9. september 2011

Mitt síðasta um busavígslur

Óðar voru settir hlekkir á fætur honum og farið með hann til hersveitarinnar. þar var honum sagt að snúa til hægri og vinstri, lyfta byssunni, láta niður byssuna, kinna byssuna, hleypa af, herða gaunguna, og síðann barinn þrjátíu högg með staf; daginn eftir gekk honum svolítið skár svo hann var ekki barinn nema tuttugu högg; daginn þaráeftir var hann ekki barinn nema tíu sinnum, og lagsmenn hans álitu hann undur heimsins.

Ofangreindur texti er úr Birtíngi eftir Voltaire í þýðingu Halldórs Laxness. Eins og flestir vita þá fjallar Birtíngur um þá heimspeki að fyrst algóður Guð skapaði heiminn þá sé heimurinn besti heimur allra heima. Maður eigi því að fagna hverri ógæfu sem stórkostlegu happi. Eftir að Voltaire skrifaði Birtíng átti sú heimspeki sér enga uppreisnar von.


Margir framhaldsskólanemar hafa orðið til þess að andæfa pistli mínum um að busavígslur séu í eðli sínu knúnar áfram af drottnunargirni og illsku. Fjölmargir tefla fram persónulegum upplifunum og segjast annaðhvort hafa verið nærgætnir böðlar eða hamingjusamir busar.

Busavígslur eru ein tegund af manndómsvígslum. Þær eru þekktar í flestum samfélögum með einhverjum hætti. Oftast snúast þær um að „sanna“ sig. Í einum heimshluta þurfa strákar að hoppa niður af pöllum með tágarspotta um ökla en í öðrum þurfa stelpur að láta loka sig inni í dimmum hellum. Á enn öðrum stað þarf sá sem vígður er að drepa eitthvað eða vinna annað afrek. Glæpagengi hafa tekið upp sínar útgáfur af þessu tæi vígslna.

En til er önnur tegund af vígslum og það er þegar maður er innvígður í einhvern lokaðan klúbb. Svoleiðis vígslur eru yfirleitt annað tveggja (eða blanda): loforð um tryggð eða niðurlæging. Niðurlæging er sérstaklega vinsæl meðal hermanna og lokaðra klúbba í skólum.

Það skiptir ekki máli hvað hver segir, hversu hreinlyndir menn þykjast vera eða kærleiksríkir í garð busa: busavígslur í flestum framhaldsskólum hafa það bæði að inntaki og formi að niðurlægja yngri nemendur og upphefja þá eldri. Hér birtist komment frá einum þeirra sem sömdu reglur Kvennaskólans í þessu efni. Hann eða hún hafði það til sanninda um að þetta væri bara „leikur“ að viðkomandi hefði horft í augu busanna til að greina skelfingu eða óþægindi.

Það eru engin rök gegn tilvist svartra svana að maður hafi bara séð hvíta svani. Og ef einhver segist hafa séð svartan svan þá eru það engin mótrök að benda á nærstaddan hvítan svan. Tvennt er óumdeilt: dóttir mín horfði á barn niðurlægt með kynferðislegum undirtón af eldri nemendum í ónefndum framhaldsskóla. Eins er óumeilt að stúlka sem kvartaði undan eymslum í hné var rekin aftur á hart gólfið. Heldur einhver í alvöru að þetta séu einu tvö dæmin um það að busavígslur hafi orðið smásálarlegum drottnunarfíklum tilefni til ofbeldis? Auðvitað ekki.

Við vitum öll hvernig þetta er í raun og veru. Hver einasti „böðull“ veit að hann fílar „valdið“ sem busunin færir honum. Vald til að skipa öðru fólki fyrir. Hvort sem um er að ræða að börn séu látin þrífa matsali, bera töskur eða klæða sig á vissan hátt. Það þarf ekki annað en að skoða hvernig böðlar haga sér, hvað þeir segja og hvað þeir láta busa gera til að sjá – nákvæmlega hvaða hvatir liggja að baki.

Raunar myndi ég fagna mjög ítarlegri skoðun á þeirri félagsmótun sem fer fram við inntöku nýnema í framhaldsskóla. Fáum bara hlutina upp á borð. Sýnum bara hvernig busavikur og busavígslur ganga fyrir sig. Sýnum hvernig staðan er í þessum fyrirpartíum og busaböllum sem einhver böðullinn var að stæra sig af í kommentum.

Ég átti erindi í nágrenni busaballs eins framhaldsskólans í vikunni. Ballið var að enda og ég sá lítil börn trítla heim til sín. Stráka sem varla stóðu fram úr hnefa í jólajakkafötunum töltandi heim og svo örlítið eldri krakka ráfandi um gagnstéttar og út á götu á grenjandi fylleríi.

En það er kannski bara bull líka. Ekki eru nemendafélögin að stuðla að fyllerísböllum með 16 ára börnum í framhaldsskólum þar sem næstum enginn hefur náð aldri til að drekka? Er það nokkuð?

Skoðum bara hvernig þetta er í raun og veru. Og ég er hræddur um að okkur litist ekki alveg nógu vel á það.

Einhverjir létu það fara fyrir brjóstið á sér að ég notaði myndir úr herfangelsi í Írak. Töldu að með því væri ég að líkja íslenskum, saklausum „böðlum“ við ameríska glæpamenn.

Já, ég var að því.

Það voru ellefu manns dæmdir fyrir pyntingar í þessu tiltekna fangelsi. Á hverjum tímapunkti eru a.m.k. tíu sinnum fleiri amerískir hermenn í Írak en „böðlar“ á Íslandi. Það jafngildir því að einn íslenskur böðull hefði látið eftir sér að niðurlægja busa með ofbeldi og kúgun.

Og þótt böðlarnir gangi að sjálfsögðu ekki jafn langt og þessir hermenn þarna úti þá eru hvatirnar nákvæmlega þær sömu. Kikkið við að hafa vald yfir annarri manneskju og þörfin fyrir að sýna það vald með niðurlægjandi hætti.

Ef nú hópur fullorðinna tæki það upp hjá sér að draga barn með sér niður að andapolli, neyða barnið í hálfgagnsæ sundföt og út í vatnið við einhverjar aðrar aðstæður þá væri það dómsmál. Ef einhver fullorðinn neyddi barn til að skríða á veiku hné á marmaragólfi og hunsaði öll tilmæli um að þetta væri sárt – þá væri það ekki bara dómsmál, það væri skaðabótamál.

Hvaðan kemur þessi þörf hjá fullorðnu fólki til að fara svona með börn?

Jú, þetta er hefð. Og þetta er gaman.

Og af hverju er þetta gaman? Er það vegna gleðinnar og kátínunnar sem skín úr andlitum busanna þegar einhver hellir ógeði yfir þá eða lætur þá drekka viðbjóð? Er það gaman vegna þakklætisins sem busarnir sýna þegar þeir fá að bera skólatöskur eða þrífa matsali? Eða er það gaman vegna þess að menn eru víraðir þannig að þeir fá kikk út úr því að hafa aðra á valdi sínu? Og er það gaman vegna þess að mönnum finnst dáltið mikið til sín koma þegar þeir af náð sinni í lokin viðurkenna busana sem einhverskonar „jafningja?“

Ef menn nú aðeins kynntu sér sálfræði þá kæmust menn að nokkrum sannindum sem skipta rosalega miklu máli þegar kemur að því að túlka „augnaráðið“ sem böðullinn í Kvennó notaði sem öryggisventil. Í fyrsta lagi eiga 16 ára unglingar mjög erfitt með, heilt yfir, að standast félagslegan þrýsting. Og fæstir vilja vekja á sér neikvæða athygli. Mjög fáir treysta sér til að taka áberandi afstöðu gegn sér eldri nemendum í nýjum skóla. Í öðru lagi eru hlátur og yfirborðskennd kátína varnarviðbrögð við erfiðum aðstæðum og sérstaklega niðurlægjandi aðstæðum eða aðstæðum þar sem einhver tekur sér vald yfir manni. Þetta er margsannað með rannsóknum. Og fyrri hlutinn er næstum almenn þekking. Það að segja að busum sé sagt að segja bara nei er ósvífni. Þar með er verið að setja ábyrgðina yfir á fórnarlambið. Nokkuð sem aldrei á að gera þegar um niðurlægjandi háttsemi er að ræða. Kúgarinn ber ábyrgðina. Fórnarlambið þarf ekki að segja nei. En það þarf að segja já. Og jáið þarf að vera tilkomið án þrýstings.

Og þessi umhyggjusami úr Kvennó benti á að busar ættu að láta böðlana vita í tölvupósti af líkamlegum vandamálum eins og ofnæmi. Sorrí, en eldri nemendur í skóla eru bara alls ekki þeir sem ættu að vera að safna persónulegum heilsufars- eða hugarfarsupplýsingum um börn. Það er svo miklu meira en ofnæmi sem getur valdið því að busi ætti ekki að koma nálægt böðulsskap. Kannski eru einhverjir líkamlegir eða andlegir sjúkdómar sem barnið glímir við. Sumir hverjir jafnvel mjög persónulegir og eitthvað sem businn vill allsekki að hver sem er viti. Kannski hafa einhver börn lent í ofbeldi eða misnotkun og upplifa gríðarlega streitu við þær aðstæður sem uppi eru í busuninni. Kannski hefur einhver nýlega misst foreldri af slysförum eða í sjálfsvíg og er tilfinningalega í róti. Ætlast böðlarnir virkilega til að þeir fái aðgang að þessum upplýsingum?

Þegar Birtíngur var bara laminn tíu sinnum var hann mjög stoltur. Hann hefði getað verið laminn oftar. Og þegar böðlar stæra sig af nærgætni sinni eru þeir að miða við ennþá meiri niðurlægingu og ennþá meira ofbeldi.



Þetta gæti vissulega verið verra. En það gæti verið svo miklu betra líka. Það er nákvæmlega engin þörf á því að standa í þessu ofbeldis-larpi. Öllum jákvæðum afleiðingum þess má ná með öðrum aðferðum. Og með öðrum aðferðum má líka forðast neikvæðar aukaverkanir.

Og ég vona að einhver fjölmiðill taki þetta mál upp og rannsaki raunveruleg samskipti busa og böðla. Og að þetta verði opinberað sem það er. Að við fáum að sjá öll augnablikin þar sem böðlar ráðskast með busana og skipa þeim fyrir. Að við fáum að sjá hvernig ástandið er á busaböllunum. Að við opnum bara þessa hurð upp á gátt.

Hvernig væri það?

Hvernig væri að gera bara rannsókn. Spyrja busana hvort þeir hafi upplifað busaviku/r á neikvæðan eða niðurlægjandi hátt? Fáum bara að vita þetta.

Ég á voða bágt með að sjá annað en sjúklegt samhengi í busamynd þar sem fullorðin einstaklingur neyðir barn til að ganga með skilti sem á stendur: „Steini Njáls er besti vinur minn.“ Eða í því þegar 16 ára stelpur eru látnar totta bjúgu. Eða þar sem busar eru látnir syngja: „Við viljum láta taka okkur í rassgatið.“ Eða þegar busi er látinn gera arbeygjur fyrir ofan klofið á öðrum busa. Eða að busastelpur séu látnar sleikja tær.  Eða að busastrákar eru látnir leika það að annar taki hinn í rass. Eða að busastrákur sé látinn taka armbeygjur ofan á busastelpu.

Allt eru þetta dæmi um busavígslur sem raunverulega áttu sér stað og hefur verið lýst í máli og myndum.

Það sem gerir busavígslur skemmtilegar fyrir busa er það sama og knýr mann til að fara í rússíbana eða horfa á hryllingsmynd. Það er gaman að vera spenntur. Og það er gaman að vera hræddur. Svo lengi sem maður veit að maður er öruggur. Þess vegna hafa langflestir busar gaman af vígslunum. Þeir eru logandi hræddir og upplifa rosalegt röss.

Það er ekki nema eðlilegt. Og það má meira að segja vera að busastelpurnar geri sér ekki grein fyrir hversu sjúklegt það er að tvítugur strákur reki framan í þær bjúga og skipi þeim að totta það eða að busar séu neyddir til að riðlast á ljósastaur.

En þessir eldri, þessir tvítugu eiga að vita betur. Og ég fullyrði að hver einasti lesandi þessa bloggs sem kominn er til einhvers þroska sjái nákvæmlega af hverskonar hvötum tvítugir einstaklingar láta börn vera með kynferðislega tilburði, hvað þá vísanir í barnaníðinga.

Og þetta eru hvatir sem ekki á að samþykkja sem eðlilegan hlut í samskiptum innan framhaldsskóla.

Busun sem snýst um að fara í paintball eða bjóða í kaffi er algjörlega máttlaus. Enginn yrði sáttur við það. Það skemmtilega við busun er að verða hræddur. En það má hræða án þess að niðurlægja. Og það má meira að segja hræða á kærleiksríkan hátt.

Hafið busununa endilega sem hræðilegasta. Tryllið þá úr hræðslu. En í guðana bænum verið ekki að rúnka drottnunarhneigð ykkar og kynferðisórum á meðan. Og það er ekki nóg að 90% eða 70% eða 99% af böðlum sé næs lið. Það þarf að vera algjörlega á hreinu að enginn fái að skáka í þessu skjóli og stunda niðurlægjandi kúgunaratferli.

Og látið ekki eins og þið vitið ekki að það er rangt að setja ábyrgðina yfir á busann og að það er heimskulegt að halda að hlátur sé til marks um vellíðan. Axlið þessa ábyrgð sjálf ef þið eruð tilbúin til – eða sleppið þessu annars.

11 ummæli:

Bjössi sagði...

Fullkomlega ómarktækt. Litað af a) inngöngu elstu dótturinnar í framhaldsskóla (hvar voru þessar skoðanir þínar í fyrra?) b) fóbíu gagnvart áfengi (öll mannanna breytni verður í þínum huga bölvuð með því) og c) þörf fyrir að dramatísera. Busun = manndómsvígsla = Abu Gharaib ???

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Vertu ekki svona vitlaus, Björn. a) dóttir mín fór í skóla sem hefur ekki busun, b) það á ekki að þurfa að rökræða það að áfengi eigi ekki að vera eðlilegur hluti af mótttökuferli 16 ára barna í framhaldsskóla (þótt þú hafir kosið að redda börnum í kringum þig áfengi í tilefni af þeim tímamótum (en ég er ekki sá annarlegi í því samhengi)) og c) myndirnar úr Abu Ghraib voru af stórvini þínum Rush Limbaugh afgreiddar þegar þær komu fram sem ekkert annað en dæmigerðar fyrir busavígslur.

Bjössi sagði...

Vertu ekki svona vitlaus? Hvernig á maður að svara þessu? Ert þú ekki hér kominn í hlutverk böðulsins gagnvart mér, vitlausa busanum?

a) Busun eða ekki busun, þetta er þér hugleikið í ár en var það ekki í fyrra. Hin dóttirin upplifði þá skelfingu að sjá typpi úti í tjörn.
b) Eðlilegt eða ekki eðlilegt. Þú ert ekki dómbær á það hvaða áfengisneysla er eðlileg og hver ekki.
c) Bíddu, ha? Þú varst að viðurkenna að þú hefðir verið að líkja busun við pyntingar á stríðsföngum og virtist nokkuð stoltur af því hvað það hefði verið skemmtilega stuðandi líking. Svo þegar þú ert rukkaður ætlarðu að fela þig á bak við Limbaugh? Plís!

Nafnlaus sagði...

Raggi minn það þýðir ekkert að þú skrifir bara eitthvað um hvað þú ert buinn að heyra. Þú veist ekkert um hvort það er satt eða ekki það væri best ef þu gætir upplifað þetta en það en það er þvi miður ekki að fara gerst. Samt sem áður ertu nú mjög góður kennari

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Björn.

a) Þessi sálgreining þín er algjörlega úr lausu lofti gripin. Ástæða þess að ég fór að velta þessu fyrir mér er sú að yngri dóttirin horfði upp á niðurlægjandi busavígslu. Hefur ekkert með það að gera að sú eldri var að byrja í busavígslulausum framhaldsskóla.

b) Það að ég skuli ekki drekka merkir ekki að ég sé ekki dómbær á það hvort eðlilegt sé að 16 ára börnum sé boðið á fyllerí sem hluta af inntökuferli. Ekki frekar en það að þú drekkir of mikið gerir þig ódómbæran. Tjáðu þig um röksemdirnar, ekki málshefjandann. Það er grunnatriði allrar rökræðu. Ef þér finnst þetta í góðu lagi skaltu endilega færa rök fyrir því.

c) Ég sagði að það væru sömu hvatir á bak við. Ég stend við það. Þú taldir myndirnar út af kortinu, ég benti þér á áhugaverða staðreynd því tengt. Þetta er ekki flókið.

Og nemi, takk fyrir hrósið.

Þetta sem ég tel upp eru lýsingar busanna sjálfra, sem hafa sáralitla eða enga ástæðu til að ljúga. Gúglaðu busun og þá færðu þetta upp. Sumt af þessu sést líka á myndbandi frá því fyrir þremur árum þegar mbl.is gerði innslag um þetta.

ingó sagði...

Mér finnst alveg stórmerkilegt að þetta hafi aldrei verið rannsakað á Íslandi. Ég tek undir þessa grein í heilu lagi, ég hef stundum talað um þetta við fólk en flestir vilja ekkert heyra um þetta. Ég var sjálfur í skóla þar sem busavígslur tíðkuðust og mér þótti þetta mjög óþægilegt og niðurlægjandi. Svo horfði ég í augun á "böðlunum" bæði þegar ég var "busi" og svo síðar, og það er engu logið upp á kvalalostann í þeim augum - já eða hegðun. Og alltaf einhverjir sem gengu "of langt", yfirleitt krakkar sem voru sjálf eitthvað vansæl dags daglega.

Nafnlaus sagði...

Tek undir allt Ragnar, man sjálfur eftir því þegar busavígsla fór fram í Flensborgarskólanum þegar ég hóf þar nám. Þar höguðu 90% af böðlum sér vel, en nokkrir tóku ameríska stúlku (skiptinema) afsíðis og fóru með hendurnar innan á hana og káfuðu gróflega á henni. Þetta var fyrir ca. 20 árum síðan, og þá var því miður bara litið á þetta sem innanhúsmál í skólanum. Í dag hefðu þessir drengir verið kærðir fyrir kynferðislega misnotkun. Þetta dæmi og önnur sem þú hefur nefnt sýna að þrátt fyrir að flestir "hagi sér" sem böðlar, þá eru þessar hætulegu undantekningar sem réttlæta það að banna busavígslur sem byggja á því að eldri nemar stýri nýnemum með valdi.

Bjössi sagði...

Ragnar.

Ég ER að skjóta sendiboðann. Rökin eru því aukaatriði.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er lágmark, B, að skjóta sendiboðann með hlaðinni byssu. Og snúa hlaupinu fram.

Egill sagði...

Sæll Ragnar,

Var að uppgötva bloggið þitt og er búinn að skemmta mér við að lesa það í allan morgun. Mjög skemmtilegar færslur og pælingar :)

Hvað þessa busaumræðu varðar: Miðað við hvernig þú predikar rökræðu og mikilvægi þess að sjá alltaf hina hliðina finnst mér skrýtið hvernig þú horfir algjörlega fram hjá kommentum framhaldsskólanema og fyrrverandi busa um gildi hefðarinnar. Í hugum margra busa er þetta eitthvað mjög spennandi og margir sem hlakka til busadagsins (eins og þessi undirskriftasöfnun í Versló er t.d. til marks um).
Ég man þegar ég var busi (í MR) voru ég og félagar mínir spenntir marga daga fyrir. Þegar dagurinn svo kom slapp ég furðuvel; var látinn syngja eitthvað lag, var tolleraður og fékk svo köku og allir voru voða indælir. Í rauninni var ég pínu vonsvikinn, miðað við hvað vinir mínir lentu sumir illa í því.

Í mínum huga og margra annarra er þetta eitt af því sem gefur framhalsskólaárunum gildi sitt, þetta er skemmtileg minning og reynsla sem maður deilir með flestum landsmönnum. Miðað við mína eigin reynslu og annarra og það sem ég les í kommentakerfinu þínu, virðist þetta vera almenn skoðun og það er því ansi ódýrt að afskrifa það sjónarmið alveg. Að þetta sé fyrst og fremst spurning um drottnunargirni og illsku er ég ósammála. Það spilar eflaust eitthvað inn í, en fyrst og fremst er þetta eins og einhver benti á manndómsvígsla í formi hlutverkaleiks.

Að sjálfsögðu eru þó alltaf rotin epli og dæmin sem þú lýsir eru vissulega hrikaleg (sundskýludæmið er óhugnarlegt og mér finnst ótrúlegt að ekki hafi meira mál orðið úr því). Það er enginn að neita því að einhverjir aðilar gangi of langt. En spurningin er hvort taka eigi á því, eða leggja þetta alfarið niður af þeim sökum. Einhver tók dæmi um það að þetta væri svipað og að banna flugelda því það komi alltaf upp slys, væri það ekki heppileg samlíking?

Er spurningin bara ekki um að það sé aukið eftirlit með busun? Að settar séu strangar reglur fyrir böðla sem brýndar séu fyrir þeim og svo fylgst vel með (og miðað við það sem maður heyrist virðist það vera raunin)? Bara pæling..

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæll.

Ástæða þess að ég hef ekki rökrætt við suma af þeim sem tjáð hafa sig um þetta mál út frá persónulegum sjónarhóli er að ég hef ekki kunnað við það að standa í þrætum við börn eða mjög ungt fólk. Kann ekki við það. Ég hef samt reynt að taka sjónarhorn þeirra til greina.

Ég fjalla til dæmis um spennuna og gamanið sem býr að baki. Ég meira að segja skrifaði heila færslu um það hvernig mætti gera busavíglslur ásættanlegar (á mjög svipuðum nótum og þú ert að ræða).

Ég er ekki á móti busavígslum. Ég er á móti því að valdi sé hlaðið á eldri árganga skóla og þess krafist að yngri árgangar verði undirgefnir. Mér finnst það rangt á svo mörgum levelum.

Og skapa gróðrastíu fyrir allskyns misnotkun og ofbeldi.

Ég tel þetta líka vera enn eina sönnun þess að mannskepnan er í eðli sínu drottnunargjörn og grimm.

Það að margir hafi fílað þetta er bara ekki nóg til að réttlæta neikvæða upplifun sumra.

Busareglur og annað slíkt finnst mér sýna svart á hvítu hvað er þarna að baki. Rauði þráðurinn er krafa um tignun.

Ég skora á þig að grafa upp 3 ára gamalt myndskeið á mbl.is sem sýnir busun. Taktu eftir drottnunargirninni og kynferðislegum undirtón. Athugaðu hversu mikið af því sem þú sérð er (hlutlaust séð) græskulaus skemmtun og hve mikið er í alvarlegu ólagi.