23. mars 2010

Skötuselur og kvóti

Einu sinni skrifaði ég heimspekiritgerð með góðum vini þar sem við færðum rök fyrir því að kvótakerfið væri ranglátt. Rök okkar voru næsta pottþétt. Upphafleg úthlutun kvóta var ekki réttlát. Hún hyglaði ákveðnum hópi fólks og veitti fólki sem vissulega var rétt að taka skammtímatillit til gæði til langs tíma.

En þar með er ekki sagt að allar breytingar á kvótakerfinu séu réttlátar.

Ef krukka á í fiskveiðistjórnunarkerfinu þarf að gera það á ákveðinn hátt. Fyrst þarf að skilgreina markmið. Og því færri sem þau eru, þeim mun betra. Augljós markmið eru:

Að stuðla að sjálfbærum veiðum.
Að hámarka hag þjóðarinnar af veiðunum.

Önnur markmið eru óljósari:

Að tryggja byggð í landinu.
Að stuðla að nýliðun í greininni.

Og einhverjum hugmyndum þarf að hafna. Til dæmis hugmyndinni um að stjórnarskrá tryggi að hver sem er megi hafa fiskveiðar að atvinnu sinni. Eða hugmyndinni um að verksmiðjufiskveiðar séu siðferðilega ámælisverðar.

Síðan þarf að hugsa kerfið upp á nýtt. Loks skoða allt apparatið með tilliti til stöðugleika og sanngirni.

En það sem ekki á að gera er að innkalla kvóta eða kollvarpa kerfinu fyrirvaralaust (fjölmargir hafa gert út á skötusel með ærnum tilkostnaði og aflað verðmætrar þekkingar og búið þannig í haginn fyrir þá sem engu hafa til kostað og geta jafnvel stolið hnossinu - eingöngu vegna þess). Innköllun leysir enda ekki neitt per se. Það þarf að úthluta aftur.

Og það er ekkert réttlátt við það að stjórnmálamenn deili og drottni. Það er heldur ekki réttlátt að þeir sitji að kötlunum sem mesta eiga peningana.

Það hvarflar að manni að örvænting ráði för.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Semsagt ef ég skil ykkur rétt á að fara sér hægt og gera ekkert. Þá sýnist mér að ykkar réttlæti sé fullnægt. Frelsi til athafna og atvinnu verður auðvitað aldrei fullkomið en ef nota á þau rök sem þið komið með hér:"fjölmargir hafa gert út á skötusel með ærnum tilkostnaði og aflað verðmætrar þekkingar og búið þannig í haginn fyrir þá sem engu hafa til kostað og geta jafnvel stolið hnossinu - eingöngu vegna þess)" verður auðvitað aldrei neinu breytt og við sitjum uppi með það kerfi sem hefur spillt þessari þjóð undanfarin 20 ár.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú skilur ekki rétt.

Frelsi til athafna og atvinnu er alls ekki útgangspunkturinn í Skötuselslögunum. Þitt frelsi takmarkast af fjármunum eða pólitískri stöðu.

Fyrst þarf að vita hvað maður vill - síðan að breyta eftir því.