1. Þú eyðir tíma þínum í búa til/fara handvirkt yfir verkefni sem hafa aðeins eitt rétt svar við hverri spurningu.
2. Þú notar vasareikni til að finna einkunnir.
8. Þú hefur ekki yfirsýn yfir einstök verkefni eða verkefnaþætti, veist t.a.m. sjaldnast hve hátt hlutfall nemenda svarar hverri spurningu rétt.
Í fyrsta lagi geta flestir kennarar í dag fengið aðgang að Stoðkennaranum, Skólavefnum, Námfús eða öðrum vef sem hannaður er utan um námsefni. Eins geta kennarar nýtt sér námsframvindu í Mentor. Nú eða notað Moodle.
Ég kann best við að nota fjölbreyttar aðferðir. Fyrir það fyrsta held ég utan um mitt námsefni á einum stað þar sem nemdur eiga góðan aðgang að því og þurfa ekki að nota lykilorð. Ég nota Facebook.
Mér finnst það fínt. Nemendur eru þar oft og iðulega og samskiptin eru greið. Þeir þekkja formattið, kunna að nota síðuna og eru í miklum samskiptum sín á milli.
En Facebook er bara skel.
Námsefnið set ég á bloggsíður eins og þessa hérna. Ég gæti eins sett námsáætlanir. Og þegar kemur að hefðbundum könnunum finnst mér mjög gott að nota rafrænar kannanir. Proprofs heitir ein slík síða, önnur heitir Yapaca. En sú sem mér hefur fundist tryggust og traustust heitir ThatQuiz – og er ein af elstu svona síðunum. Hún er ókeypis og mun alltaf vera það, ólíkt t.d. Proprofs.
Það eru auðvitað miklu fleiri síður í boði og hlutirnir gerast hratt. Ég er t.d. að fikra mig áfram í splunkunýja átt en fjalla her fyrst og fremst um það sem ég hef verið að gera sem reynst hefur vel.
Nema hvað, ég stofnaði mér aðgang að ThatQuiz og bjó til námshóp. Ég peistaði bara nafnalistann úr Mentor og þurfti lítið að snyrta til. Ég kaus að gefa hverjum nemanda lykilorð að verkefnunum.
Síðan samdi ég innlagnir og tók upp á SmartBoard (sem er með möguleikann innbyggðan). Áður en ég lærði alminlega á SmartBoard og við náðum að tengja hljóðnema við þá notaði ég teiknibretti og tók upp skjámynd af tölvunni minni með forritum eins og ScreenFlow og iShowU. Núorðið finnst mér betra að taka upp á SmartBoard sem þjappar myndböndunum í frábærlega góða upplausn og ég hendi þeim svo á Youtube.
Ég bý svo til verkefni úr efni innlagnarinnar á ThatQuiz. Ég nota ýmist krossapróf (með nokkrum opnum spurningum) og verkefni þar sem nemendur para saman.
Ekkert af þessu krefst neinnar tölvuþekkingar sem slíkrar. Þetta er allt voðalega blátt áfram. Ég kíki svo inn á ThatQuiz til að fylgjast með verkefnavinnu nemenda. Ég get valið um mismunandi framsetningu upplýsinga.
Og ég fæ nákvæma frammistöðulýsingu ef ég smelli á heiti verkefna eða nemenda. Með upplýsingum um allt frá því hvaða svör nákvæmlega viðkomandi gerði rangt yfir í hve margar sekúndur fóru í að leysa hvert verkefni. Eins get ég séð hve margir og hvaða nemendur gerðu hvaða villur í einstökum verkefnum.
Þarna sé ég í einni svipað hvernig nemendur eru að standa sig. Hve mikið þeir eru að vinna og hvenær og hversu mikið er að skila sér inn.
En ég get ekki stillt mig um að nota Excel eða töflureikninn í GoogleDocs til að skoða málin enn betur.
Ég hef hingað til farið yfir öll skrifleg próf með Excel. Ég fer svona að því:
1. Ég safna prófum saman í lok próftíma í þeirri röð sem nemendur skila þeim.
2. Ég opna Excel.
3. Á lóðrétta ásinn set ég eftirfarandi [bekkur][nafn].
4. Á lárétta ásinn set ég efst stikkorð til að minna mig á rétt svör og þar fyrir neðan vægi spurningar.
5. Síðan set ég inn stig fyrir rétt svör og 0 fyrir röng svör. Þetta get ég gert orðið ansi hratt og þetta er sambærilegt við að fara yfir með rauðum penna.
6. Þegar því er lokið byrja ég að föndra. Ég reikna einkunn hvers nemanda og meðalfjölda stiga á hverja spurningu.
Ég nota að sjálfsögðu grimmt flýtileiðir eins og [Ctrl+r] og [Ctrl+d]. En fyrir utan það þá nota ég föllin [=SUM] og [=AVERAGE] og fátt annað. Ekkert sem maður getur ekki lært á 30 mínútum eða svo frá grunni.
