4. mars 2013

Hvernig væri að hafa hugrekki



Nú spretta fram úr hverju horni skýringar á því hvers vegna Árni Páll vill salta stjórnarskrána. Einhver hluti þingmanna meirihlutans er ekki fylgjandi þeim breytingum sem hún kveður á um. Punktur.

Gott og blessað sosum.

En mikið ofsalega væri þessi stofnun, Alþingi, merkilegri og betri staður ef menn hefðu til að bera það hugrekki sem þarf til að standa undir sjálfum sér. Dögum saman hafa nú þingmenn stjórnarflokkanna hlaupið úr einum felustað í annan og reynt að skrifa snautleg örlög hinnar nýju stjórnarskrár á allt nema sjálfa sig. Pólitískum andstæðingum er kennt um, tímaskorti, flækjustigi.

Slíkt framferði ber ekki vott um mikinn karakterstyrk eða heiðarleika.

Allt er gert til að hindra það að menn verði uppvísir að hinni raunverulegu afstöðu.

Þetta eru dæmigerð klækja- og lygastjórnmál.

Kannski endanleg sönnun þess að siðbót íslenskra stjórnmála er andvana fædd. Nú rúllar þetta bara enn einn hringinn – eins og alltaf hingað til.

Alþingi hefur eitthvað ótrúlegt aðdráttarafl á allt það ómerkilegasta í þjóðarsálinni – en fælingarmátt gagnvart því sem einhvers er um vert.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Og það sorglega er að lýðurinn er engu betri og kýs þessi hálfmenni og strengjabrúður hagsmunaafla aftur og aftur. Þessi innræktaði og þrælslundaði skríll sem hýrist hér á skerinu norður í rassgati jarðar mun fá það sem hann á skilið.

Kristján Andrésson sagði...

Mér finnst sorglegt hvernig Árni Páll hefur knésett stjórnarliða í þessu máli. Aftur á móti, þó ég sé samþykkur hugsun Karls mestu, þá leiðist mér að landið okkar sé rakkað niður. Það á það ekki skilið.