Ég á mér góðan þjáningarbróður í baráttunni fyrir betri heimi. Við ræðum þessi mál og önnur af og til. Síðustu misserin hef ég haldið á lofti viðhorfi sem hann hefur reynt, sem góður vinur og samræðufélagi, að andæfa. En ég held hann hljóti að fara að gefa sig því sannindin eru svo áberandi augljós: Íslendingar eru ekki nógu hæfir til lýðræðislegrar afstöðu. Þeim hefur aðeins verið kennt gildi þess að taka afstöðu. En aldrei ábyrgð þess að ígrunda þá afstöði.
Nema hvað, ég ætlaði að nefna hér ástæðu þess að allt keyrði um þverbak í umræðu fyrir forsetakosningarnar síðustu vikurnar.
Á yfirborðinu leit svo út sem ný og fersk öfl væru að reyna að skola út flórinn í Gamla-Íslandi. Og þar væri ÓRG eitt af stóru spörðunum. En ef málið er skoðað aðeins betur kemur nokkuð skuggalegt í ljós.
Mín kynslóð upplifði nokkuð sem nú hefur komið í ljós að var líklega einsdæmi í nútímasögu Íslands. Hnignun og áhugaleysi fyrir fylkingarpólitík. Þjóðviljinn dó sem og Alþýðublaðið, Tíminn líka, Mogginn missti pólitísku tennurnar að mestu. Ég man að ég hugsaði oft til þess með nokkurri uggblandinni kátínu að hér áðurfyrr hefðu dagblöð gegnt því hlutverki að viðhalda daglegum heilaþvætti. Menn keypti sér málgögn flokka sem þeir voru þegar handgengnir og lásu málgögn óvinanna aðeins í þeim tilgangi að finna eitthvað til að ráðast á.
Ég hélt í alvöru fyrir nokkrum árum að svona fjölmiðlun – þröngsýn innrætingarfjölmiðlun – hefði verið fylgifiskur öfga tuttugustu aldarinnar sem myndi núna deyja og aldrei snúa aftur.
Skyndilega vakna ég upp við þann vonda draum að við erum aftur komin á sama stað. Baugur átti Fréttablaðið, Davíð er kominn í Moggann, Svipan og Smugan og Knúzið og Amx eru allt málpípur tiltekinni sjónarmiða og næstum hver einasti málsmetandi bloggari eða samfélagsrýnir hefur agenda eða afstöðu sem hann miðlar í djöfulóð til lúsíferanna sinna, sem bera ljósið áfram út í margklofið og klíkufullt samfélag.
Og ég hugsa. Er þessi breyting afturhvarf? Öfugþróun? Komin til að vera? Er það virkilega svo að þessi hugarfarssjálfsfróun sem felst í því að veggfóðra heimsmynd sína með áróðri sé aftur komin til að vera?
Ég held ekki. Ég held að þetta sé þung og fúl dauðastuna þeirra heimskulegu öfga sem lögðu undir sig síðustu öld. Ég held að þarna brotni síðasta, blóðrauða alda heiftar og heimsku á tám fjörulalla nýrrar aldar.
Ég held þetta vegna þess að þegar maður skoðar helstu persónur og leikendur þá sér maður að drifkrafturinn á bak við allan þennan skotgrafarhernað er fólkið sem storknaði andlega í mótum kalda stríðsins á síðari hluta síðustu aldar. Umræðunni á Íslandi í dag er stýrt af nátttröllum. Fólki sem nú nálgast hinn endann á ævinni og er komið í bráðabana í leik sem löngu átti að vera búið að flauta af.
Heiftin í garð ÓRG kom til af því að það voru hans gömlu vopnabræður og baráttujaxlar úr pólitíska drulluslagnum á síðustu öld sem keyrðu baráttuna áfram. Þetta var persónulegur slagur. Málið snerist aldrei um athafnir og gjörðir ÓRG á síðustu kjörtímabilum. Það snerist um persónuleg kynni af honum.
Heiftin í garð ÓRG kom til af því að það voru hans gömlu vopnabræður og baráttujaxlar úr pólitíska drulluslagnum á síðustu öld sem keyrðu baráttuna áfram. Þetta var persónulegur slagur. Málið snerist aldrei um athafnir og gjörðir ÓRG á síðustu kjörtímabilum. Það snerist um persónuleg kynni af honum.
Enda eru þessi hjaðningavíg á milli ráðandi afla í samfélaginu í dag engin alvöru hugmyndafræðileg átök. Þetta eru leifar af gömlum slag sem nú er knúinn fram af persónulegum spælingum og hollustum – og hugmyndaleysi.
Málin sem eru til umræðu eru steingeld og gamaldags. Relevant mál, sem við ættum að vera að ræða, komast varla á dagskrá. Mannréttindi, umhverfisvernd, vísindalæsi. Ekkert af þessu skiptir umræðuna miklu máli. Menn eru uppteknir af öðru.
Við erum gíslar fjörbrota fólks sem tróð sér frekjulega aftur fram á sviðið þegar uppklappið var búið og treystir ekki nýrri kynslóð fyrir landinu.
Við höfum forseta og forsætisráðherra um sjötugt. Meira og minna allir ráðamenn eru miðaldra eða rúmlega það með langa pólitíska ferla á bakinu. Álitsgjafnar í fjölmiðlum eru gamlir skólabræður ráðamannanna. Áköfustu bloggararnir og kommentararnir eru gamlir fótgönguliðar í pólitísku baráttunni. Og unga fólkið sem tjáir sig er ringlað og áttavilt – samanber tímaskekkjulýðinn í SUS sem verðlaunar Hannes Hólmstein og heldur einu kosningavöku ÓRG.
Það vantar endurnýjun í þetta þjóðfélag. Gamla, steinrunna tuttugustualdarfólkið þarf að uppfæra stýrikerfin og taka þátt í nýjum málum og nýjum áherslum eða hverfa af sviðinu.
Aðeins þegar þessir skaðlegu, einhæfu og steinrunnu gasprarar stíga til hliðar losnum við við þessa fúlu fortíðardrauga sem búið er að vekja upp – og stöndum frammi fyrir þeirri ábyrgð að takast á við verkefni morgundagsins í stað þess að velta okkur upp úr gærdeginum.
Aðeins þegar þessir skaðlegu, einhæfu og steinrunnu gasprarar stíga til hliðar losnum við við þessa fúlu fortíðardrauga sem búið er að vekja upp – og stöndum frammi fyrir þeirri ábyrgð að takast á við verkefni morgundagsins í stað þess að velta okkur upp úr gærdeginum.
3 ummæli:
Þetta er vissulega athyglisverður pistill í ljósi aðdáunar þinnar á hinum (væntanlega líka) "fúla fortíðardraug" ÓRG. Hér er vissulega þörf á endurnýjun en ég deili því miður ekki þeirri bjartsýni með þér að hér sé eitthvað að fara að breytast. Nýjar og gamlar hagsmunaklíkur munu áfram berjast fyrir sínu þó þær geti ekki lengur klætt sig í hugmyndafræðilega grímubúninga síðustu aldar.
kv.
hef
Aðdáunar? Ég held það þurfi ansi tæpan lesskilning til að sjá aðdáun út úr skrifum mínum um ÓRG. Mér fannst hann flottur í viðtölum tengdum Icesave og gladdist yfir synjuninni. Vildi hann áfram sem forseta af praktískum ástæðum sem ég lýsti vel hér:
http://maurildi.blogspot.com/2012/04/smokk-bessastai.html
Ég styð að sama skapi ríkisstjórnina en kaus ÓRG til að veita henni þarft aðhald í landi þar sem valdníðsla og flokksræði er hið hefðbundna stjórnarfar.
En það er vissulega rétt hjá þér að undirliggjandi er bjartsýni mín um að eitthvað muni lagast. Ég kann betur við að ganga um með það hugarfar og finnst trú á mannkynið mikilvæg í öfugu hlutfalli við gæði verka þeirra.
Allt er þetta sem þú segir hér Ragnar gott og blessað, einsýni "umræðu"hefðarinnar hér grátlegt og þörf á "uppfærslu" rík. Við megum hins vegar ekki gleyma að huga að því sem liggur hér undir, hagsmununum.
Þessa dagana snúast hagsmunaátökin um fiskinn í sjónum. Þeir sem fengu hann gefins á sinni tíð og þeir sem týna molana af borðum þeirra vilja ekki láta kvótann af hendi og alls ekki breyta aflahlutdeildinni nú þegar þorskstofninn vex. Um þetta hverfðist umræðan í forsetakosningunum, ESB, Nýja-Ísland, Gamla-Ísland, nýir vendir, skuldavandi heimilanna, óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru allt birtingarmyndir undirliggjandi átaka um auð og völd. Þeir sem vildu óbreytt ástand sáu sinn forseta í Ólafi þriðjungi.
Hérna skulum við byrja á því að kveða niður draugana, ég er ekki svo viss um að þeir séu svo gamlir þótt birtingarmynd þeirra nú sé gamalkunnug.
Skrifa ummæli