27. nóvember 2011

Hlutleysi er hugleysi

Ég á dálítið erfitt með að skilja þá húmanista og trúleysingja sem vilja hreinsa hið almenna, opinbera rými af trúarlegum áróðri. Ég efast mjög rækilega um að hægt sé að skilgreina einn ákveðinn forða þekkingar sem óumdeilanlegan „sannleika“ – þótt ég sé um leið sannfærður um það að þar sem gagnrýni fær þrifist við hlið trúar muni trúin hægt og rólega láta undan síga.

Það eru að mínu viti stórkostleg mistök að segja mönnum að eiga trú sína í friði. Því við eigum ekki að láta hvert annað í friði. Við eigum að stefna saman ólíkum stefnum og straumu, hugarfari, skoðunum og mismunandi þekkingu. Með því verður einhverskonar náttúruval í átt til meiri skynsemi. Það er fyrst þegar menn fara að bæla ákveðnar skoðanir að skynsemin fer að dofna.

Og talandi um náttúruval. Nú eru jafnvel hámenntaðir íslamstrúaðir nemar farnir að stunda það að ganga út þegar kenningar Darwins eru til umfjöllunar. Þeir líta svo á að það sé réttur sinn. Sem það sosum er.

En þetta skapar æði ónotalegan blæ og minnir á það þegar Darwin sjálfur, loks og um síðir, birti niðurstöður sínar og gamall skipsfélagi gekk um og sveiflaði Biblíu til mótvægis við óværuna sem úr Darwin vall.

Með því að sópa ranghugsandi draugum fortíðar undir teppin þá neyðum við þá til að sitja þar, í rykinu og óþrifnaðinum. Og þá er sama hvað við erum að prédika ofan á teppinu – þeir munu fara á mis við það enda með augun og eyrun stífluð af ló.

Skynsemin hefur aldrei orðið sterkari á samfélagslegri þöggun eða hlutleysi. Skynsemin þrífst best þar sem hún fær að takast á fyrir opnum tjöldum.

Og það sem skynsemin megnar ekki að bæta – það fer umburðarlyndið yfirleitt langt með.

Óumburðarlynd þöggunarskynsemi er algjört óráð.

7 ummæli:

Matti sagði...

Hvað í ósköpunum ertu eiginlega að tala um? Hvernig tekst þér **alltaf** að snúa umræðunni um trúboð í skólum á haus?

Eva Hauksdóttir sagði...

Ég er þér sammála. Við eigum að stefna saman ólíkum hugmyndum og ræða þær með gagnrýnu hugarfari. Gagnrýnin umræða er hinsvegar ekki praktiseruð í skólakerfinu og því síður sem börnin eru yngri og móttækilegri. Það er algerlega undir hverjum og einum kennara komið hvort gagnrýnin hugsun er yfirhöfuð viðurkennd eða hvort hún er barin niður um leið og vottar fyrir henni. Það verður engin gagnrýnin umræða í boði fyrr en þessum kerfisbundna heilaþvotti linnir.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er nú ekkert að tala um skólakerfið sérstaklega í þessu sambandi. Ég er einfaldlega að tala um þá tilhneigingu að krefjast þess að hið „opinbera“ rými sé hlutlaust um trúmál. Í þessu sambandi er ég ekki að vísa í tiltekna atburði eða einstaklinga – og alls ekki bara í skóla.

Það má vel vera að einhverjir vilji ekki kannast við að þetta sé svona í raun – en ég fullyrði samtsemáður að svo sé.

Hjalti sagði...

"Ég á dálítið erfitt með að skilja þá húmanista og trúleysingja sem vilja hreinsa hið almenna, opinbera rými af trúarlegum áróðri."

Hvaða húministar og trúleysingjar eru það eiginlega?

Kristinn sagði...

Ég held að þetta sé flækja byggð á ofureinföldun, Ragnar. Málið er náttúrulega að því fer fjarri að þú eða nokkur maður vilji raunverulega "stefna saman ólíkum stefnum og straumum, hugarfari, skoðunum og mismunandi þekkingu" þótt það hljómi vel að segja það.

Við höfum ekki tíma í skólakerfinu fyrir þunga útleiðslu ranghugmynda í nafni vilja til að leyfa stríðandi hugmyndum að hafa skapandi áhrif. Þess vegna kennum við ekki samsæriskenningar sem stríðandi þekkingu við núverandi sagnfræði, við kennum ekki í löngu máli kenningar vitleysinga um skaðsemi bólusetninga, við kennum ekki flatjarðarkenningar eða þá úreltu stærfræði sem studdi jarðmiðjukenninguna, en sú stæðrfræði ku hafa verið orðin nokkuð þétt. Við opnum ekki dyrnar fyrir vísindakirkjunni, költum af ýmsu tagi eða leyfum píramíðafræðingum og talnaspekingum að einga sér dag á viku til að kenna grunnskólanemum sín fræði. Né heldur fá sjáendur, stjörnuspekingar og hómópatar að gera tilkall til þess að þeirra fræði fái pláss í vikuplaninu. Höfuðbeina og spjaldhryggsjafnarar fá heldur ekki tíma fyrir hólistíska læknisfræði sina, né heldur breskir bonesetterar eða indverskir gúrúar sem geta svifið ef þeir einbeita sér nægilega mikið. Þá eru samt hrikalega mörg "fræði" ótalin.

Reglur um hvað skuli fara fram í skyldunámi verða eðlilega dálítið árangursmiðaðar og byggja á hugmyndum um réttlæti og skynsemi - þótt alltaf megi gera betur.

Vegna menningarlegs samhengis kennum við kristnifræði og trúarbragðafræði. En trúboð og trúarástundun á vegum hins opinbera í skyldunámi er allt annar handleggur og ef réttlæta á þá hluti með umræddri kenningu þinni verður erfitt að sjá að allt hitt eigi ekki erindi líka - sérstaklega með tíð og tíma í fjölmenningarsamfélaginu.

Nei, mér þykja þessar hugmyndir "húmanista og trúleysingja" bæði rökréttar og eðlilegar. Í samfélaginu sjálfu ægir þessi síðan öllu saman, svo það er ekki yfir neinu að kvarta.

mbk,

Nafnlaus sagði...

Ég er trúlaus og sannarlega frjálslyndur og umburðarlyndur; nota þau hugtök ekki eins og móðins hefur verið síðustu misserin. Þau ríma sannarlega ekki vel við "my way or the highway" lausnir.

Það er algjör óþarfi að láta eins og við séum stödd í einhverju þrúgandi biblíubelti hvað viðvíkur þessum málaflokki. Slíkt er beinlínis lausn í leit að vandamáli, meðan nóg er af raunverulegum vandamálum til að fást við.

Eyjólfur

Nafnlaus sagði...

Ég skrifaði eitthvað um þetta fyrir svolitlu síðan sem rímar kannski ágætlega við þinn pistil: http://gvendarbrunnur.blogspot.com/2010/10/af-truboi.html