12. ágúst 2011

Hverjir beita ofbeldi?

Þann 10. júní árið 1944 tóku þýskar hersveitir á sitt vald smábæinn Oradour-sur-Glane. Hermennirnir skipuðu öllum bæjarbúum að mæta á þorpstorgið til auðkenningar. Þegar þangað var komið voru karlmenn skildir frá konum og börnum og færðir með valdi í hlöður í nágrenninu. Konurnar og börnin voru látin bíða í þorpskirkjunni á meðan.

Í hlöðunum var búið að koma upp vélbyssuhreiðrum. Þegar búið var að reka mennina þangað inn voru þeir skotnir, í fótleggina, og látnir liggja þar til þeim blæddi út. Þvínæst héldu þýsku hersveitirnar að kirkjunni og báru eld að henni. Konur og smábörn sem reyndu í ofboði að flýja út um glugga kirkjunnar voru skotin með vélbyssum.

Þessi atburður, og aðrir áþekkir, urðu til þess að Stanley Milgram, félagssálfræðingur, ákvað að helga líf sitt rannsóknum á mannlegri grimmd. Sérstaklega grimmd Þjóðverja. Hann útbjó tilraun sem átti að varpa ljósi á grimmdina og ákvað, áður en hann prófaði hana á þýskum, að gera samanburðar og prufurannsókn í BNA. Til að gera langa sögu stutta fór hann ekki til Þýskalands. Niðurstöðurnar í BNA voru svo rækilega sláandi að það var ekki til neins.

Rannsóknarniðurstaðan var sú að 65% venjulegs fólks myndi verða saklausum að bana ef þeir gætu sannfært sjálfa sig um að ábyrgðin væri einhvers annars.

Grimmd er ekki afleiðing hræðilegra aðstæðna, illrar meðferðar eða skorts. Við búum öll yfir henni. Og það eina sem kemur í veg fyrir að við beitum henni er að við höfum ábyrgðartilfinningu. Takist að svæfa hana með einum eða öðrum hætti blossar grimmdin upp.

Tilraun Milgrams varpaði skýru ljósi á það hvernig heil þjóð gat látið ofbeldi, morð og gripdeildir viðgangast. Hvernig gyðinga- og pólitískar ofsóknir mættu aldrei neinni raunverulegri andstöðu venjulegs fólks. Venjulega fólkið vék sér undan ábyrgð. Og kallaði ekki þá til ábyrgðar sem stóðu að grimmdarverkunum. Allir bentu upp valdastigann – þar til síðasti fingurinn benti á Foringjann. Og hann gat auðveldlega lifað með ábyrgðinni.

Nú er verið að myrða saklaust fólk í Bretlandi. Það er verið að brenna heimili og vinnustaði. Heilu hverfin eru í herkví.

Og margir reyna að halda því fram að ofbeldismennirnir séu ekki persónulega ábyrgir. Og fingur benda upp röðina og staðnæmast við stjórnvöld.

Þvílík djöfulsins þvæla.

Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært af óförum 20. aldarinnar þá er það að það VERÐUR að gera fólk persónulega ábyrgt fyrir því ofbeldi sem það beitir saklaust fólk. Vegna þess að ofbeldið er okkur í brjóst borið og við hikum fæst við að beita því ef við getum á einhvern hátt svipt okkur ábyrgð.

6 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Góður pistill en við þurfum samt líka aðeins að skoða þær aðstæður sem auka líkurnar á því að fólk firri sjálft sig ábyrgð.

Skýringar á samfélagsástandi þurfa ekki að fela í sér réttlætingu á ofbeldi. Vitanlega eru þeir ábyrgir sem drepa og meiða. Þar fyrir má alveg hafa í huga að bresk stjórnvöld hafa margsinnis verið vöruð við því að skeytingarleysi þeirra gagnvart atvinnumálum ungs fólks, kynþáttamismunun og lögregluofbeldi, hlyti á endanum að leiða til alvarlegra átaka.

Stjórnvöld eru ekki ábyrg fyrir því ofbeldi sem einstaklingar fremja en þau eru sannarlega ábyrg fyrir samfélagsaðstæðum sem leiða til þess að þúsundir upplifa stóra samfélagið sem óvin. Stjórnvöld í Þýskalandi báru líka heilmikla ábyrgð á stríðsglæpum nasista enda þótt það fríi einstaka menn ekki ábyrgð.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hjartanlega sammála öllu sem þú segir.

Nanna sagði...

Hér má bæta við að margir af Waffen-SS-mönnunum sem frömdu stríðsglæpinn í Oradour-sur-Glane voru frá Alsace og því franskir ríkisborgarar. Af þeim 20 sem dæmdir voru fyrir glæpinn voru 14 frá Alsace. Þeir fengu nokkurra ára dóm en voru náðaðir af frönskum yfirvöldum nokkrum dögum eftir dóminn vegna mikilla mótmæla almennings í Alsace, sem taldi þá saklausa þar sem þeir hefðu verið þvingaðir til að ganga í Waffen-SS. Aftur á móti var ekkert mark tekið á miklum mótmælum í Limousin, þar sem Oradour var.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú segir nokkuð. Mjög fróðlegt.

gummih sagði...

Er ekki málið að einstaklingurinn þarf að bera ábyrgð á gjörðum sínum en líka yfirmenn hans. Sbr. hvernig einstaklingarnir voru gerðir að blórabögglum í Abu Grahib.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Gummi, þetta er auðvitað spurning um siðferðilega og lagalega ábyrgð. Ég er aðallega að fjalla um siðferðilega ábyrgð. Og vissulega verða menn siðferðilega samsekir á ýmsan hátt. Sekt er ekki einhver fasti sem deilist niður á menn. Sekt fólksins í Abu Grahib smitaði fjöldann allan af fólki, yfir og undirmenn.

Lagaleg sekt verður aldrei annað en daufur endurhljómur af siðferðilegri sekt.

Mér finnst samt að punkturinn þinn sé réttur. Og lög þyrftu að tryggja að ofbeldi verði ekki afsakað með því að yfirmaður hafi skipað manni eða að undirmaður hafi framkvæmt það.