2. júní 2012

Að tryggja allt upp í toppÆtli vafasamasti og dularfyllst gjörningur stjórnvalda í hruninu hafi ekki verið að ábyrgjast allar innistæður á Íslandi upp í topp í þeirri viðleitni að tryggja trúverðugleika og stöðuleika fjármálakerfisins. Ekki aðeins er þessi ákvörðun í raun sú eina sem okkur stafar enn einhver lagaleg hætta af núna, mörgum árum eftir hrun – hún var líka óréttlát. Hvers vegna í ósköpunum áttu fjármagnseigendur ekki að tapa á hruninu eins og aðrir? Hvernig var sanngjarnt að almenningur væri gerður ábyrgur fyrir innistæðum stóreignafólks?

Hefði í alvöru haft einhver úrslitaáhrif á stöðugleika og trúverðugleika fjármálakerfisins ef 95% trygging hefði verið látin duga? Eða 85% eða 75%? Hvar skyldu mörkin liggja? Hversu margt fólk ætli hafi átt verulegar upphæðir umfram 21 þúsund evru tryggingarhámarkið?

Hveru margir milljarðar eða milljarðatugir hafi svifið á öruggu skýi eigenda sinna til að hægt væri að vernda þá fyrir áfallinu sem þjóðin stóð frammi fyrir.

Kannski er búið að skoða þetta allt og reikna í kjölinn en ég hef illan grun um að þarna hafi verið gerð handvömm. Og það er sem mig minni að þessi 100% trygging hafi aldrei verið lögfest. Hún hafi bara verið pólitísk yfirlýsing sem bankakerfið síðan vann út frá – en lögum hafi aldrei verið breytt. Ef einhver veit eitthvað um þetta mál þætti mér vænt um að fá línu um það.

Nema hvað – þessi árátta að tryggja upp í topp er ekki ný. Hún er eiginlega viðtekið viðbragð á Íslandi. Að láta fjöldann taka skellinn fyrir fáa. Nú er allt upp í loft út af kvótamálunum. LÍÚ er komið á fullt í slaginn við ríkisstjórnina. Sem er slagur sem ég á erfitt með að sjá ríkisstjórnina vinna eins og ég hef áður rætt. Sem er líka slagur sem mér finnst svo óttalega tilgangslaus.
Fyrir mörgum árum fór ég að rökræða við vin minn og þáverandi skólabróður um kvótakerfið. Ég hallmælti útgerðarmönnum ægilega og taldi miklar afætur. Hann benti mér næstum kurteislega á að ég vissi ekkert um það sem ég væri að segja og að allt sem ég hefði fram að færa væru rakalausar klisjur. Ég varð nokkuð fúll – en varð að viðurkenna eftir tvær þrjár misheppnaðar atlögur að ég hafði ekkert að standa á annað en einhverja heimsmynd sem ég vissi ekkert hvað var á bak við.

Enn í dag ber mikið á rangfærslum um kvótakerfið, jafnvel hjá fólki sem á að vita miklu, miklu betur. Það virðist vera viðtekin skoðun að kvótakerfið sé runnið undan rifjum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka. Aðrir séu meira og minna saklausir af því – og nú sé löngu tímabær vinstri stjórn að reyna að afmá áratuga gamalt ranglæti. Raunin er sú að kvótakerfið er margstagbætt og breytt kerfi sem á þremur vígstöðvum varðar réttlæti og ranglæti. Allt annað við kvótakerfið er annað hvort hagfræðilegs eðlis eða fiskifræðilegs.

Þessir þrír þættir kvótakerfisins sem snerta með berum hætti réttlæti og ranglæti eru:


Upprunaleg úthlutun aflaheimilda,

framsal þessara sömu heimilda og

byggðaröskun og ofsagróði útgerðamanna á kostnað nærsamfélaga þeirra.


Fyrsta atriðið varðar líka þau meintu mannréttindi að allir landsmenn eigi að mega veiða fisk úr sjó í atvinnuskyni.

Af þessum þrem atriðum held ég að mest vonska tengist öðru atriðinu, framsalinu. Þar sem útgerðarmönnum var gert kleift að selja aflaheimildir sínar. En mig langar að skoða aðeins fyrsta atriðið um upprunalegu úthlutunina.

Þar var einmitt farin sú gamalkunna leið að reyna að tryggja upp í topp. Upp var kominn tímabundinn vandi vegna ofsóknar í íslensk fiskimið og í stað þess að hugsa málin í víðu samhengi var vaðið í það að ákveða kvótakerfi og úthluta kvótanum til þeirra sem höfðu verið að veiða nokkur misseri á undan. Ekkert tillit var tekið til nýliðunar eða annarra atriða sem kynnu að skipta máli. Höggið af kvótakerfinu mátti síst koma niður á þeim sem höfðu nærtækasta og einfaldasta hagsmuni. Kunnuglegt? Jú, þetta er í raun sama ákvörðunin og núna í hruninu, bara í öðrum slorugri búningi.Auðvitað höfðu margir hagsmuni af sjávarútvegi aðrir en útgerðarmenn. Fiskvinnslan og sjómenn, svo nærtæk dæmi séu tekin. Sjávarbyggðir í heild sinni. Hvers vegna skyldu allir nema útgerðarmenn þurfa að sætta sig við þau yfirborðskenndu frjálshyggjurök að besta leiðin til að tryggja hag þeirra væri að halda útgerðarmönnum hraustum?

