2. febrúar 2013

Það sem sést í baksýnisspeglinum er nær þér en þú heldur



Það er alveg ljóst að innan Samfylkingar eru öfl sem vilja í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Jafnvel meirihluti. Það er ekki að öllu leyti undarlegt. Vinstri stjórnin hefur ekki beint sópað fylgi að flokknum og það hefur verið taugatrekkjandi að vinna með flokki sem liðast hefur sundur á kjörtímabilinu.

Það eru líka praktískar ástæður fyrir því að Samfylkingin getur vel hugsað sér að skríða upp í ból með Sjöllum. Það er eina leiðin til að halda Jóhönnu og samráðherrunum frá Landsdómi. Geir var sakfelldur fyrir að halda ekki reglulega, formlega fundi. Ríkisstjórn Jóhönnu reyndi að troða Icesave gegnum þingið með hótunum, leynd og ofbeldi. Sjálfstæðisflokkur í kompaníi við Framsókn hefði ægilega gaman af því að berja á Jóhönnu og Steingrími.

Að því sögðu þá hefst núna auðvitað venjubundinn kosningaslagur þar sem vinstri flokkarnir berja á hinum tveim og öfugt. Bara í dag sá ég tvær greinar á netinu þar sem Samfylkingarmenn flettu ofan af löstum Sjálfstæðisflokks (og raunar Framsóknar líka).

Teitur Atlason benti á fílinn í stofunni: þá staðreynd að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkar væru hagsmunabandalög sem ættu sér sögu um að ota tota flokksmanna og vildarvina.

Össur Skarphéðinsson skrifaði skammarbréf um Sjálfstæðisflokkinn, sem hann segir aldrei hafa skilið stöðu Íslands á alþjóðavettvangi á raunsæjan hátt.

Tja, hvað skal segja?

Hvorttveggja held ég sé alveg rétt. Það þarf ekki stóran pólitískan baksýnisspegil til að átta sig á þessum tveim löstum Sjálfstæðismanna frá fornu fari. Vandinn er bara að sýnin sem blasir við þessum tveim gæðakrötum stendur þeim mun nær en þeir vilja vera láta. Kratar hafa nefnilega verið undir nákvæmlega sömu sök seldir. Þegar ég var að komast til pólitískrar vitundar voru þeir alræmdir fyrir að hygla sínu fólki hvar sem því var við komið. Það var eiginlega dálítið einkennismerki þeirra. Og hvað varðar raunsæi í utanríkismálum þá má geta þess að það var Davíð Oddsson sem ákvað að salta stórsókn Íslands í utanríkismálum, nefnilega umsókn að Öryggisráðinu. Það var Samfylkingin sem setti utanborðsmótorinn á þann bát og dreif sig í að afla sér vina um allar trissur og lofa fátækum Afríkuríkjum stuðningi við að koma þeim til farsældar með fræðslu í auðlinda- og jafnréttismálum. Þegar styttist í kjördag töldu utanríkismálasérfræðingar Samfylkingarinnar sig hafa tryggt miklu fleiri atkvæði en þurfti til. Í ljós kom að því fór fjarri, Ísland var langsíðast í kjörinu og ekki einu sinni í sjónmáli við hin ríkin.

Um hæfni Samfylkingarinnar og spekinga innan hennar raða í að lesa í spilin síðustu misserin á leið okkur gegnum hrunið held ég að best sé að segja sem minnst. Spádómarnir hafa ekki beinlínis ræst í röðum.

Það sem sést í baksýnisspeglinum er nebblega stundum miklu nær þér en þú heldur.

Engin ummæli: