3. apríl 2011

Dómgreind og hagsmunamat þeirra sem segja já

Þessi pistill er 385 orð og áætlaður lestrartími er 1 mínúta og 36 sek

Icesave snýst um þrennt: pólitík, siðferði og hagsmunamat. Þeir sem láta afstöðu sína ráðast af tveim fyrrnefndu þáttunum standa nokkuð klárir á sínu. Deilt er um hagsmunamatið. Skruðningana í hjólum atvinnulífsins þegar þau stöðvast vegna vanþóknunar Evrópuþjóða ef við synjum. Niðurfellingu gjaldeyrishafta þegar við segjum já og síðan snarlega endurupptöku þeirra þegar við áttum okkur á því að skuldin er í úgglenskum peningum.

Svo eru einhverjir sem ætla að kjósa já af því þeir nenna málinu ekki lengur. Í þá á ekki að eyða orðum. Það ætti að afnema kosningarétt slíks fólks og láta það sækja um hann aftur – ef það nennir.

Menn hafa misgóða greiningarhæfni. Ég hef ansi góða. Hef oftar rétt fyrir mér en rangt. Ef einhver nennir að lesa þetta blogg nokkur misseri aftur í tímann þá ættu ekki að finnast fleiri en örfá dæmi um að ég sé á algjörum villigötum. Miklu oftar var ég ansi nærri sannleikanum.

Þeir sem berjast fyrir já-inu á laugardaginn hafa líka sinn feril í hagsmunamati og greiningum. Hver er hann?

Jú í stuttu máli þessi: Samkvæmt þeim áttum við að taka fyrsta samningnum og þegar það gerðist ekki áttum við að verða Kúba norðursins, öll fyrirgreiðsla AGS átti að stöðvast og önnur lán einnig. Engin þjóð átti að vilja snerta á okkur með töngum og krónan átti að falla. Við máttum kallast heppin ef við gætum keypt Seríós úti í búð.

Og greiningarhæfnin toppaði sjálfa sig þegar já-liðar sannfærðu sjálfa sig um að auglýsingar um að risahákarl myndi éta Íslendinga ef þeir segðu nei og að nokkrir spillingar- og mölkúluráðherrar styddu Icesave væru rétta leiðin á þessum tímapunkti.

Ef menn geta ekki einu sinni skammlaust greint orsök og afleiðingar eigin gerða í íslenskum veruleika, af hverju í ósköpunum að taka mark á fullyrðingum þeirra um flóknari orsakasambönd?

Og ef menn hafa haft rangt fyrir sér um hvert einasta atriði hingað til, af hverju í ósköpunum að taka mark á þeim nú?

7 ummæli:

Matti sagði...

Það er gott að þú ert búinn að taka afstöðu í þessu máli - en ertu ekki að einfalda umræðuna óþarflega mikið?

Hverjir hafa haft rangt fyrir sér um hvert einasta atriði hingað til? Er einhver tiltekinn já-sinni sem þá á við um eða ertu að hópa öllum já-sinnum saman í hóp og dæma hann út frá tilteknum atriðum?

Hvað með nei-sinna og málflutning þeirra? Átt þú eitthvað sameiginlegt með Jón Val Jenssyni, á að dæma afstöðu þína í málinu út frá bullinu í honum?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæll, Matti.

Ég held ég sé ekki búinn að einfalda umræðuna óþarflega mikið. Ég er búinn að skrifa nokkra pistla. Hvern um sitt efni.

Ég held það sé einmitt nauðsynlegt að gera greinarmun á því að málið er þríþætt (fyrir utan lagaskilninginn): a) siðferðilegt, b) pólitískt og c) ískalt hagsmunamat.

Ef menn almennt gerðu sér grein fyrir því innan hvaða kvíar málflutningurinn fellur í hvert sinn yrði það til mikillar einföldunar og skýringar.

Hér er aðeins talað um hið ískalda hagsmunamat sem (þeir sem tala hæst fyrir já í hvert sinn) hafa haft í grundvallaratriðum rangt fyrir sér. Ekki einu sinni eða tvisvar heldur alltaf.

Ég geri engar athugasemdir við málflutning þeirra sem styðja málið á pólitískum forsendum, t.d. vegna þess að þeir telja að það sé pólitískt skynsamlegt að spila með Evrópu í málinu í stað þess að fara í eitthvað stríð sem lokar hugsanlega dyrum.

Ég geri nokkrar athugasemdir við siðferðilegan rökstuðning. Hvort sem hann er á þá leið að hér sé "þjóð" á móti "bankamönnum" eða "drullusokkar" gegn "breskum krabbameinssjúklingum".

Ég byggi samt sjálfur afstöðu mína á siðferðilegum rökum í bland við lagaleg.

Ég tel ískaldan hagsmunareikning ótækan vegna þess hve honum hefur verið beitt ótæpilega, hann óupplýstur og hve hressilega menn (meira að segja menn í ábyrgðarstöðum) hafa haft rangt fyrir sér. Um það er þessi pistill.

Mér er almennt verr við málflutning nei-sinna en já-manna. Það eru fleiri nei-menn úti á túni með raus um landráð og annað bull (eða að Biblían sé á móti Icesave). Þessir menn dæma sig sjálfir.

Annað en t.d. Samfylkingarmúrinn sem gætir þess í hvívetna að hylja hin pólitísku rök , sveipa þau dulúð og ala á ótta í stað þess að koma hreint fram og bjóða upp á tvær áttir fyrir Ísland. Áfram í átt til Evrópu eða hagsmunabarátta eylands.

Matti sagði...

Gott og vel. Ég get verið sammála því að sumir já-sinnar hafi farið útaf brautinni í málflutningi sínum og mér þykir hákarlaauglýsingin ekki góð. Á móti mætti benda á ýmsar auglýsingar nei-sinna og óþoalndi tal um landráð eða að standa í lappirnar.

Ég fór á fyrirlestur Lee Buchheit á fimmtudag og horfði á hann í Silfri Egils í dag. Mér þykir hann ræða hagsmunamatið vel og benda á áhætturnar sem felast í að samþykkja samninginn eða hafna. Í báðum tilvikum eru áhættur en í þeim samningi sem við kjósum nú um er ýmislegt til að lágmarka áhættuna.

Á móti sjáum við málflutning manna eins og Reimars Péturssonar sem virðist dauðlanga til að fara með þetta í mál fyrir dómsstóla og talar eins og engu máli skipti þó slíkt dómsmál tapist. Eins og afleiðingar af því muni aldrei skipta máli.

Allt sanngjarnt fólk sér að það er áhætta af því að segja já og það er áhætta af því að segja nei. Sá sem heldur því fram að annað hvort sé áhættulaust er lýðskrumari.

Umræðan getur því varla snúist um annað en hvor kosturinn sé hagstæðari. Hvort áhættan við já sé meiri eða minni en áhættan við nei.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þegar þú stendur frammi fyrir því að taka afarkostum einhvers sem gerir á þig óleyfilega/ólöglega kröfu eða mæta hörðu – er alls ekki sjálfgefið að ekkert sé í boði annað en að meta hvor kosturinn sé „hagstæðari“.

Matti sagði...

Nú verð ég bara að játa að ég skil ekki rök þín.

Þegar kemur að því að meta hvort samþykkja eigi þennan samningn eða ekki er hægt að ræða málið út frá ýmsum hliðum eins og þú hefur bent á.

Eftir stendur að hvorum kosti fylgja hugsanlegar afleiðingar.

Ef ákvörðun á að vera yfirveguð og rökræn hljótum við að meta kostina einmitt út frá því hvort er hagstæðari. Annars er stutt í að við séum einfaldlega komin út í þjóðrembing og sjálfstolt - sbr. umræðuna um að við borgum ekki skuldir óreiðumanna eða fólk sem segir nei vegna þess að Bjöggarnir eru ekki komnir í grjótið.

Ég er búinn að lesa færslur þínar og athugsemdir og sé satt að segja ekki enn af hverju þetta kalda hagsmunamat er ekki einmitt það sem fara á eftir þegar kosið er um samninginn.

Mér þykir afar ódýrt að útiloka þá óvissuþætti sem felast í að fara hina svokölluðu dómstólaleið og láta eins og það fylgi því engar afleiðingar.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það á að ræða málið út frá öllum hliðum. Bara gæta þess að grauta þeim ekki saman. Aðeins þannig fæst yfirsýn. Hagsmunir eru háðir mati. Það mat er gríðarlega flókið. Það flækir málið enn frekar að menn hafa greint stöðuna rangt í sífellu fram að þessu.

Það er fullkomlega eðlileg skoðun að segja að ef markmiðið er að taka upp evru og gerast aðilar í ESB með liðsinni m.a. Hollendinga og Breta þá sé annar kostuinn augljós.

Ef maður er hlutlaus eða áhugalaus um þá lausn þá detta um leið gríðarmiklir þættir út úr hagsmunaformúlunni.

Mín niðurstaða er þessi: Það er ómögulegt að segja hvar hagsmunum Ísland er best borgið, ef hagsmunir teljast aðeins fjárhagslegir þættir. Þessi samningur er betri en dómur en sigur í dómsmáli er miklu betri. Það er ómögulegt að vita hvaða áhrif já eða nei hefur. Þeir sem þykjast vita það hafa ekki sýnt fram á neitt með rökum. Já við Icesave væri ásættanlegur fórnarkostnaður ef stefnan væri inn í Icesave. Þá stefnu aðhyllist ég ekki eins og mál standa.

Við eigum að hafna kröfu Breta og Hollendinga sem óréttmætri. Við eigum að fá lögmæti hennar á hreint og halda fast við þau grundvallarréttindi að fá úr deiluefninu skorið. Sá þrýstingur sem á okkur er að fara ekki fyrir dómstóla er annarlegur.

Við komum okkur í þessa klípu með því að fylgja dularfullum hagsmunaútreikningum vanhæfra manna. Með því að eltast við gróða frekar en prinsipp. Með því að missa sjónar á öllum grundvallarreglum.

Það að fá allt á hreint og hafa allt upp á borðum er eina leiðin til að bæta fyrir það sem er að. Og það er þúsund sinnum stærra mál en Icesave.

Næst þarf að beita sömu vinnubrögðum á það sem er í gangi hérna innanlands.

Nafnlaus sagði...

Held að þú munir hafa rétt fyrir þér í þessu máli eins og öðrum sama hvernig þetta Icesave mál fer:

1: Já samþykkt og greiðslur Íslands litlar og staða Íslands batnar > Sama hefði gerst ef Nei hefði verið samþykkt, a.m.k. ekki hægt að fullyrða neitt í því sambandi.

2: Já samþykkt og allar verstu spárnar rætast > I told you so!

3: Nei samþykkt og við vinnum dómsmál og borgum ekkert og það hefur engin sérstök áhrif á samband okkar við útlönd > I told you so!

4: Nei samþykkt og við töpum dómsmáli, þurfum að borga allt í topp og allt fer á versta veg > Nýlenduveldin halda áfram að traðka á smælingjunum en við stóðum í lappirnar. Heimurinn er óréttlátur og réttlætið beið lægri hlut í þessu máli. Við gerðum samt rétt.

5&6: Já/Nei samþykkt en lítið sem ekkert breytist varðandi stöðu Íslands > I told you so.

Þannig munt þú ætíð hafa rétt fyrir þér burtséð frá því sem gerist. Sem er auðvitað hið besta mál.

Kv.
Hefner