19. ágúst 2012

Kynáttunarvandi, brjóst og fleira

Fötlun er ekki einfalt hugtak. Í kjarna sér felur það í sér einhverskonar frávik frá hefðbundnu atgervi sem veldur viðkomandi einstaklingi einhverskonar vandræðum eða þjáningum. Vandinn er að slíkar skilgreiningar opna fyrir möguleika eins og þá að það sé fötlun að vera rauðhærður – eða yfirmáta fallegur. Það er engin einföld leið til að greina á milli þjáningar sem til verður vegna þess hvernig aðrir haga sér og þess hvernig maður sjálfur er. Ef samfélagið væri ekki í sífellu að smíða stiga væri það engin fötlun að komast ekki upp þá.

Erfiðleikar og þjáning er næstum alltaf í samhengi við aðra. Það er því freistandi að kasta fötlunarhugtakinu svotil öllu á haugana og segja að það sem við venjulega köllum fötlun sé lítið annað en samskiptavandi sem báðir bera ábyrgð á, sá sem kallaður er „fatlaður“ og hinir sem gera honum erfitt fyrir.

Þannig þótti mönnum ekkert tiltökumál að skilgreina „samkynhneigð“ sem geðröskun þar til skuggalega nýlega og studdu það með allskyns tölfræðilegum rökum um erfitt líf samkynhneigðra. Grunnurinn undir slíkri skilgreiningu verður sífellt veikari eftir því sem samfélagið viðurkennir og samþykkir samkynhneigð. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að eftir því sem samkynhneigðir njóta meiri borgaralegra réttinda og virðingar þá hverfur sú vanlíðan og þau sálarátök sem áður voru höfð til marks um „sjúkleika“ þeirra.

Samt virðist eitthvað svo augljóst að málið er ekki svo einfalt. Það virðist t.d. vera orðið viðtekin venja  að „spila með“ fólki með alvarleg elliglöp í stað þess að búa til átaka- og spennufleti. Ef Sigga gamla á herbergi sjö spyr hvort pabbi hennar sé ekki að koma þá sleppir maður því að segja henni að hann sé dáinn fyrir fjörutíu árum og segir frekar að hann sé örugglega væntanlegur eftir þrjú korter. Þetta getur maður gert vitandi það að eftir þriðjung þess tíma hefur Sigga ekki hugmynd um að samtalið hafi átt sér stað. Það að segja sannleikann gæti hinsvegar komið henni í uppnám og gert hana hrædda. Eins eru heilu stofnanirnar sem fullar eru af innilokuðu fólki sem talin er trú um að séu á fínu hóteli.



Hugmyndir gamla fólksins eru að sjálfsögðu ranghugmyndir og ástand þess fötlun – hvort sem þjáningar hennar eru linaðar með því að dansa með eða ekki.

Og þótt vissulega sé fallegt að lina þjáningar gamals fólks þá er ekki lengur um að ræða samband jafningja. Mikilvæg forsenda sjálfræðis þessa fólks er horfin og það gefur öðrum leyfi til að koma fram við það eins og börn.

Margir Íslendingar, miklu fleiri en þora að viðurkenna það opinberlega, eiga erfitt með að skilja það þegar manneskja breytir um kyn. Fyrir mörgu fólki er kyn eitthvað skýrt og skilmerkilegt sem ekki er hægt að töfra burt bara með því að benda á dæmi um fólk sem telur sig í líkama rangs kyns.

Sumir, sem grunnskilning hafa á líffræði, benda á að kynferði ráðist af X og Y litningum og manneskja með XY sé karlmaður, sama hvað tautar og raular.

Aðrir, sem hafa aðeins meiri skilning á líffræði, vita að þetta er ekki alveg svona einfalt.

Fyrsta mánuð fósturþroskans má segja að allar manneskjur séu kvenkyns. Upp frá því þroskast æxlunarfæri mismunandi kynja á mismunandi veg – þó þannig að hliðstæðurnar eru augljósar alla ævi. Snípur kvenna hefur eins festingar við beinagrindina eins og typpi karla. Á pung karla er far, saumur þar sem æxlunarfæri kvenna haldast opin. Reglulega fæðast börn sem hafa æxlunarfæri sem ekki er hægt að kyngreina með góðu móti (t.d. skýr merki um typpi en líka opin æxlunarfæri með skapabörmum).

