3. apríl 2011

Já við Icesave getur verið réttmætt.

Þessi pistill er 453 orð. Áætlaður lestrartími er 1 mínúta og 53 sek.

Ég ætla að segja nei við Icesave. Krafa Breta og Hollendinga er að mínu mati óréttmæt og fylgt eftir með þvingunum, óljósum hótunum og enn óljósari ávinningi. Afborganir af vöxtum og hugsanlegum höfuðstól verða, hvað sem öðru líður, mjög íþyngjandi.

En ég get vel skilið að menn segi já – að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ég gef ekkert fyrir já af siðferðilegum ástæðum. Allar málsvarnir fyrir slíku hafa verið gloppótar, lélegar eða ekki komið málinu við.

Ég gef ekkert fyrir já vegna þess að áhættan sé svo mikil. Ávinningur eða áhætta trompar ekki réttmæti. Áhættu og ávinning þarf auk þess alltaf að margfalda með a.m.k. einni annarri breytu til að setja í eðlilegt samhengi. Tvær skoðanir á máli eru ekki sjálfkrafa jafngildar.

Ég gef ekkert fyrir já út frá hagsmunum. Að minnsta kosti ekki þegar hagsmunirnir eru jafn óljósir og þeir eru í málflutningi flestra. Nei gæti jafnvel orðið stórkostlegt happaskref, alveg eins og synjun forseta reyndist vera þvert á spár þeirra sem nú berjast fyrir já-i.

Það já sem ég get skilið og viðurkennt sem verðuga afstöðu er já á þeim forsendum að það að láta undan pólitískum þrýstingi Breta og Hollendinga gefi pólitíska inneign í aðlögunarferli að ESB. Eða réttara sagt að nei muni eyðileggja fyrir slíku ferli. Sé það svo að fjárhagsleg áhætta sé lítil (örfáir tugir milljarða) þá getur vel verið réttlætanlegt að taka skellinn og halda þar með leiðinni greiðri að evru og ESB.

Og ég er ekkert frá því að þessi afstaða sé að minnsta kosti jafn skynsamleg og að segja nei. Þótt ég persónulega geti ekki samþykkt hana af nokkrum ástæðum.

Það er því leiðinlegt að eina skynsamlega málsvörnin fyrir jái skuli ekki fá að heyrast. Það má ekki blanda þessum saman. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú að ESB-sinnar munu skila sér á kjörstað og segja já. En þeir eru minnihluti. Þess vegna verða andstæðingar ESB að skila sér á kjörstað og segja já. Þá má ekki fæla.

Sem er barnaleg afstaða. Ég hygg að allir ESB-andstæðingar sem ætla að segja já geri sér fulla grein fyrir tengingunni og láti hana ekki stoppa sig.

Hópurinn sem já-ið þarf að óttast að missa eru þeir sem hafa hingað til trúað að nei-ið sé öfgaskoðun, þeir sem eru leiðir og nenna þessu ekki og þeir sem telja að Íslendingar hafi kallað þetta yfir sig sjálfa með gegndarlausri spillingu síðasta áratuginn. Enda halda engar af þessum skoðunum vatni ef grannt er skoðað.

Engin ummæli: