30. maí 2012

Það getur verið erfitt að hneykslast





Þegar velsæmi og hneykslan eru mælikvarðar á alla skapaða hluti getur verið erfitt að vera til. Nú ku Stöð 2 ekki sjá tilgang í því að láta aðra forsetaframbjóðendur mætast í kappræðum en þá tvo sem skoðanakennanir sýna að eigi raunhæfan séns. Þá móðgast auðvitað margir og benda á að þarna sjáist einkar skýr galli á íslenska lýðræðinu – þar sem allir fái ekki sama séns.


Ég skil alveg af hverju Stöð 2 lítur á kappræður ÓRG og ÞA sem betri söluvöru en fjölmennari panel. En ég skil líka mæta vel að það er eitthvað ógeðfellt við það að halda kastljósinu einungis á þeim sem notið hafa þess fram til þessa – og koma þannig í veg fyrir að aðrir eigi einhvern möguleika.


En ég skil ekki að hægt sé að hneykslast óskaplega yfir þessu – a.m.k. ekki án þess að hneykslast á ýmissi annarri viðleitni í sömu átt.


Þóra Arnórs sagði þetta t.d. í ræðunni sinni á dögunum:




Við sjáum það í könnunum að fylgið er á nokkurri hreyfingu, en þó er myndin nokkuð
skýr. Valkostirnir eru tveir, sú sem hér stendur og hinsvegar að veita núverandi
forseta umboð til að sitja í 20 ár.  


Þarna gerir Þóra það sama og Stöð 2. Afskrifar alla aðra frambjóðendur aðra en sjálfa sig og ÓRG. Réttilega kannski. En er svona málflutningur hneykslanlegur? Ég er ekki viss.


Jón Ingi Cæsarsson er akureyrskur krati. Hann er alveg froðufellandi af reiði yfir ósóma Stöðvar 2 eins og svo margir aðrir:


Það er fullkominn dónaskapur af fjölmiðli að taka einhverja frambjóðendur útfyrir sviga og skila aðra eftir.
 Hann skorar á Þóru og ÓRG að hafna boðinu. 


Sem væri ekki svo voðalegt ef hann hefði ekki sjálfur greint stöðuna nokkru áður svona:



Það eru hreinar línur í þeim valkostum sem eru í forsetakjöri. Kosið verður á milli tveggja frambjóðenda, aðrir komast varla á blað og sumir þeirra ættu að hugsa sinn gang áður en þeir eyða milljónum í framboð sitt.
Þær hreinu línur sem liggja fyrir eru.
  •  Sitjandi forseta síðustu 16 ára, sem er  þreyttur karlmaður , umdeildur, flokkspóltískur og á áttræðisaldri meirihluta kjörtímabils. ( Fulltrúi gamla Íslands, hrunsins og útrásarvíkinga )
  • Unga konu, móður, vel menntaða, málefnalega, boðar að gera forsetaembættið að sameiningartákni á ný.

Mikið held ég það sé stundum erfitt að vera hneykslaður.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

right on the money.