Svæðið á milli karla og kvenna er grátt og óskýrt. Það er því fyllilega trúlegt að til sé fólk þar sem ýmis einkenni kynferðis eru óljós og þversagnarkennd.

Þar með er auðvitað ekki sagt að augljós afleiðing þess sé skurðaðgerð sem „leiðrétti“ kyn manneskjunnar. Það eru a.m.k. tveir aðrir kostir sem maður hefði haldið að væru nærtækari. Sá fyrri er áhersla á sátt við eigin líkama, þótt manni finnist hann ekki ákjósanlegur. Sá síðari er einfaldlega samfélagsleg viðurkenning á því að til sé fólk á hinu gráa svæði milli karla og kvenna. Það er nefnilega svo að það eina sem tilvist fólks í kynáttunarvanda sanni sé að tengls kynfæraþroska við persónuleika séu flókin og marghlít.

Þetta kann að hljóma kaldlynt og hrokafullt en það er samt einhvernveginn svo augljóst ef maður skoðar bara t.d. brjóst kvenna. Það virðist vera einhver viðtekin samfélagsleg skoðun að brjóst kvenna séu einhverskonar fasti, að til sé frummynd þeirra þegar kemur að stærð og lögun. Mér liggur nærri að segja að til sé ranghugmynd um brjóst – og tengsl þeirra við það að vera kona.

Brjóst eru nefnilega ekki neitt eitt. Þau eru af öllum stærðum og lögunum og sama konan hefur mjög breytileg brjóst um ævina. Sum kvenbrjóst eru mjög lítil og varla greinanleg frá brjóstum karla. Sumar konur fara meira að segja í skurðaðgerðir og láta fjarlægja annað eða bæði brjóstin og einhverjar þeirra fá sér ekki ígræðslur í stað brjóstanna.

Slíkar konur eru augljóslega jafn mikið konur og hverjar aðrar. Það eru ekki brjóstin sem gera þig að konu og það er löngu tímabært að samfélagið átti sig á því að brjóstalausar konur eru veruleiki og hafa verið lengi.




Kona sem missir bæði brjóst vegna krabbameins kann að upplifa mikla pressu á að skipta þeim út fyrir ígræðslu. Það er samt alls ekki víst að sú pressa sé af innri þörf eða því að sjálfsmynd konunnar krefjist þess. Það er allt eins líklegt að henni finnist samfélagið ætlast til þess – eða að hún sé einfaldlega svo rækilega á valdi ímyndarinnar um greinileg kvenbrjóst að hún láti eigin fordóma knýja sig áfram.

En hvað þá um konu sem einfaldlega hefur mjög lítil brjóst frá náttúrunnar hendi? Eða konu með óvenju stóran sníp? Eða karl með mjög lítið typpi?

Getur verið að allt þetta fólk lifi í einhverskonar angist sem tilkomin er vegna staðalmynda sem margir megna ekki að gefa skít í og standa gegn? Og er í slíkum tilfellum eðlilegt að bregðast við með skurðhnífum?

Er til „rangur líkami“?

Hvað í ósköpunum ætti að koma í veg fyrir það að til væri slík fjölbreytni að til væru manneskjur sem félagslega væru á flestan hátt eins dæmigerðir fyrir annað kynið og hægt er þrátt fyrir að deila ekki tilteknum líkamlegum einkennum?

Á endanum virðist þetta snúast um sjálfræði. Það skaðar engan að láta eftir kröfu fólks um kynleiðréttingu. Ef rannsóknir sýna að þannig sé hægt að létta af fólki vanlíðan og angist og „lækningin“ sé viðvarandi þá virðist fátt mæla á móti slíku. Það má vel vera að heimspekilega megi ræða hvort ekki væri betra að víkka frekar út staðalmyndir um kynferði og búa til pláss fyrir fleiri tegundir af sáttu fólki en einhvernveginn virka slíkar fabúleringar máttlitlar og á skjön við sjálfræði þessa fólks.

Þar til auðvitað maður fer að velta því fyrir sér hvort viðteknar fegrunaraðgerðir séu ekki að miklu leyti af sömu rót runnar. Það er heilmikið um kynfæraleiðréttingar innan þess flokks sem skýr er og afmarkaður sem kvenkyns. Staðalmyndin um kynfæri kvenna er svo máttug að stórir hópar ungra kvenna leita til lækna í þeim tilgangi að uppfylla ímyndina betur.



