9. febrúar 2013

Arfleifð Jóhönnu í ljósi næstu skrefa Árna Páls

Jóhanna Sigurðardóttir tók, án þess að vera sérstaklega áfjáð í það, við landsstjórninni ásamt Steingrími J á gríðarlegum umbrotatímum. Traust almennings á stjórnvöldum og raunar innviðum íslensks samfélags var nær ekkert og leifarnar af því voru settar á þá tvo stjórnmálamenn sem mest höfðu verið áberandi í gagnrýni á þau öfl sem keyrt höfðu landið í duftið. Aðeins annað þeirra sóttist eftir þessum völdum. Jóhanna var dregin fram á sviðið af taktískum ástæðum fyrir Samfylkinguna. Sjálf hefði hún kosið að eyða tíma sínum í annað. Steingrímur, aftur á móti, gat ekki beðið – enda varð þessi munur á áhuga og ákefð mjög fljótt áberandi í því hvernig þau stóðu að landsstjórninni.



Margt reyndist athugavert við stjórn þeirra hjúa næstu misserin, misalvarlegt eins og gengur. Margt er þegar fyrirgefið. Eitt er þó erfitt að fyrirgefa – þótt það sé í raun frekar auðvelt að skilja. Samanlögð þingseta þeirra telur á þessu ári sextíu og fimm ár (sem líka vill til að er meðalaldur þeirra). Það var ekki við öðru að búast en að slímseta þeirra við Austurvöll áratugum saman hefði haft einhverjar óafturkræfar afleiðingar. Nefnilega: að þau væru orðin samdauna þinghefðinni.

Kjarni vanda íslenskra stjórnmála er ekki það hvað hefur verið gert, heldur hvernig. Ég ætla ekki að þreyta neinn á nákvæmri lýsingu á því hver birtingarmynd vandans er. Hana þekkja allir. Hér hefur verið starfrækt nánast frá upphafi hreinræktað klíku- og kúgunarveldi þar sem farið er með völd af nærri fullkominni fyrirlitningu fyrir þeim skilmálum sem völdunum fylgja. Það öryggi sem felast á í brjóst- og hyggjuviti sextíu og þriggja venjulegra Íslendinga er gert að engu með markvissri eyðileggingu þess eiðstafs sem afmarka á störf þingmanna. Margföldunaráhrif skynsamra manna og kvenna snúast upp í andhverfu sína og verða að múgveldi meirihlutans.



Jóhanna og Steingrímur hafa því miður hagað sér nærri því nákvæmlega eins og samstarfsmenn þeirra áratugum saman. Í sumum tilfellum jafnvel verr. Ráðherrar í ríkisstjórn þeirra eru ekki valdir vegna þess að þeir eru þekktir af sömu gjörvilegu eiginleikum og þau, sjálfstæði, kjarki og hvatvísi til orðs og æðis. Nær allir ráðherrar valdatíma þeirra eru varfærnismenn og málamiðlarar, ófúsir til óláta og átaka. Mér liggur við að segja hlýðnir og þægir. Þær fáu undantekingar sem þar eru á hafa leitt til hjaðningavíga.

Það fór mikilvægt tækifæri forgörðum þegar sett var yfir hvert ráðuneytið á fætur öðru átakafælinn sáttasemjari við úrvinnslu hrunsins. Bankana hefur t.d. vantað allt viðnám við endurreisnina og eru nú komnir í næstum nákvæmlega sömu valdastöðu og fyrr. Stórnmálaforingi sem velur sér samstarfsfólk með tilliti til auðsveipni þarf að gera sér grein fyrir því að fleiri geta gert sér mat úr þeirri lyndiseinkunn en hann hefði kannski órað fyrir.



Í þinginu hefur ríkt hörmungarástand nær allan valdatíma Jóhönnu. Hún hefur verið ósveigjanleg og harðákveðin í að koma málum í gegn og beitt til þess því sama valdi og Davíð Oddsson elskaði af svo skáldlegum móð að hann fann enga betri bók til að lýsa því en Góða dátann Svejk – sem er stórkostlegasta lýsing á því valdabrölti sem ætíð fylgir hinum ósiðuðu samfélögum. „Agi verður að vera í herbúðunum“ sagði Davíð og glotti og fannst flott hjá sér að mæla í einlægni eitthvað sem Svejk mælti til að sannfæra samferðamennina um að hann væri reglulegur, vottaður blábjáni.

Jóhanna fer því miður af sviði stjórnmálanna með falleinkunn fyrir stjórnspeki og -kænsku.

Þar er þó ekki öll sagan sögð.

Það er grundvallarmunur á Jóhönnu og flestum forverum hennar í starfi. Sá munur ómar í öllum hennar athöfnum, allt frá því hún tók að sér að stýra Samfylkingunni gegnum mykjuhauginn sem Ingibjörg Sólrún skildi eftir. Jóhanna sóttist ekki eftir þessum völdum og hún hefur ekki haft það að lífsmarkmiði að viðhalda þeim. Í einu máli reyndi Jóhanna að flytja völd aftur til þjóðarinnar. Það er henni mikið kappsmál að þjóðin sameinist um nýjar leikreglur sem geti orðið leiðarvísir að bættu samfélagi.

Það er dálítið sorglegt að Jóhanna skyldi ekki reyna að verða fyrirmynd betri stjórnhátta í störfum sínum. Það er nefnilega ekki allt unnið með nýrri stjórnarskrá. Þú getur bætt boðorðin tíu í nýjum Biblíuþýðingum – hlýðnin eykst ekkert við það.



Árni Páll virðist ætla að sneiða hjá stærstu göllum Jóhönnu og Steingríms. Hann ætlar í alvöru að tala við fólk og reyna samvinnu og samstarf. Hann virðist jafnvel ætla að byggja trúnaðarsamband við þá sem Jóhanna leit á sem svarna, óferjandi óvini. Því hljóta allir að fagna.

En Árni Páll verður að átta sig á því að stjórnarskrármálið er ekki rétta málið til að mölva niður í brúarbyggingarefni milli stríðandi fylkinga. Stjórnarskrármálið hefur farið, brokkgengt að vísu, þá leið að krafa þjóðarinnar er alveg skýr. Á hverju stigi málsins hefur venjulegt fólk verið kvatt til og gert sitt allra besta til að semja nýjan sáttmála utan um samfélagið. Nýjar leikreglur. Nýtt upphaf.

Það er hlutverk Árna Páls og þingsins að sýna dálitla auðmýkt og reyna að finna hjá sjálfum sér þann styrk og þá reisn að veita vilja fólksins brautargengi. Það má ekki mölva málið niður og hræra í því í þeim beiska potti sem bruggar plott Alþingis.

Það mun ekki taka Árna Pál langan tíma að sjá að tryggðarbönd inni á Austurvelli á milli forystuhana flokkanna er ekki það forgangsmál sem þjóðin þarfnast. Það er bara hin hliðin á þeim ljóta peningi sem snúið hefur upp síðustu misseri. Samtryggingarhrossakaup eru engu skárri en fjandskapur og stríðsæsing.



Árni á að leggja rottuflautu Jóhönnu og segja einfaldlega að hver Samfylkingarþingmaður skuli ganga til málsins eins og hann vill, aðrir flokkar ráði sér sjálfir. Ef málið fellur, þá bara fellur það. Ef ekki, þá ekki. Það veitir þó þjóðinni það tækifæri að sjá hver er hvar áður en hún gengur til kjörklefanna í vor.

Einhverjum finnst nýja stjórnarskráin vond. Það verður að virða það við þá. Fjölmörgum þykir hún góð. Hún er ekki fullkomin, ekki frekar en þjóðin – en hitt get ég fullyrt, hafandi fylgst náið með tilurð hennar og þjóðmálum, hún hefur að öllu leyti yfirburði yfir það sem átt hefur sér stað í þinghúsinu síðustu misseri og ekkert mál á skilið meira fylgi þar inni en einmitt þetta.

Þeir sem kvíða því mest að stjórnarskráin verði afgreidd eru í augnablikinu Framsóknarmenn. Þeir eru í essinu sínu núna eftir að hafa verið réttu megin í Icesave og ætla að sigla á þeirri öldu inn í kosningabaráttu sem snýst um bjartsýni, jákvæðni og lausnir (það er t.d. alveg þess virði að hlusta á sumt af því sem þeir hafa um bankamál að segja). Það væri ægilegt stílbrot að vera neyddir aftur í málþóf og tuð í þinginu án þess að eiga neinn tregðuhljómgrunn hjá þjóðinni.




Klárist stjórnarskrármálið fyrir kosningar er það aðeins fyrri hlutinn. Í dag er staðan þannig að það er næstum útilokað annað en að Bjarni Ben verði forsætisráðherra. Fótgönguliðar hans hafa svo gott sem lýst því yfir að þeirra fyrsta verk verði að koma nýrri stjórnarskrá fyrir kattarnef. Það verður fróðlegt að sjá hvernig sú líflátshótun rekst sem kosningamál og hvort hún eykur fylgi Sjalla eða minnkar.

Staðan núna er einföld. Árni Páll er að reyna að gera hlutina aðeins betur en Jóhanna. Það er háttvísi og það er gott. Vandi hans er að stjórnarskrármálið er ekki til hans komið eftir sömu spilltu pípunum og flest þingmálin. Það er ekki samið af vatnsgreiddum lagaklæki á launum hjá hagsmunaaðila. Það er samið af fulltrúum almennings til að súmmera upp bestu mögulegu mynd sem þjóðin hefur af sjálfri sér.

Vilji Árni Páll vera klókur án þess að saurga samband sitt við þjóðina þá klárar hann stjórnarskrána. Hann má svo gjarnan setjast niður með Bjarna Ben og ræða við hann um kvótamál. Þar má enn ná sameiginlegum leiðum sem miða að sátt og réttlæti. Þar er engin ástæða til að standa stirður sem tréhestur og kljúfa skildi.

Takist að landa stjórnarskránni þá verður arfleifð Jóhönnu sú að hún var barn síns tíma en fyrsti forsætisráðherrann sem hvorki sóttist eftir völdum sínum né vann að því að viðhalda þeim, þvert á móti gerði hún tilraun til að afhenda þjóðinni þessi völd þar sem það skipti mestu máli.

Engin ummæli: