25. október 2011

Trú er kenning sem...

Ég las í morgun magnað viðtal Matt. Johannessens við Níels Dungal, meinafræðing frá árinu 1960. En Níels var einn fárra manna sem opinberlega þorði að andæfa hinum kristna, móralska meirihluta og krafðist þess t.a.m. að fátæk þjóð, sem væri að rísa upp á lappirnar, ætti frekar að setja peninga í að byggja alminlegan spítala en risastóra steinsteypukirkju. Vinir vorir í Vantrú fjalla um Níels í dag.


Doktor Dungal


Viðtalið er merkilegt og ég hvet sem flesta til að lesa það. Það varpar alveg sérstaklega skæru ljósi á þá upplifun að berjast fyrir réttum málstað þegar tímarnir fylgja ekki með.

Viðtalið kveikti einnig hjá mér hugrenningartengsl varðandi vændisumræðuna og blessunina hana Stóru systur. Bæði vegna þess að mér finnst Níels afhjúpa á mjög skýran og skilmerkilegan hátt það sem er að því femíníska stjórnmálaafli sem stendur á bak við búrku-gjörninginn. En um leið, og á miklu lúmskari hátt, er hann sekur um nákvæmlega hið sama.

Byrjum á samhenginu: Níels var alinn upp við „spírítisma og myrkfælni,“ eins og hann orðar það einkar skemmtilega. Hvorttveggja átti eftir að eldast af honum og hann varð sérlega fær raunvísindamaður. Hann taldi að kristin trú væri einfaldlega trú sem bæri þess skýr merki að verða innan tíðar talin sem hjátrú, alveg eins og sægur annarra trúarbragða. Þess væri ekki langt að bíða að opinberlega þætti fullkomlega skynsamlegt og eðlilegt að draga í efa meyfæðingu og annað bull.

Og Níels kemur fram með óvenju einfalda – en um leið snjalla – skilgreiningu á trú. Svo snjalla að ég upplifði evreka-móment þegar ég las hana. Hann segir:


Satt að segja hugsa ég aldrei um, hvort ég sé hamingjusamur. Ég veit, að margir eru sælir í sinni trú. En ég kæri mig ekki um þá hamingju. Trúin er kenning, sem borin er fram og enginn má gagnrýna. Sumar stjórnmálastefnur geta verið trú, einræði er það alltaf.

Þarna er hann í raun og veru að stilla vísindum og trú upp sem andstæðum. Aðall vísindanna er endurtekningin og gagnsæið. Hver sem er má og þarf að geta rannsakað forsendur hverrar kenningar gaumgæfilega og gagnrýnið. Trú er andstæðan – því jafnvel þótt hún klæði sig í vísindalegan búning þá felur hún gagnrýnisleysið í sér.

Ég tel einmitt að viðbrögð femíniskra afla á Íslandi við gagnrýni sýni að þar er oftar en ekki um trú að ræða. Gagnrýni er mjög gjarnan hunsuð, hvort sem hún er málefnaleg eða ekki. Og það sem verra er, að gagnrýni er oft mætt með fordómum. Eins og þeim að þeir sem telji aðgerðir gegn vændi eða hugmyndir um það vera vafasaman pappír – séu þar með ómarktækir hagsmunaaðilar, vændiskarlar eða varðhundar feðraveldisins.

Þetta finnst mér vera mikil synd, því femínismi er í grunninn mjög gagnrýnin og gagnrýnis-drifin hugmyndafræði og rannsóknaraðferð. Það er slæmt þegar slíkt hættir aðbregðast við gagnrýni – og verður það sem Níels kallar trú.


Það liggur við að ég hafi átt uppbyggilegri rökræður við Skúla rasista en femínista. Rökræður mínar við þá hafa yfirleitt endað með því að ég er sakaður um heimsku, illsku eða eitthvað þaðan af verra. Flestir femínistar sem ég hef rökrætt við hafa rokið á dyr hrópandi eitthvað um að það sé tímasóun að rökræða við mig. Svo dunda menn sér við það bak við tjöldin að fígúruvæða mig og mér var bent á það um daginn að í vissum femínískum kreðsum væri nafn mitt orðið að hálfgerðu háðsyrði. Að hægt væri að líkja einhverjum við mig ef viðkomandi væri að flækja hlutina of mikið. Loks hef ég orðið var við það að afgreiða mig sem einhverskonar þriðja hjól undir vagni, þar sem hin tvö eru nornin Eva og Kristinn Theódórsson.

Þetta er allt voða sætt og sniðugt – og einhverjum er vafalítið hægð í því að líta svo á að ég sé aðeins einn af þremur áberandi sérvitringum – sem paunkist á femínistum af óskiljanlegri ákefð.

Það vill reyndar svo skemmtilega til að Níels var sakaður um svipaða hluti. Það hlyti að vera tóm sérviska að amast við því að fólk eyddi orku sinni og peningum í að reisa risakirkju þegar það þurfti betri spítala.

Níels svarar þessu svosem ágætlega.


Það hefur alltaf verið sagt, að sjálfstæð hugsun sé sérvizka. Að því leyti má kalla vantrú mína sérvizku, en hún er betri en sértrú og ekki eins skaðleg.


Það er ekki meira um það að segja.

Málið er að um margt deili ég gildismati og skoðunum femínista. Ég hef andstyggð á vændi og þegar vinir mínir og skólabræður mældu út mellurnar um það leyti sem við fórum að stunda utanlandsferðir sem sjálfstæðir ungir menn – setti ég mér það órjúfanlega prinsipp að ég myndi aldrei nokkru sinni kaupa mér aðgang að líkama annarar manneskju.

Ég er líka sammála femínistum um það að fjölmörg hugtök og viðhorf sem almennt eru tekin góð og gild eru tóm heimska og vitleysa – sum meira að segja skaðleg.

En þar sem leiðir mínar og þess femínisma sem ég gagnrýni (sem er að sjálfsögðu ekki allur femínismi) skiljast er í því að ég viðurkenni að aðrir kunna að hafa önnur viðhorf en ég. Og að jafnvel þótt ég telji viðhorf annarra byggja á misskilningi og heimsku þá gefi það mér ekki rétt til að svínbeygja aðra.

Það að til séu heimskuleg viðhorf réttlætir ekki að þeim sé með handafli skipt úr fyrir betri viðhorf.

Það skiptir nefnilega miklu meira máli hvernig samfélag tileinkar sér viðhorf en hvaða viðhorf það eru.

Og hér fellur minn virti doktor Níels í flokk með femínístunum.  Og leiðir okkar skiljast.

Hann hafði nefnilega komist að því að vísindalegar rannsóknir þyrftu sárlega á krufningum að halda – hvað sem liði andúð almennings, hjátrú og myrkfælni. Og með þeim rökum lýsti hann því hróðugur hvernig hinir og þessir krufningarmeistarar nýttu sér þann rétt sinn að kryfja sem flesta af þeim sem gæfu upp öndina á sjúkrahúsunum – og því hvernig stundum þyrfti að stelast til að kryfja gyðinga á nóttunni vegna andúðar þeirra á krufningum.

Þá reyndi Níels ítrekað að tæla Matthías niður í líkhús til að hrekkja hann með líkunum – og tókst loks að hrella hann með því að láta hann taka utan af stúlkulæri.

Níels taldi greinilega óþarft að taka tillit til skoðana fólks, ef skoðanirnar voru að hans áliti heimska. Og þess vegna skar hann sundir hvern sem hann vildi, með hagsmuni almennings í huga, og lét andúð þess sem hann krufði eða aðstandenda ekki trufla sig. Hann vissi betur.


Það var auðvitað ekki í lagi.

Í dag er hlutverk læknisins annað. Hans er ekki að hafa vit fyrir sjúklingnum heldur skýra fyrir honum kostina og leyfa sjúklingnum (upp að því marki sem hann er fær um það) að ákvarða sína eigin meðferð. Það þykir mikilvægar að auka frelsi fólks og þátttöku í eigin meðferð – en að lengja líf þess um einhverjar vikur, mánuði eða ár. Ljósmæður reyna að sama skapi að vera sem ósýnilegastar og leyfa konum að ákveða sjálfar með hvaða hætti börnin fæðast. Í stað þess að trompa vilja kvennanna með sérfræðiþekkingu sinni og leggja þær á bekk með lappirnar út í loftið.

Og það er þetta viðhorf sem þarf að ríkja.

Að jafnvel þótt maður telji sig vita betur þá neyti maður ekki aflsmunar til að þvinga fram samsvörun í hugsun og háttarlagi annarra.

Það er ekki tilviljun að hugtakið „virðing“ hefur tvær merkingar. Annarsvegar þá sem felst í að hlýða einhverju (virða lög) og hinsvegar þá sem felst í aðdáun. Það hefur nefnlega gegnum tíðina þótt nóg að hlýða. Ég vona að það sé deyjandi viðhorf.

