Stjórnarskrár eru yfirleitt ekki samdar út í loftið. Stjórnarskrár lýðræðisríkja eru yfirleitt gerðar með það fyrir augum að girða fyrir helstu vankantanna á hinum ýmsustu stjórnarförum á nýöld. Og veitir ekki af. Og dugar ekki alltaf til.
Til að lýðræðisríki virki eins og best verður á kosið verður vald þeirra sem stjórna ríkinu að eiga uppsprettu sína hjá öllum þartilbærum almenningi. Og almenningur verður að taka hlutverk sitt í valdkerfi ríkisins (sama hve smátt það getur virst) alvarlega. Það er borgaraleg skylda okkar allra. Og ríkið ber bæði pósitífa og negatífa ábyrgð á að við fáum gegnt þessari skyldu, þ.e. því er ekki aðeins óleyfilegt að reisa hindranir – heldur ber því líka að ryðja tilfallandi hindrunum úr vegi.
Auðvitað standa menn misvel undir þeim kröfum sem lýðræðisríkið setur á herðar þeirra. Það á bæði við um þá sem veljast til valda og almenna þegna. Ákveðin vanhæfni er smíðuð inn í hið lýðræðislega fyrirkomulag. Allir hafa rödd. Líka þeir sem ættu að sjá sóma sinn í að þegja.
Það er enginn skýr greinarmunur á vanhæfni kjósenda og kjörinna fulltrúa. Þetta er ormur sem bítur í halann á sér. Annað styður við hitt og öfugt.
Mig langar nú að nefna tvær alvarlegar brotalamir í framkvæmd lýðræðis á Íslandi fram á þennan dag. Sem því miður virðast síst vera á batavegi. Önnur snýr að borgurunum – hin að kjörnum fulltrúum.
Á Íslandi fara flokkar með hið pólitíska vald. Og þessu valdi er beitt andstætt þingsköpum og stjórnarskrá. Alþingismenn taka við skipunum frá ráðherrum í stað þess að ráðherrar framkvæmi vilja Alþingis. Ekki vegna þess að þeir eru ráðherrar, heldur vegna þess að þeir eru í forystu flokksins, hver sem hann kann að vera. Öll meiriháttarmál liggja eftir flokkslínum og undantekningar á því eru kallaðar klofningur, órólega deildin eða eitthvað þaðan af fábjánalegra. Þetta vita allir og hafa lengi vitað. Þetta hefur aldrei verið ljósara en nú. Það má vel vera að stjórnlagaþing, einmenningskjördæmi og ýmisleg af því tæi myndi bæta stjórn landsins. En ég held að ekkert myndi valda sterkari og bráðari úrbótum en að fylgja einfaldlega lögbundinni stjórnskipun landsins, fara eftir uppskriftinni í stað þess að leita að smugum sem hægt er fylla með kekkjum valdsins.
Borgaralega brotalömin finnst mér óhuggulegri. Og fátt er andlýðræðislegra en hún þegar henni tekst að smeygja sér inn í hugskot kjörinna fulltrúa. Henni má lýsa sem sterkri tilhneigingu til að kalla andstæðinga sína ómerkinga. Það er eins og fólk viti ekki eða gleymi því að lýðræði byggir á því að andstæð sjónarmið séu í deiglunni í einu. Þessi tilhneiging er stórhættuleg, andlýðræðisleg og sívirk. Hún hefur á öllum tímum skapað möguleika til ofsókna og kúgunar. Hún birtist í mörgum misalvaregum myndum og misvitrir stjórnmálamenn beita henni markvisst til að slá ryki í augu kjósenda. Það er slík misbeiting sem er á ferð þegar Alþinginsmenn ausa hverjir aðra skömmum og svívirðingum – og skella sér svo í kaffi og vínarbrauð saman.
Þegar nasistar voru búnir að rembast við að ná völdum í hálfan annan áratug með takmörkuðum árangri varð vendipunktur. Allir þeir sem höfðu einhvern pólitískan sans og hugsjónir vildu halda völdum frá austurríska öskurapanum án þess að styggja um of þá kjósendur sem ginnkeyptir voru fyrir nasismanum. Það var þá sem hugsjónadruslan von Papen tók eigin skammtímahagsmuni fram yfir alla aðra hagsmuni. Hann bauð Hitler helmingaskiptastjórn. Hitler bauð á móti ráðherravald fyrir stuðningsmenn Papens undir forystu síns háaðlaða sjálfs. En með einu skilyrði. Sósíalistar, kommúnistar og gyðingar yrði svældir úr valdastrúktúr landsins.
Og það varð díll.
Íslensk stjórnmálaumræða er lítið skárri. Borgararnir leyfa sér hikstalaust að dæma heila hópa fólks úr leik. Illa gefnir hægrimenn öskra um kommúnista og illa gefnir vinstri menn öskra um hrunflokka. Það er talin góð latína að láta sem það sé hlutverk núverandi stjórnmálaflokka að halda tilteknum hópum fólks frá völdum. Að hreinsa burt úr valdakerfinu óæskilegt lið.
Það er búið að útmála venjulegt fólk,t.d. fólk sem vann í fjármálageiranum og studdi ákveðna stjórnmálaflokka, sem gyðinga vorra tíma.
Og þetta enduróma stjórnmálamennirnir. Núverandi ríkisstjórn hefur barið niður lýðræðislega umræðu í eigin flokkum. Allt lýtur einu valdi og áfram skal stritað í átt til frelsis. Arbeit macht Frei. Kyrrstaða er dauði. Það er ekki svo mikið stefnan sem skiptir máli – bara að ekki sé stoppað. Kyrrstaðan kæfir hákarlinn.
Við þurfum að taka okkur á. Taka ábyrgð okkar alvarlega. Standa okkur betur en hingað til. Við þurfum að samþykkja grunnreglur lýðræðisins og haga okkur eftir þeim.
Ég sting upp á að við hefjumst handa á þessu tvennu. Fylgjum uppskriftinni í stjórnarskránni og hættum að endurspegla það heimskulegasta í skrílræði tuttugustu aldarinnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli