Tækni virðist alltaf þróast með þessum hætti. Í fyrstu er hún dýr og ómeðfærileg. Vegna þess að hún er ný og spennandi laðast fólk að henni, yfirleitt í hópum. Smátt og smátt verður tæknin umfangsminni án þess að tapa virkninni og fólk notar hana í einrúmi. Við gætum bent á samgöngutækni, síma, útvarp eða raunar hvað sem er. Nú er komið að því sem við höfum hingað til látið nægja að kalla tölvur – en þurfum líklega að fara að finna nýtt hugtak yfir, því tölvur eru orðnar þáttur í öllum sköpuðum hlutum.
Tölva nútímans er sambland af stílabók, ritvél, sjónvarpi, síma, myndavél og fjölmörgu öðru. Hún er skjár inn í veruleika sem samanstendur af þýðingum á hefðbundinni tækni yfir á stafrænt mál. Enn sem komið er erum við að mestu upptekin við að breyta gamalkunnugri tækni þannig að hún virki gegnum slíkan skjá – þess er ekki langt að bíða að ný og áður óhugsandi tækni verði fyrirferðarmeiri. Tölvubyltingin er rétt að byrja.
Ástæða þess hve skólakerfið á í mikilli krísu um þessar mundir við innleiðingu tækninnar er tvíþætt.
Í fyrsta lagi er mikill vandi fólginn í því að skólar hafa nýtt tæknina með röngum hætti hingað til. Í þróunarsögu tækninnar hafa flestir skólar kosið að mynda grein sem nú skortir vaxtarbrodd. Tæknin hefur leitað framfara í aðra átt. Það veldur því að nú þurfa skólar annað hvort að stökkva í lausu lofti á milli greina eða rekja sig aftur að stofni og hefja klifur í nýja átt. Slíkt er erfitt.
Hin ástæðan er sú að umhverfi skólanna stuðlar að samþjöppun valds og miðstýringu ákvarðana. Kennarar geta ekki tekið ákvarðanir um nýtingu tækninnar. Kerfið er í raun fullkomið dæmi um það sem kallað var að deila og drottna. Einn kennari hefur næstum ekkert áhrifavald utan pínulítils skika. Kennarar eru síðan einangraðir, hver í sínum litla kassa, og ákvarðanir sem snerta skólastarfið í heild eru teknar af öðrum en þeim sem starfa í kerfinu.
Innleiðing nýrrar tækni krefst nýrra kennsluhátta. Hingað til hefur kennsla einkennst af mötun. Kennarinn er sá sem býr yfir upplýsingunum og miðlar þeim til nemenda – sem hafa það eitt hlutverk að vera móttækilegir og samviskusamir.
Eitt aðaleinkenni hins þróunarlega botnlanga er að öll tækni sem í skólana hefur borist síðustu áratugi hefur fyrr eða síðar verið sveigð undir þetta alræðisvald kennarans. Ein tölva er í hverri kennslustofu, yfirleitt á kennaraborðinu. Í tölvuverum er hugbúnaður sem gerir kennurum kleift að fylgjast með og stjórna nemendum. Kennaraháskólinn lagði lengst af óeðlilega mikla áherslu á að kennarar væru sérfræðingar í að semja svokallaða vefleiðangra, sem eru lítil ferðalög með leiðsögumanni um óravíddir upplýsingatækninnar.
Stjórnendur og tölvugúrúar skólanna þora ekki að stíga skrefið inn í nútímann. Þeir vita sem er, að með því væru þeir að höggva skarð í tilvistargrundvöll kennsluaðferðanna og neyða kennara út í breytingar sem menn eru misjafnlega tilbúnir í. Slík breyting myndi kalla fram mikil neikvæð viðbrögð. Stjórnendur hafa engan áhuga á að vera í slíkri stöðu.
Þess vegna hafa menn ímyndað sér að þeir standi frammi fyrir tveim, jafngóðum kostum. Annar er sá að innleiða einstaklingsmiðaða fartækni í skólastarf – hinn er að kaupa ódýra, straumlínulagaða delúx útgáfu af úrelta kerfinu.
Það er dálítið merkileg sagan af því hvernig Ísland varð útgerðarþjóð. Fáránlega lengi var gert út á opnum bátum sem róið var með handafli. Á sama tíma sigldu erlendar skútur um öll sund og voga og ryksuguðu upp fiski. Við gátum ekkert gert nema öfundast. Það var Íslendingum því ekki lítið fagnaðarefni þegar þeir uppgötvuðu að hægt var að kaupa skútur á viðráðanlegu verðu. Íslenska sjávarútvegsbyltingin varð þegar við eignuðumst okkar eigin skútur. Fögnuðurinn varð þó skammvinnur. Eina ástæða þess að við gátum keypt skútur var sú að þær voru orðnar úreltar og verðlausar. Öld vélbáta var gengið í garð. Skútuöldin á Íslandi varð því stutt.
Með nákvæmlega sama hætti hafa margir skólar ákveðið að fara þá leið að fjárfesta næstu árin í ódýrum uppfærslum á hefðbundnum tölvuverum. Menn nota þá áfram skjá og lyklaborð af gömlu tölvunum en í stað tölvunnar sjálfrar kemur ódýrt stykki sem tengir þetta tvennt við eina öfluga tölvu sem kennarinn hefur yfirráð yfir. Ein tölva er þar með orðin að tuttugu í sýndarveruleika tækninnar. Þessi tækni kallar ekki á neinar breytingar á húsbúnaði eða kennsluaðferðum og er, eins og gefur að skilja, einstaklega ódýr. Fyrir hefðbundna vinnslu virkar hún líka ágætlega þótt takmörkin séu átakanlega augljós. Með þessari tækni eru öll þyngri forrit úr leik.
Í raun og veru er þetta því skref afturábak. Á yfirborðinu lítur út fyrir að ekkert hafi breyst annað en að „tölvan“ sé orðin minni. Undir niðri er þetta fjárfesting í úreltri tækni, sem er ein af ástæðum þess hve þetta er ódýrt.
Þegar ég var barn heima á Akureyri gat maður farið í Pósthúsið í Göngugötunni og keypt símtal. Þá fór maður inn í glæsilegan símaklefa, en þeir stóðu í röðum við norðurvegg salarins. Eftir símtalið gerði maður upp. Þegar ég var ungur maður að hefja kennslu voru slíkir símaklefar útdauðir en í stað þess stóðu klefar úr áli og gleri úti á götu. Þá var komin sú nýjung að hægt var að kaupa kort í þessa síma. Núna eru símaklefar horfnir. Fólk þarf ekki lengur að staðsetja sig með tilliti til símtækninnar, símtæknin tekur tillit til staðsetningar fólksins. Heimasíminn er næstur. Hann er í raun orðinn úreltur þrátt fyrir að við eigum í dálitlum erfiðleikum með að skilja við hann (alveg eins og við eigum enn pínulítið erfitt með að skilja við hugmyndina um hljómflutningstæki sem stofustáss).
„Engir símar verða hinsvegar settir upp í vigtarhúsunum af þeirri ástæðu að vigtarmenn yrðu þá fyrir of miklum truflunum við starf sitt af stöðugum upphringingum“ |
Tölvuver eru algjörlega sambærileg við símaklefa. Það skiptir ekki máli þótt þau séu ódýr um þessar mundir. Þau eru ódýr vegna þess að úrelding hefur þær afleiðingar að tækni hrynur í verði.
Það er frekar sorglegt að lömunarveiki skólakerfisins skuli hafa þær afleiðingar að tækniþróun sé í höndum hræddra manna sem hugga sig við sparnaðinn sem afturhaldið hefur í för með sér í stað þess að leiða hópinn í gegnum tæknibyltinguna sem á sér stað allt í kring um okkur.
Ég hef verið að beita mér af afli í upplýsingatæknimálum skólakerfisins í u.þ.b. eitt og hálft ár. Það er ekki lengra en það. Ég er ekkert sérstakt tæknitröll. Ég á ekki einu sinni farsíma. Þegar ný tækni kemur fram er ég sá síðasti til að tileinka mér hana.
Ég er hinsvegar brennandi áhugamaður um kennsluhætti og skólaþróun – og ég hef fyrir löngu talið ljóst að huti af tilgangi skóla sé að miðla upplýsingum. Það er, og hefur alltaf verið gert, á pínlega einhæfan og óskilvirkan hátt. Það hefur síðan í för með sér þá staðreynd að upplýsingamiðlun étur upp allan tíma skólakerfisins og verður til þess að allt hitt, sem í raun eru miklu heilbrigðari undirstöður menntunar, situr á hakanum.
Ég vil fyrst og fremst nota upplýsingatækni til að endurheimta tíma. Tíma til að mennta – í stað þess að mata.
Á þessu eina og hálfa ári hef ég nokkrum sinnum bent á tækniframfarir sem mér hefur fundist blasa við að væru rétt handan við hornið. Í öllum tilfellum hafa viðbrögð tilheyrenda verið þau að brosa að mér og segja að nú væri ég búinn að missa þráðinn. Það væri til lítils að hugsa menntamál eins og vísindaskáldsögu. Raunin hefur hinsvegar orðið sú að allt það sem ég nefndi hefur nokkrum mánuðum seinna orðið raunveruleikinn. Framtíðinn brestur nefnilega á með ógnarhraða – og einu tæknilegu takmörkin eru ímyndunarafl okkar sjálfra.
Ég ætla að nefna nokkur dæmi.
Ég benti á það að bráðum yrðu næstum allir eldri nemendur grunnskólans sítengdir við netið. Líka í kennslustundum. Síðan þá sýnist mér að netáskrift í snjalltækni sé komin niður í 500 kr til viðbótar við símaáskrift. Héðan af verður sá tími sem það tekur unglinga að netvæðast hvar og hvenær sem er talinn í mánuðum en ekki árum.
Það þarf ekki að fjölyrða um hvílíkt vandamál það verður í skólum sem ekki ætla að laga sig að tækninni. Það þarf ekki heldur að hafa mörg orð um það hversu kjánaleg tölvuver verða eftir tvö ár þegar allir eru með öflugri tölvu í vasanum en boðið er upp á í sérstöku herbergi í skólanum.
Ég benti á það að búið væri að þýða íslenska tungumálið að mestu á stafrænt form og nú væri ekkert því til fyrirstöðu að tölvuvæða stóran hluta af málfræði- og stafsetningarstagli grunnskólans. Nemendur gætu fljótlega greint texta málfræðilega með hjálp tölvu sem væri verulegt vandamál þeim kennurum sem héldu sig við það að mata nemendur á málfræðilegum tækniæfingum árum saman. Ég benti á að með því að rithandagreiningar væru að nálgast það að nægja stæðum við frammi fyrir splúnkunýjum möguleikum í venjulegu vinnubókarnámi. Hægt væri að láta nemanda handskrifa lausnir sem tölva færi yfir og greindi og byði síðan nemandanum upp á kennsluefni sem tæki mið af þörfum hans.
Nú er væntanlegt forrit sem gerir megnið af þessu. Hægt er að kaupa rithandargreini sem er ótrúlega góður og líma inn í eigin forrit. Kennsluefnið sjálft er að mestu leyti orðið stafrænt og það eina sem í raun vantar nú er að púsla því sem þegar er til í eina heild. Það tæki ekki langan tíma.
Ég benti á það að kannski væri orðið tímabært að nemendur héldu sjálfir utan um vinnu sína og skráðu sig t.d. í skólann sjálfir í stað þess að kennarinn „læsi upp“ í upphafi hvers tíma. Mér datt í hug að hægt væri að nota QR-kóða sem nemendur myndu skanna þegar þeir mættu. Svo sá ég þetta.
Þetta er app sem skráir sjálfkrafa viðveru þína á vinnustað eða skóla. Þú byrjar á að skilgreina staðinn á korti og þegar tækið þitt kemur eða fer af staðnum er það skráð. Svipaða tækni mætti forrita inn í hvern skóla. Kennari gæti t.d. haft forrit opið sem skráir nemendur með bluetooth um leið og þeir koma í kennslustund og minnir kennarann á skilaboð til einstakra nemenda, verkefnaskil eða annað. Kennarinn gæti þar með haft nákvæma skýrslu um mætingar og annað slíkt örfáum sekúndum eftir að kennslustund hefst án þess að eyða augnabliki í það. Eins gætu nemendur móttekið skilaboð frá kennara um kennslustundina um leið og þeir mæta, hópaskiptingar eða annað sem skiptir máli.
Ég taldi upp hér að ofan ástæður þess að skólakerfið situr uppi með úrelta tækni. Enginn skammar skólastjóra eða tölvumann þótt hann endurnýi tölvuver á ódýran hátt. Enginn skólastjóri kemst upp með að innleiða einstaklingsmiðaða fartækni án skamma. Þegar hugleysi er stutt af peningum á djörfungin engan séns.
Eina leiðin til að umbylta einstökum skólum er að sneiða hjá þessum innbyggðu göllum. Það má t.d. gera með því að leyfa einstökum hópum kennara sem hafa í sameiningu utanumhald yfir heila námshópa að stýra þróunarverkefnum. Leita á stuðnings meðal annarra kennara í öðrum skólum sem farið hafa svipaða leið og gera síðan þá kröfu að kennaranir verði þeim sem á eftir koma til stuðnings. Þessum kennurum á að borga vel fyrir að takast verkefnið á hendur. Hver skóli á að eiga rétt á að minnsta kosti einu svona verkefni og sveitarfélög og skólaskrifstofur eiga að taka að sér að miðla stuðningi og matstækjum. Sveitarfélög eiga að hafa samstarf sín á milli.
Kennarar eiga að hafa frelsi til að útfæra verkefnin eftir eigin höfði svo að fjölbreytt reynsla safnist í sameiginlegan sjóð. Háskólarnir eiga að koma að matinu og hafa það sem forgangsverkefni að tengja menntavísindasvið við tölvunarfræði, sálfræði, mannauðsfræði og hver þau fræði sem um málefnið fjalla.
Nemendur og foreldrar eiga að vera virkir þátttakendur í þróunarverkefnum og taka þátt í að leiða verkefni áfram og stýra ferðinni.
Með öðrum orðum, við eigum að nálgast breytingu á skólakerfinu sem samfélagslegt skylduverkefni. Við þurfum að koma ábyrgðinni og valdinu úr höndum stjórnenda og til kennara. Tölvuumsjónarmenn eiga að þjónusta þarfir en ekki stýra innkaupastefnu. Skólar eiga að starfa saman og miðla.
Ísland er lítið land. Það tekur ekki langan tíma að miðla reynslu og upplýsingum. Við gætum á fáum árum safnað gríðarlega mikilvægri reynslu og þekkingu og stórbætt menntakerfið.
Það þarf ekki einu sinni mikið til. Það er nóg af fólki á öllum þessum stöðum sem vill taka þátt í innleiðingunni. Það sem vantar er að þeir sem halda utan um kerfið átti sig á því að valddreifing er nauðsynleg til að hlutirnir fari að gerast.
2 ummæli:
Frábær grein, sú besta sem ég hef lesið um skólamál í seinni tíð. (lesin í snjallsíma, kommentað í snjallsíma).
Vel mælt!
Skrifa ummæli