18. apríl 2010

Grátur Sólrúnar, Bjarni Ben og hugsjónadruslurnar

Að ætla stjórnmálamönnum að fyrirbyggja spillingu er eins og að reyna að halda skógareldi í skefjum með grindverki.

Viðbrögð stjórnmálamanna við þeirri afhjúpun maðkaveitunnar sem Hrunskýrslan er ber þess skýr merki að ekkert hefur breyst. Bjarni Ben svíkur Þorgerði áður en fálkinn gargar þrisvar. Ingibjörg Sólrún stígur á stokk og ... ja, „iðrast“ og grætur.

Það var enga iðrun að finna í svarbréfi hennar til rannsóknarnefndarinnar. Þar sem hún bar af sér allar ávirðingar um hugsanleg mistök eða vanrækslu - og sagðist raunar hafa reynt að verða til gagns langt umfram það sem skyldan bauð. Rök hennar: Lög gera ekki ráð fyrir að formenn stjórnmálaflokka fari með þau völd sem þeir þó í raun taka til sín. Lög gera ekki ráð fyrir því að framkvæmdavaldið stýri löggjafavaldinu. Og því ber hún enga ábyrgð samkvæmt lögum.

Og svo grét hún. Aftur – og nýbúin.

Það er einmitt einkenni siðlausra stjórnmálamanna. Öll þeirra auðmýkt er innan öryggismarka.

Og maður hugsar: Getur verið að það sé ekki hægt að koma íslenska lýðræðinu á aðeins hærra plan?

En svo sér maður hvernig almennir borgarar tjá sig og hugsar enn: Það vaxa varla rósir í kartöflugarði.

1 ummæli:

Svenni sagði...

Þumalputti upp.