8. febrúar 2012

iPad verkefni í grunnskóla



Ég á ykkur, lesendum mínum, gjöf að gjalda. Eftir að ég skrifaði reiðipistilinn um að kerfiskarlar hefðu tæklað okkur unglingakennarana í Norðlingaskóla og stöðvað í að hefja þróunarstarf með spjaldtölvur tókuð þið ykkur til og dreifðuð færslunni út um allt. Það sem gerðist næst var að sú saga komst á kreik að Norðlingaskóli væri að hefja notkun á iPad í kennslu. Og þegar sú saga var komin af stað fór fólk að setja sig í samband við okkur hvaðanæva að. Þá rann upp fyrir okkur ljós að það væri meira en nægur grundvöllur fyrir svona verkefni. Eftir það var ekkert annað að gera en að girða okkur í brók og herja á kerfið. Og þá kom auðvitað í ljós að í kerfinu voru valdamiklir menn sem höfðu alls ekki neitt á móti því að svona verkefni færi fram. Og sjálft miðstýringarapparatið, UTM, reyndist ekki aðeins tilbúið – heldur hjálpsamt fram úr hófi við að gera þetta að veruleika. Epli.is hjálpaði líka til og þegar Námsgagnastofnun og Háskólinn vildu vera með var ekki um annað að ræða en að skella sér af stað.

Sjálfum þykir mér vænst um litla hliðarverkefni okkar og Stjörnuskoðunarfélagsins og Stjörnufræðivefsins. Og nú þegar er tilbúin lítil rafræn kennslubók fyrir iPad sem við skellum á netið á næstunni handa öllum sem vilja þiggja.

En þar sem ég sé að fjölmargir hafa komið á þessa síðu upp á síðkastið með leitarorðunum „ipad“ og „grunnskóli“ ætla ég að setja hér upp nokkrar spurningar og svör sem gætu orðið öðrum að gagni sem hyggja á eitthvað svipað. Ef þið viljið vita meira látið mig þá vita og ég svara ef ég get. Eins ef þið teljið okkur geta nýtt upplýsingar eða efni frá ykkur. Við í unglingadeildinni í Norðlingaskóla erum opin fyrir öllu. Þess vegna erum við að þessu.

Nema hvað, látum það hefjast:

Er þetta ekki ægilega dýrt?

Á venjulegu innkaupsverði skóla er iPad í dag á ca. 30% lægra verði en þær fartölvur sem skólarnir eru að kaupa. Það er því alveg ljóst að innkaup sem reikna með 3-4 nemendum eða fleiri um hvert tæki leyfir ekki 1:1 spjaldtölvuvæðingu. En þegar allt er reiknað saman, því þetta sparar heilmikið líka (t.d. öll námsgagnakaup foreldra að hausti, pappír o.fl.) er reynslan frá Danmörku sú að kostnaðarmunurinn fyrir skólanna er óverulegur. Hvort sú er raunin á Íslandi verður að koma í ljós. Í öllu falli eru veruleg búnaðarkaup framundan í grunnskólakerfinu. Okkar markmið er aðeins að hver skóli eða teymi, fái að stýra þeim og bera ábyrgð á þeim – en að ákvörðunin sé ekki miðlæg. Kostnaðurinn er síðan eitt af því sem verkefnið vonandi leiðir í ljós.

Er til nægt námsefni?

Ég myndi segja að hægt sé að ná langflestum námsmarkmiðum með tækinu nú þegar. En tækið hefur að sjálfsögðu ekki aðgang að öllu því prentaða efni sem til er. Námsgagnastofnun er í samstarfi við okkur um nýtingu þess sem til er og það mun væntanlega koma í ljós hve vel það reynist. Þar á bæ hafa menn reynst verulega tilbúinir til að laga sig að tækninni. Það er hægur vandi að nota rafrænar útgáfur af bókum í stað prentaðra. En markmiðið er einmitt ekki að þýða núverandi námsefni yfir á stafrænt form – markmiðið er að breyta kennsluefninu og nýta þá möguleika sem tækið býður upp á. Það er t.a.m. augljóst hvaða áhrif svona tæki getur haft á lestrarkennslu ef kafað er í kjölinn á því.

Hvað er hægt að gera með iPad sem ekki er hægt að gera nú þegar?

Fyrir það fyrsta er hægt að sleppa skólatöskunni með öllum þeim bókaburði sem tilheyrir. iPad er 600 grömm að þyngd og þyngist ekki við það að vera troðfullur af bókum. Það er hægt að gera kennsluna rafræna og stunda rafrænt námsmat. Með því móti má fá miklu nákvæmari upplýsingar um stöðu nemandans en hægt er með vinnubókastreði. Það má afnema kennslustofuna, skólaborðið og stólinn. Nemendur gætu setið í hægindastólum, á púðum, í sófum, gengið eða legið og það hefði engin áhrif á upplýsingagjöf til þeirra. Það má hraða öllum samskiptum, gera áformsgerð skilvirkari og auðvelda nemendum að finna efni við sitt hæfi. Auk þess er iPad með hreyfiskynjara (það má t.d. skoða staði í útlöndum með því að halda tækinu fyrir framan sig og snúa sér í hring), ljós- og kvikmyndavél (með góðum gæðum), hljóðupptökutæki og gps. Það má senda nemendur úr húsi með tækið og láta þá labba um og vinna verkefni sem afgreidd eru sem myndir, kvikmyndir eða texti.  Og þetta er aðeins nokkur af þeim atriðum þar sem iPad býður upp á möguleika sem bóknám gerir ekki.

Hvað er ekki hægt að gera með iPad?

Það er ekki gott að skrifa á iPad. Þótt maður þjálfist og verði betri og geti orðið lygilega góður að handskrifa og vélrita þá skrifar maður ekki langar ritgerðir án þess að finna fyrir takmörkum tækisins. En það er eiginlega allt og sumt. Okkar markmið er ekki að iPad komi í stað alls. Enda er hann fyrst og fremst að leysa bækur, ritföng og vasareikna af hólmi. Eftir sem áður á svo miklu meira að felast í námi en endalaust bóka- og blaðagrúsk. Það sem aðrir miðlar gera betur mun koma í ljós og þá verður sú tækni einfaldlega notuð en ekki iPaddinn.

Hvað með misnotkun?

Öryggi þarf og á að tryggja. Fyrsta vörn í slíku eru forrit sem loka á óæskilegar síður á netinu. Slíkt er til staðar í flestum skólum (en alls ekki svo nauðsynlegt að mínu mati). Kennarar þurfa að taka afstöðu til þess hvort nemendur hafi vald til að setja inn á tækið það efni sem þeir kjósa (öpp). Í raun er það í góðu lagi. Misnotkun getur verið af tvennu tagi. Annarsvegar að nemendur noti tækið til vondra verka (sem er mun erfiðara með iPad en þeim búnaði sem þegar er til staðar), hinsvegar að nemandinn svíkist um námið og missi sig í undraheim tækisins. Lausnin við því fyrrnefnda er að treysa nemendum og gera það að markmiði alls náms að nemendur vilji traust og læri að standa undir því. Lausnin við því síðarnefnda er að námið sé áhugavert en um leið að staða nemandans sé í sífelldri skoðun.

Hvernig má tryggja að staða nemandans sé í sífelldri skoðun?

Okkar leið, og að mínu mati besta leiðin, til að sjá hvort nemendur eru að sinna námi sínu er að leyfa þeim að hafa eitthvað um námið að segja og að staða þeirra sé skoðuð reglulega. Við köllum okkar útfærslu áformsgerð. Það fer þannig fram að hver nemandi hittir umsjónarkennara sinn einu sinni í viku og áformar fyrir næstu viku. Þá skráir hann hjá sér þau verkefni sem hann ætlar að vinna og þau verkefni sem honum hafa verið sett fyrir. Viku seinna hittast nemandi og kennari aftur og þá koma efndir í ljós. Nemandi fær tíma í stundaskrá til að vinna frjáls að sínum verkefnum. Athafnir hans í slíkum tímum eru á hans ábyrgð. Ef hann skilar áformum og þau eru metnaðarfull og raunhæf hefur hann ekki aðeins vald til heldur frelsi að nota tímann eins og hann kýs (innan skynsamlegra marka). Nemandi sem ekki skilar áformum fær meiri stuðning og meira aðhald. En áform tveggja nemenda geta verið mjög ólík eftir stöðu þeirra í einstökum greinum og áhuga.

Hvað ef tæki skemmist?

Nemendur okkar hafa alltaf haft greiðan aðgang að tækjum. Sumum miklu dýrari en iPad. Skólinn kaupir tækin og fyrst um sinn fara þau ekki heim. Þegar þar að kemur mun gilda það sama og ef skólabækur eða hljóðfæri skemmast. Útfærsla á því verður tekin í samráði við foreldra. Það er viðbúið að einhver tæki bili eða skemmist. Við þurfum að komast að því hvert það hlutfall er. Athuganir erlendis benda til þess að hlutfallið sé lágt.

Hver er mesti munurinn núna strax?

Mesti munurinn (fyrir utan áhuga barnanna sem mun dofna þegar nýjabrumið fer af) er að nemendur hafa aðgang að tölvu með engri fyrirhöfn. Það tekur langan tíma að logga sig inn í kerfið eins og er – og í síðustu kennslustund minni tók ég t.d. eftir því að eina raunverulega töfin í tímanum var þegar ég þurfti að nota java-forrit og loggaði mig inn í tölvu sem tengd var við skjávarpa. Í það fóru 8 mínútur. Að kveikja á og nota iPad tekur örfáar sekúndur. Ég hef einnig notað náttúrufræðina sem glósufag. Ég sé strax að sá tími sem fer í að glósa fyrir tíma er 95% minni hjá þeim sem hafa iPad. Þeir draga einfaldlega fingur yfir mikilvæga staði og auðkenna. iBooks er frábært glósuforrit. Auk þess eru nemendur núna alltaf með það sem þeir þurfa. Það er líka ánægjulegt hve nemendur eru sjálfstæðir við að stinga upp á öppum og aðferðum við að nýta tækið.

Hver er helsti gallinn?


Helsti gallinn er að þurfa að hugsa alla kennslu upp á nýtt jafnóðum og hún á sér stað. En það er þess virði. Þess vegna ríður á að menn deili og hjálpist að.

Hvernig er best að kenna nemendum með iPad?

Það er útilokað að kenna nemendum með iPad þannig að allir eigi að horfa á kennarann eða töfluna allan tímann. Í fljótu bragði virðist vera best að nálgast námið sem röð verkefna sem nemendur eiga að standa skil á í góðum og fjölbreyttum kynningum. Með því að leggja megináherslu á lokaafurðina og kynningu á henni er skapaður vettvangur fyrir frjóa, skapandi hugsun, samstarf og fjölbreytileika. Kennarinn er þá frekar í hlutverki leiðsögumanns en skipstjóra.

Hvað kosta öpp?

Öpp eru ódýr. Mun ódýrari en bækur. Apple býður auk þess mikinn afslátt af magnkaupum fyrir skóla. En aðeins í BNA. Íslendingar þurfa enn að kaupa öppin fullu verði. Sem eru 1-5 dollarar fyrir app, yfirleitt nær lægri tölunni. En öpp eru hugsuð fyrir einstaklinga, ekki endurnýtingu. Við fórum þá leið að stofna (greiðslukortalausan) aðgang fyrir hvern nemanda. Við höfum aðeins notað ókeypis öpp ennþá en ef við ætlum að kaupa öpp þá notum við greiðslukort skólans og sendum þau sem gjafir í iPadda nemenda. Upp hefur komið sú hugmynd að skilgreina ákveðinn kvóta sem nemandi hefur til umráða yfir veturinn í appakaup. Hann geti ráðstafað þeim peningum til kaupa á þeim öppum sem henta honum sérstaklega og hans markmiðum. Við eigum eftir að skoða það. En til að setja þetta í samhengi kostar stórt og flott app, t.d. Bíófílía Bjarkar álíka og lítil, einnota tónfræðivinnubók. Skóli gæti líka búið til aðgang sem er eign skólans og er endurnýttur með nýjum nemendum – en það er misráðið. Það er ekkert víst að öpp eins henti öðrum.

Er ekki til íslenskt orð fyrir app og iPad. 

Mér persónulega gæti ekki staðið meira á sama. Þeir sem raunverulega telja að íslensk hugtök séu stórmál þegar kemur að spjaldtölvuvæðingu eru að mínu mati dæmdir til að sitja á rassinum þar til fyrsta þróunarskotið er um garð gengið. Þeir geta þá stungið upp á einhverju. Við köllum öpp öpp en stundum köllum við ipaddana pöddur.

Hvernig má geyma tækin og hlaða?