Það er einhvernveginn auðveldara að hafa horn í síðu slíkra aðgerða en kynleiðréttiaðgerða. Ekki vegna þess að það sé svo mikill grundvallarmunur á málunum heldur vegna einhverra annarra þátta. Maður flokkar fólk í kynáttunarvanda sjálfkrafa með forsmáðum og ofsóttum – og vill ekki vera að agnúast út í óskir þeirra og þankagang.

En svo rekst maður á hluti eins og BIID, sem hleypa öllu upp í loft aftur. Þar er um að ræða ástand, sem mögulega er náskylt kynáttunarvanda, sem felur í sér að einstaklingur vill ekki kannast við að eiga nokkra samleið með einum eða fleiri útlim á líkama sínum. Margt af þessu fólki veit upp á hár hvar það hættir að vera það sjálft og byrjar að vera annarlegur aðskotahlutur. Það getur jafnvel dregið skýra línu, t.d. rétt fyrir ofan eða neðan hné þar sem öll angistin á uppruna sinn. Þetta fólk á sér þá ósk heitasta að verða aftur „heilt“ með því að leggjast undir hnífinn og láta fjarlægja viðkomandi útlim. Margir eru jafnvel helteknir af hugsunum um að limlesta sjálfa sig frekar en að lifa með höfnun heilbrigðiskerfisins.



Flestir eru á því að hér séum við augljóslega aftur stigin inn á svið þess sjúklega. Hér sé um að ræða veikt fólk sem óheilnæma og óraunhæfa þráhyggju. Það að lifa með þá hugmynd að rétt neðan við hné hætti maður að vera maður sjálfur og verði eitthvað óvelkomið og (jafnvel í öfgatilfellum) eitthvað illt – uppfylli öll skilyrði þess að vera alvarleg geðveiki.

Samt er mjög truflandi að það bendir ýmislegt til þess að ef látið er eftir þessum „sjúklingum“ þá lini það þrautirnar og við taki hamingjuríkara líf. Öll önnur meðferð hefur reynst næsta gagnslaus.

Sá möguleiki er því uppi að fólk láti saga af sér hendur og fætur til að fá að vera það sjálft.

Aftur er þetta spurning um sjálfræði. Það skaðar ekki aðra þótt fót- eða handleggur er skorinn af manneskju. Og ef henni líður betur, þá virðist það réttlætanlegt.

Það eina sem bíður ekki bætur eftir slíkt er hugmyndakerfi sem flokkar heilbrigði og sjúkleika eftir frekar einföldum staðalmyndum um heilbrigði.

En svo spyr maður. Hvað gerist svo ef slík manneskja sækir viðurkenningu á því að hún „sé í raun og veru“ fædd fótalaus í líkama með fótum?



Værum við tilbúin að samþykkja það?

Eða værum við að „spila með“ eins og þegar um er að ræða gamla fólkið á leið út úr heiminum? Af því að meðvirknin skapar minnst óþægindi?

Væri það mjög grimmileg hugmynd að segja sem svo að það sé sameiginlegt verkefni einstaklinga og samfélags að sætta sig við og bjóða velkomið fólk af öllum stærðum og gerðum. Að kafa ofan í eigin fordóma og hefðir og breyta samfélaginu þannig að það rúmi þig, þótt þú skerir þig frá. En það sé hlutverk einstaklinga að sætta sig við það sem þeir eru og lifa eins fullnægjandi lífi og mögulegt er.

Það sé síðan hugsanlega merki um þráhyggju (sem er sjúkleg) eða óbilgirni samfélags (sem líka er sjúkleg) ef manneskju er fyrirmunað að sjá fyrir sér líf án þess að láta umbreyta sér rækilega?



Ég spyr.

1 ummæli:

Bjössi sagði...

"Rangur líkami" er einföldun og lýsir vandanum illa. Það er því hæpið að líkja kynáttunarvanda við fóbíu gagnvart fótunum á sér. Gender identity er allt öðruvísi samsömun en hvort maður lítur á sig sem einfætling eða tvífætling.

En það er ekki von að jafn kynsnauður maður og þú hafir annað en fátæklegan skilning á þessu.

Áhugavert þetta með sauminn á pungnum samt.