Ég hygg flestir geti verið sammála um að fjármálabólurnar (hlutabréfabólan um aldamót og lánsbólan kringum 2007) hafi einkennst af hroka. Hrunin sem komu í kjölfarið einkenndust af auðmýkingu (en ekkert endilega auðmýkt).
Flestir hljóta líka að vera sammála um að hroki er skaðlegt afl. Hroki eyðileggur eðlilegan metnað og rífur getu og hæfileika úr samhengi. Menn telja sig bera af og viðhalda því viðhorfi, ekki með því að rækta mannkosti sína, heldur með því að ala með sjálfum sér yfirlætisfullt viðhorf til annarra. Þegar hroki fær bólfestu í hóp er stutt í að hópurinn ónýtist.
Þegar íslensku útrásarmennirnir voru barðir í duftið varð til hrokatómarúm á landinu. Og nú keppast menn við að fylla það. Hroki blossar upp hvað eftir annað og er aftur orðinn viðtekinn í allri orðræðu.
Og enn erum við ginnkeypt fyrir hroka. Mistökum hann fyrir eðlilegt yfirbragð þess djúpvitra, mikilhæfa eða sjálfsörugga. Trúum enn að það að berast mikið á sé til marks um innistæðu. Leggjum við hlustir þegar einhver er nógu dómharður, yfirlætisfullur eða kokkí.
Og um leið minnkar umburðarlyndi.
Hroki ræður för þegar menn amast við Skólaljóðunum, Guðríði Þorbjarnardóttur og Eagles.
Hópur fólks reynir að halda á lofti þeim viðhorfum að þeir, sem hafi ánægju af Eagles eða Skólaljóðunum, hafi hreinlega ekki nægt vit til að sjá hvað þetta sé vont stöff. Og að þeir sem gleðjast yfir því að Páfagarður ætli að gera Guðríði og syni hærra undir höfði séu bjánar sem átti sig ekki á því að sá sem heldur málinu á lofti fyrir Ísland sé asni, páfinn sé nasisti og styttan sé ljót.
Ókei. Ég veit ég er dálítið farinn að hljóma eins og Sölvi Tryggvason. En það verður þá bara svo að vera. Mér finnst bara að þjóð sem borgar hundruði milljóna til að horfa á Ladda halda upp á sextugsafmælið sitt og Bó syngja jólalög sé fullsæmd af Eagles. Þjóð sem les ekki ljóð nema utan á mjólkurfernum sé fullsæmd af skólaljóðum. Þjóð sem á enga vini lengur í útlöndum sé fullsæmd af athygli páfa.
Það er einkenni þess mikilhæfa að metorðin hrífa hann ekki upp á háfjallatind. Hann heldur áfram að ganga á sama grasi og næsti maður. Hann getur enn hrifist með meðborgurum sínum. Mikilhæft tónskáld getur setið við varðeld og sungið hótel kalífornja og haft gaman af því. Mikilhæft ljóðskáld getur lesið Davíð Stefánsson og notið þess. Mikilhæfur trúarleiðtogi eða trúleysingi getur mætt í kirkju hvers sem er og notið stundarinnar. Aðeins sá hrokafulli getur ekki tekið þátt í ánægju annarra. Og reynir því að spilla henni.
1 ummæli:
Skínandi!
Skrifa ummæli