9. mars 2013
Eins og lítill grunnskóli úti á landi en samt of erfitt...
Mannkynið stendur frammi fyrir ýmsum illleysanlegum vandamálum. Það verður að ráðast að rótum fátæktar, mengunar, heimsku og illsku í heiminum. Jörðin er að mörgu leyti fokkt öpp. Lausnirnar skortir í sjálfu sér ekki. Það sem skortir er samstarf. Einhugur um að greina vandamálin og vinna í lausn þeirra – án þess að einstakar þjóðir taki ævinlega skammvinna stundareiginhagsmuni fram yfir samstarf um lausn vandans.
Því miður höfum við Íslendingar staðið okkur að mörgu leyti skammarlega illa í slíkum málum. Umhverfisvitund er ekki sterkt afl hjá þjóðinni. Við vílum ekki fyrir okkur að þurrka upp stjórfljót, drekkja plöntu- og dýralífi, bora eftir olíu og heitu vatni og slátra fiskistofnum – allt án þess að meðvitund um umhverfisáhrif sé sérstaklega að þvælast fyrir okkur.
Við sólundum rafmagni, olíu og vatni af slíku offorsi að það þyrfti margar jarðir til að standa undir mannkyni ef það hagaði sér allt eins.
Það er eitthvað að okkur.
Á sama tíma erum við einstaklega illa menntuð þegar kemur að umhverfis-, tækni- og raunmenntun. Hefðbundið bóknám er haft í slíkum hávegum að það mætti halda að menntakerfi landsins hefði enn þann eina tilgang að framleiða sæmilega hæfa embættismenn. Litið er niður á verkmenntun og raunvísindamenntun er verulega áfátt. Einu raunvísindin sem eru sæmilega eftirsótt eru það vegna launa en ekki rannsókna eða mikilvægis.
Vísindarannsóknir njóta ekki virðingar og búa við nær stöðugt svelti. Fólk heldur í alvöru að nýtt rannsóknar- og hátæknisjúkrahús sé dæmi um bruðl. Einkaaðilar drottna yfir nýsköpun og tækniframförum oft á pínlega afmörkuðum sviðum og með ágóðavon eina að leiðarljósi.
Skólakerfinu er sorglega áfátt að bregðast við. Eftirspurn eftir tækni-, verk- og raunvísindanámi er lítil og takmörkuð. Hæfir og áhugasamir kennarar fást varla til starfa og nemendur þramma í löngum bunum gegnum skólakerfið með þann andlega hörgulsjúkdóm sem einhæfnin er dæmd til að valda.
Hugmyndir þjóðarinnar um vísindafólk eru úreltar og staðnaðar. Úfið hár og hvítur sloppur er tákn sem enn er haldið lifandi (t.d. í barnaefni) þrátt fyrir að vera álíka relevant og bankamaður með harðkúluhatt og dagblað. Vísindasamfélagið hefur þurft að leggjast niður á það plan að tæla fram áhuga fólks með sjónhverfingum og sprengjum.
Þetta er ekki í lagi.
Ísland er að þessu leyti alvarlega vannært og undarlega ómeðvitað um það.
Sorglegast af öllu er að landinu hefur lengi staðið til boða margar frábærar leiðir til að bæta úr þessu ömurlega ástandi. Fremstu vísindarannsóknir heimsins fara ekki fram inni í lokuðum köstulum lyfjafyrirtækja eða í hugbúnaðarhúsum sem framleiða forrit sem gera þér kleift að skiljast við peningana þína með lágmarks tilfæringum. Fremstu vísindarannsóknir heimsins fara fram fyrir opnum tjöldum.
Bara í nærumhverfi okkar höfum við t.d. CERN og ESA.
Í túnfætinum hjá okkur er verið að kafa inn í eðli og uppruna alheimsins með áður óþekktum afköstum. Það er vor í raunvísindum og nýjar byltingarkenndar uppgötvanir eru gerðar á færibandi. Kringum þetta allt hefur myndast suðupottur hliðarverkefna og aukabúgreina sem þátttökuþjóðirnar njóta góðs af. Raunvísindafólk þessara landa fær að starfa í sjálfri deiglunni – í fararbroddi þeirrar tækni sem nútíminn hefur aðeins nýlega gert aðgengilega. Það snýr svo aftur heim og blæs lífsanda í háskóla og aðrar rannsóknarstofnanir.
Á Íslandi er enn hávetur. Við tímum ekki að vera með. Þess í stað höfum við ráðið málaliða til að bora eftir olíu.
Við erum afríska ættbálkasamfélagið í Evrópu í svo ótrúlega mörgum skilningi.
Auðvitað er dýrt að standa í rannsóknum. Það eru nokkuð mörg núll á tékkanum sem íslenska ríkið þyrfti að fylla út til að vera með í CERN eða ESA. Og það er nóg til að enginn þorir að ákveða að tengja vísindalíf þjóðarinnar við þá næringu í æð sem samstarf væri.
Samt eru þetta ekki hærri upphæðir en svo að það kostar t.d meira að reka 50 barna skóla á íslenskri landsbyggð en að vera með í ESA.
Þeir sem megna að hafa sæmilega óbrenglaða sýn á samhengi tækni- og raunmenntunar í þessu ástandi andlegrar fátæktar sjá umsvifalaust að kostnaðurinn er hverfandi.
Við þyrftum meira að segja ekki að kosta neinu til. Við eyðum ótrúlegum upphæðum á hverju ári í að taka þátt í kalda stríðinu. Þótt því hafi formlega lokið fyrir meira en tuttugu árum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðast ráðamenn á Íslandi telja nauðsynlegt að manna skansinn svo við sjáum herskipaflota óvinanna þegar hann nálgast.
Á sama tíma veifa brosandi varðmennirnir málaliðunum sem sigla af stað til að gera okkur það góðverk að soga upp olíu úr hafsbotninum, svo hægt sé að brenna hana fyrir peninga.
Hvort skyldi nú vera raunverulegri ógn fyrir Ísland, umhverfisafleiðingar kolefnabruna eða herskipafloti?
Við erum líklega að fara að sigla inn í fjögur ár af einhverri blöndu þess að tækni- og vísindi eigi heima hjá einkaaðlilum og þess að það sé fráleitt að taka þátt í erlendu samstarfi þegar fólk sveltur á Íslandi.
Vísindavorið í heiminum er því að öllum líkindum enn órafjarri Íslandsströndum.
Hér ríkir fimbulkuldinn enn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli