20. júní 2012

Baneitraðir stuðningsmenn

Framboð Þóru á undir högg að sækja og virðist búið spil. Það er nokkuð óvænt hversu hratt hallaði undan fæti. Skýringarnar eru eflaust margar en þær fyrstu þrjár sem koma upp í hugann eru þær að Þóra stóð sig ekki vel í kappræðum við aðra frambjóðendur – svo illa raunar að hún þurfti í bæði skiptin að bæta frammistöðuna upp með vídeóbloggi eftirá þar sem hún fékk að segja það sem hún vildi sagt hafa í kappræðunum en kom ekki að. Þá vinnur gegn Þóru pólitískur óróleiki síðustu vikna. Hörmungarástandið á þingi miklaði fyrir einhverjum mikilvægi röggsams og virks forseta. Loks er ótrúlega margt fólk sem virðist telja að Þóra sé of ung, reynslulaus eða of mikil ungamamma fyrir embættið. Það virkar illa á gamaldags sálir að segja bara „barnið á föður,“ hljómar dálítið kalt og klínískt.

Þinglok og ógeð á pólitísku þrasi gætu aukið fylgi Þóru eitthvað aftur – þó varla nóg.

En hvað sem öllu þessu líður þá er einn vandi sem steðjar að framboði Þóru sem er nærtækari en allir hinir – og kemur henni sáralítið við.

Það eru stuðningsmennirnir.

Í fyrsta lagi hafa þeir margir verið alltof uppteknir af ÓRG – og þegar athyglinni er beint að Þóru er það stundum á afar undarlegum forsendum. Væntanlegur „Þórudagur“ er t.d. ofsalega skrítin hugmynd. Ég bjóst raunar við einhverju svona og spáði því fyrir ekki svo löngu. En þetta er voða Túrkmenbasa-eitthvað.


Það hefði verið svo miklu betra að búa til einfalt slagorð fyrir framboðið og spyrða svona hátíð við það. Það hefði t.d. verið alveg kjörið (auglýsingamennskunnar vegna) að reyna að nýta þá staðreynd að kosningabaráttan fer fram á þeim tíma sem vori lýkur og sumrið hefst og birtan eykst. En nóg um það.

Það er eitthvað skrítið við suma af ráðgjöfum Þóru og hennar risastóra kosningaráð.

En það eru fótgönguliðarnir sem hafa spillt mest fyrir. Hörðustu stuðningsmenn Þóru hafa spillt ægilega fyrir henni með því að gefa öllu sem hún segir holan tón.

Þóra vill ekki láta baráttuna snúast um persónu og verk ÓRG – en stuðningsmenn hennar tala um fátt annað.

Þóra vill horfa til framtíðar – en stuðningsmenn hennar er í því að tala um fortíðina.

Þóra vill vera glöð – en stuðningsmenn hennar eru afar reiðir.

Það þarf ekki að lesa blogg af kappi til að sjá þetta ægilega misræmi á milli stefnu og strauma. Stuðningsmenn Þóru hafa verið algjör plága á feisbúkk vikum saman og hafa gert marga afhuga henni með neikvæðni, örvæntingu og endalausum áróðri.

Þegar málflutningur þinn nær ekki einu sinni eyrum hörðustu stuðningsmanna þinna – hvernig í ósköpunum á þá að vera trúverðugt að þú getir leitt saman stríðandi fylkingar?

Það er ekki hægt.

Allt afhjúpar þetta aðeins eina blákalda staðreynd. Fyrir hinn háværa kjarna stuðningsmanna Þóru snerist þetta aldrei um að gera hana að forseta – heldur um að steypa ÓRG af stóli.

1 ummæli:

Matti sagði...

Þetta er farið að minna óþægilega mikið á Icesave umræðuna. Fólk er ekki dæmt með sama hætti eftir því hvar það stendur.