24. september 2011

Hvað þarf og þarf ekki í skóla?

Skólar hafa alltaf verið nokkrum skrefum á eftir tækninni. Og kenna alltaf í einhver ár eða áratugi úrelta tækni, stundum í mikilli andstöðu við nemendur – sem streitast á móti. Vanhæfni nemendanna við að tileinka sér nýja hluti er svo oft höfð til marks um að heimur fari versnandi. Sem er bull.

Skoðum nokkra hluti sem eru svo gott sem óþarfir í dag:

1. Stafrófið

Stafrófið er fyrirbæri sem gagnast við að leita að hlutum innan um aðra hluti. Vita hvar þeir eru innan einhvers kerfis. Oft tekur töluvert langan tíma að læra það – og í sjálfu sér er það óþarft. Við erum löngu búin að koma okkur upp kerfi þar sem hægt er að fletta hlutum upp án þess að þurfa að blaða gegnum þúsundir annarra hluta í leitinni. Meira að segja bókasöfn flokka bækur eftir númerum. Og númer hafa miklu víðtækara hlutverk en stafrófið.

2. Reiknivélar

Reiknivélar eru gagnslausar. Sem og gráðubogar, hringfarar og annað stærðfræðidót með einhæf og gagnslítil hlutverk. Það er innbyggð reiknivél í hverri einustu tölvu. Og tölvur eru farnar að flytja „reiknivélar“ upp á nýtt plan. Hefðbundin reiknivél með skjá eins og menntskælingar eru látnir kaupa eru miðað við t.d. Wolfram Alpha álíka gagnlausar og hornafallatöflur eða reiknistokkar.



Sá sem kann sæmilega ensku getur notað síðu eins og WA til margvíslegs gagns. Ef maður skrifar t.d. (x+2)(x-2) og ýtir á enter tekur ekki nema sekúndubrot að kalla fram allar mögulegar upplýsingar, þ.m.t. mynd


Og WA gerir raunar margt fleira. Segjum að maður vilji vita vegalengdina til Sólar eða höfuðborgina í Surinam. Þá tekur ekki nema augnablik að kalla fram upplýsingarnar.


Auk þess getur Google reiknað flest almenn dæmi og breytt á milli eininga. Ef þú Googler 23*23 þá kemur sjálfkrafa upp svarið.



 Ef þú gúglar  [3.4 km/h to m/s] þá kemur svarið um hæl með Google.


Það þarf aðeins að læra dálitla ensku, skammstafanir og ritvenjur. 

Töflureikni má nota mjög auðveldlega til að reikna langa og leiðinlega útreikninga.

Allt er þetta ókeypis á netinu og til staðar í hverri einustu tölvu án auka tilkostnaðar. Ef þetta væri nýtt rétt þá væri hægt að fara að kenna einhverjum krökkum að gera eitthvað með stæðrfræðinni í stað þess að sitja fastir í því fari að mikill meirihluti læri stærðfræði á unglinga- og menntaskólastigi eins og sá sem lærir hljóðfræði (illa) en semur aldrei eitt einasta lag.

3. Kennslubækur

Kennslubókin er að mestu úrelt form. Það má nota hana til að hafa fjölbreytni en það er líka algjörlega óþarft. 

Á næstu árum munu fartölvur hverfa eins og borðtölvur og einhver útgáfa af fistölvum eða spjaldtölvum taka við. Það þarf að fínpússa nokkra hlutir og svo er það gó. Nú þegar getur t.d. iPad leyst kennslubækur af hólmi – og rúmlega það. Það er ekki líku saman að jafna. yfirburðir iPadsins eru svo gríðarlega miklir. 

Lestrarbækur í ensku eru t.d. alveg fáránlega dýrar. Á sama tíma er hægt að kaupa á lægra verði app eins og þetta hér (ég mæli með að þið horfið á þetta í miklum gæðum):



Kennslubækur frysta tiltekna þekkingu í ákveðinni röð. Á meðan framtíðin er sú að það þarf eitthvað verulega sérstakt að koma til til að réttlæta slíkt. Flest öll þekking verður aðgengileg í smáskömmtum eða með uppflettifyrirkomulagi. Námsefni í stjörnufræði mun t.d. aldrei geta orðið betra en Stjörnufræðivefurinn.


Tala ekki um þegar vefurinn er tengdur stjörnufræðibloggi og hefur nú þegar t.d. tekið til skoðunar fiseindir – nokkurnveginn um leið og fréttir af undarlegum mælingum þeim tengdum bárust.

4. Kennarar


Hlutverk kennarans hlýtur að breytast og vægi hans minnka. Sú hugmynd að það standi manneskja fyrir framan hóp af börnum og þylji upp þekkingu er fráleit. Kennarinn er tímaskekkja eins og lögsögumaður Alþingis til forna. Hann getur hæglega komið þekkingu sinni þannig fyrir að nemandinn geti numið hana sjálfur og án persónulegrar nærveru kennarans. Einn kennari gæti vel setið bakvakt á meðan hundrað nemendur vinna sjálfir (þessvegna heima hjá sér) og haft samskipti við þá í gegnum spjaldtölvur t.a.m. Það er ekkert því til fyrirstöðu.

En kennarar gætu líka aðlagast þessu. Notað tíma nemenda betur, haldið utan um hópastarf og teymisvinnu, metið framfarir og árangur nemandans með honum og hvatt til dáða. Leitt skapandi starf og ýtt undir innblástur og stjórnað umræðum. Það verður nóg fyrir kennara að gera þótt þeir átti sig á því að megnið af því sem þeir hafa gert hingaðtil er óþarfi.

