Þessi röksemd virðist svo sjálfljós að margir hætta þar með að velta málinu frekar fyrir sér.
Lengi vel trúði ég því sjálfur að þetta væri dýrt. Þar til ég settist niður og reiknaði aðeins.
Ég held að það sé ekki raunhæft að tæki eins og spjaldtölva endist nema í 3 ár í virkri notkun. Ef keypt eru vönduð tæki má fá eitthvað til baka í endursölu – en flest tæki eru þá orðin frekar verðlítil. Ef við lítum á grunnskólann sem heild teldi ég eðlilegt að hver nemandi fengi 3 tæki á tíu ára skólagöngu. Í dag kostar gott tæki um 60 þúsund í innkaupum. Heildarinnkaup fyrir hvern nemanda í slíkjum tækjum næmu þá tæpum 200 þúsund krónum á skólagöngu hans.
Í Reykjavík kostar hver nemandi rúmlega 1100 þúsund á ári. Það gera 11 milljónir á tíu árum. Kostnaður við snjalltækjavæðingu nema 1,8% af þeirri tölu. Það er ekki neitt.
Raunar myndi allsherjar 1:1 væðing alls grunnskólakerfisins kosta til lengri tíma litið minna en sveitarfélögin kosta til við að framlengja kjarasamning kennara í eitt ár til viðbótar með 4% launahækkun á línuna.
Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hvort maður hugsar sér að tæknivæðing skólakerfisins bættist á sem viðbótarkostnaður eða væri afleiðing hagræðingar – hlutfallslegur kostnaður er svo hverfandi.
Hér á eftir að taka til greina allan mögulegan sparnað. Bóka- og pappírskaup dragast saman, sem og prentun og ljósritun. Foreldrar einir spara ekki minna en 45 - 60 þúsund í innkaup á því þriggja ára tímabili sem ætla má að tækið endist. Skólar gætu auðveldlega lagt til ritföng og föndurefni í auknum mæli án þess að kosta meiru til vegna minni pappírsausturs.
Í raun má ætla að raunkostnaður við 1:1 innleiðingu sé nokkuð sambærilegur við raunkostnað foreldra í námsgagnakaupum.
Við skólafólk verðum að vera heiðarlegt og horfast í augu við ýmsar forsendur sem hafa veruleg áhrif á menntakerfið okkar. Sveitarfélögin þurfa að líta í eigin barm og viðurkenna að skammsýni og samningsharka hafa leitt til raðar mistaka sem í dag eru dýru verði keypt. Þessi mynd sýnir svo ekki verður um villst að það er veruleg skekkja í kyn- og aldursdreifingu kennara:
Aldurspíramídi grunnskólakennara |
Það blasir við að hér er eitthvað verulega mikið að. Nýliðun er ekki eðlileg. Kynjahlutföll eru það ekki heldur.
Þetta ástand er til komið vegna þess að sveitarfélögin hafa rekið ranga starfsmannastefnu í grunnskólanum. Þau hafa reynt að komast upp með að borga eins lág laun og hægt er – og hafa aðeins hugsað um að „manna“ skólana – en ekki að gera þá að eftirsóknarverðum og aðlaðandi vinnustöðum. Meðal þess sem sveitarfélög hafa til kostað í þeim tilgangi að halda launum lágum eru aldurstengd réttindi, bæði lífeyrisréttindi sem erfðust frá ríkinu sem rak skólana áður – en einnig kennsluafsláttur. Kennarar sem náð hafa 55 ára aldri kenna færri tíma en aðrir. Kennarar yfir 60 kenna töluvert færri tíma.
Ef allir kennarar nýttu kennsluafsláttinn (sem væri ódýrasta leið sveitarfélaganna til að fást við þessi réttindi) þá þyrfti að ráða rúmlega 200 kennara bara til að fylla upp í þá kennslu sem afslátturinn nær yfir. Það jafnast á við það að allir karlkennarar frá 45 - 55 ára vinni við það eitt að fylla upp í kennslu fyrir þá sem eru á afslætti.
Hér er ég ekki einu sinni farinn að ræða þá staðreynd að eldri kennarar eru líka dýrari en yngri í hreinum mánaðarlaunum.
Sveitarfélögin hafa smám saman komið sér í þá aðstöðu að reka kerfi sem er dýrt, óskilvirkt og óhagkvæmt. Nú á að reyna að vinda ofan af því, og það er ekki mikið leyndarmál að kjarataktík sveitarfélaga nú er að reyna að dulbúa selflutninga á peningum sem launahækkanir. Reyna á að losna við allar þessar dýru girðingar innan kerfis, auka skilvirkni og hækka dagvinnulaun kennara – án þess að kosta meiru til.
Vandinn er að eina fólki sem virkilega er spennt fyrir slíkri uppstokkun er ekki að vinna í kerfinu núna. Það hafnaði að gera kennslu að ævistarfi og fann sér aðra vinnu. Kerfið nú er byggt upp af fólki sem hefur áunnið sér dýr réttindi og enn fleira fólki sem er rétt við það að fá sama rétt. Hví skyldi það fólk núna alltíeinu ákveða að gefa skít í þann rétt sem áratuga starf á lélegum launum hefur áunnið?
Sveitarfélögin bjuggu til þetta klúður sjálf. Þau létu harðsvíraða excel-tappa semja við kennara eins og þeir væru að semja við mannræningja. Kennaraverkföll hafa skollið á að meðaltali á fimm ára fresti síðustu fjóra áratugi. Kennarar eru eina stéttin á Íslandi sem hefur farið í verkfall á þessari öld. Verkföll kennara hafa einnig lengst eftir því sem áratugunum hefur undið fram.
Það sem ég er að benda á er þetta: Skólakerfið á Íslandi er dýrt miðað við árangur og laun. Laun kennara eru lág, m.a. vegna þess að þeir eru í raun alltof margir. Þetta dýra, óhagkvæma kerfi er afleiðing af djúpstæðum samskiptavanda og skammsýni sem einkennt hefur samskipti kennara við vinnuveitendur sína – bæði ríki og sveitarfélög. Samskipti þessar aðila hafa einkennst af hörku og nauðung á báða bóga. Nú er svo komið að búið er að eyðileggja nýliðun í kennarastétt og áhugi karla á starfinu dvínar jafnt og þétt þrátt fyrir að hafa ekki verið sérlega beisinn til að byrja með.
Þrátt fyrir þetta allt er alveg ljóst að sú umbylting kennsluhátta sem felst í 1:1 snjalltækni (sem er lang eðlilegasta skólaþróunarleiðin sem stendur til boða) getur á engan hátt talist mjög dýr. Jafnvel algjör tæknibylting (sem fæsta órar fyrir) myndi auka kostnað við kerfið um minna en 2%. Þá er ótalinn sparnaður sem kemur á móti.
Kostnaður er ekki hin raunverulega fyrirstaða breyttra kennsluhátta. Tæknilegar hömlur eru það ekki heldur.
Hin raunverulega fyrirstaða er hin króníska og landlæga skammsýni – sem hefur verið ástunduð af kaþólskri eljusemi og hefur nú loks komið því til leiðar að grunnskólinn er að mestu steinrunnið bákn þar sem hver hangir á sínum hagsmunum eins og hundur á roði.
Ég get því ekki nógsamlega endurtekið nógu oft það sem ég hef áður sagt, og segi enn:
Leiðin framávið er að færa valdið til kennaranna. Fela þeim að þróa notkun upplýsingatækni í námi. Láta þá hafa samstarf. Efla vald þeirra og gerast samherjar þeirra en ekki andstæðingar.
Aðeins þannig mun komast hreyfing á kerfið. Breyttir kennsluhættir munu kalla á breyttar starfsaðstæður og í framhaldinu aukna hagræðingu.
Síðan á að setja í algjöran forgang að nýliðun eigi sér stað.
Sveitarfélögin verða að sætta sig við það að fólkið sem mun vinna sig burt úr kerfinu á næsta áratug eða svo mun ekki gefa eftir réttindi sín til að hækka laun þeirra sem eru að byrja nýir.
Sveitarfélögin verða að sætta sig við það að fólkið sem mun vinna sig burt úr kerfinu á næsta áratug eða svo mun ekki gefa eftir réttindi sín til að hækka laun þeirra sem eru að byrja nýir.
3 ummæli:
Bara forvitnis spurning um þá staðhæfingu að kennarar eru of margir. Hver eru rökin fyrir því?
T.d. bara það að ef aldurshlutföll í stéttinni hefðu haldist eins og þau voru 1998 t.d. þá væru um 120 færri kennarar að störfum miðað við sama magn kennslu og nú er.
Það jafngildir öllum karlkennurum á mínum aldri t.d.
Það er nokkuð svakalegt (ég veit að þetta er ekki aðal-fókus greinarinnar) en samt forvitnilegt afhverju þessi þróun hefur átt sér stað.
Sjálfur er ég að kenna í FÁ og er að mörgu leyti tæknifatlaður, hræddur við tæknina/hræddur við hið óþekkta. Finnst mér þó sjá að eitthvað væri hægt að gera með spjaldtölvuvæðingu, viðsnúning kennsluformsins. En sé á sama tíma árekstur eigin hugmynd bæði við rammann sem mér er markaður í formi stundatöflu og tækniskort.
Skrifa ummæli