14. janúar 2012

Upplýsingatækni kennarans 5: Fámennir skólar



Innleiðing upplýsingatækni verður líklega hvergi að meira gagni en á landsbyggðinni. Þar eru fjölmargir fámennir skólar sem liðið hafa fyrir hægagang við innleiðingu tækninnar. Skólar með færri en 100 nemendur eiga í stöðugum mönnunarvanda. Það er illt að treysta á það að í slíkan skóla fáist kennarar með faglegan og fræðilegan bakgrunn til að kenna allar greinar með viðunandi hætti. Hingað til hefur verið litið á fámenna skóla sem vandamál. Og skólar hafa verið lagðir niður og börn eru látin eyða allt að tíu klukkutímum á viku í bílum á leið í og úr skóla. Sameining skóla hefur oft haft í för með sér að sveitir verða menningarlega og félagslega fátækari á eftir.

Upplýsingatækni hefði getað komið í veg fyrir eitthvað af þeim atgervisflótta sem orðið hefur – og hún getur stöðvað þá óheillaþróun sem nú er í gangi. Fámennir skólar henta fullkomnlega fyrir innleiðingu upplýsingatækni og breytt vinnubrögð og hugsun.

Svo fremi að stjórnvöld sjái til þess að skólar og sveitir séu tengd inn á grunnnet upplýsingamiðlunar.

Möguleikarnir eru takmarkalitlir. Það er til þess að gera hagkvæmt að kaupa t.d. iPad eða fartölvu fyrir nemendur í fámennum skólum. Þar sem kennarinn er ekki lengur sá sem þarf að búa yfir þekkingarforðanum og stýra öllum athöfnum nemandans má tryggja mun fjölbreyttara og vandaðra nám en nú er hægt. Þar sem þegar er rætt um sameiningar mætti vel sameina yfirstjórnir skóla og hafa samráð. Einn dag í viku væri hægt að hafa smiðjudag þar sem nemendur í smærri skólum kæmu í stærri skóla og kæmust t.d. í íþróttahús, sundlaug, smíðastofu eða textílmennt. Þar sem nemendur þurfa nú að sækja skóla langar leiðir væri vel hægt að endurvekja gömlu sveitaskólana í samstarfi við eða sem útibú frá safnskólunum. Kennari í einum skóla gæti vel kennt nemendum í öðrum skóla gegnum netið.

Raunar eru litlir landsbyggðarskólar sá angi skólakerfisins sem iðnbyltingarskólakerfið hefur farið verst með en búa yfir mestum möguleikum fyrir skólaþróun á 21. öldinni. Það væri hægt að fækka kennurum töluvert, spara bækur og blöð, akstur og ýmislegt fleira. Í staðinn mætti tryggja nemendum frjálslegt námsumhverfi. Jafnvel henda burtu skólastofunni eins og hún leggur sig. Búa til persónulega, einstaklingsmiðaða vinnuaðstöðu. Nota peningana frekar til að færa börnunum það sem fámennið stendur í vegi fyrir. Í minnstu skólunum gæti það að fækka um einn starfsmann orðið til þess að skólinn gæti orðið hátæknivæddur á innan við ári. Eða að hægt væri að borga utanlandsferð fyrir eldri nemendurna á hverju ári þar sem þeir kynntu sér það sem þeir hafa lært.



Ef vel er á spöðunum haldið verður eftirsótt að vera hluti af fámennum skóla. Sem mun auðvelda skólastjórum að fá hæfasta fólkið og styrkja sveitirnar. Nám barna er stór þáttur í ákvarðanatöku foreldra um búsetu. Kringum skólana gæti jafnvel sprottið nýsköpunar- og nýjungunastarf. Fámennir skólar geta auk þess brúað bilið milli náms og náttúru, skóla og starfs með hætti sem aðrir ráða ekki við.

Það verða ekki stóru skólarnir sem brjóta sér leið undan oki iðnvæðingar. Þeir eru of svifaseinir, of stórir og flóknir. Þeir hafa „fjárfest“ of mikið í úreltri hugmynd um skóla. Það verða litlu skólarnir og nýju skólarnir. Og hugrökku skólarnir. Sérstaklega  skólarnir sem hvorteðer eru of litlir til að framleiða á sama hátt og stóru skólarnir gera. Upplýsingabyltingar eru aldrei tími stórfyrirtækja. Stórfyrirtækin horfa lömuð á meðan smærri fyrirtæki eiga sviðið (en geta svo sjálf orðið stór).




Til að þetta megi vera þarf, eins og áður sagði, grunnnet. En að auki þarf námsefni. Og samstarf. Það þarf að endurskoða kjarasamninga og vinnubrögð. Hugsa hluti upp á nýtt. Laga sig að nútímanum. Gera stundatöflur sem eru flæðandi og breytlegar yfir árið. Sinna ákveðnum þáttum öðruvísi en gert hefur verið.

Og við kennarar, námsefnishöfundar, Námsgagnastofnun, menntayfirvöld og aðrir þurfum að taka höndum saman og fóðra hvert annað á námsefni.

Ef einhver kennari les þetta sem telur að hann gæti nýtt sér það sem ég hef verið að gera í náttúrufræði (unglingastig) og íslensku (8.bekkur) þá getur hann sent mér línu. Allt mitt dót er öðrum opið. Ég skal glaður hjálpa til ef ég get. Ef einhver vill ráð um rafrænar kannanir, -innlagnir eða annað getur sá hinn sami sent mér línu. Ef einhver vill ráð um iPad og möguleika á nýtingu slíkra tækja skal ég leiðsegja og koma viðkomandi í samband við rétta fólkið. Ef ég get ekki hjálpað skal ég reyna að finna einhvern sem getur hjálpað.

Og eins, ef einhver sér tækifæri sem ég hef misst af, endilega látið mig vita.

Við þurfum að breyta þessu. Og það hratt.

Engin ummæli: