6. apríl 2012

Hin sósíalísku gen Þóru Arnórs

Framboð Þóru Arnórs má gagnrýna fyrir það að látið sé eins og það sé ópólitískt. Það er rammpólitískt. Þóra sjálf var einn af helstu hvatamönnum stofnunar Samfylkingarinnar og náinn samstarfsmaður núverandi og fyrrverandi ráðamanna í flokknum. Við þetta þurfa menn að kannast en samt hefur öllum vísunum í pólitískan feril Þóru verið sleppt hingað til í allri kynningu. Vegna þess að selja á fólki hugmyndina um að Þóra sé fulltrúi Nýja-Íslands og ÓRG þess gamla – þegar raunin er sú að þau eru bæði fulltrúar þess gamla á vissan hátt.

Framboð hennar verður hinsvegar ekki gagnrýnt fyrir það að hún sé ung, móðir barna sinna eða dóttir föður síns. 



Faðir Þóru, Arnór, er vissulega sonur Hannibals og bróðir Jóns Baldvins. Fáir menn í íslensku fræðimannasamfélagi eiga feril sem er til marks um jafn mikið sjálfstæði og hann. Bækur Arnórs eru allnokkrar og fæstar fáanlegar í dýru broti. Honum var markvisst og skipulega haldið af stóra sviði íslenskrar menningar. Einhverjir hafa dirfst að segja að Þóra hljóti að vera sósíalisti því pabbi hennar hafi lært í Moskvu. Pabbi hennar nam vissulega í Moskvu – en sú reynsla og frekari reynsla sem hann aflaði sér gerði hann að yfirlýstum andstæðingi alræðisstjórnarfarsins sem þar var við lýði og þeirrar staurblindu meðvirkni sem einkenndi stjórnmálalega afstöðu Íslendinga á þessum tíma. 

Ég var nemandi Arnórs í heimspekinni á sínum tíma. Hann var satt að segja ekki sérlega upprífandi kennari. Við grínuðumst með að stundum væri maður ekki viss um hvort hann væri vakandi eða sofandi í pontunni og mikil ósköp sem hann gat dregið seyminn. Það lætur nærri að hikhljóð hafi verið uppistaðan í fyrilestrum hans. Hann virkaði beinlínis hrumur. Sem hann var alls ekki.

Arnór vakti samt áhuga minn og ég fór að kippa með mér bókunum hans þar sem ég varð var við þær á bókamörkuðum. Við lestur þeirra öðlaðist ég djúpa virðingu fyrir manninum. Hann hafði þá barist árum saman fyrir uppgjöri við Sovétið. Sérstaklega blöskraði honum sögulegt gagnrýnileysi gagnvart málsvörum og áróðursmönnum Sovétsins hér á landi. Hann skrifaði litla bók um Halldór Laxness sem bar titilinn Handbendi harðstjórans (sem varð að fyrri hluta stærri bókar seinna).  Jón Ólafsson kallaði bókina „níðrit“. 

Sú saga gengur líka að Arnór hafi verið meginástæða þess að Jón Baldvin beitti íslenska ríkinu til liðveislu landanna við botni Eystrasalts. Ég trúi því vel.

Ég ber mikla virðingu fyrir Arnóri. Ég trúi ekki öðru en að maður með annað eins lífshlaup hafi alið börn sín upp til gagnrýnnar hugsunar og sjálfstæðis. Jafnvel á kostnað hæginda og frama. Mér finnst ekkert í fari Þóru gefa tilefni til að efast um það. 

Það er í öllu falli sérlega ómaklegt að reyna að gefa til kynna að ætternið geri Þóru að gagnrýnilausum sósíalista. Ekkert getur verið fjær sannleikanum.

Ég ætla að enda þetta á tilvitnun í Arnór úr „níðritinu“. Lesendur geta dundað sér við að pæla í hvort svona haldi um penna genetískur sósíalisti:

Því hefur verið haldið fram, að það sé "kaldastríðsathæfi" að gagnrýna sósíalista fyrir það að halda fram málstað alræðisins. Nú sé hægt að slá striki yfir það sem menn gerðu og sögðu hér á árum áður, vegna þess að það var á tímum "kaldastríðsins". Það er torvelt að fá botn í þessa hugsun. Er það "kaldastríðsáróður" að aðhyllast almenn mannréttindi, að halda því fram að hver maður eigi rétt til lífs, frelsis og eigna, svo sem segi í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna? Er það "kaldastríðsathæfi" að halda því fram, að morð sé glæpur, og að yfirvöldin hafi ekki rétt til að myrða borgarana að geðþótta? Er barátta gegn dauðarefsingum "kaldastríðsæði"? Þeir sem nota þennan orðalepp, "kaldastríðsathæfi", eru að reyna að flýja eigin orð og gerðir. Það ótrúlega gerðist, að stór hluti menntamanna, skálda og rithöfunda valdi alræðið, tók þá trú, að ráða bæri niðurlögum lýðræðis í heiminum og innleiða í staðinn eins flokks stjórn. Enginn neyddi þessa menn til að taka þessa trú. Þeir gerðu það af fúsum og frjálsum vilja. Þeir þjónuðu "hugsjón sósíalimans" með ráðum og dáð. Þegar nú hefur komið í ljós, svo ekki verður um villzt, með falli sovétstjórnarinnar, að þessi hugsjón var ekki aðeins trú á siðleysi og glæpi, heldur og á kerfi sem gat ekki þrifizt, þá grípa menn til þess ráðs að segja: Við skulum ekki tala um þetta. Þetta var á tímum "kaldastríðsins". En það hvaða gildi menn velja til að gera að leiðarstjörnu lífs síns er óháð því hvort það er "kalt" eða "heitt" stríð einhversstaðar í heiminum. Það hefur staðið, stendur og mun standa óhagganlegt, að ekkert samfélag fær staðizt, nema borgararnir hafi rétt til lífs og eigna. Samfélag sem neitar borgurum sínum um þennan rétt er ómannlegt. Það er ekkert samfélag, sem segir að hver megi bíta náunga sinn á barkann. Þetta blasir nú við, sósíalistunum, og nú reyna þeir að afsaka sig með því, að þeir hafi haft þessar hugsjónir "á tímum kaldastríðsins", og að þar með hafi þeir varpað frá sér allri synd. Þeir séu núna hættir að trúa á marxisma, en hafi útvegað sér miklu betri isma, t.d. hegelisma, strúktúralisma, póststrúktúraisma, póstmódernisma. Þeir segjast jafnvel aðhyllast lýðræði. Það verður að krefjast þess af hverjum sósíalista, að hann lýsi því skýrt og skorinort yfir, að hann hafi lagt hin fyrri viðhorf sín að baki, ella verður að líta svo á, að hann sé að stunda kattarþvott, og aðhyllist sömu skoðanir undir niðri, en hafi einfaldlega ekki hugrekki til að standa við þær, eftir að þær komust í þrot með falli Sovétríkjanna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er góður punktur hjá þér. Arnór snerist einmitt gegn sósíalismanum og hefur örugglega orðið mjög hægri sinnaður með árunum. Hann kenndi mér stjórnmálaheimspeki, hann var ekki líflegur kennari en þó með skemmtilega napran húmor og virkaði á mig sem afar viðkunnanlegur og heilsteyptur maður. - ÁBS