31. október 2011

Æi, Davíð Þór

Án þess að hafa sérstakan áhuga á að lengja tilorðinn hala þá er ekki annað hægt en að dæsa þegar maður les svarbréf Davíðs Þórs til Maríu Lilju.

Efnislega snýst málið um það að Davíð telur aðgerðir Stóru systur óboðlegar m.a. vegna þess að þær vegi gegn grundvallaratriði réttláts samfélags. Að ekki sé hægt að refsa mönnum fyrir glæp sem þeir hafa enn ekki framið – hvað þá ef þeir voru tældir til að fremja glæpinn.

María Lilja bendir á athyglisverða staðreynd: þá að samkvæmt lögum er það lögbrot að bjóða greiðslu fyrir vændi, hvort sem það hefur farið fram eða ekki.

Þannig hafi mennirnir sem sömdu um vændi gegn greiðslu þegar brotið lög.

Síðan fer María í allskyns bollaleggingar um heiminn eins og hann lítur út frá sjónarhóli þess sem aðeins sér vændi sem nauðgun gegn greiðslu. Og gerir Davíð upp „rangt“ viðhorf til kynlífs, kvenna og vændis – þrátt fyrir að það sé ekki nema að litlu og óverulegu leyti verðskuldað út frá grein hans. En hún nefnir reyndar að slík viðhorf séu skiljanleg þegar horft er til þess að gamall klámritstjóri hamrar á lykla.

Davíð svarar með því að benda Maríu réttilega á að megnið af andmælum hennar komi því sem hann skrifaði ekki hætishót við. Og hann telur sig geta höggvið á móti með því að saka Maríu sjálfa um lögbrot – og þykist væntanlega með því sanna að hún sé aungvu betri en klámkarlarnir sem héldu að þeir væru að fara að troða gúrku upp í vergjarnan táning en lentu á samansaumaðri búrku.

Davíð gerir enga tilraun til að svara efnislegu spurningunni, þ.e. þeirri að það að falast eftir vændi á vef er ólöglegt, skv. núgildandi lögum. Og því séu þessir menn ekki saklausir, heldur berlega þegar sekir um glæp.

Hann lætur sumsé nægja að segja: „Þú líka!“

Og svo lætur hann sem það sé einhver ægileg ósvinna að saka hann um að vera gamall klámritstjóri. Hann hafi enda verið dreginn af þeim krók þegar lögreglan taldi ekki ástæðu til að kæra hann fyrir Bleikt og blátt á sínum tíma.

Og hann hótar að kæra Maríu nema hún dragi þessar ávirðingar til baka.

Kommon.

Maður kærir ekki fólk vegna þess að það getur verið góður mótleikur í ritdeilu. Sérstaklega ekki fyrir eitthvað sem að stofni til er barasta dagsatt. Davíð Þór stýrði á sínum tíma blaði sem enginn sæmilega frjálslyndur maður myndi missa svefn yfir að væri kallað klámblað. Þarna voru typpi og píkur sýndar frá allskyns sjónarhornum og í allskyns samhengi. Og þótt verið geti að Davíð, sem stundum hefur verið kallaður Larry Flynt Íslands, sé í dag í kompaníi við fínna fólk eða ætli sér að verða virðulegur sveitaprestur á næstu misserum – þá hefur hann ekki við neinn nema sjálfan sig að sakast þegar honum er brigslað um að hafa ritstýrt klámi.

Það að lögregla hafi ekki nennt að eltast við hann út af því er sannarlega ekki sýknudómur sem hann getur nú veifað og barið fólk með þangað til það þagnar. Það er miklu frekar til marks um það að löggan nenni ekki að eltast við vitleysu og framfylgja smámunum. Þegar einhver ódámur braust inn í bílinn minn og stal þar dóti nennti lögreglan svo sannarlega ekki að eltast við hann. Löggan horfði á mig eins og ég væri vangefinn þegar ég benti á að hugsanlega væru fingraför á ákveðnum stað á hurðinni. Þeir eyða ekki fingrafaradufti í svona smámál. Ekki frekar en að nokkur lögga eða dómari ætti að hlusta á svona væl eins og í Davíð yfir því að vera sakaður um að klæmast.

Þótt það sé kannski ekki skrítið að hann hugsi sér gott til glóðarinnar.  Dómarar hafa undarlegar hugmyndir um málfrelsi á Íslandi.

4 ummæli:

Kristinn sagði...

Ég er nokkuð ánægður með þessa umfjöllum hjá þér, þótt mér hafi þótt María Lilja eiga reiðileg viðbrögðin skilið.

Stundum er þetta allt spurning um framsetningu.

Einar Karl sagði...

Já alveg er ég viss um að María Lilja biðjist einlæglega afsökunar eftir þennan pistil Davíðs Þórs, "biðstu afsökunar - or else ..." !

Málsvörnin gegn ásökunum um að hafa ritstýrt "klámbæklingi" í þá veru að Bleikt og Blátt hafi "lögfræðilega" ekki verið klám er, tja, svolítið flóttaleg? Kannski upphafið að endurnýjaðri umræðu um hina sígildu spurningu um hvað sé klám.

Hildur Lilliendahl sagði...

Sjitt, hvað ég er sammála þér, Ragnar. Vel gert. Mér finnst þessi málsóknarhótun eiginlega bara vera aumingjaskapur. Það nennir enginn að tala við fólk sem hótar málsóknum þegar því líkar ekki málflutningurinn.

Nafnlaus sagði...

Jámmm!

Ég er ekki viss um að það sem standi einkum í Davíð sé upprifjun á ferli hans sem ritstjóri B&b, og að það muni standa áformum hans um frómt brauð útí sveit fyrir þrifum, heldur sú staðreynd að það kemur því ekki hætishót við sem hann er að tala um; þetta er varðar tilgang og meðal. Og menn sem vilja hafa sig í frammi í þessu máli og taka stöðu með Maríu Lilju þverneita að gera hér greinarmun á. Er það þó efni Bakþanka Davíðs.

Og þar stendur nú kannski hnífurinn í kúnni. Þegar menn hafa reynt að setja fram rök í þessari umræðu sem ekki henta femínistum er þeim svarað útí hött. Margur snáðinn hefur snappað við slíkar trakteringar, til dæmis á bloggsíðu Sóleyjar Tómasardóttur, og þá hefur það verið haft til marks um að hún hafi á réttu að standa og karlar óttist sterkar konur. Karlar óttast ekki sterkar konur, karlar óttast heimskar konur. Þetta er hundalógík sem verið er að bjóða uppá sem jaðrar við ofbeldi.

Mergurinn málsins er sá að það er gersamlega óboðlegt að klína því eilíflega framan í alla þá sem voga sér að efast um aðferðirnar að þeir séu sérlegir stuðningsmenn nauðgara og mjög líklega hórkarlar sjálfir.

Kveðja,
Jakob