7. apríl 2012

Ógeðfelld viðhorf í ESB

A dögunum birtist í blöðunum auglýsing um að það væri munur ef Ísland hefði haft evru frá hruni. Auglýsingin er einhverskonar forleikur að auglýsinga- og áróðursherferð fyrir aðild að ESB. Þar sem aðild er útmáluð sem sérlega jákvætt fyrirbæri – og notast er við eldgamalt en illa ættað áróðursbragð.


Nú er ég alls ekki í prinsippinu á móti aðild að ESB. En ég verð að viðurkenna að ég er tortrygginn. Ég skil þörfina á einhverskonar bandalagi sem reynir að tryggja það að þjóðirnar í Mið-Evrópu reyni að láta það ógert einu sinni að drepa borgara hvers annars en ég skil ekki hvers vegna úr því þarf að verða risastórt veldi sem krefst innlimunar til að eiga sæmilega siðuð og vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir. Ég skil heldur ekki hvers vegna Íslendingar ættu að vilja þangað inn eftir reynsluna af samskiptum við þær þjóðir sem mestu ráða í Evrópu á allra síðustu árum. Það er ekki með nokkru móti hægt að segja að Íslandi hafi mætt vinaþel eða stuðningur úr þeirri átt þegar þörfin var mest.

Raunar finnst mér eitthvað verulega ógeðfellt við glaðhlakkaleg Mið-Evrópuviðhorf til vandamála annarra. Það er sérlega ógeðslegt að á sama tíma og fólk stekkur út um glugga, hellir yfir sig bensíni eða skýtur sig í hausinn í Grikklandi séu lítil, blá já-merki í íslenskum blöðum að benda á það hve lítið munaðarvara hefur hækkað í verði á evrusvæðinu.


Enn ógeðslegra finnst mér að meðan almenningur í Grikklandi upplifir ægilegar hörmungar, svelti og áhyggjuþrungin ævilok skuli virkilega þykja smekklegt eða eðlilegt að birta krútt-fréttir af því að tíu ára gamall hollenskur drengur hafi leyst vandræði Grikklands með því að líkja vandamálinu við pizzu.


Mér finnst þetta álíka mikið við hæfi og ef María Antoinette hefði komið fram á svalir Versala og ávarpað æstan múginn með því að sýna þeim kökurit.

Leið hollenska „undrabarnsins“ (sem mig grunar reyndar að hafi verið undir meira en verulegum áhrifum af pabba sínum við lausnina ef marka má vídeóið af þeim feðgum) er sú að neyða alla Grikki til að skila öllum evrum inn og fá í staðinn verðlausar drökmur. Hörðum refsingum verður beitt ef einhver felur evrur og reynir að hagnast á fyrirsjáanlegu hruni drökmunar í framhaldinu.

Já, það er munur að hafa evru.

Evrópusambandið er sérhagsmunabandalag með gríðarlegum aflsmun. Það hefur ekki reynst fullt samúðar og hjálpfýsi. Þvert á móti er það viðskotaillt og harðdrægt í að viðhalda sjálfu sér. Köld kerfishugsun er aðall.

Það hefur sýnt sig að það er ekki nokkur einasti hagur af því að hafa evru frekar en krónu þegar allt fer til fjandans. Ef evran er orðin að bjarghring utan um vonlausa þjóð sem er við það að sökkva þá má treysta á einhver stríðalin norðurevrópsk börn sem finna sniðuga skyndibitaleið til að skipta á bjarghringnum og steðja. Og bjarga þannig hringnum í sjávarháska.

4 ummæli:

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Og þetta nasistaveggspjald kemur málinu við hvernig? Fólk getur alveg sagt eða skrifað "já" án þess að vera með hugann við Evrópusambandið eða Þriðja ríkið eða ímynduð tengsl þar á milli.

Bjarki sagði...

Þetta er spot on að mestu sýnist mér. Ég hef stundum kallað mig Evrópusinna og studdi lengi vel inngöngu Íslands í ESB á þeim grundvelli að það væri samstarf lýðræðisríkja á jafnræðisgrundvelli. En það er mikil tilvistarkrísa í gangi hjá sambandinu núna og eina lausnin sem ráðamenn þar bjóða upp á virðist vera aukin miðstýring í yfirstjórn sambandsins, aukin áhrif Þjóðverja á alla stefnumótun og aukin ítök fjármálakerfisins sem yfirgnæfir alla aðra hagsmuni og virðist ekki leyfa manneskjulega nálgun á gríska harmleikinn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Maður getur líka alveg sagt já, kjötbollur. Eða já, neftóbak. Vegna þess að orðið Já á undan einhverju öðru fær minni spámenn til að halda að það eitt og sér geri hlutinn jákvæðan.

Þetta kunni Göbbels- þetta kunna greinilega fleiri.

Jon Frimann sagði...

Ég legg til þess að kveikt verði í þessari bloggfærslu og höfundurinn rasskeltur á almannafæri fyrir að nota hitlers rökvilluna.