Skólinn stendur frammi fyrir tveim grundvallarverkefnum. Verkefnum sem verður að vinna. Verður að vinna hratt.
Í fyrsta lagi þarf að koma skólanum inn í tækniöld. Hætta að draga lappirnar og stökkva á þá möguleika sem tæknin býður upp á. Það er svo fjölmargt sem tölvur gera betur en pappírsbækur eða talandi kennari. Þar eiga tölvur að taka við. Það er svo fjölmargt sem talandi kennari getur gert betur en tölva. Hann á að einbeita sér að því.
Það má eiginlega kalla það smáskammtanám – námið þar sem kennarinn (með hjálp kennslubókarinnar) skammtar stórum hópum nemenda sömu þekkinguna. Smáskammtanám á að heyra sögunni til á upplýsingaöld.
Hitt sem verður að gera (og ég hef oft bent á) er að það verður að fara í markvissar björgunaraðgerðir. Sú árátta að læsa alla þekkingu inni í bókum og kollum kennara hefur orðið til þess að þekkingin hverfur þegar kennarar hverfa og kennslubækur úreldast. Kennslubækur, en þó sérstaklega gamlir kennarar, eru gullnámur þekkingar, innsæis og reynslu sem enginn virðist hafa sérstakan áhuga á að nýta sér. Kennarinn hættir og dýrgripir sem tók áratugi að fága sitja eftir sem dauf skíma í minningum nemenda þeirra.
Það þarf að umbylta tækninni og gera þekkinguna aðgengilega og handhæga – og það þarf að sækja þekkingu gömlu kennaranna. Það að vanrækja hið fyrra mun aðeins tefja fyrir sjálfsögðum umbótum. Það að vanrækja hið síðara er ófyrirgefanlegt og óafturkallanlegt.
1 ummæli:
Sæll og takk fyrir frábært blogg.
Ég skrifaði grein um svipað mál. Vitnaði í bloggið þitt líka.
http://innihald.is/tjodfelagsmal/tjoefelagsgagryni/639
Kveðja Óttar
www.ottar.is
Skrifa ummæli