13. apríl 2013

Meðal Sjálfstæðismanna



Sögulegasta samkoman í kosningabaráttunni 2013 átti sér stað í Garðabæ í morgun. Ég ákvað að vera þar. Ég mætti snemma þótt það væri stutt að fara og tyllti mér á fremsta bekk sem var auður þótt þótt húsið væri þéttsetið að öðru leyti.

Ég var sannfærður um að Bjarni Ben myndi tilkynna ákvörðun sína á þessum fundi. Ég var jafn sannfærður um að ákvörðun hans yrði sú að halda áfram. Og það þrátt fyrir að hafa talið að afloknu viðtalinu við RÚV að dagar hans væru taldir.

Bjarna langaði aldrei að hætta. Það tók Jöhönnu Vigdísi 20 mínútur að brjóta hann í viðtalinu. Ítrekað og trekk í trekk fékk hann sömu spurninguna. Hann varðist, en gafst svo upp. Það var ekki leikur eða plott. Hann var hræddur og uppgefinn. Hann var einlægur. Það var sérlega ógeðfellt að horfa síðan upp á það þegar sjónvarpskonan stóð yfir tæjunum af formanninum og sagði: „Þú setur okkur í erfiða stöðu. Við sem ætluðum að tala við þig um stefnumál.“ Bjarni svaraði lágt, viljalaus: „Ég veit.“

Einlægnin skilaði sér til margra. Samherjum og andstæðingum þótti vænna um þennan brotna mann en þann heila.

Ákvörðun Bjarna í dag gerir hann ekki að sigurvegara. Líklega verður hann það aldrei. Honum verður  kastað fyrir næstu kosningar. Ákvörðun hans í dag byggði á eingöngu einum hlut. Persónulegri reiði. Með því að stíga til hliðar gerði hann Hönnu að sigurvegara og sjálfan sig að tapara. Ef flokkurinn hefði samt tapað illa í kosningum hefði verið sagt: „Of lítið of seint.“ Ef flokkurinn hefði sigrað hefði það staðfest að hann hefði verið meinið. Með því að halda áfram getur aðeins tvennt gerst. Annaðhvort braggast hagur flokksins eitthvað. Þá verður hann sigurvegari. Eða að flokkurinn geldur afhroð. Þá munu menn reiðast varaformanninum sem gerði valdaránstilraun á viðkvæmum tíma.

Með því að halda áfram gat Bjarni hugsanlega fengið einhvern sigur, en jafnvel þótt hann tapaði þá drægi hann Hönnu Birnu með sér. Með því að fara frá gæti hún ekki tapað. Það vildi Bjarni ekki.

Á næsta bekk fyrir aftan mig í dag sat Vilhjálmur Egilsson. Hann var kampakátur, tilbúinn að fara að hreinsa upp skítinn á Bifröst. Rétt hjá honum sat stælleg Salóme Þorkelsdóttir og minnti á Möggu Thatcher, bara aðeins minna dauða.

Hanna Birna mætti með félaga og fór beint í að fá sér kex. Bjarni virtist einn. Um leið og hann gekk í salinn stóð hersingin á fætur og klappaði þvílík ósköp að enginn tók eftir því þegar tónlistarmennirnir sem spilað höfðu djass meðan beðið var luku sér af og laumuðu sér út.

Bjarni var umkomulaus og viðkvæmur og hafði langan formála að þeirri ákvörðun sinni að hætta ekki. Um leið og hópurinn áttaði sig hrökk hann aftur á fætur og klappaði óskaplega. Konan við hliðina á mér var sérlega ánægð og skaut inn orði og orði til útskýringar eða ánægju eftir því sem ræðunni fleygði fram. „Heyr, heyr!“„Heilindi.“ „Já, alveg rétt.“

Bjarni lauk sér af og enn var klappað. Þá var Hanna kölluð á svið. Vilhjámur Egils ætlaði að gefa henni standandi lófaklapp en enginn annar gerði sig líklegan. Hann lækkaði aftur í sætinu. Þarna kom það þó. Nógu margir stóðu upp. Og nú öll hersingin. Menn voru samt alveg í fýlu við hana.

Hanna talaði blaðlaust. Þegar Bjarni hafði afhjúpað ákvörðun sína kom á hana bros, sem er eins og brosið sem maður gefur aldraðri frænku á elliheimili þegar hún segir eitthvað sem fær mann til að trúa örlítið heitar á líknardráp. Kannski var hún með skrifaða ræðu í vasanum sem hún gat ekki notað.

Hanna er klár. Hún var búin að gera sér grein fyrir stöðunni. Við tók látlaust kapphlaup burt frá valdaránstilrauninni. „Látið mig vera!“ var inntakið. „Þetta kemur mér ekkert við.“ „Ég sagði ekkert rangt.“ „Ég gerði ekkert af mér.“ Sumir voru hrifnir. Aðrir síður. Þá tók við vinnustaðaræðan. Það er tímaskekkja árið 2013 að helmingur Íslendinga kvíði mánaðarmótunum. Skammarlegt! Ekkert klapp. Hendurnar líklega bara í vösunum að þukla benzlyklakippurnar. Bjarni bar af Hönnu.

Þarna hefði þurft að enda fundinn.

Þau mistök voru gerð að hleypa tveim „óbreyttum“ á svið. Ragga Ríkharðs kom upp og gerði lítið úr hljóðnemavandræðnum sem einkennt höfðu fundinn öðru fremur. „Ég þarf sko engan hljóðnema!“ buldi í henni. Ég hugsaði um tunnur. En svo límdi hún sig við hljóðnemann og flutti ljóð formanni sínum til dýrðar. Ljóðið fjallaði um gildi þess að segja satt og fylgja sannfæringu sinni. Hún tók það sérstaklega fram að það væri eftir Sjálfstæðismann. Ég hugsaðu um Norður-Kóreu. Hér var komið annað tækifæri til að slíta fundi á upptakti. Hún ákvað samt að fara líka í vinnustaðagírinn. Lofaði tangarsókn. Nú myndi flokkurinn hækka um 1% á dag fram að kosningum og enda í 36%. Mikið klappað. „É ræt, hugsaði ég.“

Þá kom á svið Útsvars-Villi. Titrandi og næstum yfirkominn af tilfinningum. Kallaði Bjarna upp í knús. Sagði sögu af munaðarleysingja sem hann hefði ættleitt (ekki bókstaflega) því í brjósti sínu hefði leynst sami ástríðufulli hatursfuninn í garð Framsóknar og í örenda pabbanum sem hafði verið kommi. Hanna og Bjarni, höfðu fram að þessu hunsað hvort annað en fóru nú að hvíslast á með hendur fyrir vitum sér. Ég ímyndaði mér að þau væru að ræða það hversu fokkt það væri að skríða upp af hnjánum og byrja strax að spúa eitri í átt að Framsókn. Helvítið hann Villi. En gamla spurningatröllinu var ekki hvikað. Hann beygði af þegar hann talaði um framtíðarmöguleika ungu stúdentanna sem söfnuðust saman í þessum sama sal tvisvar á ári. Augun fóru á flot og röddin brást. Salnum fannst það óþægilegt og ekkert krúttlegt.

Til að slútta samkomunni kom Bjarni upp aftur. Nú var hann eins og hann átti að sér að vera. Búinn að ná vopnum sínum og aftur orðinn frekar staðlaður og leiðinlegur. Mýktin farin. Viprurnar í augnkróknum engar. Bara Sjalli að tala við aðra Sjalla. Hér hefði eins og eitt tár verið vel þegið. En það kom ekki. Eftir sat boðskapurinn: Nú fer hver einasti Sjalli og sækir hvert einasta atkvæði. Flokkurinn, það ert þú. Gott gengi hans er gott gengi Íslands!“

Mikið klapp. Löng röð út.

Ég laumaði mér út um brunaútganginn, hoppaði yfir læk. Keyrði heim. Hugsaði á leiðinni um það hver yrði munstraður upp sem næsti formaður. Hugsaði líka um það hversu augljóst það er að Sjallar fara í stjórn. Með Framsókn. Það verður gott á Villa.

4 ummæli:

Kristján Andrésson sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Nafnlaus sagði...

Norður Kórea. Kemur strax upp í hugann...

Teitur Atlason sagði...

Gott gonzo í Garðabæ. Frábær pistill.

Unknown sagði...

Já... Þetta var hressandi og skemmtilegt:) Nokkur gullkorn þarna. Náði ekki alveg þessu með "Sagði sögu af munaðarleysingja sem hann hefði ættleitt (ekki bókstaflega) því í brjósti sínu hefði leynst sami ástríðufulli hatursfuninn í garð Framsóknar og í örenda pabbanum sem hafði verið kommi." En maður þarf svo sem ekki að skilja allt.