5. Skólabyggingin og kennslustofan

Skólabyggingar þarf að hugsa upp á nýtt. Menn eiga að læra úti. Fara á stúfana. Útfæra hver sína hugmynd. Heimakennsla gæti aukið vægi sitt. Nemendur geta farið út í atvinnulífið, tekið með sér spjaldtölvu og gert athuganir og rannsóknir úti á vettvangi. Nemendasvæði geta líkst kaffistofum. Það mætti setja heitan pott og líkamsræktaraðstöðu í unglingadeildir. Nota púða og sófa, hringborð og bása allt í bland. Börnin geta flætt um skólabygginguna, farið um miðjan dag á sundæfingu og komið svo aftur og klárað verkefni. Það má breyta þessu öllu. Skólinn hefur enga þörf fyrir lokaðar stofur með töflum og sætum sem snúa öll eins.

6. Nemandinn

Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að nemendur verði áfram flokkaðir saman eins og nú er eftir afmælisárum. 15 ára einstaklingur getur unnið verkefni eða rannsókn með 18 ára einstakling í öðru landi. Hægt er að setja upp vettvang sem er öruggur og undir eftirliti svo fólk geti unnið saman. Kennarar verða ábyrgðarmenn og leiðbeinendur í stað þess að troða staðreyndum í hausa. Hópur unglinga á mismunandi aldri getur unnið með smábörnum og eldri borgurum í hverfinu við að skipuleggja bingó eða félagsvist. Skólann má opna fyrir samfélaginu. Það má setja upp kaffihús og leikhús innan í skólabyggingunni þar sem eldri og yngri meðlimir samfélagsins hittast. Foreldrar geta tekið þátt í skólasamfélaginu með börnum sínum. Nemandi getur farið að hafa atvinnu af hæfilekum sínum meðan hann er í skóla. Stofnað fyrirtæki einn eða með öðrum, unnið með og fyrir atvinnulífið. Fengið launað starf innan skólans, t.d. við barnagæslu, þrif eða námsefnisgerð. 

- - -

Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hversu ofboðslega stórt mengi möguleika blasir við. Stærðfræðikennarar hamast enn við að kenna fyrstu skrefin og leggja nemendum til úrelt tæki til þess arna. Nemendur eru í hópum og neyðast til að hlusta á kennara miðla til þeirra þekkingu í litlum skömmtum, lesa steindauðar bækur, og læra stafrófið.

Það sem þarf svo losni um er að auka fjölbreytni í menntakerfinu. Veita skólum frelsi og kennurum. Taka vald af miðstýrðum apparötum og leyfa fólki að prófa nýja hluti. Hækka laun kennara verulega og laða til starfsins fólk með virkilega fjárhagslega verðmæta hæfileika.

5 ummæli:

stefán Pálsson sagði...

En nú er megintilgangur stafrófs ekki að raða hlutum, hvort sem það eru nemendur í kladdanum eða bækur í hillum. Það er aukageta - þar sem okkur finnst hentugt að nota kerfi sem við höfum tileinkað okkur af öðrum ástæðum til flokkunar.

Stafróf er tæki til að læra tungumál. Í sjálfu sér ekki mjög mikilvægt tæki ef maður hefur bara hugsað sér að læra eitt tungumál um ævina, móðurmálið - en verður þeim mun mikilvægara eftir því sem við reynum að spreyta okkur á fjarskyldari tungumálum.

Að ætla að slá af stafrófið á þeim forsendum að herra Dewey noti það ekki nema að hluta til er dáldið eins og að hætta að læra litina á þeim forsendum að hægt væri að útfæra götuvita öðru vísi en með rauðu, gulu og grænu ljósi...

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þetta er auðvitað rétt. Fólk þarf að læra að lesa. Einhver liður í því er að læra stafina. Stafrófið er samt annar hlutur. Stafrófið eru ekki stafirnir heldur tiltekin röð þeirra.

Svo eru til furðu áhrifamiklar aðferðir við að læra tungumál, eins og til dæmis Rosetta Stone, sem hafa alltaðra nálgun. Byggja á að tungumálið sé kennt með sem náttúrulegustum hætti.

Stefán Pálsson sagði...

Stafróf er flokkunarkerfi. Sem slíkt er það auðvitað enginn náttúrufasti. Við gætum alveg kosið að raða stöfunum upp á hvaða hátt annan sem er - en við yrðum seint flokkunarkerfislaus. Á 19. öld kallaði t.d. Konráð Gíslason eftir „réttara“ íslensku stafrófi, þar sem samhljóðarnir og sérhljóðarnir væru afgreiddir hvorir um sig og þeim raðað innbyrðis eftir eðlilegu hljóðmyndunarkerfi.

Það hefði kannski verið „fullkomnara“ stafróf ef horft væri einangrað á íslensku - en kostirnir við að hafa sömu röðun í sem flestum samfélögum eru miklu meiri.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er fínt að hafa flokkunarkerfi. En það er alveg óþarft að hvert mannsbarn leggi það á minnið. Þeir sem þurfa/vilja nota það geta lært það, svona eins og SI-einingar.

Það er líka löngu kominn tími á praktískara hitastigskerfi fyrir almenning og þyngdar.

Nafnlaus sagði...

Ég held þú hafir lög að mæla með þessum pistli Ragnar. Mér finnst samt nauðsynlegt að bæta þvi við að samhliða þessum breytingum á skólakerfinu og samhliða frelsinu sem áhjákvæmilega fylgir, þurfi virkilega að kenna nemendum siðfræði og samskipti og meðferð ábyrgðar. Það verður áfram á ábyrgð kennara og foreldra og fær aukið vægi.
kv, Halla M