7. Nú er ég kominn með upplýsingar um gengi nemenda á hverri einustu spurningu prófsins, einkunn hvers nemanda og meðaleinkunn námshópsins. Í viðbót við þetta reikna ég gjarnan eitthvað af eftirtöldu:
a) Meðaleinkunn drengja & meðaleinkunn stúlkna [=AVERAGE(og smelli á einkunnir allra drengjanna eða stúlknanna og geri kommu á milli einkunna)]
b) Meðaleinkunn fyrstu 10 sem skiluðu prófi, næstu 10 og svo koll af kolli [=Average(og vel tíu reiti í einu)]
Af myndinni álykta ég að ákveðnir nemendur með háar einkunnir séu í hættu á tímahraki. |
c) Meðaleinkunn árganga.
d) Meðaleinkunn námsþátta.
Þetta síðasta gjörbreytti kennslulagi mínu. Ég hef viljandi í prófum hluti út um allt. Það koma ekki allar spurningar í sömu röð og nemandinn lærði efnið. Og ég blanda hlutum saman. Þegar ég er kominn með allar einkunnir skoða ég einstaka námsþætti.
Þá finn ég t.d. meðaleinkunn úr spurningum um fallorð eða kraftfræði eða einn tiltekinn kafla. Þá sé ég oft mun sem ég var ekki meðvitaður um. Sem dæmi er þetta:
Á síðasta náttúrufræðiprófi var sáralítill munur á milli námsþátta. En hann var þó greinilegur. Þegar ég skoðaði þær 3 súlur sem hæstar voru tók ég eftir að sú fyrsta var úr kaflanum sem ég vissi fyrirfram að var þyngstur og tyrfnastur. En hinar tvær voru úr köflum sem voru byggðir utan um sögur af fólki og afrekum þess. Ég ályktaði tvennt: Þegar um er að ræða erfiða kafla hef ég tilhneigingu til að auðvelda spurningarnar á prófum eða hafa þær fáar & þegar ég kenni með sögum af fólki kemst það betur til skila.
Hvorttveggja er augljóst eftir smá íhugun eftir að ég sé gögnin fyrir framan mig.
Ég þarf því að þyngja spurningar úr þungu efni og hætta að hlífa börnunum við því og halda áfram að segja börnunum sögur.
Allt svona er mikilvægt fyrir þróun mína sem kennari og til að ég batni í starfi.
8. Að prófa breytur...
Þegar maður hefur vanið sig á notkun upplýsingatækni fer maður að stýra starfi sínu öðruvísi. Hér má t.d. sjá þarsíðasta stóra náttúrufræðipróf og einkunnamun kynjanna:
Stelpur voru áberandi hærri. Ég hugleiddi þetta og ákvað á þessari önn að gera örlitla breytingu. Ég glósaði öðruvísi á töfluna í tímum. Í stað þess að skrifa þar glósur teiknaði ég meira og hafði minni texta. Þegar ég reiknaði út meðaleinkunnir kynjanna að þessu sinni sá ég að kynjamunurinn var horfinn:
Meðaleinkunn stráka var 7.98 og stelpna 7.97.
Þá skoðaði ég hvernig þessi munur endurspeglaðist í árgögnum og tók eftir því að vissulega hefur myndrænni kennsla skilað sér í betri árangri drengja.
- - -
Allir áhugamenn um Excel sjá að ég er algjör amatör. Ég henti inn auka súlu því mér gekk djöfullega að fá y ásana á myndritunum til að vera eins og þeir eiga að vera. Enda er það ekki hæfni mín í Excel-forritun sem gerir mér kleift að þróast í starfi. Það er sú staðreynd að þetta er ofsalega auðvelt. Og þegar maður hefur unnið þetta einu sinni þá er þetta svotil sjálfkrafa næst.
Á meðan gamli-ég stritaði við að skrifa stig með rauðum penna á spássíur og reikna síðan saman stigin (með sívakandi tilfinningu um að ég væri að reikna vitlaust) þá slær nýi ég inn stig í reiti í Excel sem síðan reiknar allt sem ég vil vita. Detti mér í hug að athuga eitthvað þá geri ég það.
Og allt tekur þetta styttri tíma en að skrifa það á blað.
- - -
Áður en ég fór að vinna svona var ég í myrkri. Ég hafði vissulega tilfinningu fyrir ýmsu en ekki yfirsýnina sem felst í að nota upplýsingatækni við námsmat.
Og eftir að ég fór að hafa kannanir meira og minna rafrænar og innlagnir líka þá hef ég enn betri tíma til að ígruna vinnuna mína, semja kannanir, innlagnir og greina stöðu einstakra nemenda og kennsluhátta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli