En, hvað sem því öllu líður, þá kippti ég með mér á bókasafni um daginn bók Ágústs Borgþórs, Stolnar stundir. Ég ætla, inn á milli þess sem ég blogga um aðra hluti, að rekja upplifun mína af bókinni. Fyrst ég er að lesa hana á annað borð, þá mun ég hugsa allt sem hér birtist hvorteðer. Og ég get allteins punktað það hér niður þótt enginn hafi áhuga á því nema ég – og Ágúst.
Bókin fjallar um tæplega miðaldra mann sem kemur heim einn daginn og gengur í flasið á konunni sinni. Hann hafði skilið gemsann eftir heima og konan hans svarað þegar hann fékk grunsamlega hringingu frá kvenmanni. Stóra spurningin, sem bókin hefst á, er sú hvort konan hafi raunverulega hringt í vitlaust númer eða hvort síminn hafi verið til hans.
En sú spurning sem kviknar í kollinum á mér er ekki sú hvort síminn hafi verið til hans – heldur hvort bókin sé um hann, altso höfundinn. Maður fær það strax á tilfinninguna, svona eins og maður finnur að maður er blautur þegar maður stingur sér til sunds, að hér sé ÁBS að taka til í eigin lífi – frekar en nokkuð annað. Einhverskonar málsvörn mannsins sem ekkert varð úr.
Hann lýsir (mjög vel, þetta er fantavel skrifað) manninum sem dílar við tilvistarkreppu. Ekki gráa fiðringnum, heldur miklu djúpstæðari kreppu. Sem má lýsa sem gölluðu flugtaki út í lífið. Manninum sem líður best í hreiðrinu. Er ofvaxið barn – sem hafði ekkert út á atlæti sitt að setja í æsku, heldur tók ástfóstri við einhverja af þeim straumum sem veitt er gegnum barnæskuna. Þegar hann átti svo sjálfur að taka við og skapa sér sína eigin gæfu, sitt eigið líf – þá varð eiginlega ekkert úr því. Fyrst og fremst vegna þess að hann vildi ekki verða neitt, því það tók af honum möguleikann á að verða eitthvað annað. Og frekar þann versta en þann næst besta. Hann gerir mest lítið, því allt sem hann gerir krefst þess að hann tölti slóð burt frá hreiðrinu.
Hann hefur komið sér upp fjölskyldu og vinnu en hvorttveggja er frekar ófullnægjandi. Hann ólst upp með eigin hugsunum og þegar bókin hefst er hann að reyna að skríða þangað aftur. Sá tími, sem hann notar til að gleyma sér í augnablikinu – eru hinar stolnu stundir.
Semsagt, hikandi maður undir tímapressu sem getur ekki valið af hlaðborði lífsins og verður sífellt ófullnægðari af því sem hann hefur sett á diskinn sinn til þessa.
Og þá hringir ókunn kona í hann. Og eins og Þórbergur lýsti þá eru allar konur fallegar þar til maður hittir þær. Hvort sem þú skrifast á við eða talar við í síma – eða færð missed call – þá veldur ófullnægja hversdagsins þín að sérhver kona er gyðja frá þeirri stundu að þið vitið hvort af öðru og þar til þið kynnist.
Í ófullnægju sinni fer persónan að blogga undir nafnleynd. Bloggið er útrás bókstafanna á bókalausu heimili. Leið hans til sjálfstæðis. En bloggið er um leið tilraun til að koma röð og reglu á hugsanir sínar og skynjanir – en samt ekki of mikilli reglu, því reglan festir ferðina í sessi og togar hann út úr hreiðrinu.
Ég held að ÁBS sé að lýsa sjálfum sér. Og lýsingin er nokkuð hugrökk. Það er auðvelt að hnussa og segja að þetta sé aðeins lýsing á skorti á félagsfærni og sjálfsögðum metnaði. Og að það sé alls ekki svo að manneskjan sé af neinni dygð að spara sig fyrir eitthvað heldur láti henni best að gera ekki neitt. Hún hafi fundið styrkleika sinn í því að sitja á rassgatinu og gera sem minnst.
En ég upplifi hann ekki þannig. Ég held þetta séu spurningar sem hljóti að leita á hvern einasta hugsandi mann fyrr eða seinna. Til hvers að vaða áfram í einhverju lífsgæðakapphlaupi þegar maður getur reynt að lifa frumlegu lífi? Hvers vegna að fylgja straumnum? Og hvers vegna að hunsa fjöldamörg merki um leiða á hversdagslífinu? Er hversdagslífið mistök? Á skjön við mannlegt eðli? Félagslegt kúgunartæki sem er tilkomið af þeirri þörf að veita mannungum öruggt skjól þar til þeir geta matað sig sjálfir? Er farsæld mannsins fólgin í lífi sem okkur hefur ekki hugkvæmst að lifa?
Það verður fróðlegt að sjá hvert þetta leiðir hjá ÁBS. Hugsanlega endar þetta þannig að hann lærir að meta hversdagsleikann. Hugsanlega fer þetta eitthvað allt annað.
Ég geri ráð fyrir að allir bíði með öndina í hálsinum eftir næsta spretti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli