Það vill mér til happs að það sem ég skrifaði í blaðið, skrifaði ég undir dulnefni. Svo skrifaði ég einhverntíma í einhvern snepil annan, stækan áróður gegn sitjandi stjórn skólafélagsins. Stílbrögðin komu upp um mig á nóinu. Ég gerði líka einhverntíma teiknimyndasögu eða tvær.
Eitt af því alræmdasta sem ég gerði með þessum hætti var að gefa í kompaníi við virtan ónefndan sálfræðing út blöðung sem innihélt stækan þjóðernisáróður og rasisma. Hengdur var upp undirskriftalisti þar sem menn pöntuðu þetta öndergrándblað sem hét Fordæmið!
Naut blaðið nokkurra vinsælda og áskrifendur voru furðu margir. Utan um þetta bjuggum við til félag sem hét VESVÖ, sem nú má opinbera að táknaði setninguna: „Við eigum svör við öllu.“
Eftirmálar urðu einhverjir, en blaðið kom út tvisvar. Þorlákur Axel Jónsson, félagsfræðikennari, fordæmdi blaðið í tíma og brigslaði höfundum þess um heimsku. Bekkjarsystir mín sagði að vinkona sín, aðflutt, hefði farið að gráta og sagt snöktandi: „Ég trúi ekki að þetta sé svona hérna líka.“ Og í einhverju partíi kom upp að mér ljómandi sæt stelpa eftir að hafa horft lengi á mig og spurði: „Hérna, ertu nasisti?“
Ég ætlaði að fara að bera af mér allar sakir þegar vinur minn og meðhöfundur kom askvaðandi og bannaði mér að svara spurningunni. Fordæmið! ætti fullan rétt á sér og það væri réttur okkar til málfrelsis að gefa það út. Fleira fólk bar að og eftir því sem skammirnar urðu hatrammari í okkar garð óx vinur minn í málsvörninni fyrir málfrelsinu.
Það er kominn tími til að opinbera göfugt ætterni Fordæmið! Við vorum nefnilega ekki höfundar þess nema að litlu leyti. Að mestu var það staðfært og þýtt upp úr The Brand New Monty Python Papperbok. Og innihaldið var skefjalaust háð um rasista. En þá, eins og nú, trúðu menn öllu illu upp á vesalings rasitana og föttuðu ekki djókið.
En fyrsta stökk mitt fram á ritvöllin var sem King Kong. Aftur í kompaníi við annan. Sá starfar nú fyrir Háskólann og er virkur innan Vantrúar eftir því sem ég kemst næst. Við höfðum verið bekkjarbræður í barnaskóla og unnið okkur til frægðar að geyma fulla fötu af vatnabobbum í þvottahúsinu heima hjá honum eftir háskaför niður í sjávarhamrana neðan við raðhúsið hans. Þegar mamma hans kom heim var þvottahúsið krökkt af sniglum á flótta.
Greinina má lesa hér – ef einhver hefur ekkert betra að gera en að lesa uppgötvun unglings á lögmálum heimsins.
Þegar ég var í fjórða bekk uppgötvaði ég síðan, að ég hélt, splunkunýja kenningu um heiminn og allt. Ég varð svo hrifinn af kenningu minni að ég skrifaði hrokafulla beturvitringsgrein í skólablaðið og skilaði inn pönnukökuritgerð (nk. lokaritgerð) þar sem ég útlistaði röksemdir mínar í þaula.
Ég skildi aldrei hversu fálega menn tóku snilldinni, og enn síður þegar ég síðan byrjaði í heimspekinámi í háskóla og fékk að vita að þessi kenning mín var ekki aðeins snjöll – heldur eldgömul og mjög þekkt.
4 ummæli:
Gaman að þessu.
Skoðaðu 2. tölublað 67. árgangs, bls 12
Sömdum við þetta?
En því megum við
ekki gleyma að Jesú var
sósíalisti sem boðaði stefnu
sína út frá því.
Sjæse.
Ég man mun betur eftir þessari grein en King Kong greininni og já, þetta er eftir okkur
Skrifa ummæli