2. apríl 2011

Um málflutning Já-liða

Þessi pistill er 472 orð og inniheldur 2 myndir. Áætlaður lestrartími er 1 mínúta og 59 sek

Það er vel hægt að styðja Icesave-samninginn með rökum. Og svo er hægt að styðja hann með einhverju allt öðru. Samtök Icesave-sinna náðu að kljúfa kjarna málflutnings síns í þessari mynd:




Þetta á að tákna Ísland eftir fimm ár ef við neitum Icesave og töpum dómsmálinu. Undir þetta var keypt heilsíða í dagblöðunum í gær.

Þetta er auðvitað skammarlega heimskulegt.

Í dag er auglýst að fyrrum alþingismenn og ráðherrar styðji Icesave. Upp eru taldir þessir:



Sérstaklega er þess getið að þetta fólk styðji samninginn að vel athuguðu máli og með framtíð þjóðarinnar í huga.

Ég veit ekki alveg til hvers er verið að reyna að höfða með þessari auglýsingu. Flest andlitin eru andlit fólks sem stóð að upphafinu á allri þessari vitleysu, þ.e. einkavæðingu bankanna og afnámi alls sem getur kallast eftirlit eða kvaðir á þeim. Svo er úrval þeirra snillinga sem stóðu á bak við það að eyða öllum landsins vandamálum með ofurvirkjun og álveri. Svo er gellan sem reddaði tengdadótturinni ríkisborgararétti, gaurinn sem reddaði öllum í lax og sú sem lét setja upp gullklósett í ráðuneyti sínu.

Svo má ekki gleyma því að Tryggvi Þór Herbertsson hefur leitt okkur í allan sannleikann um það sem bíður ef við samþykkjum ekki. Þá muni öll lán verða svo dýr að það að borga möglunarlaust borgar sig upp á nokkrum árum. Sami Tryggvi Þór og ákvað að hætta á verndaða vinnustaðnum í háskólanum og verða moldríkur á því að greina markaðinn. Klúðraði því öllu með glæsibrag og var svo fenginn til að afstýra hruni á elleftu stundu með nákvæmlega engum árangri.

Svo er það þetta sígilda: að allt fari til andskotans ef samningurinn er felldur og allt batni ægilega ef hann er samþykktur. Byggt á einhverjum óljósum sálfræðirökum og oftar en ekki vísað í sömu aðila og spiluðu undir í hrunadansinum. Stundum meira að segja sömu matsfyrirtækin og sögðu okkur að við værum á réttri leið rétt áður en allt hrundi.

Þessar auglýsingar munu engan fá til fylgilags við málstaðinn. Enda eru þær svo heimskulegar að þær gætu allt eins verið keyptar í háðungarskyni af andstæðingum samningsins. Ef jáið vinnur verður það ekki út af þessum auglýsingum. Það verður vegna þess að nógu margir vilja fórna þessum málstað fyrir aðgang að ESB.

Það er enda eina fórnin við að segja nei. Ef við segjum nei eignumst við óvini í inntökunefnd þess systrafélags sem ESB er.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Viðbjóðslegasti verknaður hrunsins var framinn af stjórnvöldum þegar þau settu á neyðarlög fyrir 2% þjóðarinnar á kostnað hinna 98% sem áttu ekki innistæður umfram tryggingar. Í raun var landið gert gjalþrota með þessum ólögum.

2% elítan fékk allt sitt greitt í topp og pöpullinn borgar fyrir það næstu 40 árin. Borgar hærri skatta, borgar stökkbreyttar skuldir. Borgar meira fyrir mikið skerta opinbera þjónustu. Borgar meira fyrir annars flokks heilsugæslu. Borgar meira fyrir annars flokks skóla og borgar meira fyrir stórlega skert tryggingakerfi. Borgar meira fyrir ónýtan lífeyri. Næstu 40 árin, borga meira fyrir minna. Í 40 ár eða svo fyrir 2% elítuna.

Og nú skal pöpullinn greiða viðbjóðinn erlendis líka á meðan 2% elítan hlær alla leið í bankann. Sömu ólög gerðu Hollendinga og Breta brjálaða því eins og eðlilegt er vilja þeir fá sömu fyrirgreiðslu.

Að samþykkja Icesave er að borga fyrir viðbjóð 2% elítunnar. Samþykkja skerðinguna næstu 40 árin eða svo. Það er að samþykkja neyðarlegasta viðbjóðin í hruninu og er þó af nógu að taka.

Að samþykkja Icesave er viðbjóðslegur verknaður og aðeins neyðarlögin frá haustinu 2008 eru viðbjóðslegri. Hafnið Icesave og hafnið viðbjóði 2% elítunnar.

Nafnlaus sagði...

Og þarna er líka Friðrik Sophusson fyrrv. forstjóri Landsvirkjunar, fyrirtæki sem er á nánast gjaldþrota þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun sem átti að mala gull. Friðrik sagði að þeir sem væru á móti virkjuninni væru á móti framförum („áfram")og ættu á að fá sér gæruskinnskó eða e-ð álíka heimskulegt.