20. ágúst 2012

Hrikalega dýr tímaskekkja

Á dögunum hélt ég erindi á skólaráðstefnu Epli.is. Þar fjallaði ég um fyrstu rannsóknarniðurstöður á skólaþróunarverkefni okkar í Norðlingaskóla í 1:1 notkun á spjaldtölvum. Óhætt er að segja að verkefnið lofar góðu og niðurstöðurnar eru að langmestu leyti ofboðslega jákvæðar. Nú er það okkar kennara að þróa áfram kennsluhættina og draga athyglina af tækinu sem slíku – enda verður enginn skóli betri af því að hafa tæki. Ég hef líkt þessu við segl. Segl getur við vissar kringumstæður knúið mann áfram – en við aðrar aðstæður gerir það ekkert nema að íþyngja eða jafnvel halda aftur af. Kennslufræðin er vindurinn í segl tækninnar.




Næstu daga hefja ríflega 40 þúsund börn grunnskólagöngu og um 30 þúsund í viðbót eru í framhaldsskóla. Háskólanemar eru um 20 þúsund. Þetta gera um 90 þúsund manns. Allir mega þessir námsmenn reikna með að þurfa að eyða tugum þúsunda í skólagögn á næstu dögum.

Ég skoðaði nokkra innkaupalista grunnskólabarna og tel nokkuð öruggt að það sé hundaheppni að borga minna en 10-15 þúsund krónur fyrir skólagögn hvers barns. Ég hugsa að það sé nær 15 - 20 þúsund í flestum tilfellum. Þá eru eftir skólatöskur, pennaveski og ýmislegt annað sem fellur til með fárra ára fresti.

Í framhaldsskólum heldur sá geðveikislegi ósiður enn velli að kennarar siga nemendum á tilteknar bækur sem taka örlitlum breytingum með fárra ára fresti svo sífellt þurfi að kaupa nýjustu útgáfur. Í háskóla kaupa nemendur bækur í kílóavís sem og fjölfölduð hefti.

Nemendur okkar í 10. bekk Norðlingaskóla þurfa ekkert að kaupa þegar skóli hefst í haust. Þeir eru vinsamlegast beðnir um að koma með heyrnartól að heiman fyrir iPaddana en slík tæki má kaupa fyrir örfáa hundraðkalla. Þeir kaupa hvorki blýanta, skæri, liti né nokkuð annað. Þurfi þeir að nota slíkt í skólanum leggur skólinn það til. Skólinn sparar miklu meira en það í ljósritunar- og pappírskostnað eftir að snjalltæknin hóf innreið sína.

Þegar ég les nákvæma innkaupalista þar sem kveðið er á um það í smáatriðum hverskonar plastvasa, bækur og dót skuli kaupa þá hugsa ég sem svo að það sé eitthvað verulega mikið að í þessu kerfi. Það er eins og tilgangurinn sé að staðla og gera nemendur ósjálfstæðar og mataðar einingar. Einn kennari krefst þess að nemendur skrifi á A5 í hans fagi en annar heimtar A4 – með gormum – og blöðum sem rífa má úr bókinni. Íslenskukennarinn heimtar bláa plastmöppu en samfélagsfræðikennarinn rauða. Stærðfræðikennarinn krefst þess að nemendur mæti með Casio  fx-350es.



Á ég að trúa því að liturinn á möppu eða línustrikun á blaði hafi einhver úrslitaáhrif á nám nemandans? Er það virkilega svo að nemendur þurfi nauðsynlega Casio fx-350es þegar þeir eru svotil allir með snjallsíma sem hægt er að sækja í hvers kyns vasareikni sem hugurinn girnist?

Mér reiknast til að þessir 30 nemendur sem byrja 10. bekkinn hjá okkur í haust muni kosta foreldra sína um hálfri milljón minna en jafn stór hópur í flestum öðrum skólum. Varlega áætlað kostar skólabyrjunin rúmlega 600 milljónir – bara á grunnskólastiginu. Þessum sex hundruð milljónum er eytt í innfluttan pappír og plast að langmestu leyti. Ef skólatöskum, pennaveskjum og öðru er bætt við er þetta líklega milljarður. Og ekki er skólinn ódýrari fyrir framhaldsskóla- og háskólanema.

Það má spara milljarða á hverju hausti í innfluttum vörum með því að taka upp nýja kennsluhætti. Nemandi sem fær ódýra spjaldtölvu í áttunda bekk er búinn að spara verðmæti hennar áður en hann útskrifast út grunnskóla.

Okkar 30 iPaddar munu á þeim þrem til fjórum árum sem varlega má reikna með að þeir verði í fullri notkun spara foreldrum eina og hálfa til tvær milljónir. Þeir munu spara skólanum í bókakaupum, ljósritun og pappír. Þeir gera skólatöskur óþarfar og kaup á myndavélum og fartölvum.

Það er ekki spurning að það er á allan hátt ódýrara að nota snjalltækni í kennslu en pappír og blöð.

En mestu skiptir kennslufræðin.

Hvernig komast menn upp með það ár eftir ár að skipa nemendum að kaupa nýjar útgáfur af lítið leiðréttum bókum og tug línustrikaðra bóka – með gormum.

Hvernig má vera að samfélagið láti bjóða sér þetta enn? Og hver er staða foreldra sem eiga kannski þrjú börn á grunn- og framhaldsskólaaldri? Það þarf enginn að segja mér að það séu sérlega mörg heimili sem hafi efni á því að vippa fram 50 þúsund krónum á hverju hausti – í óþarfa.


4 ummæli:

Unknown sagði...

Orð í tíma töluð. Leiðin, sem Ragnar bendir á, stuðlar að jafnrétti til náms og getur falið í sér hundruð milljóna í sparnað fyrir heimili, ríki og sveitarfélög en um leið aukið gæði námsgagna. Keilir stígur þessi skref nú á haustdögum í tengslum við speglaða kennsluhætti.

Bragi Halldórsson sagði...

Samkvæmt samtölum mínum við fjölmarga kennara liggur vandinn í lélegri tölvukunnáttu kennara. Þarna er kennaraháskólinn að standa sig sérlega illa.

Nafnlaus sagði...

Hvernig virkar þetta í Norðlingaskóla- leggur skólinn nemendum til spjaldtölvu, sem þeir fara með heim?
Ef ekki, er ekkert heimanám lengur, sem gæti kallað á annað eins tæki heimafyrir?
Ég er mjög spenntur yfir möguleikunum, en veit ekki hvernig þetta er í framkvæmd.
T.Edwald

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Norðlingaskóli leggur til tölvur sem nemendur mega taka með sér heim.