1. febrúar 2013

Áunnið ónæmi fyrir rökum



Skyldi það hafa gerst í sal Alþingis einhverntíma á síðustu áratugum að þingmaður hafi flutt ræðu sem fékk þingmann andstöðunnar til að skipta um skoðun í einhverju mikilvægu máli? Ekki oft. Enda virðast „samræður“ á þingfundum ekki ná því að vera það sem kalla má rökræður. Þær ná því varla að vera samtal.

Það er eðlilegt á óvissutímum að fólk þurfi að takast á við flókin mál. Þau hafa verið nokkur síðustu misserin og nú vofa yfir okkur tvö tröllvaxin. Stjórnarskrár- og kvótamálið (ég er raunar næstum sannfærður um að kvótamálið er sett inn í þingið án þess að eiga að afgreiðast í alvöru, tilgangurinn er að hafa eitthvað til að semja um að frysta svo stjórnarskráin sleppi í gegn – og fá um leið mál sem hangir óafgreitt milli kosninga svo hægt sé að reita fylgi af Sjálfstæðisflokknum með kvótakerfisandstöðu).

Vandinn er að við höfum sem samræðusamfélag aldrei lært alminlega að ræða saman, hvað þá rökræða. Rökræða er rannsókn. Hún skilar ekki alltaf augljósum niðurstöðum. Það sem hún gerir er að skilja hismið frá kjarnanum og fella burt ónýtið í samtalinu. Þá einangrar hún umræðuefnið við það markverðasta. Í stað rökræðu stunda Íslendingar það sem kalla má skoðanaskipti.



Skoðanaskipti eru einþykk samræða þar sem aðilar máls halda á lofti sínum skoðunum án þess að leggja þær í sameiginlegt púkk þar sem þær eru ígrundaðar og rannsakaðar. Í stað þess að menn safnist saman undir sameiginlegum spurningarmerkjum hópast hver undir sitt upphrópunarmerki. Svona umræður skila engu. Þær eru einfaldlega ein tegund af átökum.

Samfélag átakaumræðu tapar hæfninni til að fást við álitamál. Í stað eðlilegrar, náttúrulegrar rýni kemur krafan um „úrskurðaraðila.“ Fyrsta einkenni þess að samfélag sé að hnikast í þessa átt er að greinendur, t.d. fjölmiðlamenn, verða háðir því að bera öll mál, stór og smá, undir svokallaða „sérfræðinga.“ Hér á landi var það sérlega áberandi fyrir hrun þegar starfsmenn svokallaðra „greiningardeilda“ voru endalaust í fjölmiðlum að spá einhverju öðru en hruninu. Í dag eru þeir byrjaðir að birtast aftur á skjánum eftir að stjórnmálafræðingar hafa átt sviðið í nokkur misseri. Við erum svo háð þessum sérfræðingum að þorri manna sér ekki hversu kjánalegt þetta er orðið. Þegar Icesavemálið vannst lagði stjórnmálfræðingur það til málanna að Steingrímur Joð væri „ekki maður dagsins.“ Ef það er norðanhret með frosti og kulda er haft samband við veðurfræðinga sem segja að það sé gott að klæða sig vel og fara í úlpu. Þegar flensan gengur fá metnaðarfullir blaðamenn sóttvarnalækni til að segja fólki að drekka mikið vatn og þvo á sér hendurnar reglulega.



Þessu fylgir síðan sú tilhneiging að þola öðrum en „sérfræðingum“ ekki að tjá sig um nokkur mál. Og svo sannarlega ekki blaðamönnum. Allar tilraunir blaðamanna til greininga eru dæmdar sem annarlegar tilraunir til að ota einhverjum tota. Í hugum of margra eru blaðamenn ekki gagnrýnið, íhugult þjóðmálaafl sem tekur mál til rannsóknar. Þeir eru fundarstjórar skoðanaskiptanna og eiga aðeins að sjá til þess að allir komist að. Blaðamenn sem reyna að greina mál og leggja greiningar sínar fram til umræðunnar eru ofsóttir. Ef Egill Helgason bloggar eitthvað sem mögulega má skilja sem örlítinn hlýhug gagnvart ESB mæta hælbítarnir í kommentakerfinu og öskra að enn og aftur sé Egill, ástmögur ESB, að reyna að „heilaþvo“ landann með áróðri fyrir sambandinu. Sömu aðilar taka svo ekki eftir því þótt Egill skrifi gagnrýnið um sömu mál. En þá vakna hinir.



Þannig er þrýstingur á blaðamenn að vera ekki það sem þeir þurfa nauðsynlega að vera í opnu umræðusamfélagi. Þeir fá ekki að greina, þeir mega aðeins greina frá.

Líkblettir umræðusamfélagsins koma síðan fram þegar heilbrigð, eðlileg umræða er næstum dauð. Þá hverfur hæfni fólks til að gera upp á milli skoðana með öllu. Öll rökvísi er úr sögunni. Í stað hennar kemur krafa um absolút úrskurði allra mála. Réttmæti málstaðar er ekki til fyrr en hann hefur fengið stimpil til staðfestingar því. Um leið verður til samfélag, sem við héldum fyrir nokkrum árum að væri bara til í BNA, sem kann ekki að fást við nein álitamál eða átök án þess að vísa megninu af því til dómstóla.

Í þessum anda komast sum fjármögnunarfyrirtæki upp með að gera sér upp næstum sókratískan efa um allt sem lýtur að ólöglegum lánum. Það skiptir engu máli hversu augljóst það er að þau skulda viðskiptavinum sínum, viðbrögð þeirra eru að ýkja og skrumskæla alla óvissu til að komast hjá því að láta spón úr aski sínum. Þau krefjast úrskurðar fyrir dómstólum og eru í raun ekki til umræðu um málið. Þar til dómstóll segir annað halda þau á lofti þeirri skoðun að þau skuldi engum neitt. Falli dómur síðan gegn þeim (eins og gerist gjarna) halda þau því fram að skoðunin hafi samt sem áður verið fyllilega réttmæt og fara síðan í þann ham að reyna að gera fordæmisgildi dómsins að engu. Það liggur við að þau reyni að fullyrða að dómur um lán á rauðum bíl eigi ekki við um silfraða – eða að lán sem kona tók eigi ekki við um karla.



Við sjáum þetta sama gerast nú í stjórnarskrármálinu. Það er átakanlegt að horfa á þingmenn „ræða“ málið. Í gær fór (efnislega) þessu samræða fram:

Þingmaður 1: „Enginn veit hvaða afleiðingar verða af nýju stjórnarskránni, verði hún samþykkt. Við erum að tala um óvissuferð.“

Þingmaður 2: „Stjórnarskrám hefur áður verið breytt. Þá gátu menn heldur ekki séð afleiðingarnar fyrir. Þannig er það bara.“

Þingmaður 1: „Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrám. Ef þið samþykkið reglur um að ekki sé hægt að breyta stjórnarskrá án þess að minn flokkur samþykki hana, þá erum við að tala saman.“

Í þinginu fer ekki fram nein rökræða. Þar fara fram skoðanaskipti. Menn skiptast á fullyrðingum. Þar er úrskurðaraðilinn atkvæðagreiðslan í lokin. Þegar hún fer fram halda þeim sem „vinna“ atkvæðagreiðsluna að þar með sé búið að gæðastimpla allan málflutninginn og allar þingræðurnar. Þeir hafi haft rétt fyrir sér. Hinir töpuðu og þeirra málflutningur skptir ekki lengur máli. Það kemst varla fyrir í hugarheimi þingmanns að hann geti unnið atkvæðagreiðslu á þingi en samt haft rangt fyrir sér.

Loks sáum við þetta afar skýrt í Icesavemálinu. Þar heldur þorri þeirra sem vildu segja nei að sýknudómurinn um daginn hafi „sannað“ að þeir höfðu rétt fyrir sér allan tímann og hinir rangt. Þeir sem voru í jáliðinu bregðast við með uppgerðarónæmi í ætt við það sem fjármögnunarfyrirtækin gera. Segja að þeirra skoðun hafi barasta víst verið fyllilega eðlileg og rétt. Þeir harðsnúnustu hika ekki við að líkja málinu við happdrætti. Það sé í grundvallaratriðum enginn munur á þeim sem kaupir tapmiða og vinningsmiða annar en heppni.



Báðir þessir hópar hafa rangt fyrir sér. Dómurinn sannar ekki að allir sem sögðu nei hafi gert það á réttum, hvað þá ígrunduðum, forsendum. Fjöldinn allur sagði nei við Icesave út af einfeldningslegri þjóðrembu og afneitun á því hve málið var flókið í raun. En málið var svo sannarlega ekkert happdrætti. Í því voru mjög góð og gild rök. Það var raunar stórkostlegt tækifæri fyrir þjóðina á tvennan hátt. Í fyrsta lagi gaf það tilefni til beins lýðræðis. Í öðru lagi gaf það tilefni til málefnalegrar rökræðu. Því miður halda margir að á báðum þessum vígstöðvum hafi málið verið sigur. Svo var ekki. Það var vissulega sigur fyrir beint lýðræði. En beint lýðræði án upplýstrar umræðu er harla ómerkilegt. Eiginlega bara hættulegt. Þó verður að geta þess að hópar eins og InDefense og Advice voru afar málefnalegir. Það hefði verið óskandi að álíka vinnubrögð hefðu verið tekin upp hjá apparati sem ekki var að berjast fyrir einni tiltekinni afstöðu, heldur vönduðum skoðanaskiptum.

Við höfum þróað með okkur áunnið ónæmi fyrir rökum og góðri umræðu. Því miður hefur það ágerst síðustu misseri. Afleiðingin er fyrirsjáanleg. Við höfum séð það sama gerast hjá öðrum þjóðum. Við stefnum í að verða eins og BNA. Þar sem helmingur þjóðarinnar er svo dofinn að hann skiptir sér ekki einu sinni af þjóðmálum. Hinn helmingurinn er ýmist hálfvolgur eða sjóðbullandi heitur í einstrengingslegri afstöðu með eða á móti tilteknum málum. Enginn tekur nokkru tali, allir eru of uppteknir við að skrúbba á sér skynfærinn með hinni einu sönnu afstöðu. Örfáir „sérfræðingar“ reyna að halda á lofti skynsamlegum greiningum en mega sín lítils gegn gjallarhornum hagsmunagæsluhundanna. Völdin falla þeim í skaut sem frekastir eru til þeirra.



Þetta er ömurleg framtíðarsýn. Þetta þarf ekki að gerast. En til að sporna við þessu þarf markvisst átak. Við þurfum að ala næstu kynslóð betur upp en þá síðustu. Og við þurfum að hætta að daðra við sjúkdómseinkenni heimskunnar og hefja okkur sjálf upp á örlítið hærra plan.

Fyrst og fremst þurfum við að hætta að ofnota upphrópunarmerki og bæta við spurningarmerkjum! Er það ekki?

6 ummæli:

Matti sagði...

Tekur þú rökum?

" En málið var svo sannarlega ekkert happdrætti. Í því voru mjög góð og gild rök."

Hér er t.d. rökvilla. Málið gat alveg verið (og var) happdrætti þrátt fyrir að í því væru mjög góð og gild rök. Það voru nefnilega líka mjög góð og gild rök í hina áttina.

Og restin af röksemdafærslu þinni um þetta mál byggir á þessari einföldu ranghugsun þinni um málið.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sjá t.d. (dæmin eru miklu fleiri):

http://maurildi.blogspot.com/2009/07/me-og-moti-icesave-kosning.html#.UQvFc7s5K1k

http://maurildi.blogspot.com/2011/04/icesave-for-dummies.html#.UQvFers5K1k

Kannski sérstaklega þessi mynd úr seinni færslunni:

http://4.bp.blogspot.com/-A7qQjAFdF7s/TZtAqx3DQbI/AAAAAAAABEE/38DNl7iiCKM/s400/Screen%2Bshot%2B2011-04-05%2Bat%2B4.17.24%2BPM.png

Svarið er já. Afstaða mín til Icesave byggir á engu nema rökum. Og ég hef eytt miklu plássi og tíma í að reyna að útskýra þau. Og einmitt reynt að meðtaka rök bæði með og á móti.

Rökin á móti voru að mínu mati einfaldlega mun skýrari og sterkari. Og reyndust í flestur tilfellum studd af reynslunni sem á eftir kom.

Nafnlaus sagði...

Framúrskarandi grein og höfundi til sóma.

Kveðja
Rósa G.

Matti sagði...

Það breytir engu um það að í dómstólaleiðinni fólst áhætta. Jafnvel þó rök hafi verið fyrir því að við gætum unnið málið fyrir dómstólum.

Enda kom í ljós að Ísland vann málið varðandi mismununum á tækniatriði, jafnvel tilviljun.

Að koma eftirá og segja að það hafi ekki verið áhætta vegna þess að niðurstaðan var góð er gengur ekki upp. Niðurstaða segir ekkert um það hvort í þessu fólst áhætta eða ekki.

Og reyndust í flestur tilfellum studd af reynslunni sem á eftir kom.

Rök virka ekki alveg þannig!

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er alveg til í að ræða Icesave við þig ef áhugi er fyrir hendi. Við ættum kannski að gera það þá alminlega bara.

Hinsvegar aðeins um þetta. Það er alveg rétt að mismununarhlutinn var tvíbentur. Hann var hinsvegar ekki það sem Icesavekrafan snerist um. Honum var bætt við til að reyna að auka líkur BogH á að vinna málið að einhverju leyti. Ég hef alla tíð haldið fram að sá partur hafi verið 50/50 en hafi verið undir sama hatt settur og neyðarlögin (þ.e. neyðarréttur). En ... málið varðandi mismununina var að hún var mál vaxið eins og neyðarlög og snerist ekkert um innleiðingu tilskipunarinnar. Hefði mismunun verið í spilinu hefðu áhrifin verið þau að kröfuhafar hefðu þurft að sýna fram á tjón fyrir íslenskum dómstól. Sömu dómstólum og höfðu staðfest rétt til mismununar með neyðarlögum. Auk þess sem tjónið væri erfitt að sýna fram á því kröfuhafar fengu á endanum miklu meira en þeim bar. Málið var því mjög gott fyrir okkur. Um aðalkröfuna, að ríkisábyrgð væri á innistæðum, var engin ástæða til að efast. Þar voru lög og reglur mjög skýr. Um það hvort dómstóllinn dæmdi eftir pólitík var ástæða til að vera ögn uggandi.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Auðvitað virkar vönduð rökræða þannig að tekið er mið af því hversu vel röksemdir ríma við veruleikann.

Ef ég segi, eins og ég geri hér, að kvótafrumvarpið sé sett inn í þingið án þess að menn vilji afgreiða það, og nota til þess eftirfarandi rök:

1. stjórnin gæti viljað nota málið sem skiptimynt til að afgreiða stjórnarskrármálið og semja þá um að geyma hitt...

2. ...sem kemur sér einmitt ágætlega því þá er kvótamálið kosningamál.

Ef nú kemur í ljós að ríkisstjórnin beitir valdi, stöðvar umræður og treður báðum málum í gegn (sem gæti gerst) þá er auðsýnt að rökin sem ég notaði vógu ekki nóg þungt. Þau eru vissulega rök. Og sem slík skiljanleg og skynsamleg. En önnur rök voru sterkari.

Í Icesave má líkja þessu við sífelld rök um að við yrðum að segja já því annars gerðist a, b, c og d. Og svo kemur í ljós að við sögðum ekki já og samt gerðist a, b, c og d ekki – þá eru það augljóslega léleg rök. A, b, c og d HEFÐI getað gerst, en gerði það ekki því vitlaust var lesið í aðstæður.

Í rökræðu um Icesave var stillt upp ýmsum rökum og ýmsum spádómum um hvað af þeim leiddi og þar hefur málflutningur nei-manna komið mun betur út en jámanna.

Um það ætti eiginlega ekki að þurfa að deila.