Ég verð seint talinn til aðdáenda Samfylkingarinnar. Það getur hver sem er sannreynt með því að lesa þetta blogg aðeins aftur í tímann. Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með vinnubrögð eftirhrunsstjórnarinnar. Það er verið að gera aðeins skárri hluti á mörgum sviðum með alveg jafn hræðilega vondum vinnubrögðum. Þrátt fyrir það mun ég alltaf virða Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það að hafa komið stjórnarskrármálinu þetta langt.
Kosning stjórnlagaráðs hefur fyllt mig ákveðnum efasemdum um persónukjör. Það kviknaði á nokkrum gulum ljósum þegar talið var upp úr ólöglegu kjörkössunum. Ég fylgdist líka mjög náið með störfum þess úr fjarlægð og verð að viðurkenna að fyrst um sinn blöskraði mér hversu hratt ráðið tók upp alla ósiði íslenskrar orðræðu.
Fyrsta veifið mættu nokkrir ráðsfulltrúar á fundi og óðu yfir allt og alla með þrautþjálfuðum og jafnvel eðlislægum yfirgangi. Ómar Ragnarsson virtist halda að hann væri veislustjóri og neyddi alla til að syngja í upphafi funda sem svo kom í ljós að var heldur takmörkuð stemmning fyrir. Engin mál komust áfram því ákveðnir einstaklingar gátu ekki stillt sig um að koma ítrekað og iðulega upp í pontu og tjá sig um öll smáatriði allra mála.
Mér þótti þetta svo ömurlegt að ég tók mig til að skrifaði einum ráðsmeðlimi skilaboð og lýsti áhyggjum mínum.
Síðan gerðist eitthvað.
Eitt var reyndar það að sífellt fleiri ákvarðanir færðust baksviðs. Sem kann að hljóma ólýðræðislegt en skilaði því að fundir urðu málefnalegri og ígrundaðri.
Hitt var, sem mest er um vert, að menn sem ekki náðu saman um skoðanir eða hugsjónir náðu saman í viðfangsefninu og trausti á það að ein sundurleit þjóð gæti átt eina stjórnarskrá. Í stað hagsmunagæslu komu tilraunir til að ná saman og heiðarlegt uppgjör við þau atriði þar sem ekki yrði náð saman. Hvert einasta atriði var ígrundað og rætt og margir slógu af ítrustu kröfum. Undir lokin voru menn enda alveg að springa á limminu og síðustu sólarhringarnir urðu ögn spennuþrungnir því praktísk atriði urðu til að mynda smá sprungur í samstöðuna.
Ég sat síðasta fund Stjórnlagaráðs sem áhorfandi. Ég var harla ánægður. Ég fann að ráðið hafði skilað góðu, metnaðarfullu en umfram allt heiðarlegu verki. Þetta fólk, sem margt er svo fjarri mér í skoðunum og lífsýn að undrum sæti, hafði áunnið virðingu mína og þakklæti fyrir að gera sér grein fyrir mennskunni í svona verki og byggja vinnuna á henni.
Ný stjórnarskrá er hugrakkari stjórnarskrá. Hún þorir að viðurkenna tilvist samkynhneigðra til að mynda – sem Færeyingurinn í okkur hélt frá endurbótum á mannréttindakaflanum síðast. Margt er ljómandi vel gert og hugsað. Annað ekki eins gott. Í heild er skráin þó framför.
Stjórnarskrá er ekki fornminjar sem molna sundur í sólarljósi eða við snertingu. Hluti af ástæðu þess að stjórnvöld fara ekki eftir núverandi stjórnarskrá er sú sama og ástæða þess að menn eru ekki að grisja í Heiðmörk með öxinni sem Agnes og Friðrik voru höggvin með. Stjórnarskráin er safngripur en ekki nytjagripur. Við þurfum nothæfa stjórnarskrá.
Fyrst og fremst þurfum við nothæfa stjórnmálamenn.
Þar geta þeir mikið lært af störfum Stjórnlagaráðs.
Fullkomnun næst aldrei með einu stökki. Störf ráðsins voru stórt stökk fram á við. Þau voru líka sumpart gölluð. Nú er verkefnið að viðhalda því sem var gott og bæta hitt.
Það má örugglega bæta stjórnarskrárdrögin eitthvað. Sérstaklega í lagatæknilegum atriðum.
Vandinn er sá að það stendur ekki til að ná sátt um stjórnarskrá. Alveg eins og Þrymur sneri hundum sínum gullbönd og þekkti ekki muninn á Freyju og Þór í kjól – þá eru það ekki umbæturnar sjálfar sem Alþingi tekur til meðferðar. Þrymur sóttist ekki eftir fegurð Freyju – heldur orðspori fegurðarinnar. Eins eru núverandi stjórnarflokkar ekki endilega að eltast við umbætur – þeir eru að eltast við áhrif þeirra og orðspor.
Vinstri flokkarnir í landinu stýrðu seglum sínum inn í strauminn af reiðiópum kjósenda. Sjálfstæðismenn eru að reyna að rifa seglin. Ástæða þess að vinstrið vill ekki ná samkomulagi við hægrið er sú að stjórnarskráin á að mynda brú yfir næstu kosningar.
ESB-aðild er líkið í farangrinum. Þú dregur hana ekki fram í næstu kosningabaráttu nema þú viljir tapa. Samfylkingin veit að öruggasta leiðin til að viðhalda áfram sterkri stöðu er að vængstýfa Sjallana. Það verður best gert með því að hafa stjórnarskrána nægilega ögrandi til að Sjálftæðisflokkurinn berjist gegn henni. Þeir einu sem kysu Sjálfstæðisflokkinn út á andstöðu við nýja stjórnarskrá voru hvorteðer alltaf að fara að kjósa flokkinn. Heilmargir sem hefðu hugsað sér að kjósa hann munu ekki gera það, ef það þýðir andstöðu gegn greiðri leið til persónukjörs, jafns vægis atkvæða og staðfestingar á kirkjuskipulagi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvo kosti. Annar er að fara aftur í málþóf og afneita skránni sem kosin var í gær. Hinn er að reyna að hafa áhrif og vera með í stjórnarskrárvagninum í næstu kosningum. Þar verður þeim ekki búið sæti af neinum öðrum. Enginn mun mæta þeim á miðri leið. Þeim er ekki boðið.
Pólitíska refskákin sem nú tekur við verður ómerkileg og óinnblásin. Dæmigerð íslensk pólitík.
Ef maður hefði á annað borð einhverja trú á henni, þá væri maður ekki svona glaður yfir úrslitum helgarinnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli