11. mars 2013
Frá vantrausti til lausnar
Umræður um vantraust voru ægilega niðurdrepandi. Alþingi er svo langt gengið í rugli að þingmenn megna ekki lengur að hylja heiftina, hatrið, vonleysið og ráðaleysið sem einkennir „samstarf“ þessara sextíu og þriggja einstaklinga. Afstaða manna er höggvin í grjót og þegar menn koma í pontu klifa þeir á eintóna málflutningi. Menn nota röksemdir eins og fyllibyttan notar ljósastaurinn, eingöngu til stuðnings en ekki upplýsingar.
Þegar þokunni léttir blasir samt eitt við.
Kosningin í dag sannaði endanlega að meirihlutinn er traustur. Hann er starftækur.
Það er því engin ástæða til að bíða frekar með að afgreiða stjórnarskrána og annað sem bíður afgreiðslu. Minnihluti sem reynir að beita sjaldséðri heimild til að svipta ríkisstjórnina völdum er ekki í neinni aðstöðu til að kvarta þótt sami meirihluti noti aðra sjaldséða heimild til að slökkva málþóf og framlengja starfstíma.
Eina rökrétta afleiðing atburðanna í dag er að klára stjórnarskrármálið og setja það svo í dóm kjósenda. Ef kjósendur velja ekki fulltrúa á næsta þing sem vilja staðfesta nýja stjórnarskrá er ekkert meira um það að segja. Þá verður skránni ýtt til hliðar og hugsanlega hafin vinna að minni endurskoðun á einstaka köflum. Ef kjósendur velja fulltrúa sem styðja nýja stjórnarskrá er málið sjálfleyst. Hvorugur kosturinn er verri en núverandi staða.
Stjórnarskráin er þrátt fyrir allt byggð á dálitlu valdaafsali þingheims til þjóðarinnar. Það var hún sem valdi sér grunngildi. Það voru kjörnir fulltrúar hennar sem smíðuðu um þau búning. Formsatriðum var ekki að öllu leyti fullnægt, það er alveg rétt, og margt fór handaskolum þegar þingið tók málið til meðferðar. Það breytir því þó ekki að málið á miklu frekar heima þar sem þjóðin getur tekið um það ákvörðun en í höndunum á ónýtu Alþingi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli