Athygli vakti að a.m.k. tveir af þeim sem bombaderaðir voru á þennan hátt brugðust við með því að bregða fyrir sig íslensku:
Þetta er enn eitt einkenni þeirra tíma sem við lifum og kalla má upphafsskeið vélrænna þýðinga. Tæknirisinn Google hefur sölsað undir sig svo marga notendur að málheimar alls heimsins eru undir. Af látlausri eindrægni halda þjarkar fyrirtækisins áfram að leita leiða til að þýða eitt tungumál yfir á annað á eldingarhraða. Þótt Ísland sé ansi nálægt stertinum á merinni hefur tungumál okkar fengið það mikla athygli að áhrifin eru orðin greinileg.
Málvísindi hafa eiginlega aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Skilvirkni upplýsingatækninnar hefur komið upp gríðarlegum stafrænum forða. Viðbrigðin frá þeim tíma þegar Þórbergur eða Björn Ólsen ferðuðust um landið og söfnuðu orðum eru ótrúleg.
Hagnýtt tungumálanám hefur heldur aldrei verið mikilvægara. Heimurinn stendur galopinn fyrir fótum okkar. Það hefur aldrei verið auðveldara að ferðast um hann. Öll mannanna samskipti liggja þvers og kruss um hnattkúluna.
Það kemur því mjög á óvart að hefðbundið tungumálanám er í mikilli kreppu.
Sífellt minni aðsókn er í málabrautir framhaldsskólanna. Nú er svo komið að skólar eru farnir að leggja niður málabrautir. Í einhverjum tilfellum tekst þeim að halda í reynslumikla og hæfa kennara með því að auka vægi erlendra mála á öðrum brautum. Henda inn eins og einum þýsku- eða frönskuáfanga í viðbót á viðskiptabraut. Í öðrum tilfellum hverfa góðir tungumálakennarar frá kennslu.
Á síðustu fimmtán árum eða svo hefur hlutfall þeirra sem stunda nám á málabrautum lækkað um helming.
Eflaust eru margar skýringar. Kannski er námsframboð orðið meira. Kannski er það viðbragð við kreppu að sækja í nám í viðskiptum eða tölvunarfræðum. Kannski er það eitthvað allt annað. Hver sem skýringin er þá er alveg ljóst að eitthvað er að gerast – og það hófst ekki árið 2008, það hefur verið í gangi lengi.
Ég vil velta upp pælingu. Pælingu sem ég tel mjög aðgangsharða þeim sem hafa minnsta áhuga á þróun kennsluhátta á tækniöld.
Ég held að það kunni að vera að formlegt tungumálanám sé í kreppu að hluta til vegna þess að það er fyrsta fórnarlamb þess að kennsluhættir úreldast og halda ekki lengur í við tæknina. Að því sögðu held ég að samskonar kreppa sé í fullum gangi í mörgum öðrum fögum, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi. Ég held líka að þessi kreppa sé tærandi og valdi töluverðum skaða á inntaki náms og geti orðið til þess að gæði þess minnka.
Tökum dæmi:
Hér er frétt af kínverskum fréttavef. Að mestu leyti er hún mér algjörlega óskiljanleg. Ég og hlutar kínversku þjóðarinnar deilum þó læsi upp að því marki að ég veit hvernig ég get sent fréttina í tölvupósti, prentað hana út og ég sé að þrír hafa „lækað“ hana og tveir skrifað athugasemd um hana.
Ég vek athygli á gráa borðanum efst á myndinni. Það hefur vafrinn minn greint tungumál vefsíðunnar og spyr mig: „Ég sé að þessi síða er á kínversku, viltu að ég þýði hana fyrir þig?“
Þegar ég þýði fréttina verður þetta niðurstaðan:
The Chiayi Water public toilets He salted headThe public toilets of a temple in Chiayi Water Township, on the evening of 15 found that a woman head, prosecutors and police is being drawn and quartered, lower body unaccounted for autopsies to determine; rare, deposited a layer of salt on the head, does not exclude the sake of preservation pickled corpse, group ad hoc group for investigation.
Read more:世界新聞網-北美華文新聞、華商資訊 - 嘉義水上 公廁赫見鹽醃頭顱
Niðurstaðan er auðvitað afskræmd – en hún ber með sér upplýsingaleiftur á stöku stað. Ég sé að afsagað kvenmannshöfuð hefur fundist í eða við almenningssalerni og að rannsókn málsins er hafin. Eins sé ég að höfuðið hefur verið í einhverskonar saltpækli.
Ef fréttin er lesin til enda kemur í ljós að höfuðið var vafið í plast og með því fylgdu handskrifuð skilaboð.
Nánari leit skilar a.m.k. tveim „enskum“ fréttum um málið – en þær eru eiginlega jafn óskýrar og vélræna þýðingin og það er eiginlega augljóst að þær eru þýddar þannig.
Nú er svo komið að fréttaneysla fjölda manna hefur breyst. Með sæmilegan grunnskilning á ensku getur maður fylgst með atburðum í rauntíma í hvaða málheimi sem er. Þessi afskræmdi bræðingur sem vélþýðingarnar eru hefur raunverulegt notagildi í heiminum. Ef einhver efast um það mæli ég með að sá hinn sami horfi á þetta og hugleiði hversu augljóslega notagildið vegur upp á móti ónákvæmni og göllum:
Berum þetta nú saman við tungumálanám eins og við þekkjum það.
Í hve mörgum skólum ætli börn séu enn að læra utanað sterkar sagnir og dunda sér við eyðufyllingar? Og í hve mörgum skólum ætli kennarinn standi í eilífu stríði við Google Translate og eyði miklum tíma í að reyna að venja börnin af því að grípa til þess í stað „eðlilegra“ þýðinga?
Og upp að hvaða marki skyldi spenna milli kennsluhátta og tækniframfara stuðla að hnignun tungumálanáms á Íslandi?
Ég ítreka að við ættum að lifa blómatíma tungumálanáms. Ef tæknin væri nýtt til fullnustu gætum við ungað út málafólki í löngum bunum. En það er ekki þannig.
Ég ætla að tiltaka eitt dæmi enn.
Rétt fyrir áramót komu fram sterkar vísbendingar um að sjálfsnám í tungumálum með snjalltækjaforritum væri í raun og veru betra en hefðbundið nám á háskólastigi.
Notað var forritið Dualingo (sem er ókeypis). Í ljós kom að það tók notendur frá 26 - 49 klukkutíma (34 að meðaltali) að auka hæfni sína í spænsku þannig að samsvaraði ellefu vikna námskeiði (einni önn) í háskóla. Þeir lærðu hraðast sem ætluðu sér að nota tungumálið. Hægast lærðu þeir sem voru bara að leika sér (meira hér).
Þegar ég sá þessar niðurstöður spurði ég á fésbók unglingastigsins hvort einhverjir væru í sjálfsnámi í erlendum tungumálum. Svörin létu ekki á sér standa og komu bæði frá nemendum sem tóku þátt í iPad verkefninu og hinum. Á nokkrum mínútum gáfu sig fram krakkar sem voru að læra kínversku, japönsku, frönsku, þýsku og kóreisku – oft margir að læra sama málið. Allt án hvatningar eða aðkomu skólans.
Er ekki skrítið að á sama tíma og börn sitja heima hjá sér og læra þýsku í frítíma sínum, þá fækki nemendum á málabrautum?
Ég kasta þessu fram til íhugunar fyrir kennara, sérstaklega tungumála- og móðurmálskennara – en einnig alla hina.
Það er ekki tækur kostur að bíða og sjá hvernig umheimurinn verður eftir nokkur ár eða áratugi og ætla þá að breyta kennsluháttum og innleiða tækni. Það getur hreinlega verið of seint. Íslenskir tungumálakennarar fá ekki kennarastöður – ætla ég að leyfa mér að fullyrða – að hluta til vegna þess að íslenskt tungumálanám er fyrsta fórnarlamb þess sem gerist þegar trú á menntakerfið dvínar. Það eru komnir brestir á fleiri stöðum. Stúdentar í háskólum verða sífellt gagnrýnni á kennsluhætti og -efni. Hið sama gerist í framhaldsskólunum þar sem áhugaleysi nemenda er sumsstaðar orðið viðvarandi vandamál og sú umræða vakir að fara að taka af nemendum tæki til að kennslan gangi smurt.
Ég vara við því. Með því að úthýsa tækninni þá er meira en líklegt að þú úthýsir nemendunum um leið – og síðan sjálfum þér.
Það sorglegast af þessu öllu er að tungumálanám hefur gegnum tíðina eiginlega verið það nám sem viljugast er að tileinka sér nýja tækni. Ég held það hafi bara ekki dugað til.
Sem er skaðlegt. Því þótt vísbendingar séu um að við vissar aðstæður geti sjálfsnám með góðum forritum skilað meiri árangri en kennarastýrð kennsla, þá er alveg ljóst að það er ekki nóg. Vélstrokkuð orðasúpa þjarkanna kemur ekki í stað hins lifandi máls. Við lærum ekki tungumál bara til að geta fundið salernin á framandi slóðum eða ná inntakinu í kínverskum furðufregnum.
Til langs tíma er það verulega skaðlegt að missa fólk úr tungumála- og málvísindanámi.
Það er til lítils að stytta böndin í körfunni undir loftbelgnum ef loftbelgurinn lekur. Það kemst enginn neitt hærra við það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli