7. febrúar 2013

Þriggja ára þroskapróf og önnur bjánaleg tölfræði

Manneskja er heila ævi að mótast. Sú ranghugmynd hefur vaðið uppi að menntun sé eitthvað sem tilheyri fyrstu áratugum lífsins og síðan þurfi ekki að hugsa frekar um hana. Raunveruleg menntun gerir tvennt, hún gefur manni veganesti fyrir leiðina framundan og gerir mann sjálfbjarga við frekara nám. Því miður er ofuráhersla á hið fyrra. Við kennarar höfum tilhneigingu til að ofmata nemendur á efni og leyfum þeim ekki að þjálfa hæfni við að mata sig sjálfir. Það er afar slæmt.

Mötunaráherslunni fylgir önnur ekki síður skaðleg. Það er afgreiðsluáherslan. Það er ekki látið nægja að  allir nemi það sama, þeir þurfa líka að gera það á ákveðnum tímum. Lítið sem ekkert tillit er tekið til þess að þroski og nám er hvorttveggja fjölbreytt ferli sem tekur tíma.

Þessar stúlkur eru báðar í sjöunda bekk
Afleiðing af afgreiðsluáherslunni er stöðugt „mat.“ Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hefur menntakerfið (og að sumu leyti heilbrigðiskerfið líka) talið eðlilegt og æskilegt að börn (og foreldrar þeirra) alist upp við það að vera sífellt minnt á það í hverju þeim er áfátt. Það gengur svo langt að það er júniversalt samþykkt að afrakstur formlegs náms sé metinn sem hlutfall þess sem vantar upp á.

Tölfræðilegt mat er afar gagnlegt á sumum sviðum. Stórt framfaraskref hefur verið tekið þar sem markvissum mælingum er beitt til að finna alvarleg frávik áður en ýmis næmiskeið hafa runnið á enda. Þannig er t.d. hægt að minnka áhrif ýmissa fatlana. Markviss, fagleg og einstaklingsmiðuð þjálfun getur umbylt lífi fólks sem áður fyrr var dæmt til að fara halloka.

Vandinn við svona tölfræði er að hún er ofnotuð og misskilin. Auk þess sem oft vantar upp á að hún sé nógu vönduð.

Ég hef á tveim dögum haft fréttir úr tveim óskyldum áttum af megnri óánægju foreldra með stöðluð þroskapróf fyrir þriggja ára börn. Í fyrra tilfellinu hvatti „prófdómarinn“ foreldrana til að leita til sérfræðings með barnið því eitthvað væri augljóslega að. Barnið hafði í þessu tilfelli viljað sem minnst við þessa ókunnugu manneskju tala. Það hafði þó leyst þær þrautir sem fyrir það var lagt og svarað flestum spurningunum. Foreldrarnir sjálfir höfðu undrast hve klínísk og köld manneskjan var sem lagði fyrir prófið. Það var ekkert hvetjandi eða hlýlegt við móttökurnar. Þegar barnið hafði byggt 12 kubba háa stæðu á svo stuttum tíma að foreldrarnir stóðu í forundran leit það sigri hrósandi í kringum sig. Mamma og pabbi brostu, ókunnuga manneskjan hakaði við á blað án þess að stökkva bros og skellti barninu í næsta próf. Þegar prófinu lauk voru enn reitir á blaðinu sem ekki var búið að haka við. Það vildi prófarinn að yrði rannsakað betur og gaf ekkert fyrir þær skýringar foreldranna að þessi atriði væru eitthvað sem barnið færi létt með bæði heima og í leikskólanum.


Í gær sá ég svo móður tala um það að barnið hennar hefði fengið „mínusstig“ á sama prófi fyrir að halda að barnið með gulu húfuna á myndinni hér að ofan væri stelpa. Og einnig fyrir að segja að barnið í rauðu peysunni væri „stærst“.

Látum vera þótt þessi próf byggi á gamaldags kynjahugmyndum sem í mörgu stangast á við veruleika barna í dag. Hið alvarlega í málinu er þessi upplifun foreldra þriggja ára barna að verið sé að leita að veikleikum þeirra.

Skimunarpróf hjálpa þeim börnum sem mælast verulega langt frá öðrum börnum á tilteknum sviðum þar sem markvissar aðgerðir geta hjálpað. Fyrir allan þorra barna er fullkomlega eðlilegt að sumt komi snemma og annað seint. Það er líka fullkomlega eðlilegt að sum börn séu öðruvísi en flest önnur. Sumir hafa mikla hreyfiþörf og eiga erfitt með að sitja kyrrir, aðrir eru inni í sér og vantreysta ókunnugum. Enn aðrir er opnir og finnst gaman að gera prófdómurum til geðs. Það er ekki nokkur einasta ástæða til að „staðla“ þriggja ára börn – frekar en önnur börn.

Vandinn er kerfislægur. Prófið sem myndin er úr hér að ofan hefur „sannað“ gildi sitt því mælst hefur fylgni (rúmlega 0,4) á milli þess og niðurstöðu á samræmdu prófi í fjórða bekk. Það er síðan sterk fylgni á milli niðurstöðu á samræmdu prófi í fjórða bekk og þeim tveim samræmdu prófum sem tekin eru í 7. og 10. bekk.

Staðan er því sú að þegar barn er þriggja ára gamalt fá foreldrarnir að vita hvort það sé „slakt“, það er síðan staðfest þrisvar sinnum aftur áður en barnið verður 17 ára gamalt og það fær sjálft að vita nákvæmlega hve margir „jafnaldrar“ eru betri en það. Aðrir foreldrar fá að vita að barnið sé „bráðgert“ með sömu staðfestingum og fyrr.

Í tilfelli langflestra barna eru þetta upplýsingar sem skipta ekki nokkru máli. Börn sem fá háa útkomu á þriggja ára þroskaprófi og samræmdum prófum eru ekki í neinu mikilsverðu tilliti merkilegri eða betri en börn sem fá aðra útkomu. Í tilfelli sumra barna eru upplýsingarnar gagnlegar því annars færu þau á mis við nauðsynlega hjálp en þau börn eru afar fá og réttlæta ekki þá áherslu sem er á kerfisbundnum hundraðstölumælingum á þjóðinni allri.


Það er eitthvað brogað við þessa samanburðartölfræði alla. Barn er ekki fyrr fætt en aðstandendur þess og staðkunnugir vilja fá að vita lengd þess og þyngd. Það kann að hafa verið eitthvað sem skipti verulegu máli þegar barnadauði var landlægur en skiptir ekki nokkru einasta máli í dag. Síðan vilja menn vita nákvæmlega hvenær barnið byrjar að skríða, ganga, tala og pissa í kopp. Þá kemur þriggja ára skoðunin og þar fær barnið einkunn. Þremur árum seinna hefst áratugur hins eilífa samanburðar þar sem enn á ný er fest í sessi sú alvarlega ranghugmynd að það þurfi að mæla það sem upp á vantar í einu og öllu sem barnið tekur sér fyrir hendur.

Út úr þessu ferli öllu kemur manneskja sem er svo rækilega skilyrt að þegar hún eignast barn þá hlakkar í heinni yfir hverri mörk sem barnið vegur og hverjum sentimetra sem það teygir sig – og sem finnst barnið hafa brugðist örlítið þegar það brýtur niður kubbaturninn á tíunda kubbi í þriggja ára þroskaprófinu.

Allt vinnur þetta að þeirri niðurstöðu að við höfum búið til heim þar sem nám er lagt að jöfnu við tölfræðilegan árangur. Í verstu tilfellunum verður þetta til þess að fólk tileinkar sér viðhorfið að allt yfir fimm sé óþarfa vesen. Í næst verstu tilfellunum verður þetta til þess að menn halda að á bak við níur og tíur standi ævinlega markvert nám. Hvorttveggja er rangt og raunar til marks um skaðlegan misskilning á því hvað nám er. 

Skaðsemi þessarar áherslu er gríðarleg. Ekki síst vegna þess að smám saman er neikvæð sjálfsmynd neydd upp á fjöldann allan af börnum sem nákvæmlega ekkert er að. Verra veganesti er ekki til. 

Engin ummæli: