4. apríl 2012
Fram, fram Þóra...
Þá virðist það vera að koma fram. Vinir Þóru Arnórs slúðra því að hún ætli í framboð. Næsta verk þeirra sem vilja ÓRG af Bessastöðum er að fá Herdísi Þorgeirs til að draga sitt framboð til baka. Það er ekki sama hvernig það er gert. En það er algjört grundvallaratriði.
Styrkleiki framboðs Þóru er að ÓRG á mjög erfitt með að grípa til varna. Það verða helst einhverjir lítt þokkalegir gaurar sem halda merki hans á lofti – þeir sömu og kölluðu hann fram aftur – á meðan fjöldinn allur af fólki mun blása í lúðra fyrir Þóru. Það verður mjög einhliða kosningabarátta.
Hvað gerist þegar ofurkynnt ný vara háir baráttu við gamalgróna. Tja, það mætti líkja þessu við pepsímax og púrrulauk eða kók og kartöflur. Það er ástæða fyrir því að grænmeti tekur minna pláss í búðum en gosið.
En öflugt framboð Herdísar er skeinuhætt. Þá lendir framboð Þóru í ónauðsynlegum átökum sem spillir mynd þess óumdeilanlega og kjaftæðislausa – auk þess sem erfitt er að sjá annað en að Herdís sé a.m.k. jafnhæf og Þóra ef tekið er tillit til mannkosta. Hún er frábærlega menntuð og með mikla reynslu og – ólíkt Þóru – bauð sig fram að eigin frumkvæði í stað þess að láta draga sig fram. Það frumkvæði mun í meðförum andstæðinga ÓRG vera úthrópað sem sönnun um of pólitíska tendensa – og því of líkt framboði ÓRG.
Sjálfstæðismenn munu flykkjast um ÓRG. Ríkisstjórnin er farin að taka ansi stórkallalegar ákvaranir og hikar ekki við að troða þeim í gegn. Sjávarútvegsmál munu tapast í þinginu en ekki er ólíklegt að með dálítilli vinnu sé hægt að fá almenning (sérstaklega í sjávarplássum) í baráttuham. Í því máli og fleirum álíka mun ríkisstjórnin fyrirsjáanlega koma sér fyrir við barma þeirrar gjár sem fræg er orðin að endemum. Þá vilja Sjálfstæðismenn hafa einhvern á Bessastöðum sem kann að segja nei.
Hvað sem öðru líður mun Þóra, verði hún forseti, líta mjög illa út þegar fyrsta moldviðrið skellur á og fólk heimtar þjóðaratkvæði.
En þetta er skák. Þóra er nefnilega að bjóða sig fram í samhengi nýrrar stjórnarskrár en ekki núgildandi. Stjórnarskrár sem átti að kjósa um samhliða forsetakosningunum – en klúðraðist. Það mál mun því tefjast og þegar loks ný stjórnarskrá liggur fyrir og rjúfa þarf þing til að gera hana gilda þá er alls ekki víst að núverandi meirhluti hafi fylgi. Þóra getur hæglega lent í því að þurfa að fela Bjarna Ben stjórnarmyndunarumboðið án þess að ný stjórnarskrá taki gildi. Bjarni er svo alveg vís til að fara að „taka til“ eftir núverandi ríkisstjórn – sem felur í sér að mölva niður öll framfaramál núverandi ríkisstjórnar. Ef Samfylking og Vg tapa kosningum verða það höfuðlausir herir því Jóhanna og Steingrímur munu hverfa af sviðinu. Í framhaldi af því kemur pressa á forsetann að vera einmitt pólitískur og veita Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki (eða Samfylkingu) viðnám.
Það er fyrst með nýrri stjórnarskrá sem hægt er að losa forsetann undan því að þurfa að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslur í óþökk valdhafa – með ákvæðum um lágmarksfjölda undirskrifta. Ný stjórnarskrá tekur ekki gildi án kosninga. Af augljósum ástæðum munu núverandi stjórnvöld vilja seinka þeim kosningum eins mikið og hægt er og klára fullt af erfiðum málum fyrst. Næsti forseti mun verða fyrir miklum þrýstingi vegna þeirra. Mjög líklega mun tímaþröng og hörkupólitík á þessu tímabili skapa nokkrar myndalegar gjár milli þings og þjóðar. Þá verða menn lítið sáttir með það að forsetinn virki sem skaplaus puntudúkka.
Þetta er alveg alvöru slagur. En það verður fróðlegt að sjá hvaða vinkil Þóra ætlar að taka. Hún verður að selja einhverja nálgun, útskýra erindi sitt í slaginn. Hvað vill hún gera? Hverju vill hún breyta? Það er ekki nóg að segjast vilja endurreisa virðingu embættisins eða gera það að sameiningartákni. Það má færa sannfærandi rök fyrir því að embættisfærslur ÓRG hafi komist mun nær því að sameina þjóðina en sundra henni. Hún má ekki koma fram sem eitthvað séríslenskt Stepford-víf. Fátt er ógeðfelldara þjóðinni – en fyrir hvern millimetra sem beinið vex fram í nefið á henni mun hún færast inn á vígvöll Herdísar.
Spennandi tímar eru framundan.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
En hversu djúpt ætli sé á stuðningi Sjalla og Framsóknarmanna við ÓRG? Sérstaklega ef þeir fara að hugsa út í það að máski verði það þeirra framtíðarríkisstjórn en ekki núverandi ríkisstjórn sem hafi ÓRG vomandi yfir sér 3/4 hluta kjörtímabilsins? Þeir fíluðu það nú ekkert frábærlega síðast ...
Sjallar og Framsóknarmenn styðja ÓRG auðvitað með blóðbragð í munni. En þeir líta á Þóru sem lepp Samfylkingarinnar og held ég muni ekki treysta henni fyrir horn. Þeir vilja frekar komast í stjórn með ÓRG yfir sér en Þóru held ég.
Sérstaklega þar sem þeir munu reyna að berja til baka öll stóru málin, breytingar á kvótakerfinu, stjórnarskrá, aðild að Evrópu o.s.frv. og takist þeim það mun aftur kominn á „stöðugleiki“ og þá hefur ÓRG sagst vilja út. Ef Sjallar eru ekki þeim mun meiri þumbar þá eru þeir þegar farnir að undirbúa forsetaframboð eftir 2-4 ár og vilja endilega hafa ÓRG þangað til.
Það á alveg eftir að koma í ljós hver styrkur Herdísar sé í raun. Það fólk sem ég þekki sem hefur haft einhver samskipti við hana í starfi og námi sér hana alls ekki sem forsetaefni. "frábærlega menntuð og með mikla reynslu" - er það í raun og veru?
Tja, ég held það sé a.m.k. hægt að halda því fram með allgóðum rökum að Herdís hafi aflað sér álíka starfsreynslu og Þóra hefur upp úr 1985.
Um menntun hennar þarf ekki að deila, er það?
Ég hef sjaldan heyrt jafn samdóma álit fólks eins og þeirra sem hafa starfað með eða verið í námi með Herdísi. Skulum orða það þannig að ég kem ekki til með að ljá henni mitt atkvæði eftir það sem ég hef heyrt.
Held að við þurfum ekkert að óttast að Þóra muni bara vera sæt dúkka ef hún verður forseti.
Hún er víðsýn og fylgin sér og virðist njóta vinsælda hjá mjög breiðum hópi.
Og held að hún muni ekki setja upp leikþátt í hvert skifti sem reynir á að hún taki ákvörðun, en það eru reyndar þessir sífelldu leikþættir sem ég á hvað verst með að þola við ÓRG.
Skrifa ummæli