28. apríl 2013

Uppgjöri við fjórflokkinn frestað?

Við fyrstu sýn virðist ekkert uppgjör hafa orðið við fjórflokkinn í kosningunum í gær. Dálítið af fylgi fór frá Sjálfstæðisflokki yfir á Framsókn og vinstra fylgið klofnaði í þrennt. Eitthvað fylgi féll dautt, en ekki neitt óskaplega mikið.Í sögulegu samhengi á Framsóknarflokkurinn inni um 21% fylgi hjá þjóðinni. Sjálfstæðisflokkurinn 36%.  Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru samtals með rúmt 31% á sínum tíma. Ýmis framboð sem komu og fóru tóku til sín tæp 12% af fylginu. Stundum ekki nema 0,2% (1963) en einu sinni yfir 25% (1987).

Þegar Vg og Samfylking urðu til varð nokkuð ofsafengin vinstrisveifla hjá þjóðinni. Hápunkti náði hún í kosningunum 2009 þegar flokkarnir fengu samtals 51,5% (0,4% meira en D og B fengu í gær).

Ef eins mynd er sett upp fyrir kosningarnar í gær lítur hún svona út:

Við sjáum að ef Bf er flokkuð með Vg og Samfylkingu þá er um nákvæmlega hefðbundið fylgi að ræða. Hlutur B og D er minni en venjulega svo munar Pírötum. Framsókn stendur sig óvenju vel. Sjálfstæðisflokkur sérlega illa.

Eftir sem áður er niðurstaðan klassísk skipting á íslenskan mælikvarða. 

Fjórflokkurinn hefur sjaldnast verið alveg einn.

Ef við sleppum Borgaraflokknum (sem var augljóslega Sjálfstæðisflokksklofningur eins og Bf er að taka fylgi frá Samfylkingu núna) og Þjóðvaka þá hafa að meðaltali 3,08 þingmenn á hverju kjörtímabili tilheyrt öðrum framboðum en fjórflokknum síðan 1971. Núna eru þeir 3.

Með öðrum orðum. Niðurstaðan núna virðist eins klassísk og hún getur orðið. 

Og þó.

Íslenskir kjósendur hafa jafnt og þétt verið að færa sig yfir á vinstri vænginn af miðjunni og hægri vængnum. Það er saga síðustu 50 ára í íslenskri pólitík. Það er hending að nú skuli fylgið einmitt hitta á meðaltalsfylgi síðustu áratuga.

Stórum vinstri sveiflum fylgir greinilega stórt bakslag. Það jafnar sig svo og flutningurinn heldur áfram, frá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki til vinstri flokkanna.Bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa áratugum saman mátt horfa upp á það að fylgið rýrnar jafnt og þétt. Báðir flokkar hafa upplifað að sterkir formenn (t.d. Davíð og Steingrímur) geta hægt á fylgishruni nokkurn tíma (og jafnvel virst auka fylgið) en hjá báðum flokkum hefur fylgið haldið áfram að dala að þeim horfnum. Raunar virtust þeir báðir auka fylgið um 40 - 50% þegar þeir tóku við í fylgiskreppu en báðir flokkar runnu niður í innan við 90% af því fylgi sem skapað hafði panikkið jafnharðan.

Raunar virðist hinn almenni kjósandi einmitt vera kominn með upp í kok á fjórflokknum. Þeim megin sem fjórflokkurinn hefur klofnað í nýja valmöguleika hefur fylgið aukist jafnt og þétt áratugum saman. Þeim megin sem fjórflokkurinn aðlagast ekki og heldur einni birtingarmynd er voðinn vís.

Eftir sem áður virðist næstum útilokað að ýta fjórflokknum til hliðar utanfrá. Árásir á hann skila að meðaltali 5% þingheims eða 3 þingmönnum.

Fjórflokkurinn deyr innanfrá.

Það sjá það flestir að það er tímabært að kljúfa hófsaman miðjuarm Sjálfstæðisflokksins frá róttæku öflunum sem lögðu undir sig síðasta landsfund. Það sjá það líka allir að það er fráleitt að í allri miðju og hægri hlið íslenskra stjórnmála skuli aðeins vera pláss fyrir eina skoðun á Evrópumálum.

Í sjálfu sér veit enginn hvernig málin þróast næstu ár. Það tók þrjá áratugi að vinna upp „hrunið“ sem vinstri flokkarnir urðu fyrir 1979. Það hrun var og er notað af hægri sinnuðum til sönnunar um að vinstri menn geti ekki unnið saman. En hrunið var óeðlilega mikið því ris flokkanna hafði verið óeðlilega mikið árið áður. Jafnvel eftir hrunið voru vinstri flokkar öflugri en þeir höfðu verið örfáum árum áður. Ef svipað verður upp á teningnum nú má reikna með að þess verði ekki langt að bíða að jafnvægi náist aftur.

Raunar var hrunið nú svo lítið þrátt fyrir allt að möguleiki á vinstri stjórn er ekki útilokaður og það hafa allir flokkar möguleika á að spilla fyrir hinum. Enginn hefur yfirburðasamningsstöðu.

Eigum við ekki að segja að Bjarni Ben bjóði Framsókn að efnahagstillögur þeirra verði framkvæmdar eftir þeirra höfði í stað þess að D fái forsætisráðuneytið. Ég hugsa að Bjarni trúi því að það verði upphafið að endurreisn Sjálfstæðisflokksins. Sem það verður næstum örugglega ekki.

Hvort Sigmundur tekur því verður svo að koma í ljós. Það er ekki ólíklegt í sjálfu sér því hann hefur áreiðanlega meiri áhuga á utanríkisráðuneytinu en forsætisráðuneytinu. Þeir félagarnir geta svo dundað sér við að kljúfa upp sameinuð ráðuneyti til að koma öllum meðreiðarsveinunum fyrir.

Engin ummæli: