27. september 2011

Ísrael – Palestína (að vera samkvæmur sjálfum sér)


Það væri gaman að hella sér einhverntíma í pælingu um það af hverju maður vill það sem maður vill. Ég til dæmis vil helst vera samkvæmur sjálfum mér. Og ef ég uppgötva hjá mér ósamkvæmni vil ég trúa að ég verði að taka báðar (allar) skoðanirnar sem stangast á til endurskoðunar.

Þetta hvarflaði að mér í dag þegar ég las um það að Bjarni Ben treysti sér ekki til að styðja sjálfstætt ríki Palestínu. Af praktískum ástæðum. Þetta væri flókið mál og erfitt sem Íslendingar hefðu hvorki efni sé ástæður til að skipta sér af.

Mér finnst þetta alveg sérlega aumingjaleg afstaða hjá Bjarna. Hef ég þó fulla samúð með Ísraelum og Gyðingum. Held að það þurfi mjög verpta sín á mannlegt eðli til að sýna því ekki skilning að „þjóð“ sem næstum var útrýmt vegna þess að hún barðist ekki af hörku á móti stigvaxandi fordómum og hatri skuli berjast fyrir tilveru sinni á harkalegan hátt. Við erum í lítilli aðstöðu til að fordæma Gyðinga eða sýna þeim yfirlæti. Við stóðum hjá þegar þeir voru skipulega ofsóttir og gerðum ekki neitt þegar konur, börn og gamalmenni voru skipulega myrt. Og ekki gátum við mikið gert þegar Arabaþjóðir reyndu að reka Ísraela út í Miðjarðarhafið.


Við ættum að sýna Ísraelum miklu meiri skilning en við gerum og hugleiða oftar okkar aðkomu að sögu Gyðinga. Það er ekki glæsileg saga.

En samt styð ég fullveldi Palestínu af heilum hug. Það verður að hjálpa því ríki á fæturna. Það verður að rjúfa gettóin sem ala á eymd og öfgum. Stöðva ólöglegt landnám og óþarfa harðneskju, hefndaraðgerðir og heimsku. Og jafnvel þótt við séum ekki sátt við allt í palestínsku hugarfari og stjórnmálum þá réttlætir andúð okkar ekki það að halda frá palestínsku þjóðinni grundvallarmannréttindum.

En það sem mér þykir soldið skrítið er hve valkvæð sýn margra vina og kunningja minna er á hluti eins og þessa. Og hve litlu máli skiptir að beita svipuðum mælikvarða á áþekkar aðstæður.

Þannig hafa óþægilega margir í kunningjahópi mínum ofboðslega lítið umburðarlyndi í garð kristinna. Telja þá jafnvel stórkostlegt kúgunarafl og að þær skoðanir kristinna sem stangast á við viðtekin gildi í samfélaginu megi bannfæra. Og það sé ekkert stórmál að refsa kristnum með þeim hætti sem gert var þegar í Reykjavík á dögunum.

Mér þóttu menn farnir að dansa alveg úti á línunni þegar það töldust rök í málinu að kristnir ættu eiginlega ekki rétt á að kvarta og að „væl“ þeirra útaf þessu væri dæmi um ómerkilega taktík, sem væri útbreidd hjá valdalitlum öfgaöflum. Greinin „Fórnalambakomplexar“ eftir hinn frábæra rýni, Magnús Svein Helgason, er gott dæmi um þessa afstöðu. Greininni var dyggilega deilt meðal vina minna og kunningja sem dönsuðu í takt við hana. Og vissulega er eitthvað andstyggilegt við það að sjá afl sem miskunnarlaust hefur beit kúgun og harðræði og er allt annað en elskandi í garð annarra veltast um í eigin afleysi og barma sér undan hinum. Slá sig til fórnarlambs.

En síðan sér sama fólk ekkert athugavert við það þegar Palestína gerir það nákvæmlega sama. Palestína og arabaheimurinn samþykkti aldrei þau landamæri sem núna er gerð krafa um að endurvekja. Gyðingar samþykktu þau fyrir sitt leyti – en arabarnir sögðu einfaldlega að það kæmi ekki til greina að samþykkja tilvist Ísraels, hvorki við þessi landamæri né önnur. Gyðingarnir skyldu reknir í sjóinn. Síðan réðust arabarnir á Ísrael og áratugum saman reyndu ríkin umhverfis Ísrael þjóðarmorð á Gyðingum. Og nágrannaþjóðir sáu ekkert athugavert við það leggja undir sig hina „meintu Palestínu“ í viðleitni sinni til að hafa betri hernaðarstöðu til að tortíma Ísrael.



En Ísrael hafði betur og stóð gegn þjóðarmorði og útrýmingu. Næstu hálfa öld eftir að Gyðingar höfðu látið teyma sig til útrýmingar í Evrópu veittu þeir, oft á tíðum hetjulegt, andóf gegn linnulitnum árásum á sig í Ísrael.

Smám saman, og eftir 1970 með dyggum stuðningi BNA, náðu Ísraelar nær öllum völdum í Palestínu. Við, hinir „frjálslyndu“ Evrópubúar tölum gjarnan háðulega og af doldilli fyrirlitningu um stuðning BNA við Ísrael. Það er eins og það megi helst ekki hjálpa Gyðingum. Enda er það samevrópsk þjóðaríþrótt að snúa baki við þeim í vanda, þ.e. hjá þeim okkar sem þó hafa getað stillt sig um hreinar og beinar Gyðingaofsóknir.

