26. september 2011

Sjálfsmorð og einelti

Barn framdi sjálfsmorð. Samfélagið allt hikstaði. Á meðan fæstir vissu hvað ætti að hugsa, hvað þá segja, stökk sá eini fram sem lætur ekki svona nokkuð slá sig út af laginu – presturinn og fékk að spila sóló í einn, tvo sólarhringa og hafði eitt og annað að segja, misgáfulegt eins og gengur, á meðan við hin þögðum og hugsuðum.

Svo töluðum við – misgáfulega eins og gengur.

Smám saman urðu handtökin fágaðri og einbeittari. Kennarar um land allt settust niður með nemendum og ræddu við þá. Foreldrar ræddu við börn sín.

Útgangspunkturinn í flestum tilfellum: einelti.

Það held ég sé sorglega röng nálgun á þennan hræðilega atburð. Foreldrar ættu einmitt ekki að nota svona atburði til að fæla börn sín frá einelti. Það er einföld, illgjörn skýring – og tvíeggjuð.

Fólk hefði átt að tala við börnin á þeim nótum að þessi hræðilegi atburður sé afleiðing af því að drengurinn hafi verið mjög veikur. Það þarf ekki einu sinni að fara neitt nánar út í það. Ef menn vilja tækla eineltishlið málsins mætti segja að drengurinn hafi verið veikur og því miður hafi skilningsleysi á því gert illt verra. Punktur.

Með því að nálgast þetta sem eineltismál (þótt því sé bætt við innan sviga að drengurinn hafi átt bágt) gerist tvennt: börn taka á sig ábyrgð sem er ekki þeirra  að bera og í hugum einhvers, sem síst má við því, getur kviknað hugmynd um að gera kvalara sína ábyrga með sama hætti.

Börn bera ekki ábyrgð á dauða þessa barns. Að svo miklu leyti sem ábyrgð á við liggur hún hjá fullorðnum. Hjá félagslegu kerfi sem rembist við að ýta erfiðum málum af einu skrifborðinu yfir á það næsta. Hjá barnaverndarkerfi sem snertir varla á málum fyrr en í óefni er komið (börn þurfa helst að vera í stórkostlegri hættu, allra helst lífshættu, til að kerfið hrökkvi í gang. Sem er alltof seint í mörgum tilfellum).

Þessi drengur sem dó var eflaust búinn að upplifa ofsalega vanlíðan mjög lengi. Það eru ekki tugir, heldur hundruð barna, sem líður þannig líka – í hverjum mánuði, hverri viku, á hverjum degi. Og kerfið gerir næsta lítið. Börn þurfa helst að hníga niður í biðröðinni til að eitthvað gerist.

Á sama tíma og kerfið nær ekki að sinna börnum þegar það er líklegast til að hafa áhrif (þegar fyrstu vísbendingar koma fram um vanlíðan) og lætur sér oft á tíðum nægja máttlausa „líknandi“ meðferð í von og óvon þegar í óefni er komið – er óforskammað að ætla að kenna börnum um þegar málið fer á versta veg. Það eru önnur börn þarna úti sem geta dáið á morgun. Það á ekki að koma neinum á óvart ef það gerist. Það vita margir af hættunni. En ef það gerist eigum við, fullorðna fólki (sérstaklega fagfólkið) að hafa nægilegt hugrekki til að horfast í augu við eigin spegilmynd – og andæfa  (hversu erfitt sem það kann að vera) þegar gefið er í skyn að börn beri ábyrgðina.

Þegar einelti fær að þrífast og gera illt verra er það á ábyrgð fullorðinna að uppræta það. Það er alls ekki alltaf auðvelt. Eineltismál eru flókin og erfið. Og erfiðustu tilfellin eru þegar um verulega veik börn er að ræða. Slík börn vekja gjarnan hjá öðrum börnum verulega fjandsamleg viðbrögð. Börn kunna ekki hjálparlaust að díla við það sem fellur langt úti á jöðrum normalkúrfunnar. Þau þurfa að læra það. Í þeim tilgangi er best að skólinn og samfélagið geri sem mest úr fjölbeytni sinni. Kenni börnum að „umbera“ frávik frá unga aldri. Nesti þau með nægilega miklu umburðarlyndi þegar þau eru ung svo þau komist í gegnum þær flækjur sem fylgja þegar tilfinningalífið er kúplað við veruleikann, oft með miklu gírasargi, í sjötta og sjöunda bekk.


Rétt um það leyti sem börn verða kynþroska minnkar tímabundið samúð þeirra með öðrum. Þetta er vel þekkt, líffræðilegt fyrirbæri. Börnin verða um stundarsakir bæði grimm og andstyggileg. Síðan lagast það aftur. Það má fabúlera um orsakir þessa. Eflaust gegnir þetta hlutverki við að rjúfa fjölskylduböndin, fara í uppreisn gegn uppeldi og góðum siðum og mynda ný tengsl við samfélag sitt, en núna lárétt – en ekki bara lóðrétt. Fátt er enda líklegra til yfirborðskenndra vinsælda en léttur skammtur af siðblindu.

Það er líka á þessum aldri sem sum börn fara að feta veg ofboðslegrar vansældar. Þeir sem af einhverjum ástæðum ná ekki, þrátt fyrir vilja, að mynda félagstengsl eiga mjög erfitt. Ef ástandið væri eins á Íslandi og í BNA myndi barn á aldrinum 10 - 14 ára taka líf sitt að meðaltali þriðja hvert ár. Síðan fylgir holskefla sjálfsmorða árin þar á eftir og langt frameftir þrítugsaldri. Eftir það eru sjálfsvíg aftur orðin hlutfallslega fátíð. Sjálfsmorð unga drengsins er vissulega óvenjulegt, en það er aðeins óvenjulegt á sama hátt og ein alda sem brýst lengra  upp á sandinn en hinar öldurnar og rennbleytir á manni fæturna. Maður getur vissulega verið hissa þegar það gerist. En sá maður er meira en lítið í huganum á sjálfum sér sem fyrst þá verður var við allar hinar öldurnar sem brotna í flæðarmálinu jafnt og þétt.

Það er haugur af ungmennum á Íslandi sem líður hræðilega. Einhver þeirra munu deyja. Nú er erfiðasti tíminn er framundan. Margir hafa gælt við sjálfsmorð. Í BNA hefur komið í ljós að í hverjum einasta bekk er einhver sem gælir við sjálfsmorð. Í háskólum er stór hluti nemenda á einhvern hátt að dunda sér við að skipuleggja brottför sína úr heiminum. Til allrar hamingju fremur fæst af þessu fólki á endanum sjálfsmorð. En aukning á sjálfsmorðum mjög ungra barna hefur vakið ugg. Koma þar til margar ástæður. En ein hliðarorsök hefur reynst hafa afgerandi áhrif þegar svona ung börn deyja: hvatvísi.

Barn sem hefur hugleitt að taka eigið líf og hefur upplifað einelti getur vel orðið fyrir þeim áhrifum af mikilli umfjöllun um sjálfsvíg og einelti að það taki af skarið. Það þarf oft ekki mikla hvatningu. Það að geta kvatt þetta líf og með því opinberað kvalara sína og hugsanlega valdið þeim kvölum til baka – getur orðið heillandi hugmynd. Mikið tal um einelti og sjálfsvíg getur fest í sessi þá hugmynd hjá viðkomandi að þetta sé allt hinum börnunum að kenna. Og að þetta sé frábær leið til að sanna það.  Stundum þarf ekki annað en langvarandi vanlíðan, fórnarlambshlutverk og hvatvísi. Mengi þessara krakka er óþægilega stórt.


Ef hinsvegar talað er um börn sem gera svona sem verulega veik börn sem hefðu þurft meiri hjálp þá fylgir því tvennt. Í fyrsta lagi er verið að rétta börnum í svipaðri stöðu hjálparlínu í stað hengingarólar, þau skilaboð að þetta hefði ekki átt að gerast og að hjálp sé til staðar – en auk þess er verið að setja ábyrgðina þar sem hún á heima. Á okkur. Samfélagið. Sem höfum tekið að okkur sameiginlegar uppeldisskyldur gagnvart hverju einasta barni. Höfum sett okkur það markmið að reyna að koma hverri einustu sálu til manns. En stöndum okkur alls ekki nógu vel. Við erum ekki að veita þá hjálp sem við þurfum að veita.

Sönnun þess eru öll vansælu börnin sem kerfið getur ekki sinnt. Sönnun þess eru ógnarlangir biðlistar eftir aðstoð. Sönnun þess eru sífellt fleiri tilkynningar um að börn liggi undir skemmdum.

Fyrir þetta eina barn sem dó eru mörg önnur sem svipað er ástatt um. Við eigum ekki að ýta þeim nær hengifluginu. Við eigum að hugsa áður en við tölum. En umfram allt eigum við að gera eitthvað. Vanda okkur meira.

Finnar fóru gegnum sína kreppu á hörkunni. Hunsuðu varnarmerkin. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um sumt af því sem þeir uppskáru – og tengsl þess við „eineltishugarfar“ hjá mjög sjúkum ungmennum.

Barn sem lifir af áralanga vansæld hefur að endingu þjáðst mun meira en barnið sem dó. En af einhverjum ástæðum vekur þjaning þess sáralitla athygli.

3 ummæli:

Olafur sagði...

Það eru, því miður, nokkrar líkur á því að þetta geti smitað út frá sér. Um það er m.a. fjallað í bókinni The Tipping Point eftir Gladwell:

"In the 1970's and 1980's, Micronesia had teen suicide rates ten times higher than anywhere else in the world. Teenagers were literally being infected with the suicide bug, and one after another they were killing themselves in exactly the same way under exactly the same circumstances. We like to use words like contagiousness and infectiousness just to apply to the medical realm. But I assure you that after you read about what happened in Micronesia you'll be convinced that behavior can be transmitted from one person to another as easily as the flu or the measles can."

Þess vegna þarf að bregðast hratt og yfirvegað við.

Greinin er góð, takk fyrir hana.

Egill sagði...

Sæll Ragnar, flott færsla að vanda.

Ég er sammála flestu sem þú segir, en get alls ekki tekið undir þegar þú ýjar að því að einelti sé afleiðing, frekar en orsök þess að barn eigi erfitt eða sé "veikt" (það er það sem þú virðist vera að gefa í skyn, þú leiðréttir mig bara ef ég er að misskilja :)).

Ég er ekki í vafa um að einelti eitt og sér geti verið nóg til þess að krakkar grípi til þessa hræðilega úrræðis. Að börn sem síður en svo séu "veik", heldur kannski bara örlítið öðruvísi en annað fólk, upplifi vegna þess þvílíkt helvíti á jörðu að þau sjái enga aðra leið til að losna við kvalirnar.

Ég þekki fjölda fólks sem varð fyrir einelti í æsku, þó ekki nema í nokkra mánuði, sem er enn þann dag í dag að glíma við það, og það gerir þú eflaust líka. Þó ég sé sammála því að það eigi aldrei að stilla þessu þannig upp að börnin beri ábyrgðina, þá sé ég ekkert athugavert við það að orðið "einelti" fái að heyrast í þessari umræðu, sé það gert undir réttum formerkjum. Alvarlegt einelti er sálarmorð, ekkert annað, og það bara tiltölulega nýlega að fólk er að átta sig á hversu alvarlegt það getur orðið. Þannig að ekki veitir af!

Bkv.
Egill

Eva sagði...

Einnig væri gott að yfirvöld hættu að skikka börn til þess með valdboði að mæta fimm daga vikunnar í aðstæður þar sem þau sæta framkomu sem er refsiverð ef um fullorðið fólk er að ræða.