata fyrir upplýsingum er eins og barátta fyrir hreinu vatni. Það er ekki nóg að krefjast þess að fólk hafi aðgang að vatnsbólinu. Það þarf líka að berjast gegn því að bólið sé mengað.

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en sumir af þeim sem ástríðufyllstir eru í upplýsingaspillingu lögðu töluvert á sig til að komast að hjá Pírötum. Þess eru skýr merki að grasrót Pírata sé verulega menguð af áróðursfólki and-upplýsingar.

Aftur geta Píratar gripið til sömu varna og áður og bent á að þetta fólk sé í minnihluta og líklegt til að hverfa þegar framboð eykst við meiri eftirspurn.

Það er samt verulegt umhugsunarefni hvernig það getur gerst að fólk sem er í raun og veru fulltrúar þess sem stjórnmálahreyfingin er sett til höfuðs – komist þar í álnir. Fólk sem jafnvel hefur dælt frá sér ógrynni upplýsinga sem eru villandi, blekkjandi eða til þess fallnar að spilla upplýsingaforðanum. Hvernig má það vera að Píratar hafi ekki séð þetta? Og hafi þeir séð þetta, var þeim virkilega bara sama?

Þetta er ekki lítið mál. Þetta er eins og hómófób í framboði fyrir mannréttindasamtök eða harðlínu trúleysingi í framboði fyrir endurfædda kristna.

Sú grasrót sem veitir slíku fólki brautargengi getur ekki haft góða dómgreind. Það sem meira er, það bendir ýmislegt til þess að hún hafi verulega slaka dómgreind. Alveg óháð því hvort aðferðin er góð eða ekki, þá er niðurstaðan óforsvaranleg.

Það er eðlilegt fyrir atkvæði að fælast.

20. apríl 2013

Eðlislæg viðbrögð vs þjálfuð

Myndirnar hér að neðan voru teknar örfáum sekúndum eftir að sprengjurnar sprungu í Boston. Þær sýna þann mun sem er á eðlislægum og þjálfuðum viðbrögðum við voðaverkum. Lögreglumaðurinn dregur upp skotvopnið í fullkomnu ráðaleysi og hleypur framhjá þeim hjálparþurfi. Aðrir þurfa ekkert að hugsa, viðbrögðin koma að sjálfum sér.

Ég legg til að neðsta myndin verði að höggmynd sem sett verði upp á nákvæmlega þessum stað til minningar um atburðina.











15. apríl 2013

Kæra Alþýðusamband...



Í fréttum í dag sagði af því þegar verðlagseftirlitsmenn ASÍ gerðu tilraun til inngöngu í verslunina Kost en þurftu frá að hverfa þegar verslunareigandinn rændi af þeim möppum eða pennum. Þá gátu þeir, eðli málsins samkvæmt ekki haldið áfram.

Við heyrum líklega reglulega af því að hin eða þessi verslunin sé með afarkosti gagnvart verðlagskönnunum.

Á þessu öllu er ákaflega einföld lausn. Lausnin væri líka sanngjörn og öllum til gagns.

Hún er þessi:

ASÍ getur greitt framleiðslukostnaðinn við smáforrit fyrir helstu tegundir síma. Með þessu smáforriti má skanna strikamerki vöru og kalla fram upplýsingar um verð á nákvæmlega sömu vöru annarsstaðar. Eins væri eðlilegt að hægt væri að sjá þróun á verði vörunnar aftur í tímann, jafnvel í samanburði við helstu vísitölur og gengi krónunnar.

Mjög auðvelt væri að auka notagildi slíks forrits með því að hugsa um þarfir notandans. Forritið mætti nota sem reiknivél yfir það sem komið er í matarkörfuna. Maður gæti síðan séð hvað sama karfa hefði kostað í öðrum búðum. Þegar fram í sækti mætti sjá mun á vöruúrvali eftir verslunum. Gefa mætti þeim einkunn fyrir þjónustu og ýmsa þætti sem skipta máli. Það mætti jafnvel vera innbyggð skeiðklukka sem mælir hve lengi maður stendur í röðinni við kassann.

Ef forritið væri gert aðgengilegt og grunnkóðinn ókeypis gætu ýmis hliðarforrit skotið upp kollinum. Eitt gæti verið forrit sem heldur skrá yfir það sem til er í ísskápnum og gefur áminningu þegar eitthvað fer að klárast. Hægt væri að tengja alla síma fjölskyldunnar á einn reikning og skanna hluti áður en þeim er hent. Það að skrá hluti áður en þeim er hent gæti aukið umhverfisvitund og nýtni. Upp gætu poppað myndbönd um endurvinnslu eða endurnýtingu. Forrit gæti gefið hugmyndir um kvöldmatinn út frá því sem er til. Svona mætti lengi telja. Fylgjast mætti með bensínverði með áþekkum hætti.

Aðalatriðið er að það er hægur leikur að koma aðhaldinu og eftirlitinu með verðlagi úr höndum einstakra aðila og gert það að almennu hlutverki ábyrgra neytenda. Fjöldinn myndi tryggja að misnotkun eða svindl væri næstum útilokað. Neytendavitund almennings myndi aukast og eftirlit með breytingum á vöruverði yrði stöðugt. Loks væri þetta gríðarlega mikið aðhald gagnvart verslun í landinu (þetta þarf ekki að einskorðast við mat).

Hver og einn myndi nota slíkt forrit algjörlega á eigin forsendum. Einn myndi aðeins skanna dýra hluti. Annar tíunda hvern hlut. Einhverjir myndu nota alla möguleika forritsins (forritanna).

Sannast sagna er verðlagseftirlit á landinu ákaflega langt á eftir tímanum og meðvitund neytenda eftir því. Yfirsýnin er lítil sem engin og vöruverð virðist hoppa upp og niður án nokkurra eðlilegra skýringa.

Það er löngu tímabært að neytendur fái yfirhöndina.

Ég segi því: Kæra Alþýðusamband, hvernig væri það?

13. apríl 2013

Meðal Sjálfstæðismanna



Sögulegasta samkoman í kosningabaráttunni 2013 átti sér stað í Garðabæ í morgun. Ég ákvað að vera þar. Ég mætti snemma þótt það væri stutt að fara og tyllti mér á fremsta bekk sem var auður þótt þótt húsið væri þéttsetið að öðru leyti.

Ég var sannfærður um að Bjarni Ben myndi tilkynna ákvörðun sína á þessum fundi. Ég var jafn sannfærður um að ákvörðun hans yrði sú að halda áfram. Og það þrátt fyrir að hafa talið að afloknu viðtalinu við RÚV að dagar hans væru taldir.

Bjarna langaði aldrei að hætta. Það tók Jöhönnu Vigdísi 20 mínútur að brjóta hann í viðtalinu. Ítrekað og trekk í trekk fékk hann sömu spurninguna. Hann varðist, en gafst svo upp. Það var ekki leikur eða plott. Hann var hræddur og uppgefinn. Hann var einlægur. Það var sérlega ógeðfellt að horfa síðan upp á það þegar sjónvarpskonan stóð yfir tæjunum af formanninum og sagði: „Þú setur okkur í erfiða stöðu. Við sem ætluðum að tala við þig um stefnumál.“ Bjarni svaraði lágt, viljalaus: „Ég veit.“

Einlægnin skilaði sér til margra. Samherjum og andstæðingum þótti vænna um þennan brotna mann en þann heila.

Ákvörðun Bjarna í dag gerir hann ekki að sigurvegara. Líklega verður hann það aldrei. Honum verður  kastað fyrir næstu kosningar. Ákvörðun hans í dag byggði á eingöngu einum hlut. Persónulegri reiði. Með því að stíga til hliðar gerði hann Hönnu að sigurvegara og sjálfan sig að tapara. Ef flokkurinn hefði samt tapað illa í kosningum hefði verið sagt: „Of lítið of seint.“ Ef flokkurinn hefði sigrað hefði það staðfest að hann hefði verið meinið. Með því að halda áfram getur aðeins tvennt gerst. Annaðhvort braggast hagur flokksins eitthvað. Þá verður hann sigurvegari. Eða að flokkurinn geldur afhroð. Þá munu menn reiðast varaformanninum sem gerði valdaránstilraun á viðkvæmum tíma.

Með því að halda áfram gat Bjarni hugsanlega fengið einhvern sigur, en jafnvel þótt hann tapaði þá drægi hann Hönnu Birnu með sér. Með því að fara frá gæti hún ekki tapað. Það vildi Bjarni ekki.

Á næsta bekk fyrir aftan mig í dag sat Vilhjálmur Egilsson. Hann var kampakátur, tilbúinn að fara að hreinsa upp skítinn á Bifröst. Rétt hjá honum sat stælleg Salóme Þorkelsdóttir og minnti á Möggu Thatcher, bara aðeins minna dauða.

Hanna Birna mætti með félaga og fór beint í að fá sér kex. Bjarni virtist einn. Um leið og hann gekk í salinn stóð hersingin á fætur og klappaði þvílík ósköp að enginn tók eftir því þegar tónlistarmennirnir sem spilað höfðu djass meðan beðið var luku sér af og laumuðu sér út.

Bjarni var umkomulaus og viðkvæmur og hafði langan formála að þeirri ákvörðun sinni að hætta ekki. Um leið og hópurinn áttaði sig hrökk hann aftur á fætur og klappaði óskaplega. Konan við hliðina á mér var sérlega ánægð og skaut inn orði og orði til útskýringar eða ánægju eftir því sem ræðunni fleygði fram. „Heyr, heyr!“„Heilindi.“ „Já, alveg rétt.“

Bjarni lauk sér af og enn var klappað. Þá var Hanna kölluð á svið. Vilhjámur Egils ætlaði að gefa henni standandi lófaklapp en enginn annar gerði sig líklegan. Hann lækkaði aftur í sætinu. Þarna kom það þó. Nógu margir stóðu upp. Og nú öll hersingin. Menn voru samt alveg í fýlu við hana.

Hanna talaði blaðlaust. Þegar Bjarni hafði afhjúpað ákvörðun sína kom á hana bros, sem er eins og brosið sem maður gefur aldraðri frænku á elliheimili þegar hún segir eitthvað sem fær mann til að trúa örlítið heitar á líknardráp. Kannski var hún með skrifaða ræðu í vasanum sem hún gat ekki notað.

Hanna er klár. Hún var búin að gera sér grein fyrir stöðunni. Við tók látlaust kapphlaup burt frá valdaránstilrauninni. „Látið mig vera!“ var inntakið. „Þetta kemur mér ekkert við.“ „Ég sagði ekkert rangt.“ „Ég gerði ekkert af mér.“ Sumir voru hrifnir. Aðrir síður. Þá tók við vinnustaðaræðan. Það er tímaskekkja árið 2013 að helmingur Íslendinga kvíði mánaðarmótunum. Skammarlegt! Ekkert klapp. Hendurnar líklega bara í vösunum að þukla benzlyklakippurnar. Bjarni bar af Hönnu.

Þarna hefði þurft að enda fundinn.

Þau mistök voru gerð að hleypa tveim „óbreyttum“ á svið. Ragga Ríkharðs kom upp og gerði lítið úr hljóðnemavandræðnum sem einkennt höfðu fundinn öðru fremur. „Ég þarf sko engan hljóðnema!“ buldi í henni. Ég hugsaði um tunnur. En svo límdi hún sig við hljóðnemann og flutti ljóð formanni sínum til dýrðar. Ljóðið fjallaði um gildi þess að segja satt og fylgja sannfæringu sinni. Hún tók það sérstaklega fram að það væri eftir Sjálfstæðismann. Ég hugsaðu um Norður-Kóreu. Hér var komið annað tækifæri til að slíta fundi á upptakti. Hún ákvað samt að fara líka í vinnustaðagírinn. Lofaði tangarsókn. Nú myndi flokkurinn hækka um 1% á dag fram að kosningum og enda í 36%. Mikið klappað. „É ræt, hugsaði ég.“

Þá kom á svið Útsvars-Villi. Titrandi og næstum yfirkominn af tilfinningum. Kallaði Bjarna upp í knús. Sagði sögu af munaðarleysingja sem hann hefði ættleitt (ekki bókstaflega) því í brjósti sínu hefði leynst sami ástríðufulli hatursfuninn í garð Framsóknar og í örenda pabbanum sem hafði verið kommi. Hanna og Bjarni, höfðu fram að þessu hunsað hvort annað en fóru nú að hvíslast á með hendur fyrir vitum sér. Ég ímyndaði mér að þau væru að ræða það hversu fokkt það væri að skríða upp af hnjánum og byrja strax að spúa eitri í átt að Framsókn. Helvítið hann Villi. En gamla spurningatröllinu var ekki hvikað. Hann beygði af þegar hann talaði um framtíðarmöguleika ungu stúdentanna sem söfnuðust saman í þessum sama sal tvisvar á ári. Augun fóru á flot og röddin brást. Salnum fannst það óþægilegt og ekkert krúttlegt.

Til að slútta samkomunni kom Bjarni upp aftur. Nú var hann eins og hann átti að sér að vera. Búinn að ná vopnum sínum og aftur orðinn frekar staðlaður og leiðinlegur. Mýktin farin. Viprurnar í augnkróknum engar. Bara Sjalli að tala við aðra Sjalla. Hér hefði eins og eitt tár verið vel þegið. En það kom ekki. Eftir sat boðskapurinn: Nú fer hver einasti Sjalli og sækir hvert einasta atkvæði. Flokkurinn, það ert þú. Gott gengi hans er gott gengi Íslands!“

Mikið klapp. Löng röð út.

Ég laumaði mér út um brunaútganginn, hoppaði yfir læk. Keyrði heim. Hugsaði á leiðinni um það hver yrði munstraður upp sem næsti formaður. Hugsaði líka um það hversu augljóst það er að Sjallar fara í stjórn. Með Framsókn. Það verður gott á Villa.