20. júlí 2012

Eldriborgarab(l)ús

Ég á ljómandi góða konu. Hún er bæði falleg og hjartahlý. Við kynntumst gegnum sameiginlega ástríðu. Við vorum bæði að vinna með fötluðum. Við höfum aldrei unnið öðruvísi en með fólki – hvorugt okkar. Ástæða þess að við látum okkur hafa það að vera ár eftir ár í illa launuðum störfum er sú að það sem við gerum skiptir máli. Mér finnst að manni beri skylda til þess þegar maður er fullur af þrótti og æskufjöri að reyna að gera samfélagi sínu gagn. Í starfi mínu sem kennari fæ ég að umgangast frábæra hópa barna og, í einhverjum tilfellum, leggja gott til þeirra. Þegar ég vann á heimili fatlaðra tók ég það hlutverk mitt alvarlega að reyna að auka lífshamingju íbúanna. 


Konan mín hefur unnið á heimili fyrir aldraða oftar en einu sinni. Ég varð vitni að því hvernig hún varð á stundum eini sólargeislinn í lífi fólks sem síðan er horfið yfir móðuna miklu. Ég á mjög röska konu. Ætli það sé ekki stærsti munurinn á okkur. En sama þótt konan mín vilji vinna hratt þá yfirgaf hún aldrei herbergi gamla fólksins ef það vildi hafa hana lengur hjá sér. Oft kom hún heim úr vinnunni og spurði mig hvort ég vissi hvað þessi eða hinn fjallstindurinn héti. Eða hvort ég vissi að þessi væri skyldur hinum. Þá hafði hún setið með einmana gamalmenni, á milli þess sem hún brunaði um með moppuna, haldið í hönd þess og hlustað. Kærleikur og þakklæti gamla fólksins var augljós í brosinu sem alltaf mætti henni þegar gamla fólkið sá hana.


Við sem þjóð þurfum samt að horfast í augu við það – að það er eitthvað verulega rangt við það hvernig við hugsum um gamla fólkið okkar. Í fyrra vöktu niðurstöður rannsóknar, sem sýndu hörmulegt ástand þessara mála, ekki nærri því nógu mikla athygli:„[Farið var] á öll hjúkrunarheimili landsins þar sem mæld var næring, notkun lyfja, byltur, þunglyndi, virkni íbúanna, ýmsar sýkingar og heilsufarsvandamál.
Niðurstöðurnar voru  meðal annars þær að á helmingi íslenskra hjúkrunarheimila:
  1. eru minnst 49% íbúa með einkenni þunglyndis.
  2. eru minnst 39% íbúa eru með hegðunarvanda
  3. njóta 53% vistmanna, eða fleiri, lítillar eða engrar afþreyingar.
Þá sýndi rannsóknin að á helmingi íslenskra hjúkrunarheimila taka minnst 64% íbúa níu eða fleiri lyf en það telst mjög hátt hlutfall. Í Bandaríkjunum er sambærilegt hlutfall í kringum 30%.“

Staðreyndin er sú að fólkið sem er félagslega og líkamlega orðið ófært um að gæta eigin farsældar hefur verið vanrækt og svikið um grundvallarmannréttindi og sjálfsvirðingu. Lág laun, vinnuálag og áhersla á klíníska þætti hefur orðið til þess að fjölmargt gamalt fólk er afskipt eða í höndunum á fólki sem ætti frekar að vinna í sláturhúsi eða grjótnámu. 
Það er hart að segja þetta – en svona er það.
Flestir koma á hjúkrunarheimili til að eyða þar ævikvöldinu. Sumir eru lánsamir. Eiga ættingja sem átta sig á því að lífið er ekki búið þótt maður hætti að vinna eða missi líkamlegt þrek, vini og velunnara – stunda áhugamál sín af krafti innan og utan veggja hjúkrunarheimilanna. 
Stór hópur nýtur einskis af því sem lífið hefur upp á að bjóða. Aldraðir (tíundipartur af þjóðinni) taka inn þriðjung lyfja á landinu og er þó vinnandi fólk í lífsgæðakapphlaupinu drjúgt til lyfjanna. Stór hluti lyfjanna eru geðlyf. Margir aldraðir eru löngu orðnir rækilega og alvarlega háðir róandi lyfjum. 
Og þótt mér þyki almennt að aldrað fólk eigi að fá að haga lífi sínu eins og það sjálft kýs – þá finnst mér eitthvað ógeðfellt við það að í samfélagi þar sem fólk situr vanrækt heilu dagana, einmana og vansælt skuli vera talað um það með rómantískum pollíönnublæ hversu næs það yrði að láta rúlla sér á barinn og segja skál við vinina.
Auðvitað eiga aldraðir að njóta „kaffihúsastemmningar“ og fá að drekka áfengi heima hjá sér. Ég sé svosem enga sérstaka þörf fyrir að heimilin fari sjálf að selja áfengið meðan hægt er að útvega fólkinu far í búð til að kaupa bjórinn. En – og þetta er stórt en – það er eitthvað ónotalegt við það að hafa ekki hugmyndaflug til annars en að krýna skömm okkar allra – þegar kemur að umhyggju og aðbúnaði þessa gamla fólks – með krús af áfengi.
Gamla fólkinu okkar líður illa. Mjög mörgum líður hörmulega. 
Áfengi hefur aldrei verið góður félagsskapur þeim sem dvelja í myrkri – þótt það geti gert birtuna skærari hjá þeim sem á annað borð njóta hennar.

2 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Sérðu þá nokkuð frekar ástæðu til þess að áfengi sé fáanlegt úti á landi á meðan fólkið sem býr þar getur látið senda sér bús með pósti? Af hverju er ekki jafn sjálfsagt að auka aðgegni aldraðra að áfengi og t.d. súkkulaði og öðrum vörum sem sumir þeirra hafa augljóslega ekkert með að gera?

Ég vil benda á tvö sjónarmið sem þú hefur sennilega ekki tekið með í reikninginn.

Ég hef unnið á fjórum elliheimilum. Þau eiga það öll sameiginlegt að lítið er um að vistmenn heimsæki hver annan milli herbergja eða íbúða. Flestir líta á áfengisneyslu sem félagslega athöfn, það er því eðilegt að margir þeirra eldri borgara sem kjósa að neyta áfengis njóti þess betur í matsalnum þar sem þeir hafa félagsskap.

Margir vilja eiga þess kost að fá sér vínglas eða bjór með matnum af og til en drekka sjaldan eða aldrei utan matmálstíma. Ég skil vel að fólk vilji frekar eiga þess kost að fá drykkinn beint á borðið en að vera með flöskuna hangandi á göngugrindinni á leið í matsalinn.

Það er alveg rétt athugað að margir heimilsmanna á dvalarheimilum fyrir aldraða eru einmana og hafa ekki afþreyingu við hæfi en það kemur þessu máli bara mjög lítið við, ef nokkuð. Margt af því fólki sem er vanrækt, er vanfært um að njóta þeirrar afþreyingar sem í boði er, þar sem heilabilun skerðir hæfni fólks til að spila, vinna handavinnu, hlusta á upplestur o.fl. Það þyrfti hreinlega mann á mann til að hafa ofan af fyrir þeim sem eru verst á sig komnir (og á meðan ástandið er þannig er fáránlegt að atvinnuleysi skuli vera til.) Það er ekki þetta fólk sem mun nýta sér aukið aðgengi að áfengi, heldur hinir sem eru færir um að njóta þess. Ég hef heyrt það sjónarmið að bar á Hrafnistu bjóði heim hættunni á því að áfengi verði notað til að deyfa fólkið. Það er engin ástæða til að ætla að starfsfólk dvalar- og hjúkrunarheimila sé svo óvandað að það muni misnota áfengi til að deyfa skjólstæðinga sína þótt þeim standi til boða að fá bjór með matinum. Sé talin þörf á að deyfa fólk er það gert að læknisráði, með lyfjum. Það er henldur engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að fólk drekki ofan í lyf. Ein ástæða þess að fólk fer á dvalarheimili er einmitt sú að það óskar eftir aðstoð, þ.m.t. leiðbeiningum um hvernig og hvenær það eigi að taka lyf. Starfsfólk mun því benda viðkomandi á hættuna ef hann ætlar að drekka ofan í lyf.

spritti sagði...

Þetta er náttúrulega bara bilun!