11. febrúar 2012
Hver vill láta reka mig?
Fyrsti eða annar kennarinn minn var Vottur Jehóva. Ég komst að því þegar hann ræddi einu sinni við okkur í bekknum um áhyggjur sem hann hafði heyrt af í bænum sem lutu að því að það væri hættulegt að svoleiðis maður væri að kenna svo ungum börnum. Ég man að mér þótti þetta undarlegt og eins fannst mér algjörlega óþarft að hann lofaði okkur bekknum að ræða trúmál aldrei við okkur. Þetta var karlmaður, hlýr og notalegur við okkur krakkana og ég man að hann las fyrir okkur upp úr bókum eftir Enid Blyton meðan við borðuðum nestið okkar.
Þarna sat þessi ljúfi og góði maður dag hvern við kennaraborðið sitt og vandaði sig við að mata okkur ekki á öðru en hinum almenn viðurkennda og óumdeilanlega rasisma og sexisma sem annað hvert foreldri bar í trogum í börnin.
Ef ég ætti að raða því sem mér hefur verið kennt í grunnskóla í róf frá hinu gagnlega og hugvekjandi til þess heimskulega og mannskemmandi er ég nokkuð viss um að það sem votturinn kenndi mér með ljúfu viðmóti og ást á bókum kitlar jaðrana á betri enda þess rófs. Þar nærri eru stundirnar sem núverandi prestur og þáverandi leikmaður eyddi með mér og bekkjarfélögunum á gelgjunni. Þegar hann sagði skemmtisögur og las upp úr hryllilega spennandi sögum úr safni sem kennt var við Hitchcock.
Allt það versta sem ég hef lært lærði ég af fólki sem bar enga ástríðu í brjósti – heldur hleypti í gegnum sig af iðni og misskilinni samviskusemi einhverri bölvaðri þvælu sem einhver bjáni taldi að ætti erindi við börn.
Ég hef aldrei heyrt annað en að Snorri kenndur við Betel sé góður kennari. Og þótt hann væri ekki góður kennari þá skipti það í raun ekki öllu máli. Það á ekki að reka Snorra úr kennslu fyrir að telja það að Guð skipi að samkynhneigð sé synd.
„Mannréttindafrömuðir“ fara jafn glannalega með haturshugtakið þessi misserin og trúmenn hafa farið með syndahugtakið. Fyrir trúlausum eða þeim sem aðhyllast í grundvallaratriðum aðra trú en Snorri í Betel ætti það að hann komi fram og kalli innankynjaatlot synd að vekja álíka ofsafengin viðbrögð eins og ef maður með sítt skegg í gráum kufli og með staf myndi vinda sér að þér á götu og segja: „Þessi skóbúnaður er brot á þriðja hnoðhaus blikkreglugerðarinnar um ferðaklæðnað farandgaldamanna.“
Syndahugtak Snorra er fangelsaður pappírstígur. Hver sá sem ætlar að taka það alvarlega þarf fyrst að skríða inn í búrið. Og þangað fer enginn lengur ótilneyddur.
Að mínu vitu eru ofsafengnar upphrópanir um að Snorri sé hatari álíka óþokkalegar og umtal Snorra um samkynhneigða. Það er ekki hatur að halda því fram að hommar hafi farið í taugarnar á hinum kristna guði.
Trúfrelsi á ekkert endilega að vera viðameira eða öflugra en skoðana- og málfrelsi. En það verður að fela í sér frelsi til þess að hafa skoðanir og orða skoðanir sem trufla aðra og koma við kauninn á þeim. Það má ekki fara svo að á sumum málum verði aðeins ein skoðun leyfð – og að hún trompi allar aðrar.
Það MÁ trúa því að samkynhneigð sé synd. En að því er virðist má aðeins orða það á laun.
Ég, sem kennari í grunnskóla, ætla því að gerast hér svo djarfur að feta í fótspor Snorra. Og ég fer vinsamlegast fram á að einhver sjái ástæðu til þess að ég verði rekinn líka:
Ég tel það fyllilega eðlilega eveangelíska skoðun að samkynhneigð sé synd – og að laun syndarinnar séu dauði.
Punktur.
Munurinn á því sem ég segi hér og Snorri segir er efnislega enginn.
Eini munurinn er sá að hann trúir þessu – ekki ég.
En stjórnarskrá ver rétt hans til að trúa því – og minn til að trúa ekki.
Fullyrðing beggja er sú sama. Ef reka á hann. Þá á líka að reka mig.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Langafi var afburðastærðfræðikennari. Um það bar öllum saman. - Hann var hins vegar kommúnisti og þess vegna lét Jónas frá Hriflu reka hann úr starfi. Opinbera sagan gekk reyndar út á að hann hefði togað í eyrað á nemanda, en allir á Akureyri vissu um hvað málið snerist í raun.
Á þessum árum töldu margir kommúnista stórhættulegt fólk sem ekki ætti að hleypa nálægt börnum.
Ef 90% þjóðarinnar tilheyrði félögum sem viðurkenndu í orði að reglugerð um ferðaklæðnað farandgaldramanna væri í fullu gildi, ef þeir farandgaldramenn sem hafa aðra tá lengri en stórutá hefðu til skamms tíma verið ofsóttir vegna fótabúnaðar síns og margir þeirra gengju ennþá í skóm sem meiddu þá í hverju skrefi, af ótta við fordæmingu samferðamanna sinna, myndi stafkarlinn líklega fá einhver viðbrögð.
Ég er sammála því að það er út í hött að reka manninn vegna skoðana sinna. Hinsvegar er bara sjálfsagt að fólk lýsi andstyggð á viðhorfum og orðræðu manns sem líkir samkynhneigð við glæp. Maðurinn er nefnilega það sem hann gerir og hugmyndin um að hata syndina en elska syndarann er þessvegna frekar svona ótrúverðug þar sem engin persónuleg tengsl flækja málið.
Hvar er DV núna? Þarf ekki að reka þig núna fyrir skoðanaglæpi?
Veistu ekki að það er glæpur að tala um hluti sem aðrir fíla á neikvæðan hátt? Mér finnst að kennarar sem segja að ofát og offita sé synd eigi líka að vera reknir. Mér er alveg sama þó þeir segi þetta ekki í tímum. Feitu börnin gætu lesið bloggið þeirra og það særir þau!
xD
" Ef reka á hann. Þá á líka að reka mig."
Ekki ertu svona vitlaus vinur? :) Er þetta kannski eitthvað grín hjá þér?
Maðurinn hefur í gegnum árin spúið yfir samferðamenn sína hommahatri og fordómum. Ef við tökum dæmi.. ja nýlega líkti hann saman samkynhneigð og þjófnaði.. bankaræningjum... fyrir ekki svo löngu sagði hann að samkynhneigðir ættu ekki að fá að eiga börn því þau gætu smitað þau af alnæmi.
Hann var búinn að fá viðvörun hjá skólayfirvöldum 2010 og þessir síendurteknu fordómar hans eru brot á siðareglum kennara sem og landslögum.
Og þú sérð engan mun á honum og þér eftir að þú skrifar þessi orð hér fyrir ofan.
Þú veist betur félagi.
kveðja
Skrifa ummæli