Og núna, eftir að hafa mistekist að hrekja Gyðingana út í sjó, eftir að hafa mistekist að tortíma Ísrael, eftir að hafa háð algjörlega einstrengingslegt stríð og án þess að hafa viljað kannast við nokkur landamæri milli Ísrael og Palestínu – koma nú fram magnvana og vígamóðir Palestínumenn og telja sig eiga siðferðilega og pólitíska heimtingu á þeim landamærum sem þeir neituðu að viðurkenna til að byrja með.

Og hinum frjálslyndu, vinstri sinnuðu vinum mínum finnst sjálfsagt að gera þá kröfu á Ísrael að landið sjái í gegnum fingur sér við arabaþjóðirnar sem reyndu að tortíma þeim. Reyni að yfirstíga þá staðreynd að þúsundir hafi dáið í þeirri tilraun til þjóðarmorðs sem staðið hefur óslitið frá stofnun ríkisins. Reyni að skammast sín fyrir að hafa beitt ofurefli á móti og drepið menn konur og börn.

Sorrí. En við erum bara ekki í neinni aðstöðu til að dæma. Við létum drepa Gyðingabörnin án þess að lyfta fingri. Og það í hjarta Evrópu. Það er voða billegt að öðlast alltíeinu núna siðferðiskennd og samúð með þeim sem hírast í gettóum.

Ekkert af þessu breytir þó því að það er engin framtíð í því að Ísraelsmenn haldi palestínsku þjóðinni kverkataki og herði að. Það getur ekkert gott komið úr því að gersigra andstæðinginn og níðast síðan á honum. Jafnvel þeir sem beittir hafa verið ólýsanlegri grimmd verða að stilla sig um það sama á móti.



Ísrael er eins og drengurinn sem ráðist er á í frímínútum en snýst til varnar og situr nú klofvega á kvalara sínum og lætur hnefana ganga í andlit hans. Hann þarf að stoppa. Áframhaldandi ofbeldi er ekki til neins.

En, með fullri virðingu fyrir hinum „frjálslyndu“ vinum mínum sem finnst eins og þeir eigi harma að hefna vegna ógurlegrar kúgunar og kvala af hendi kirkjunnar – og eru tilbúnir að beita „rangtrúaðar“ kirkjur ýmsu harðræði og háði – en eru um leið tilbúnir að horfa algjörlega framhjá málstað Ísraela og vilja gera sem minnst úr heift þeirra gagnvart Palestínu – þá verð ég að segja að ég gef ekki mikið fyrir svoleiðis tal.

2 ummæli:

Eva sagði...

Ef Palestínumenn væru samkvæmir öfum sínum þá myndu þeir ekki samþykkja þessi landamæri.

Afar þeirra samþykktu þau vitanlega ekki enda ekkert réttlæti í því að Sameinuðu þjóðirnar geti gefið Hollendingum, Þjóðverjum og Bretum af Gyðingaættum arabískt land án þess að spyrja heimamenn álits.

Það sem hefur breyst síðan er það að eftir 60 ára hernám, endalausa kúgun á öllum sviðum, er fólk búið að gefast upp og finnst þó skárra að viðurkenna rétt þjófanna til landsins sem þeir stálu en að halda áfram endalausu stríði. Ekki hafa þó allir þessa uppgjafarafstöðu, það hefur geysað borgarastyrjöld vegna málsins og stór hluti Palestínumanna álítur það af og frá að Ísraelsríki eigi rétt á sér, allavega eigi það ekki rétt á sér á palestínsku landi.

Þannig að þeir eru samkvæmir sjálfum sér eftir allt saman. Sumir eru m.a.s. samkvæmir öfum sínum líka.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki almennilega á því hvar gangrýni á hommahatur Kristskrikju kemur inn í myndina. Ef ég styð málstað Palestínumanna, ef ég vil jafnvel að Ísraelsríki verði leyst upp og þessir Þjóðverjar, Hollendingar o.s.frv. fari aftur til síns heima, má ég þá ekki hafa andúð á hommahatri?

Tinna sagði...

Mér fannst Kristskirkjustyrkveitingarsviptingin fremur ódýrt og ómerkilegt trikk, enda þeirrar skoðunar að svona batterí eigi bara að sjá um að halda sér uppi sjálf, án aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum. Skoðanir Kristkirkjumanna eru auk þess ekkert verri eða hatursfyllri en það sem kemur frá öðrum kirkjum - meint hommahatur stendur skýrum stöfum í Biblíunni, sem ríkiskirkjan fylgir alveg jafn mikið og Kristskirkjan eða aðrir "öfgasöfnuðir".


Síðan vorum það ekki "við" sem drápum Gyðingabörn í hjarta Evrópu, þó "við" gerum fullt af ljótum hlutum; "við" neitum að taka á móti flóttamönnum, "við" gerum lítið úr þjáningum sem eru í gangi akkúrat núna, "við" leyfum jafnvel þrælahald í nafni íþróttafatnaðar... en for fökks seik, ekki reyna að varpa ábyrgðinni á Helförinni á "okkur". Rétt eins og hvítir Bandaríkjamenn bera ekki ábyrgð á þrælahaldi forfeðra sinna, neita ég að bera ábyrgð á Helförinni.