Eins má spyrja: Hví ættu Íslendingar að trúa því að besta leiðin við að koma Íslandi úr rústum hrunsins væri að halda fjármagnseigendum ánægðum?

Nema hvað, snúum okkur að atriði tvö. Framsalið. Þegar það komst á koppinn gátu útgerðarmenn beinlínis tekið sína eigin hagsmuni framyfir hagsmuni allra annarra. Þeir gátu selt rétt sinn og yfirgefið plássin í volli sjálfir með fulla vasa fjár. Ranglætið verður varla skýrara, eða hvað?

Rökin fyrir framsalinu eru ekki sérlega flókin. Þau má skýra með nokkrum setningum:

Íslenskur sjávarútvegur hafði vaxið langt umfram það sem auðlindin þoldi. Ára og áratuga rányrkja og ofveiði og þensla (meðal annars knúin áfram af ofsagróða í seinni heimsstyrjöld og of auðveldu aðgengi að fé í kalda stríðinu) hafði komið landinu á þann stað að of margir sóttu í takmarkaða auðlind. Með áframhaldandi sókn myndi verða algjört hrun á auðlindinni og í framhaldi efnahagslegt hrun. Með því að setja upp kvótakerfi var hægt að takmarka aðgengi og fyrirbyggja algjört hrun – en þar sem útgerðir voru alltof margar var hlutur hverrar í auðlindinni ekki sérlega arðvænlegur. Til að sjávarútvegur yrði arðvænlegur og fram færi nauðsynleg hagræðing til að bregðast við áhrifum þenslu var sett á framsal. Þannig hurfu úr greininni þeir sem minnstri arðsemi skiluðu og hinir urðu eftir sem gekk best.Það að sjávarbyggðir hafi þolað mikil högg má réttlæta hagfræðilega með því að segja að sjávarútvegurinn hafi verið búinn að þenjast út langt umfram það sem eðlilegt gæti talist og samdrátturinn hafi því verið óumflýjanlegur. Framsalið hafi verið leið til að reyna að tryggja að a.m.k. einhver þeirra blómstruðu á meðan önnur visnuðu hratt – í stað þess að þau visnuðu öll jafnt og þétt á meðan látið væri sem þensluástandið hafi verið hið eðlilega ástand hlutanna.

Gegn þessum hagfræðilegu rökum má stefna öðrum hagfræðilegum rökum. En þau eru samt sem áður sterk. Íslenska kvótakerfið er hagfræðilega mjög traust líkan. Og útgerðin hefur farið í gegnum allskyns tilraunir og breytingar – miklu fleiri en flestir halda.

En var það réttlátt að afhenda einstökum mönnum allan kvótann til frambúðar vegna tímabundinna hagsmuna þeirra?

Nei, augljóslega ekki. Þar liggur grunnranglæti kvótakerfisins. Hagsmunir fárra voru látnir ganga fyrir hagsmunum margra. Að vísu með hagfræðilegum rökstuðningi.

En var réttlátt að menn gætu barasta framselt þessi réttindi sín?

Tja, það er flóknara mál. Þurfti ekki einhvern hvata í kerfið svo það myndi vinda ofan af sér? Ég veit það ekki. En ég tel afar hæpið að ætla að skella skuldinni af því á Sjálfstæðisflokkinn. Það var nefnilega vinstri stjórn sem kom á framsalinu árið 1990. Þá var kvótakerfið orðið sex ára gamalt.

Í dag vantar kvótakerfið tvö ár í þrítugt.

Baráttan sem stendur nú um það er að hluta til hagfræðilegs eðlis og að hluta til eitthvað allt annað. Þorvaldur Gylfason hefur verið áberandi í áratugi og barist fyrir því að tekið verði upp veiðigjald. Þaðan er hugtakið „gjafakvóti“ komið. Fyrir honum og fleirum er fráleitt að afhenda mönnum auðlind án þess að gjald komi á móti.

Sá hluti er ekkert ofsalega umdeildur og meira en líklegt að ná mætti einhverskonar málamiðlun um aukningu á auðlindagjaldi. Það virðist ennfremur bara réttlátt.

Hin hliðin er innköllun kvóta og endurúthlutun.

Þar vandast málið. Hvernig í ósköpunum ætti að verða til skýrara tilkall til kvóta en að hafa keypt hann samkvæmt áratugagömlum reglum sem sömu stjórnmálamenn settu og nú vilja innkalla kvótann? Steingrímur var ráðherra í ríkisstjórninni sem setti á framsalið og Jóhanna var í Alþýðuflokknum sem stóð að lögunum.

Og jafnvel þótt enn leynist einhverjir af upprunalegu kvótaeigendunum frá 1984 í hópnum. Hvers vegna skyldi maður taka af þeim kvótann til að úthluta honum upp á nýtt? Og hver á að úthluta og hvernig?

Stundum er sagt að kvótakerfið sé óréttlátt vegna þess að þar hafi ákveðnu fólki verið skapaður gríðarlegur auður sem menn hafi ekki átt fyllilega skilið. Og sumir vilja jafnvel meina að þar hafi meira og minna öll ógæfa Íslands hafist. Þetta fé og þessi aðstaða hafi leitt af sér sérhagsmuna- og spillingarkerfi.

Gott og vel. Segjum að búið sé að innkalla kvótann. Taka hann af mönnum. Nú á að úthluta aftur. Hver fær hann?

Á yfirborðinu er sanngjarnasta og eðlilegasta leiðin sú að selja réttinn þeim sem vilja borga best verð. Þannig fái þjóðinn sinn eðlilega arð.

Skoðum það aðeins betur. Hverjir eiga peninga á Íslandi til að kaupa kvótann ef honum verður endurúthlutað? Hverjir hafa ekki horft á eignir sínar brenna upp með ógnvænlegum hraða?

Jú, það eru fjármagnseigendur. Sem fengu þessa frábæru og fordæmalausu tryggingu með skattfé. Fólkið sem ekki þurfti að taka á sig hrunið í sama mæli og aðrir. Alveg eins og útgerðarmennirnir forðum.

Hinir nýju, „réttlátu“ sægreifar verða þeir sem nutu þess að vera tryggðir upp í topp tuttugu og fimm árum eftir að ákveðið var að innkalla tryggingu síðustu kynslóðar.Íslensk pólitík er eins og snjóflyksuglerkúla. Það er sama hvað djöflast er – það besta sem hægt er að vonast eftir er að flyksurnar lendi á nýjum stöðum næst.

4 ummæli:

Edison sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Pétur sagði...

Það er rétt hjá þér að þetta byggðist eingöngu á yfirlýsingu ráðherra án lagastoðar. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er ekki svarað spurningunni hversu margir áttu innistæður undir 21.887 evrum en hins vegar gerð grein fyrir því hvaða vernd hefði fólgist í því að tryggja innistæður upp að 5 milljónum annars vegar og 10 milljónum hins vegar en jafnvel fimm milljóna viðmið hefði tryggt að fullu þorra einstaklinga og fyrirtækja í landinu, eins og kemur fram hér: http://vefblod.visir.is/index.php?netpaper=1319

Nafnlaus sagði...

Athugaðu hvað Geir sagði í ávarpinu margfræga þegar hann lofaði fullri innistæðutryggingu, þar tiltók hann líka lífeyrissparnað og séreignarsparnað, en það var að sjálfsögðu ekki framkvæmt og nær allir lífeyrissjóðir (utan starfsmanna Ríkisins) hafa tekið á sig tugprósenta skerðingu á inneignum.
Hví voru bankainnistæðueigendur tryggðir í topp en ekki lífeyrisinnistæðueigendur? Í skýrslu um innistæðutryggingar kom fram að 1,5% landsmanna stóðu á bak við innistæður yfir 100 milljónum. 80% útgjaldanna var vegna innistæðna yfir 100 milljóna ef ég man rétt.

Unknown sagði...

Mikilvægir punktar Ragnar enda veit ég að þú þekkir ágætlega. Hvernig er það, skrifuðuð þið Árni aldrei grein upp úr ritgerðinni ykkar? Ég held þau okkar sem erum á báðum áttum varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, þ.e. erum hlynnt ýmsu og ekki eins hrifin af öðru, og þekkjum það kannski ekki eins vel og við ættum að gera hefðum gott af því að lesa meira eftir menn eins og ykkur.

Annars er ég alltaf dálítið hugsi yfir því þegar menn í þessari umræðu, sem og annarri, nota skilvirkni og hagkvæmni sem aðalrökin í máli sínu. Ekki vegna þess að þetta séu ekki gildi sem máli skipta - í raun getur t.d. mikil óskilvirkni leitt til mikils ranglætis - heldur vegna að önnur gildi skipta líka máli og vegna þess að það er oft óljóst hvað menn meina nákvæmlega þegar þeir tala um skilvirkni og hagkvæmni því hér, eins of í flestu öðru, skiptir samhengið máli.

Góðar stundir. Haltu áfram að skrifa og vera erfiður!
Gunnar Sigvaldason