1. júní 2012

Misreiknað forsetaframboð



Það virðist eitthvað vera að fjara undan framboði Þóru þessa dagana. Og það þrátt fyrir að gagnsóknin sé hafin. Hún hefur ekki verið að koma vel út í þau skipti sem hún hefur þurft að eiga samtal við fólk þótt ræðurnar sleppi alveg til. Bein lína á DV var fyrst, vitavonlaus. Fundurinn í Iðnó var ekki góður heldur. Og hún forðaði sér undan mjög beinum og afdráttarlausum spurningum – sem virkar eins og hugleysi eða óeinlægni.

En aðalmistök Þóru eru þau að þú getur ekki farið með framboð til höfuðs öðru framboði án þess að hafa reiknað til enda hverra hagsmuna þú ert að gæta. Það hefur ekki tekist að fullu að selja almenningi vörunna:

Atkvæði með Þóru er atkvæði gegn hrunöflunum og Gamla-Íslandi.

Því þótt ÓRG sé vissulega rauður þráður í vaðmáli þess vonlausa Íslands sem allir vilja losna við þá er hann festur við fleiri þræði. Og almenningur sér stöðuna dálítið þessum augum:

ÓRG er meiri ógn öflum innan Gamla-Íslands en hann er þrándur í götu þess nýja.

Það sem framboð Þóru hefur klikkað á að gera er að gera annað tveggja (eða bæði):

Að sannfæra almenning um að þingræðið og stjórnarfarið nú sé á verulegan hátt frábrugðið því sem einkenndi Gamla-Ísland.

Að sannfæra almenning um að Þóra hafi til að bera eitthvað sem einkenni Nýja-Ísland.

Í stað þess að selja Þóru sem ferska, nýja vöru. Eitthvað spennandi og nýtt hefur Þóra (væntanlega að boði ráðgjafa sinna) reynt að höfða til íhalds og gamaldagsöryggiskenndar. Í þeirri viðleitni hefur Þóra nefnt bæði Vigdísi og Kristján Eldjárn (reynt m.a.s. að líkja sér við V. ef hún mögulega getur) og talað mikið um þingræði og það stjórnarfar sem var við lýði.

Með þessu er Þóra leynt og ljóst að taka sér stöðu með Gamla-Íslandi eða Eld-Gamla-Íslandi.

Sem eru mistök. Almenningur er ekki í leit að nostalgíu. Hann er í leit að einhverju nýju. Þeir einu sem í raun og veru hafa eðlislæga tilhneigingu til að falla fyrir framboði Þóru eru, jafn kjánalegt og það hljómar, flokksbundnir, íhaldssamir Sjálfstæðismenn. Sem eru hennar hörðustu andstæðingar vegna þess að þeir telja það pólitískt hentugra.

Kjarninn í fylgi Þóru er síðan fólk af vinstri vængnum sem flykkir sér að baki henni vegna þess að það vill koma ÓRG frá. Þetta fólk er ekkert svo hrifið af málflutningi Þóru, það bara þolir ekki ÓRG. Enda talar það sáralítið um það hvað hún hefur fram að færa en þeim mun meira um hvað hún er. Að hún sé kona. Að hún sé móðir. En mest þó talar það illa um ÓRG.

Það kom svo raunalega í ljós að hvorki ÓRG né Þóra eru Nýja-Ísland í neinum skilningi þegar þau tóku hvorugt afstöðu gegn því að vera tvö ein í sviðsljósi Stöðvar 2.

Og Þóra er í bölvaðri stöðu því ef hún tekur harða afstöðu núna virkar hún eins og hentistefnumanneskja. Ef hún mætir ÓRG mun hún missa meira fylgi en hann.

En það er enn tími til stefnu. Ef Þóra ætlar að vinna þetta þarf hún að:

Hætta að kvóta í gamla tíma og dauða forseta.
Finna hvað það er sem hún færir Nýja-Íslandi og gera það sýnilegt.

Aðeins þannig á hún séns.

Og hún þarf að gangast við vilja sínum til að ganga í ESB svo hún verði ekki bombaderuð með þessari spurningu í hvert skipti sem myndavél verður beint að henni þar til hún finnur ekki fleiri leiðir til að varpa henni frá sér.
 

2 ummæli:

egillm sagði...

Góður pistill. Held að Þóra sé búin að klúðra þessu: http://visir.is/thora-segist-ekki-vilja-kappraedur-a-kostnad-annarra-frambjodanda/article/2012120609854

Nafnlaus sagði...

Þessi grein er að nokkru leyti úrelt. ÞA tók afstöðu. Það er meira en sagt verður um fulltrúa 2007 (Gamla-Íslands); ÓRG.