11. febrúar 2012

Áskorun til skólastjóra Brekkuskóla og Snorra í Betel.



Í umræðu síðustu daga um ummæli kennara á Akureyri hafa vaknað áhugaverðar spurningar. Hvað er hatursáróður? Leyfir trúfrelsi ekki skoðanir sem færa má sannfærandi rök fyrir að séu grundvallaratriði í viðurkenndum trúarbrögðum? Þarf kennari að haga lífi sínu þannig að allt sem hann gerir opinberlega stæðist skoðun sem viðeigandi hegðun með nemendum?

Einn liður hefur verið vandræðalega fjarri í málinu öllu. Nemendur sjálfir. Það er mín skoðun að nemendur þoli það vel að mál eins og þetta séu rædd við þá. Hlutverk skóla er að ala upp ábyrga og virka lýðræðisþegna.

Unglingar hafa skoðanir og, það sem mikilvægara er, hafa heilmikla skynsemi. Þeir eru hvorki strengjabrúður einstakra kennara né almenns velsæmis. Það þarf einungis að bjóða þeim í samtal. Og þá eru þeir meira en færir um að meta hvað þeim sjálfum er fyrir bestu.

Skoðun mín á máli Snorra er skýr. Hún kemur fram hér. Menn hafa orðið til að andmæla mér. Þar fer hraustlegast fram Andri Þór Sturluson fréttastjóri hjá Sannleikanum.com.

Í sameiningu langar okkur að skora á Snorra og skólayfirvöld á Akureyri til að halda málfund með eldri nemendum Brekkuskóla. Þar sem Snorri, Andri og ég fengjum að tækla spurninguna: „Hvað má kennarinn vera/gera eftir vinnu?“ Nemendur fengju síðan tækifæri til að tjá sig og, ef þeir kjósa, að hafa framsögumann/-menn.

Þeim sem ábyrgð bera á skólamálum í bænum er meira en velkomið að mæta og hlusta eða tjá sig.

Sjálfur er ég kennari (hef m.a.s. kennt við Brekkuskóla) og ég hef notað málfundi alloft sem kennsluaðferð.

Að sjálfsögðu færi þetta fram af fullri virðingu fyrir nemendum og með hagsmuni þeirra í huga. Og í fullu samræmi við markmið aðalnámskrár.

En áskorunin er komin út. Hvað segir Snorri? Hvað segir skólinn? Hvað segja nemendur?

3 ummæli:

Bjössi sagði...

Það vantar einn þátttakanda í þennan annars misráðna málfund, en það er sá hópur fólks sem Snorri telur á lóðbeinni leið til helvítis. Þad er ekki nógu gott að gefa ofstækismanni færi á að tjá sig við hlið annars sem felur fordóma sína á bak við heimspekilegt orðagjálfur.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er gott þú býður þig fram. Ég gauka þér að þegar Snorri hringir.

Bjössi sagði...

Hahaha. Þetta sem ég sagði um að fela fordómana... Ég tek það til baka.