Þeir, sem vilja breyta heiminum, verða að breyta því hvernig fólk skiptir um skoðun – í stað þess að breyta því bara hvaða skoðanir eru til staðar.

Ég hugsa þetta þannig: Hvernig vildum við að stjórnmálin væru ef við fengjum skyndilega mátt til að ráða kerfinu – en við fengjum ekki að vita hvar við enduðum í því?

Ég held að rawlsíska svarið sé augljóst. Við vildum hafa stjórnmálin þannig að valdið væri ekki einrátt. Að hvaða hugmynd sem er fengi sinn séns og að fólk beitti skynsemi í að velja sér skoðanir. Að stjórnmál snérust ekki um það eitt að soga til sín völd og beita þeim þvert gegn vilja annarra.

Það getur oft verið gott að skoða eigin athafnir undir öðru ljósi.

Um þessar mundir er fésbókin undirlögð af myndbandi af ógæfusamri konu sem sat augadrukkin við Austurvöll og meig á stól.

Þegar Halim Al rændi dætrum sínum frá Íslandi notaði hann þann rökstuðning að hann væri að bjarga stelpunum frá ömurlegum örlögum. Að á Íslandi væri látin óáreitt siðspillt unglingamenning þar sem lítil börn fengju að reykja og drekka opinberlega – í trássi við velsæmi og lög. Og að vald foreldra til að bjarga börnum sínum væri ekkert því samfélagið sjálft léti þetta óáreitt.


Nú banna lög ölvun og óspektir. Lög banna líka ofbeldi og áreitni. Samt sem áður látum við enn viðgangast að fólk taki sér hlé frá landslögum og leggi gengdarlausa stund á óspektir, ölvun, ofbeldi og áreitni niðri í miðbæ um hverja einustu helgi. Ölvunarakstur er líka viðvarandi vandamál.

Hefði okkur þótt það sniðugt ef múslimskir skoðanabræður Halims Al á Íslandi myndu skera upp herör gegn siðferðishruni þjóðarinnar og vanvirðingu við landslög?

Ef félag múslimskra mæðra segði skemmtanamenningu þjóðarinnar stríð á hendur og stundaði það að gefa mönnum áfengi niðri í bæ, bara til að geta tekið niðurlægjandi myndir af þeim rorrandi fullum á eftir?

Myndu svo pósta myndböndunum á Jútúb. Með nærmyndum af andlitum fólksins. Og persónulegum upplýsingum: „Þessi þriggja barna móðir sem fær félagslega aðstoð sést hér míga ofan í blómapott við Fjölskylduhjálpina,“ „Þessi maður er hér að káfa á þriðju konunni þetta sama kvöld.“... Undir myndböndunum væri svo sönglandi arabísk tónlist. Og hvert myndband byrjaði á arabísku innleggi frá búrkuklæddri, nafnlausri konu.



Þætti okkur slíkt allt í lagi?

Múslímsku búrkusveitirnar hefðu með sér nákvæmlega sömu rök og regnbogabúrkurnar. Velsæmi, hugsjónir og landslög.

Maður sem lét dólgslega drukkinn á Selfossi fékk mánaðarfangelsi á meðan gaur sem keypti ítrekað mellur slapp með sekt. Það er ekkert sem bendir til þess að löggjafinn líti vændi alvarlegri augum en óspektir og ölvun.

Enda er hvorttveggja svotil algjörlega hunsað af löggunni.

Við útrýmum hvorki vændi né ungmennadrykkju með refsingum eða niðurlægingu. Við losnum ekki við mannskemmandi hegðun með síró-tolerans-stefnu. Umburðarlyndi er frumskylda þeirra sem vilja breyta samfélögum. Án þess verður samfélagið eins og vagnhjól. Eina stundina ertu ofan á, þá næstu ertu kraminn í duftið.

4 ummæli:

Kristinn sagði...

Eru þú, Eva Hauks og ég orðin eitthvað vanhelgt þríeyki! Það er aldeilis. Ég get þá ekki kvartað, þar sem þið tvö eruð með skemmtilegri hugsuðum á blogginu. Ekki amalegur félagsskapur það - fyrir mig þeas.

Ég tek náttúrulega vel undir þennan pistil, þú kemst prýðilega að orði.

Ein ljómandi skemmtileg kona sem ég þekki, femínisti, segist hafa andstyggð á stemningunni sem skapast meðal femínista þegar hópeflið kemst á ákveðið stig. Ég benti á að það ætti nú við um mörg félög að það myndist dálítið ruddalegur drifkraftur þegar sannfæringin er orðin mikil og allir stíma í sömu átt. Kannski er það þáttur í því að viðhorfin breytast svona í trúarbrögð sem styggjast svo mjög við gagnrýna umræðu.

Er annars of lúinn eftir körfuboltaæfingu til að segja neitt af viti.

mbk,

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Við erum vissulega mislit hjörð, málglöð og áköf. Held að engu okkar sé sérlega misboðið við líkinguna við hin.

Tinna G. Gígja sagði...

Ég hef orðið vör við þessa dímoníseringu ykkar Evu og Kristins í "umræðum" á bland.is. Kannske ég ætti að blogga aðeins um vændi og athuga hvort ég fái ekki að vera með...

Nafnlaus sagði...

"Jafnvel þótt maður telji sig vita betur þá neyti maður ekki aflsmunar til að þvinga fram samsvörun í hugsun og háttarlagi annarra."

Þetta er ágætis hugsjón svo langt sem hún nær, en eins og flest annað er veruleikinn mun flóknari, margslungnari og erfiðari viðfangs, eins og átök þín við femínista eru gott dæmi um. Femínistar gætu allt eins notað þessa fullyrðingu til þess að styðja við sinn málstað.

Kjarni málsins er sá að í augum femínista jafngildir vændi kúgun kvenna. Það stoðar því lítt að tala um "frelsi fólks til að hafa aðrar skoðanir", þar sem þetta er hreint og klárt mannréttindamál í þeirra augum. Fyrir þeim er jafngildir afstaða þín því að segja t.d. "andstæðingar þrælahalds mega hafa sínar skoðanir, en um leið að bera virðingu fyrir sjónarmiðum þeirra sem eru hlynntir þrælahaldi." (í því samhengi má alveg benda á að afnám þrælahalds í Bandaríkjunum var ekki afleiðing umburðarlyndis. Þrælahaldarar voru neyddir með valdi). Það réttlætir í þeirra augum hverskyns skæruhernað gegn perraköllum og öðrum sem finnst vændi bara allt í lagi. Femínistar hafa enga tólerans fyrir "rökræðum" um þessa hluti þar sem þetta er í þeirra augum klippt og skorið: vændi er kúgun.

Að því leytinu missir líkingin þín við Halim-Al marks, sem og dæmið í færslunni fyrir neðan um siðbótariddarann. Í þeim tilfellum er um að ræða baráttu siðapostula gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks (sem er hin heilaga kýr hjá okkur vestrænu guðleysingjunum), á meðan baráttan gegn vændi snýst - a.m.k. í augum femínista - um að frelsa konur úr ánauð. Það myndi að sama skapi endurspeglast í fávísisfeldi Rawls - femínistar myndu segja að þær vildu tryggja samfélag þar sem vændi er ekki til staðar, þar sem þær gætu einmitt vel endað sem vændiskonur, sem í þeirra hugum eru alltaf kúgaðar og óhamingjusamar.

Hvort þú samþykkir þetta sjónarmið fer eftir því hvort þú samþykkir það að vændi feli í raun og veru í sér ánauð kvenna. Og rökræður um þetta atriði virðast þó aldrei skila nokkrum sköpuðum hlut (eins og á raunar oft við um félagsleg fyrirbæri þar sem veruleikinn er einfaldlega allt of flókinn til þess að okkar auma, einstrengingslega og smættandi skynsemi nái utan um hann með fullnægjandi hætti).
Sjálfur hef ég enga sérstaka skoðun á vændi; hef eitthvað aðeins reynt að setja mig inn í þessi mál og eins og við var að búast getur maður bara valið "rannsóknir" til að styðja við það sem manni dettur í hug. Eva Hauksdóttir hefur t.d. bent á rannsóknir sem sýna og styðja við hugmyndina um hamingjusömu hóruna, á meðan femínistar hafa bent á rannsóknir sem sýna hið gagnstæða. Það er ekkert að því, og það þarf ekki einusinni að þýða hafi að önnur hliðin hafi "rangt" fyrir sér. Ég bara sé ekki hvernig hægt að ná nokkurri lendingu í þessu máli, þar sem deilan strandar að endingu alltaf á "trú" fólks. Gagnrýnin hugsun sem slík er því algjörlega máttlaus í þessum efnum. Þú mátt hinsvegar endilega reyna að hrekja það :)