Ef nemendur fara með tækin heim er sá vandi sjálfleystur. Rafhlaðan endist auðveldlega heilan skóladag. Ef tækin eru geymd í skólanum má annaðhvort hlaða þau í kennslustundum og skiptast á, eða hlaða þau t.d. aðra hverja nótt eða svo. Það má t.d. kaupa uppþvottagrindur í IKEA fyrir 500 kr og smella tækjunum í þær – eða kaupa þar til gerða skápa á milljónir. Það má bara ekki stafla þeim saman, þar rispar tækin. Við geymum tækin fyrst um sinn í kössunum sem þau komu í. Kassarnir eru merktir en tækin ekki, að öðru leyti en því að þegar kveikt er á þeim blasir mynd af nemandanum við.

Hvernig get ég fengið að vita hvernig gengur?

Við munum setja inn upplýsingar á vefsíðu jafnóðum. Hún er í smíðum. Við munum líka liðsinna hverjum sem vill upplýsingar eða aðstoð. Við munum búa til námsefni, mikið af því verður opinbert og ókeypis. Við stöndum opin þeim sem vilja kíkja í heimsókn. Og við erum yfirleitt til í næstum allt. Hafið bara samband.

5 ummæli:

Óli Gneisti sagði...

Takktakk, það var á túdú listanum mínum að spyrja þig um þetta.

Arnar sagði...

App er stytting á Application software eða einfaldlega hugbúnaður oftast kallað forrit á íslensku. En þetta vissir þú nú... ég setti þetta nú inn bara fyrir hina... og svona til að benda á það í leiðinni að sú aðferð að kalla eldgamlan hlut glænýju nafni er iðulega tilraun til að búa til bólu (hype)... eins og eitt það allra fyndnasta á síðustu árum sem er skýið (cloud, icloud og svo framvegis) og er nýjasta fyrirtækjabólan... sérstaklega hönnuð fyrir fjárfesta... og að springa...

Nafnlaus sagði...

App=Tól

ingó sagði...

Ég er með spurningar:

Hefur verið mörkuð einhver kennslustefna? Það er að segja: hefur eitthvað verið skráð niður um það hvernig tækin eiga að nýtast til að bæta skólastarfið? Er gengið út frá einhverjum kenningum um nám eða kennslu? Er skipulega fylgst með því hvernig tækin verða notuð? Hvert er hlutverk Háskólans í verkefninu? Hefur eitthvað verið ákveðið um það hvernig reynslan af þessu verður metin?

Mér finnst réttlætingin um töskuþyngd og rafrænt eftirlit með stöðu nemenda ekki mjög sterk. Tækið býður upp á möguleika sem þú nefnir: skynjarar, myndavélar, og svo framvegis - það hlýtur að standa til að nota þetta markvisst (sem er meira en að segja það.)

Ætla ekki að vera með neikvæðni, það getur vel verið þess virði að byrja bara og sjá til og reyna að átta sig á möguleikum eftir því sem á líður. En reynsla og rannsóknir sýna að tækni ein og sér breytir ekki námi og kennslu, það þarf að huga vel að því hvernig hún er notuð.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir spurninguna, Ingó.

Hér er ekki um það að ræða að tæknin ein og sér breyti kennslu heldur meira þannig að hér er komið tæki sem sameinar það sem þegar var að gerast í skólaþróun okkar.

„Bóknám“ var að megninu til orðið rafrænt. Rafrænt eftirlit með stöðu, vinnu og framförum er ekki léttvægt. Það kemur í stað óhemju tímafrekrar vinnu sem kemur í veg fyrir að kennarinn hafi tíma til að þróa kennsluna upp á næsta plan. Kennarar eru fullir hugmynda en skortir tíma.

Í okkar tilfelli er ansi erfitt að vinna markvisst umfram það sem aðstæður leyfa. Bæði er um að ræða veruleika þar sem aðföng eru torfengnari en annars en líka veruleika þar sem nemandinn fær meira um nám sitt að segja.

En við rennum ekki út í bláinn. Um verkefnið er stýrihópur skipaður kennara, stjórnanda, fulltrúa námsgagnastofnunar, háskólans, nemanda, foreldri og epli.is. Sá hópur markar stefnuna í sameiningu ásamt öllum kennurum teymisins.

En grunnhugsunin er sú að halda áfram skólaþróuninni sem fyrir var en var kominn á vissan endapunkt vegna slaks aðgengis að tækni og tólum.