Að mörgu leyti er gott að einkalíf og atvinna blandist að einhverju marki. Það eru ekki svarthvít mörk milli fagmanns og manns. Eðli sköpunar og innblásturs er þannig að það fer ekki eftir klukku. Sumar hugsanir fylgja manni heim úr vinnu og aðrar til baka. Stundum koma tímar þar sem einkalífið þarf meira rými í sólarhringnum og svo koma aðrir þar sem því er öfugt farið.
Að öllu þessu sögðu þá er áhersla íslenska skólakerfisins á heimanám á verulegum misskilningi byggð – það er löngu tímabært að skorin sé upp herör gegn óþörfu og ótæpilegu heimanámi.
Tíu ára barn ætti ekki að þurfa að eiga meira en fimm til sex stunda vinnudag. Sextán ára barn ætti ekki að fara yfir sjö. Við átta stundir ættu almenn mörk að liggja, helst neðar.
Ég held það sé almennt viðurkennt að síaukin ástundun skilar ekki meiri afköstum – og það sem mikilvægara er, betri vinnu. Öll afköst byggja á hvíld. Það er í hvíldinni sem stælingin fer fram og hæfnin til að standa undir meiri byrði verður til. Hvíldarskortur skemmir það sem stæla á. Langvarandi álag veldur fyrr eða síðar líkamlegum og andlegum veikindum. Sú kynslóð sem nú er að fara á eftirlaun ólst upp við aðstæður þar sem fyrstu einkenni þunglyndis komu venjulega fram rétt fyrir þrítugt. Í dag er meðalaldur fyrstu einkenna helmingi lægri, 14 ára. Það er ekki bara betri mælingum að kenna. Börn og unglingar fá ekki næga hvíld í því samfélagi sem við erum búin að skapa þeim.
Mörg börn þurfa að stunda íþróttir á kvöldin eða eldsnemma á morgnanna. Fyrst og fremst vegna þess að þjálfunin er ekki aðalstarf þeirra sem henni sinna og skólatíminn er álitinn heilagur. Sum þessara barna eru auk þess í félagsstarfi eða tónlistarnámi. Ofan á allt þetta bætist heimanám. Oft mikið.
Fjöldinn allur af unglingum er fyrst og fremst sérfræðingar í tímastjórnun og skipulagi og eiga sjaldan dauða stund. Og við, villimannaþjóðin sem við erum, teljum slíkt ástand til dyggða.
Íslendingar vinna þjóða mest – auðvitað án þess að framleiðni sé í samræmi við það. Námsmenn fá samviskubit ef þeir læra ekki á kvöldin og um helgar. Fjölmargir skólar virðast álíta að áhersla á heimanám sé merki um metnaðarfullan skóla – þegar raunin er sú að slík áhersla er yfirleitt blanda af því að þvo hendur sínar af nemendum sem illa er sinnt og neyðarúrræði vegna úreltra kennsluhátta.
Heimanám skapar fjölmörgum heimilum tóm leiðindi og ama. Foreldrar eru í því hlutverki að framfylgja skipunum frá skóla og uppgötva margir mjög snemma að barnið er alls ekki að fá fyrirmæli í samræmi við getu og áhuga. Þá stendur upp á foreldrið að sjá til þess að barnið læri það samt. Í mörgum tilfellum vill svo óheppilega til að foreldrið sjálft á í stökustu vandræðum með að skilja til hvers er ætlast. Vesenið sem af þessu verður brýst venjulega fram í neikvæðni. Annað hvort í viðhorfi foreldra til skóla (eða námsefnis) eða í neikvæðu viðhorfi foreldra til sjálfra sín. Margir skammast sín fyrir að geta ekki „hjálpað“ barninu.
Sum börn njóta þess að fá mikla aðstoð heima og eiga jafnvel foreldra sem sannfærðir eru um gildi heimanáms og vilja frekar meira af því en minna. Þannig gliðnar enn á milli þeirra barna sem geta og hinna sem geta ekki. Í hvert sinn sem börnin mæta í skólann heldur kennslan því áfram frá stað sem er aðeins lengra frá raunverulegri námstöðu þeirra barna sem eiga erfitt en daginn áður. Með þessu móti tekst skólakerfinu í heild að tryggja það að stór hluti Íslendinga fari nú örugglega með brotna sjálfsmynd út í lífið.
Kennarar taka að sér hlutverk lögsögumanna og harðneita að láta það af hendi. Þeir eyða dögunum í skólanum í að segja hluti og ætlast svo oft til þess að foreldrar sjái til þess að þeir skiljist. Þetta er öfugsnúningur. Það vandasama við hlutverk kennarans er að leiða börn áfram til skilnings. Það auðvelda er að segja frá. Það væri strax skárra ef kennarar sendu bara heim blöð sem foreldrar gætu lesið fyrir börn sín með staðreyndum og síðan tækju kennarar við þeim í skólanum og gerðu með þeim heimalærdóminn.
Það er þessi fjandans samviskusemi sem viðheldur þessu rugli. Sumir foreldrar eru harla stoltir af því að börn þeirra taki heimanám föstum tökum. Fagna jafnvel tækifærinu til að koma barni sínu í sérflokk svo það komist nú örugglega í Verzló eða MR eða hvaða skóli sem það er sem þessi tiltekna fjölskylda heldur í einfeldni sinni að sé betri en allir aðrir.
Aðrir eiga einhvernveginn erfitt með að sjá skólann fyrir sér án heimanáms. Halda að lestur lærist ekki nema börnin lesi á hverjum degi heima. Halda að æfa þurfi upp leikni í stærðfræði og málfræði. Gera með öðrum orðum ráð fyrir að vinnudagur barna í skóla sé ekki nógu langur til að koma öllu fyrir sem læra á. Þetta fólk áttar sig ekki á því að ævin er ekki nógu löng til að læra allt. Það skiptir á endanum litlu máli hversu mikið þú lærir, öllu skiptir að læra vel.
Börn geta vel orðið læs, skrifandi og reiknandi þótt skólinn troði sér ekki inn í frítíma þeirra líka. Barn þarf að hafa næði til þess að geta sökkt sér af eigin hvötum í góða bók eða bíómynd. Það eru til fjölmörg dæmi um börn sem kenndu sjálfum sér að lesa þegar lesefnið varð loks nógu áhugavert.
Heimanám er heimskuleg ráðstöfun tíma. Það er ágætt að mörk skóla og einkalífs séu fljótandi upp að vissu marki. En það er löngu tímabært að menn átti sig á því að það er betra að hafa þessi mörk en að hafa þau ekki og að meðvirkt vinnusiðferði skilar á endanum ekki betri vinnu – ekki einu sinni meiri vinnu.
Ég held að sterkasta límið í slímsetu heimanáms sé sálfræðileg staðreynd. Aftökusveitir Þjóðverja voru víst þannig að í eina byssu við hverja aftöku fór púðurskot. Með því móti gat Günther farið heim með tandurhreina samvisku. Hann var aðeins tölfræðilega líklega sekur um manndráp. Það gátu líka allir hinir meðlimir sveitarinnar. Með því að hrúga heimanámi á börn geta kennarar á vissan hátt þvegið hendur sínar af vanmætti slakra nemenda. Slakur lestur er þá á ábyrgð foreldra sem ekki drilla börnin nóg. Maður getur allavega sem kennari trúað því að það sé ekki maður sjálfur sem sinni barninu illa – heldur foreldrarnir.
Raunin er auðvitað sú að skólanum ber að sinna barninu þar sem það er statt. Raunin er líka sú að vinnudagur barna er meira en nógu langur.
Vandinn er að það eru alltof fáir að horfa á hvernig börn læra – þeir eru svo hugfangnir af því „hvað“ þau læra.
3 ummæli:
Mjög margt til í þessu. Heimanám hefur að vísu ákveðið gildi á afmörkuðu sviði að mínu mati, en það er að stuðla að því að foreldrar a) verji smá prívat tíma með börnum sínum eftir vinnu og b) að foreldrar hafi tækifæri til að vita hvað börnin þeirra eru að læra í skólanum og geti því rætt það við þau ef svo ber undir. Heimanám til að ná tilteknum afköstum er verkfæri Satans.
Það er síðan spurning hvort það eigi ekki líka að vera hlutverk skólans að sjá börnum fyrir hvíld.
Systursynir mínir eru í skóla í Danmörku. Þeir hafa þurft að sinna heimanámi vikulega eða sjaldnar frá 7. bekk og mun sjaldnar í yngri bekkjum. Ǽtli dönsk börn séu verr menntuð en íslensk?
Algjörlega sammála með að "heimanám", þe. verkefnavinna, ætti að vinnast í skólanum. Það er nánast ómögulegt að læra ekki það sem þú gerir... hinsvegar getur verið mjög erfitt að læra eitthvað sem þú gerir ekki (t.d. að heyra/sjá þurran fyrirlestur kennara).
Það er mikil skynsemi í því að senda nemendur heim með "fyrirlesturinn" frekar en "heimanámið", sem hefur verið sannreynd á ýmsan hátt af ýmsum hópum. Sem dæmi má nefna KhanAcademy.org, síða sem býður uppá mjög mikið námsefni í flestum vísindagreinum á framhaldsskólastigi, ásamt stærðfræði, sögu ofl.
Sumir kennarar (a.m.k. erlendis) hafa nýtt sér þennan vef til að snúa kennslustofunni við og leyfa krökkunum að horfa á fyrirlesturinn heima, á sínum hraða og sínum forsendum, takandi svo verkefnavinnuna í skólanum þar sem kennarinn getur gengið á milli nemenda og raunverulega Leiðbeint.
Og hvað upplýsingatæknina varðar, þá hef ég áður sagt og segi enn, að hún er gjörsamlega misnotuð í nútímasamfélagi í dag. Í stað þess að hafa gildi sem kennsluverkfæri almennt, t.d. kvikmyndir byggðar á sögulegum atburðum (án "lagfæringa" Hollywood) eða þættir sem kennir efnið á spennandi hátt, eru krakkar baðaðir í uppspuna hefðbundins sjónvarpsefnis, sem eins og margir þekkja hefur oft miður jákvæð skilaboð og frekar forheimskandi áhrif en hitt.
Annað sem hefur jafnvel umtalsvert meiri kennslumöguleika, eru tölvuleikir sem kenna eitthvað hagnýtt, t.d. stærðfræði, tungumál, fróðleik, félagslega hæfni, hugmyndaauðgi og listir eða allt þetta samhliða.
Ég hef séð algjöra tossa verða að algjörum sérfræðingum í fræðum sem snúa að t.d. World of Warcraft (einn stærsti fjölnotenda netleikur samtímans) eða öðrum tölvuleikjum sem gera út á mikla innbyrðis kunnáttu/þekkingu.
Sjálfur hef ég lært heilan helling í tölvuleikjaspilun, þó einungis lítill hluti þess væru meintar upplýsingar leiksins. Beint og óbeint lærði ég á ýmislegt varðandi mannleg samskipti, rökhugsun, lausn vandamála, ásamt því að stórauka skilning og hæfni í ensku o.fl.
Allt strandar þetta víst á "fjármagni" en ég held að þetta strandi mun frekar á áhersluleysi og áhugaleysi þeirra sem eitthvað hafa að segja í margmiðlunariðnaðinum annarsvegar og menntunariðnaðinum hinsvegar.
Skrifa ummæli